Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Trúgirni og trúarþörf

Blátt

Viðhorf, Morgunblaðið, 31. október, 2006.

Á trúarþörf fullorðins fólks sér rætur í trúgirni barnsins? Er fullorðið fólk sem ekki getur hafnað tilvist æðri máttarvalda einfaldlega að endurupplifa hvöt barnsins til að hlýðnast foreldrum sínum? Getur verið að börnum sem hlýða fullorðnum hafi í gegnum tíðina farnast betur en börnum sem hafa óhlýðnast og þannig hafi “hlýðnigen” fremur komist af í þróunarsamkeppninni en gen þeirra sem óhlýðnast?

Allt kann þetta að vera að einhverju leyti rétt, en vart verður þessum spurningum nokkurntíma svarað til hlítar. En það er aftur á móti hægt að gera nokkra grein fyrir þeim mun sem er á trúgirni og trúarþörf. Á þessu tvennu held ég að sé reginmunur, og hann helstur sá, að trúgirni felur í sér ógagnrýnið samþykki, en trúarþarfar verður vart vegna upplýstrar og gagnrýninnar yfirvegunar.

Að óathuguðu máli kann að virðast sem trúarþörf stafi af vanþekkingu og ógagnrýnu samþykki við gömlum hefðum og boði yfirvalds, það er að segja kirkjunnar. Útlit er fyrir að þann sem finnur til trúarþarfar skorti þekkingu eða forvitni til að leita sjálfur svara við þeim spurningum sem á hann leita um lífið og tilveruna, og í staðinn taki hann einfaldlega með ógagnrýnum hætti á móti þeim “svarapakka” sem trúin veitir.

En fyrst og fremst er kannski útlit fyrir að sá sem trúir hafi einfaldlega ekki vitsmuni eða dug í sér til að hlýða kalli Immanúels Kants og voga sér að beita sinni eigin skynsemi – hugsa sjálfur. Í staðinn verður ofan á hlýðni barnsins við foreldra og yfirvöld (að viðlagðri refsingu), og hinn fullorðni ýtir eigin hugsunum og jafnvel sannfæringu til hliðar og fer að boði annarra. Ekki vegna þess að þetta boð annarra sé í sjálfu sér réttara og betra en boð manns eigin hugsana, heldur einfaldlega vegna þess að hinn ytri þrýstingur ber manns eigin sannfæringu ofurliði.

Við þetta viðhorf til trúarþarfarinnar er þó ýmislegt að athuga. Til dæmis virðist það gera ráð fyrir að boð yfirvaldsins (eða samfélagsþrýstingurinn) stangist á við rödd skynseminnar í brjósti einstaklingsins. Svo þarf alls ekki að vera. Það er meira að segja ekki ólíklegt að þessi innri rödd skynseminnar sé að mestu mótuð af ytri röddum samfélagsins og því eins líklegt að þessar raddir séu fullkomlega sammála. (Og má ekki meira að segja ætla að þegar málum er þannig farið séu mestar líkur á að einstaklingurinn verði hamingjusamur? Þegar hann lifir lífi sínu í samhljóm með öllum hinum í kringum hann?)

Ekki þarf heldur að hugsa málið lengi til að ljóst verði að ekkert bendir til að meiri líkur séu á að voðaverk séu framin í nafni æðri máttarvalda en að eigin frumkvæði þeirra einstaklinga sem verkin fremja. Meira að segja má ætla að í mörgum tilvikum sé skírskotun til æðri boða ekki annað en skálkaskjól manna sem í raun og veru eru reknir áfram af persónulegum hefndarþorsta eða illsku.

Eflaust mætti fara nánar ofan í gagnrýnisviðhorfið til trúarþarfarinnar og þjarma að því, en það verður ekki gert hér. Gegn þessu viðhorfi er aftur á móti teflt þeirri afstöðu til trúarþarfarinnar að hún sé afsprengi ítarlegrar yfirvegunar og gagnrýninnar hugsunar. Sterk trúarþörf sem ekki verður vikist undan kemur fram þegar ljóst er orðið hversu skammt mannleg skynsemi hrekkur, og hversu takmarkað gildi það hefur í sjálfu sér að hafa þá grundvallarreglu í heiðri að taka jafnan eigin hugmyndir fram yfir hugmyndir annarra.

Það blasir við hvernig það getur verið í hæsta máta skynsamlegt að víkja eigin skynsemi og hugmyndum til hliðar og þiggja ráð annarra og fara að boðum þeirra. Hér þarf ekki að nefna annað en svo hversdagslega athöfn sem það að fara til læknis þegar maður finnur til. Það er óskynsamlegt – beinlínis lífshættulegt – að fara ekki til læknis þegar maður finnur óúskýrðan verk fyrir brjóstinu. Og það er líka óskynsamlegt að fara ekki að því ráði sem læknirinn veitir, jafnvel þótt maður skilji ekki alveg forsendurnar fyrir því.

Ég er ekki að halda því fram að læknar, eða aðrir sérfræðingar, séu óskeikulir. Ég á við að það er manns eigin, upplýsta ákvörðun að fylgja boði þeirra, og sú ákvörðun er byggð á vitundinni um að manns eigin þekking á því máli sem um ræðir (til dæmis starfsemi líffæra) sé minni og óáreiðanlegri en þekking læknisins á þessu tiltekna máli. Þannig er þetta upplýst og skynsamleg ákvörðun, þótt hún feli í sér að manns eigin hugmyndum og skynsemi sé ýtt til hliðar og boðum og skynsemi yfirvalds hlýtt í staðinn.

Það er einmitt með þessum hætti sem trúarþörf skilur sig frá trúgirni. Trúarþörf er gagnrýnin og upplýst afstaða til manns sjálfs, og manns eigin máttar og þekkingar. Gagnrýnin og upplýst afstaða til þess sem trúað er á getur síðan fylgt í kjölfarið. En ég held að gagnrýnin afstaða til manns sjálfs sé forsenda þess að hægt sé að taka eignlega gagnrýna afstöðu til trúarinnar. Að taka gagnrýna afstöðu til trúarinnar áður en maður tekur gagnrýna afstöðu til sjálfs sín er hroki.

Kannski myndi einhver segja þetta sýna að trúarþörf stafi greinilega bara af skorti á sjálfstrausti og/eða brotinni sjálfsmynd. Þeir sem finni til trúarþarfar eigi því fremur að leita til sálfræðings en prests. Og víst er um það að ekki er óhjákvæmilegt að maður finni til trúarþarfar ef maður vegur og metur eigin skynsemi, þekkingu og mátt. Þeir eru áreiðanlega ófáir sem við slíka skoðun komast að því að ekkert sé þeim ofviða. Slíkt fólk er öfundsvert og þarf enga trú. En ég held að það sé einfaldlega staðreynd að hinir eru fleiri, sem lærist af biturri reynslu að þeir vita sjaldnast sjálfir hvað er þeim fyrir bestu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband