Færsluflokkur: Vísindi og fræði
16.5.2007 | 07:28
Í minnihluta
Viðhorf, Morgunblaðið 16. maí 2007
Hvernig ætli standi á því að hér á landi hefur aldrei orðið til hefð fyrir minnihlutastjórnum? Þess í stað er allt kapp lagt á að mynda svokallaða "sterka" stjórn, það er að segja, stjórn sem hefur slíkan aflsmun á þingi að hún getur virt minnihlutann gersamlega að vettugi og farið sínu fram.
Eitt af því sem er vont við að hafa svona "sterkar" stjórnir, er að þingræðið, sem svo á að heita að ríki hér, verður að engu. Það verður ekki þingið sem ræður heldur einfaldlega ríkisstjórnin.
Afleiðing af því er síðan það sem kom í ljós í aðdraganda nýafstaðinna kosninga og í kjölfar þeirra, það er að segja stjórnarandstaða sem er orðin svo full af reiði eftir að hafa árum saman verið tilgangslaus á þingi að hún er ekki viðræðuhæf þegar kemur að myndun nýrrar stjórnar.
Það er kannski ekki nema eðlilegt að hugmynd VG um minnihlutastjórn með stuðningi Framsóknar hafi fallið í grýttan jarðveg hjá framámönnum í Framsóknarflokknum eftir öll hnjóðsyrðin sem leiðtogar VG hafa í vanmáttarreiði sinni látið falla undanfarið.
Samt er hugmyndin sjálf um minnihlutastjórn að mörgu leyti góð. Ekki síst vegna þess að minnihlutastjórn verður því einungis starfhæf að þingheimur leggist meira og minna á eitt. Stjórnsæknir flokkar, eins og allir íslensku flokkarnir eru sagðir vera, eru ekki heppilegt umhverfi fyrir minnihlutastjórn. Hún fær ekki þrifist ef það er meginmarkmið þeirra flokka sem ekki eiga aðild að henni að fella hana.
Þannig má kannski segja að minnihlutastjórn sé ágætis æfing í þingræði og eiginlegu lýðræði þar sem allar raddir fá að heyrast og taka verður tillit til sjónarmiða sem stangast á við manns eigin. Ef til vill má því bæta við, að það sé til marks um lýðræðislegan þroska þegar hefð verður fyrir minnihlutastjórnum.
Íslendingar eiga þar nokkuð í land, en frændur okkar á Norðurlöndum og ýmsum öðrum nágrannaríkjum hafa náð þessum þroska. Hér gengur ennþá allt út á að fá að ráða öllu, eins og er háttur barna. Þetta kom kannski hvað berlegast í ljós í ofstækiskenndum málflutningi stjórnarandstöðunnar fyrir kosningarnar um að markmið númer eitt til tíu væri að fella stjórnina.
Hugmyndin um að nauðsynlegt sé að mynda "sterka" stjórn felur í sér að stjórnin hafi svo afgerandi meirihluta að hún sé ónæm fyrir skeytum stjórnarandstöðunnar. Það er reyndar ekkert undarlegt að einblínt sé á þessa leið þegar haft er í huga að stjórnarandstaðan hefur alltaf komið fram eins og ríkisstjórnin sé andstæðingur sem þurfi að hafa undir.
Aftur á móti hefur "sterka" stjórnin komið fram við stjórnarandstöðuna eins og uppreisnargjarnan ungling sem ekkert mark er takandi á, og það er ekki heldur til þess fallið að auka lýðræðisþroskann. En í ljósi þess að stjórnarandstaðan hefur einmitt látið eins og uppreisnargjarn unglingur er kannski ekki að undra að svona sé komið.
Þessi vítahringur verður vart rofinn í einni svipan. Þess er líklegt langt að bíða að íslenskt lýðræði nái þeim þroska sem líklega er nauðsynlegur til að minnihlutastjórnir frái þrifist. En kannski voru úrslit kosninganna núna eins ákjósanleg og hægt var að hugsa sér til að fyrsta skrefið verði tekið.
Ef við göngum nú út frá því að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn haldi áfram stjórnarsamstarfinu með sinn eina mann í meirihluta verður sú stjórn engu að síður minnihlutastjórn vegna þess að flokkarnir fengu til samans innan við helming atkvæða. Það er þess vegna ekki alveg svo einfalt að stjórnin hafi einfaldlega haldið velli. Í vissum skilningi gerði hún það, en í öðrum gerði hún það ekki.
Það væri óeðlilegt að ný stjórn sjálfstæðis- og framsóknarmanna tæki ekki með í reikninginn að hún starfar í umboði minnihluta kjósenda. Það má segja að ráðherrum nýrrar stjórnar beri siðferðisleg skylda til að gleyma ekki þeirri staðreynd, og taka tillit til hennar.
Hvernig gera þeir það með áþreifanlegum hætti? Jú, með því að koma ekki fram við stjórnarandstöðuna eins og hún skipti engu máli. Nýi "meirihlutinn" á þingi varð til vegna þess hvernig kosningakerfið virkar, ekki vegna þess að meirihluti kjósenda greiddi honum atkvæði.
Frá sjónarhorni þeirra sem leggja ofuráherslu á "sterka" stjórn hljómar þetta auðvitað fáránlega og barnalega. Mikilvægi þess að stjórnin geti viðhaldið efnahagslegum stöðugleika hlýtur, að þeirra mati, að vega þyngra en einhver óljós siðferðisskylda. Ekki síst þegar Sjálfstæðisflokkurinn á í hlut, hann hefur jú alltaf verið "vöðvaflokkur" sem vill láta verkin tala fremur en vitsmunina. Og þá má stjórnin ekki fara sjálfviljug að ganga hölt.
En um leið verður stjórnarandstaðan, sem í vissum skilningi er í minnihluta en í öðrum skilningi í meirihluta, að sitja á sér og veita nýrri stjórn svigrúm. Það verður þó að segjast eins og er að það er ekki beint útlit fyrir að leiðtogar Samfylkingar og VG ætli að lækka í sér rostann, ef marka má "stórmannlegt" tilboð formanns VG til formanns Framsóknar um tækifæri til að biðja sig afsökunar. Það verður að segjast eins og er, að þetta uppátæki VG-formannsins er eitthvað það ótrúlegasta sem sést hefur í íslenskri pólitík lengi, og hefur þó aldrei verið beint skortur á steigurlætinu þar.
Hugmyndin um minnihlutastjórn, sem í sjálfu sér er allrar virðingar verð, kallar kannski fyrst og fremst á breyttar hugmyndir um hvað í því felst að vera í stjórnarandstöðu. Ef sjálfstæðis- og framsóknarmenn mynda núna "minnihlutastjórn" fá VG og Samfylking sögulegt tækifæri til að skilgreina hlutverk stjórnarandstöðunnar upp á nýtt.
Vísindi og fræði | Breytt 22.5.2007 kl. 07:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2007 | 09:41
Borg er ekki bara hús
Viðhorf, Morgunblaðið 9. maí 2007
Framtíð Reykjavíkurflugvallar er mál sem eingöngu varðar borgina sjálfa, íbúa hennar og yfirvöld. Það er á valdi þessara aðila að taka ákvörðun um að fjarlægja völlinn úr Vatnsmýrinni. Það er meira að segja líka á valdi þessara aðila að taka ákvörðun um að setja völlinn niður að mestu í landi annars sveitarfélags, Mosfellsbæjar, uppi á Hólmsheiði.
Borgin hefur með öðrum orðum rétt til að losa sig við vandamálið og leggja það á herðar annarra.
Einhvern veginn svona er í raun og veru málflutningur undarlegra samtaka sem kenna sig við betri byggð og snúast um það eitt að fjarlægja flugvélar og annað fuglalíf úr Vatnsmýrinni og setja þar í staðinn mikið af húsum með tilheyrandi umferðarþunga og mengun.
Á þessu öllu saman á að græða svo og svo mikið. Talsmaður ofangreindra samtaka sagði í einhverjum fjölmiðli á laugardaginn eitthvað á þá leið að nýbirt skýrsla um framtíðarkosti vallarins sýndi að ekki mætti bíða eitt andartak með að fjarlægja hann og fara með upp á einhverja af nærliggjandi heiðum.
Að vísu benti nýgerð Capacent-Gallup könnun til að yfirgnæfandi mikill meirihluti landsmanna vilji hafa völlinn í Vatnsmýrinni. Þegar sú könnun var gerð höfðu þegar borist fregnir af helstu niðurstöðum rannsóknarhópsins, þannig að gera verður ráð fyrir að þátttakendur í könnuninni hafi haft vitneskju um hvað það myndi græðast mikið á því að fjarlægja völlinn og reisa í staðinn hús í Vatnsmýrinni, með allri þeirra bílaumferð sem slíku tilheyrir.
Ég hef mikinn áhuga á að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Fyrir því eru margar ástæður, en hér og nú ætla ég að láta duga að nefna þá, að mig hryllir við því að mýrin verði troðfyllt af íbúðarhúsum með allri umferðinni sem því myndi fylgja.
(Var nokkuð í skýrslunni tekið með í reikninginn hversu mikið mengun í miðborginni myndi aukast af völdum aukinnar umferðar, eða reiknað með að ómengandi almenningssamgöngukerfi, eins og til dæmis rafknúnar jarðlestir, yrði reist í tengslum við nýja byggð í Vatnsmýrinni?)
Af hverju liggur svona mikið á að græða á Vatnsmýrinni peninga? Er ekki mikils um vert að hafa stórt, opið svæði í borginni? Hvers vegna ætli yfirvöld í New York hafi ekki fyrir löngu rutt Central Park og byggt þar háhýsi? Ætli sé til dýrara ónotað byggingarland í heiminum en það sem þar liggur?
Það verður að segjast eins og er, að þau rök fyrir brottflutningi Reykjavíkurflugvallar að landið undir honum sé svo verðmætt byggingarland eru einhver þau haldlausustu sem heyrst hafa í nokkru máli. Gagnrökin eru auk þess óteljandi, auk þeirra sem nefnd eru hér að ofan að byggð í mýrinni myndi valda aukinni mengun í miðborginni, sem nú þegar er orðin mengaðri en viðunandi getur talist.
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra skrifaði ágæta grein í Morgunblaðið á laugardaginn þar sem hann nefndi meðal annars að flugvallarmálið er ekki eingöngu spurning um að borgarsjóður fitni svo og svo mikið, heldur er þetta einnig (og ég myndi bæta við, fyrst og fremst) réttlætismál. En ég ætla að reyna að forðast að fara út í það hér og nú, heldur horfa einungis á málið frá sjónarhorni höfuðborgarbúans.
Þetta sem ég nefndi hér að ofan um Central Park í New York hefur verið mér hugleikið lengi, og væri gaman að sjá útskýringar á því hvers vegna borgaryfirvöld þar hafa ekki byggt á svæðinu í stað þess að láta það liggja ónotað og vera þar að auki kjörlendi glæpamanna.
Einnig hef ég hugleitt hvers vegna yfirvöld í borgum eins og London og París hafa ekki þegar fært lestastöðvar út fyrir borgarmörkin í stað þess að láta þær sitja á verðmætu byggingarlandi inni í borgunum.
En hættum nú að hugsa um hvað fólk er að gera í útlöndum. Hvað varðar okkur um langa reynslu annarra? Við ráðum okkur sjálf.
Vatnsmýrarvöllurinn er eitt helsta einkenni Reykjavíkur, ásamt húsunum sem brunnu við Lækjartorg um daginn, Hallgrímskirkjuturni, Bernhöftstorfunni, Perlunni og svo mætti lengi telja. Völlurinn er einfaldlega hluti af sjálfsmynd Reykjavíkur og þannig í raun menningarverðmæti sem halda þarf í rétt eins og götumyndina á horni Austurstrætis og Lækjargötu.
Eða eru hús merkilegri mannaverk en samgöngumannvirki? Eru hús mikilvægari þáttur í umhverfi mannsins en flugvélar? Ég hef satt að segja aldrei heyrt rök fyrir því, en það er nú kannski af því að ég er ekki arkitekt, og á þar af leiðandi engra hagsmuna að gæta að byggð verði hús. Aftur á móti nota ég flugvélar mikið, sem og Vatnsmýrarvöllinn, og á þar hagsmuna að gæta.
Kannski heldur einhver að mér sé ekki alvara þegar ég segi að Vatnsmýrarvöllur sé menningarverðmæti og hluti af borgarmyndinni. En mér er fúlasta. Manngert umhverfi er ekki eingöngu hús. Borg er ekki bara hús. Borg er líka götur, gangstéttir og garðar. Við þetta má bæta að borg er líka bílar, hvort sem manni líkar betur eða verr. Og samgöngumannvirki og samgöngutæki, eins og til dæmis lestarstöðvar og lestar. Og flugvellir og flugvélar.
Reyndar finnst mér fullmikið af bílum í borginni minni, ekki síst í miðborginni og Vesturbænum, og ég skil ekki hvers vegna menn vilja stuðla að fjölgun bíla á þessu svæði með því að reisa byggð í Vatnsmýrinni. Geta samtökin um betri byggð útskýrt það fyrir mér?
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.5.2007 | 13:04
Skemmtilegur Zizek
Viðhorf, Morgunblaðið 2. maí 2007
Ég má til með að taka ofan fyrir Agli Helgasyni fyrir að taka langt viðtal við heimspekinginn Slavoj Zizek og sýna það í Silfrinu um daginn. Það þarf nokkra djörfung til að taka og sýna svona langt sjónvarpsviðtal á þeim nótum sem þetta var, og þar að auki við útlending sem varla nokkur maður á Íslandi hefur heyrt minnst á.
Ég verð líka að viðurkenna að það var af slysni sem ég heyrði viðtalið. Ég hef löngum verið haldinn fordómum í garð flestra evrópskra nútímaheimspekinga og haft tilhneigingu til að afskrifa fyrirfram það sem þeir hafa að segja. Samt þekki ég lítið til þeirra. Af þessum fremur lítilsigldu sökum hafði ég eiginlega ákveðið að ég hefði engan áhuga á þessum Zizek, og lagði mig ekki eftir því að komast á þá fyrirlestra sem hann hélt hér á landi. Því miður.
En það sem gerði viðtalið við Zizek athyglisvert og skemmtilegt var ekki síst hversu yfirvegaður hann var og reiðubúinn að staldra við og gera fyrirvara á eigin fullyrðingum. Þrátt fyrir þetta varð hann þó aldrei leiðinlegur. Kannski vegna þess að þótt hann væri yfirvegaður í málflutningi sínum var ekkert yfirvegað við látbragð hans.
Við þetta bættist svo, að það sem Zizek hafði að segja sagði hann á venjulegu máli, en datt aldrei út í tyrfna, fræðilega orðræðu. Með öðrum orðum, hann var aldrei að hnykla "vitsmunavöðvana," eða "beita kennivaldi" eins og það er stundum kallað, það er að segja, slá um sig með orðfæri sem ekki er á allra færi.
Kannski er það þess vegna sem hann hefur verið kallaður "vitsmunalegur Elvis" - vegna þess að hann er skiljanlegur hverjum sem er. Að minnsta kosti þegar hann er í sjónvarpsviðtali; það er ekki að vita nema hann hljómi öðru vísi þegar hann ávarpar einungis fagsystkin sín.
En var þá það sem Zizek hafði að segja í viðtalinu við Egil Helgason yfirborðskennt og innihaldsrýrt? Var þetta einungis skemmtiatriði fyrir intellektúala? Svarið við þeirri spurningu er líklega einstaklingsbundið, og vísast að einhverjum hafi þótt heldur þunnt í roðinu það sem Zizek hafði að segja. Kannski hefur einhverja þyrst í nánari rök fyrir hugmyndum Zizeks um takmarkanir kapítalismans, eins og til dæmis að kapítalisminn geti ekki ráðið við yfirvofandi vistkerfisvá.
Einnig er umhugsunarefni hérlendis, einkum í ljósi þess mikla byrs sem umhverfisvernd nýtur um þessar mundir, gagnrýni Zizeks á umhverfisvernd sem á rómantískar rætur, og efasemdir hans um hugmyndir um náttúrulegt vistkerfisjafnvægi sem mennirnir hafi eyðilagt og reyna eigi að koma á aftur.
Slíkar hugmyndir, sagði hann, stafa af þeim misskilningi að náttúran sé fyrirfram skipulagt heildarkerfi sem lúti sínum eigin, innri rökum. Þvert á móti, sagði Zizek, er náttúran óskipulagt, óreiðukennt skrímsli sem hann óttaðist. Þetta sagði hann að ætti að endurspeglast í vistfræðilegri stefnu.
Lausnin á vistfræðilegum vandamálum sé ekki fólgin í því að mennirnir finni aftur nálægðina við náttúruna heldur þveröfugt - þeir þurfi að fjarlægjast náttúruna meira. Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei heyrt þessa afstöðu áður frá manni sem er yfirlýstur vinstrisinni og áhugamaður um vistfræði.
En það er ekki einungis í umhverfismálum sem afstaða Zizeks virðist ganga þvert á viðteknar hugmyndir um lausn á vandamálum sem við stöndum nú frammi fyrir. Í öðru viðtali, ekki síður athyglisverðu, sem Viðar Þorsteinsson átti við hann og birtist í Morgunblaðinu 1. apríl, hélt Zizek því fram að það sé "misskilningur að kynþáttahatarar eða þjóðernissinnar séu einkum fornaldarskrímsli sem vilji flýja aftur í reglubundið öryggi þjóðríkisins, undan einhvers konar póstmódernísku, markalausu og hnattvæddu áhættusamfélagi."
Þvert á móti: "Þeim finnst þetta umburðarlynda samfélag okkar alltof skipulagt. Þeim finnst ekkert mega og alltof mikið af reglum: það má ekki berja konuna, ekki kalla útlendinga öllum illum nöfnum, ekki gera þetta og ekki hitt. Adorno sá að það var svona sem fasisminn og nasisminn urðu aðlaðandi: ekki sem fórn eða masókismi smáborgarans sem vill deyja fyrir Þýskaland, heldur hreint jouissance þess að mega ráðskast með aðra. Með því að gerast þjóðernissinni máttu drepa og nauðga o.s.frv."
Kynþáttahatur og þjóðernishyggja eru samkvæmt þessu bókstaflega skálkaskjól þeirra sem vilja losna undan kröfum siðferðisins, sem þeir upplifa sem þvingun, og hverfa aftur til náttúrunnar í þeirri merkingu sem Hobbes lagði í hana: Þar sem ríkir óheft stríð allra gegn öllum og allt er leyfilegt. Maður þarf ekki að sitja á kvikindinu í sér heldur leyfir því að njóta sín. Kannski ekki að undra að kynþáttahatri og þjóðernishyggju fylgi oft að menn neyta aflsmunar og grípa til ofbeldis. Í slíku ástandi er nefnilega ekkert sem bannar manni að láta verða af því sem kannski er oft hugsað: Það ætti að berja þessa andskota!
Samkvæmt þessu viðhorfi, sem Zizek sagði ættað frá þýska heimspekingnum Theodore Adorno, er kjarninn í kynþátta- og þjóðernishyggju ekki öfgakennd íhaldssemi - oft bendluð við hægrivænginn í stjórnmálum - heldur einhver blanda af siðleysi, grimmd og skammsýni, og hefur eiginlega ekkert með pólitíska stefnu að gera.
Því miður er líklega nokkurt sannleikskorn í því sem Egill Helgason sagði er hann kvaddi Zizek eftir viðtalið, að heimspekingar séu yfirleitt fremur leiðinlegir. Það er gott hjá Zizek að rísa einnig gegn þeirri staðalímynd.
26.4.2007 | 09:13
Meint bull um vísindi
Viðhorf, Morgunblaðið 26. apríl 2007
George Orwell segir í formála sem ætlaður var til birtingar með Dýrabæ, en ekki varð úr að kæmi í bókinni, að sú ritskoðun sem hvað verst sé við að eiga sé ekki sú sem stjórnvöld beiti heldur sú sem vel upplýst, menntað og frjálslynt fólk virðist af minnsta tilefnið reiðubúið að láta grípa til í því augnamiði að koma í veg fyrir að "óviðeigandi skoðanir" komist á prent.
Orwell var ekki að tala um almenningsálit smáborgaranna heldur menntafólks og þeirra sem töldust á vinstri vængnum í stjórnmálum. "Hin óheillavænlega staðreynd um bókmenntaritskoðun í Englandi er að fólk sér að mestu um hana sjálfviljugt," segir Orwell í formálanum.
Um það leyti sem Orwell skrifaði Dýrabæ og reyndi að fá bókina gefna út (sem var ekki auðsótt mál fyrir hann) voru Sovétríkin í miklum metum meðal evrópskra menntamanna og það þótti óviðurkvæmilegt að gagnrýna þau, eins og svo afdráttarlaust var gert í Dýrabæ. Þar að auki var stríðinu nýlokið og pólitískt ástand ótryggt.
Núna, rúmlega hálfri öld og heilum Sovétríkjum síðar, eru aðstæður allt aðrar en samt örlar enn á þessu fyrirbæri sem Orwell nefndi vilja til sjálfsritskoðunar, það er að segja ritskoðunar sem fólk telur að beita þurfi samborgara sína án þess að stjórnvöld komi þar nokkuð nálægt. Reyndar má ætla að stjórnvöld á Vesturlöndum séu almennt vaxin upp úr öllum ritskoðunartilhneigingum þótt ekki sé víst að allir vestrænir borgarar séu það.
(Vissulega er málið ekki alveg einfalt og dæmi um að sjálfsritskoðun sé viðeigandi ef hún beinst að birtingu ögrandi efnis sem ætla má að hvetji til ofbeldisverka - og gott ef það var ekki einmitt eitthvað slíkt sem einhverjir útgefendur óttuðust að Dýrabær gæti leitt til og vildu því ekki gefa bókina út).
Það gerist alltaf öðru hvoru að menntað og upplýst fólk mælir með því að einhver "þvæla" sé endurskoðuð eða ekki birt, jafnvel þótt um sé að ræða "þvælu" sem ekki ógnar nokkrum manni. Ég er meira að segja ekki frá því að ég verði í blaðamannsstarfinu mínu helst var við það að raunvísindamenntað fólk telji þörf á að stöðva birtingu efnis eða að Morgunblaðið ráði til starfa sérmenntað fólk til að endurskoða meinta þvælu - með öðrum orðum að blaðið ráði ritskoðara.
Í kjölfar nokkurra Viðhorfa sem ég hef skrifað undanfarið um vísindi og trú hafa allmargir lesendur brugðist ókvæða við og jafnvel lagt til að "þessi þvæla" í mér yrði endurskoðuð af raunvísindamenntuðu fólki. Aðrir lesendur hafa fullyrt að mér sé beinlínis "illa við vísindin" af því að ég hef gagnrýnt alræðistilburði vísindalegrar hugsunar.
Ég veit satt best að segja ekki hvað vakað hefur fyrir þessum lesendum en ég hef grun um að þeim hafi þótt þeir verða að koma vísindunum til varnar gegn hættulegum niðurrifsöflum. Ég þakka hrósið en verð að viðurkenna að ég held að slíkar varnir séu allsendis óþarfar.
Sjálfsritskoðunin sem upplýst menntafólk nútímans virðist af einhverjum ástæðum reiðubúið að beita er því í nafni vísindanna. Reyndar kunna að vera á þessu nokkrar skýringar sem að mestu eru svo flóknar að það er ekki hægt að fara út í þær hér. Þó er hægt að ýja að þeim á þann yfirborðskennda hátt sem fjölmiðlum einum er laginn og pirrar svo oft hina tilvonandi ritskoðendur.
Í bókinni Vísindabyltingar segir vísindaheimspekingurinn Thomas Kuhn frá því að vísindasagnfræðingum þyki í mörgum tilvikum mest varið í að kenna nemendum sem komi úr vísindagreinum. En jafnframt sé einna erfiðast að kenna þessum nemendum til að byrja með. Það er vegna þess að vísindanemendur hafa vanist því að þeir "viti réttu svörin," eins og Kuhn orðar það.
Mér dettur í hug að kannski eigi vísindanemar af þessum sökum erfitt með að víkja frá hinni vísindalegu aðferð við að finna svör þar sem þeir eru sannfærðir um að það sé sú aðferð sem veit á "rétt svör." Því er ef til vill skiljanlegt að þeir upplifi gagnrýni á vísindin og bull um vísindi sem atlögu að hinni einu réttu braut. Þá er í rauninni fullkomlega eðlilegt að þeir bregðist ókvæða við. Þeim finnst - kannski að mestu ómeðvitað - að þeir séu að koma sannleikanum til varnar.
En frá sjónarhóli þeirra sem ekki hafa lært neitt í raunvísindum að ráði (eins og til dæmis undirritaðs) líta þessir sjálfboðaliðsritskoðarar út fyrir að vera haldnir nokkrum menntahroka og minna í sumum tilvikum helst á krossfara sem í nafni trúar sinnar hika ekki við að kveða niður villutrúarlýð. (Það kaldhæðnislega í þessu er svo ekki síst það að hörðustu vísindakrossfararnir berja helst á hverskyns trúarbrögðum).
Við þessa útskýringu á ritskoðunarviljanum má svo bæta þeirri, sem er öllu lágstemmdari, að innan vísindanna er fullkomlega eðlilegt að ritstýringu sé beitt og jafnvel ritskoðun. Einn helsti grundvöllur vísindanna er svonefnd jafningjarýni. En þetta á ekki við í fjölmiðlum, eins og ég hef reyndar áður bent á í Viðhorfi, því að fjölmiðlamenn skrifa fyrir almenna lesendur en ekki aðeins fagbræður sína.
En hverjar svo sem ástæðurnar kunna að vera er ég sannfærður um að ritskoðunartilhneigingar í nafni vísindanna gera þeim margfalt meiri óleik á hinum opinbera vettvangi en þvælan í mér gerir þeim nokkurntíma.
18.4.2007 | 11:44
Guð og genið
Viðhorf, Morgunblaðið, 18. apríl 2007
Í júní í fyrra birtist frétt á norska vísindavefnum forskning.no um nokkra þarlenda vísindamenn sem lentu í hálfgerðri krísu við gerð rannsóknar á genafjölda í músum og mönnum. Í stað þess að vísindamennirnir kæmust að niðurstöðu um hversu mörg genin eru lauk rannsókninni með því að "við vorum ekki lengur viss um hvað gen eiginlega er", sagði stjórnandi rannsóknarinnar, Boris Lenhard, en hann er sérfræðingur í lífgagnatækni við tölvunarlíffræðiskor Háskólans í Bergen.
Þessi óvænta niðurstaða er í samræmi við þá erfiðleika sem líffræðingar eiga almennt orðið við að etja í leitinni að traustri skilgreiningu á geninu sem sátt getur ríkt um í vísindasamfélaginu og meðal almennings. Þeim vísindamönnum fer sífellt fjölgandi sem vilja hreinlega hætta að tala um gen, segir bandaríski vísindaheimspekingurinn Evelyn Fox Keller í nýlegri bók sinni, Öld gensins, sem vonandi kemur fljótlega út í íslenskri þýðingu undirritaðs.
Sú hugmynd að gen séu það sem veldur því hvernig menn og dýr eru gerð, það er að segja að gen séu orsakavaldar, er á undanhaldi meðal vísindamanna, segir Keller. Þetta er þó sú mynd af geninu sem hefur skotið djúpum rótum bæði meðal vísindamanna og almennings, samanber fréttir sem borist hafa á undanförnum árum, og eru enn að berast, um leit erfðafræðinga að genunum sem valda hinum og þessum sjúkdómum. Frægt varð hérlendis fyrir ekki löngu er forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar gaf það út að hann vonaðist til að finna mætti genið sem veldur áfengissýki.
En samkvæmt því sem Keller segir í Öld gensins má ætla að það geti orðið talsverð bið á því að þetta gen finnist. En hvað þá með öll genin sem þegar hafa fundist og vísindamenn segja valda hinu og þessu, var það alltsaman einhver vísindalegur misskilningur? Og ef gen eru ekki orsakir þess hvernig við erum, hvað eru þau þá? Hvaða hlutverki gegna þau? Er þá til einhvers að leita að þeim?
Kannski ekki nema von að norsku vísindamennirnir hafi orðið næsta örvæntingarfullir þegar þeir í vísindalegu sakleysi sínu ætluðu að telja gen en komust svo að því að þeir vissu ekki alveg hvað það var sem þeir voru að reyna að telja. Ef í ljós kemur svo ekki verður um villst að genið er ekki orsakavaldur er viðbúið að fari að halla alvarlega undan fæti, því að orsakaþátturinn hefur verið ein meginstoðin í skilgreiningunni á geninu. Ef þessi þáttur hverfur getur jafnvel farið svo, að genið verði hreinlega ekki lengur til.
En hvernig má það vera? Ekki hætta hlutirnir að vera til þótt skilgreiningin á þeim breytist. Genin hljóta áfram að vera á sínum stað þótt menn fari að greina á um hvaða orð eigi að nota um þau. Þótt ég kynni að fyllast efasemdum um að kötturinn minn sé í rauninni köttur (til dæmis vegna þess að hann færi að hegða sér að einhverju leyti eins og hundur) myndi það ekki leiða til þess að dýrið gufaði upp fyrir augunum á mér.
Þetta er ekki alveg svona einfalt hvað genið varðar, vegna þess að það er ekki einhver tiltekinn, áþreifanlegur hlutur eins og kötturinn minn. "Ólíkt litningum eru gen ekki áþreifanlegir hlutir heldur aðeins hugtök sem hafa á undanförnum áratugum smám saman orðið verulega þung í vöfum," hefur Keller eftir William Gelbart, sem hún segir vera í fremstu röð sameindaerfðafræðinga. (Vísast að einhverjir séu henni ósammála um það.) Ef genið er hugtak en ekki einhver tiltekinn hlutur getur það auðveldlega hætt að vera til, rétt sisona.
En ef gen eru ekki áþreifanlegir hlutir, hvernig er þá hægt að trúa á tilvist þeirra? Er þá ekki líkt á komið með genunum og guði, sem margir trúa að sé til þótt ekki sé hann áþreifanlegur? Hvernig er hægt að trúa á eitthvað sem er ekki til? (Til að fyrirbyggja misskilning er líklega rétt að taka skýrt fram að ég er ekki að staðhæfa að gen séu ekki til, ég er aðeins að staðhæfa að Keller fullyrði að vísindamenn séu ekki sammála um það. Til að koma í veg fyrir enn frekari misskilning vil ég taka fram að Keller segir ekki eitt orð um guð í bókinni, það ég man.)
Þrátt fyrir vaxandi efasemdir um tilvist gensins segir Keller að það séu ekki miklar líkur á að vísindamenn hætti að tala um gen alveg í bráð, og það muni seint hverfa úr fréttunum og almennri umræðu. Ástæðan sé einfaldlega sú, að þótt skilgreiningarvandinn kunni að halda vöku fyrir heimspekingum láti raunvísindamenn hann sér í léttu rúmi liggja svo lengi sem þeir geti notað hugtakið við rannsóknir sínar. Hvað svo sem það eiginlega er sem er orsök þess hvernig við erum - og kann meðal annars að valda áfengissýki - kallast gen. Það eru með öðrum orðum enn mikil not fyrir hugtakið, þótt nákvæm skilgreining á því sé á reiki.
Án þess að ég vilji á nokkurn hátt leggja genið að jöfnu við guð (sem löngum var, og er jafnvel enn talinn orsök þess hvernig við erum) gildir að ýmsu leyti það sama um guð og genið. Guð á sér ekki afmarkaða, efnislega tilvist, og menn eru afskaplega ósammála um hvort þá sé nokkurt vit í að tala um guð. Samt eru mikil not fyrir guðshugtakið, og bæði þeir sem trúa á hann og þeir sem ekki trúa grípa óspart til þess í rökræðum sínum.
Kennslubækur um guð hafa breyst gífurlega í tímans rás, og meðal þess sem haft var eftir norsku vísindamönnunum á forskning.no var að samkvæmt þeirra niðurstöðum væri nú rétt að breyta ýmsu því sem í kennslubókunum segi um genin.
10.4.2007 | 09:34
Andlegur hafís
Viðhorf, Morgunblaðið, 10. apríl
Fyrirsögnin hérna að ofan er fengin úr predikun Karls Sigurbjörnssonar biskups á páskadagsmorgun, og ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta einhver flottasta og öflugasta líking sem ég hef séð lengi. Þess vegna mátti ég til með að fá hana að láni.
Ég veit að vísu ekki hvort ég er alveg sammála Karli um að valið standi kvitt og klárt á milli þess hvort maður vilji standa á "hafís tómhyggju og vantrúar, eða í vorþey trúarinnar". Tómhyggja er að mörgu leyti gagnmerk hefð, evrópsk að uppruna, ekki mjög gömul miðað við kristnu trúarhefðina, en nógu löng miðað við ævi manns sem er núna í byrjun 21. aldar að nálgast miðjan aldur.
Sú auðn og dauði hugsunarinnar sem Karl lýsti svo snilldarlega í predikun sinni stafar af því að hugsunin hefur ekkert við að fást, en togstreitan á milli trúar og tómhyggju hefur einmitt reynst ríkuleg uppspretta andlegs fóðurs. Og þessi togstreita lifir góðu lífi hérna í íslensku samfélagi enn þann dag í dag, og gefur andlega næringu (svo undarlega sem það nú kann að hljóma).
Karl sagði ennfremur að andstaða gegn kristninni sæist nú í áróðri gegn trúnni, eins og tómhyggjan sé nú beinlínis boðskapur, en ekki aðeins skortur á trú. Ef tómhyggja er boðskapur blasir við hvert meginboðorð hennar er: Hin frægu orð Friedrichs Nietzsches, "Guð er dauður." (Rétt er þá að halda til haga því sem Nietzsche bætti við: Við höfum drepið hann.)
En þessi orð heimspekingsins voru ekki boðskapur. Hann var að lýsa ríkjandi ástandi. Honum þótti ákaflega miður að svona væri komið. Eiginlega alveg skelfilegt - enda missti hann vitið, blessaður. Kannski má því segja að tómhyggja sem boðskapur stafi af misskilningi á Nietzsche.
En þessi "trúarsetning tómhyggjunnar", svo nöturlega sem hún hljómar, hefur orðið ríkuleg uppspretta hinnar fullkomnu andstöðu sinnar: Andlegs lífs. Þetta er þó kaldhæðni sem tómhyggjusinnar hljóta að kunna að meta. Fáir heimspekingar hafa búið til jafnmikið af andlegu fóðri og Nietzsche; með öðrum orðum, fáir heimspekingar hafa í rauninni haft jafnmikil áhrif og hann.
Lýsing Nietzsches á framgangi tómhyggjunnar í kjölfar dauða Guðs er vel þekkt, en í ljósi þess hvernig Karl lýsti hinum andlega hafís ("engin algild gildi né lögmál virðast lengur virt, allt er falt, rétt og rangt er einungis álitið afstætt. Eða öllu heldur, aðeins aflsmunur. Hinn auðugi og sterki hefur rétt fyrir sér... áherslan á endalausar framfarir, sívaxandi auð og velsæld, mátt hins hrausta, sterka og stælta") er gaman að rifja hana upp.
Ef Guð er dauður kemur ofurmennið í staðinn og mótar þau lögmál og gildi sem við hin höfum í heiðri. Sjálft er ofurmennið aftur á móti hafið yfir öll lögmál og gildi, en er þess megnugt að leggja öðrum lífsreglurnar. Þessi sýn Nietzsches á merkilega vel við vestrænt nútímasamfélag - jafnvel bara íslenskt nútímasamfélag.
Ofurmennin okkar eru auðjöfrarnir - fjárfestarnir og bankastjórarnir sem ákvarða vextina sem við borgum, ákveða verðið á málningunni sem við kaupum, og eru líka fyrirmyndir okkar; það sem við hvetjum börnin okkar til að verða. Þetta eru mennirnir (já, allt karlar) sem við lesum endalaust um í fjölmiðlum og allar stelpur dreymir um að giftast og eignast með stór hús og hraðskreiða bíla.
Vísast finnst einhverjum þetta nöturlegt, en um leið einhvern veginn svo óhjákvæmilegt. Einfaldlega lýsing á hinum kalda veruleika sem við búum við. Með öðrum orðum: Lýsing á andlegum hafís. Eina raunhæfa leiðin til að losna úr þessum viðjum virðist þá vera að verða sjálfur að ofurmenni (eða giftast því) og hefja sig þannig yfir okurvextina og málningarverðið með því að koma sér í þá aðstöðu að geta sjálfur ákvarðað það fyrir aðra.
Það sem gerir tómhyggjuna svo aðlaðandi sem raun ber vitni er að hún virðist ganga út á að horfast í augu við þennan nöturlega veruleika. Hún er raunsæi, byggist á bláköldum staðreyndum; hreinni skynsemi. Frá sjónarhóli tómhyggjunnar er trúin blekkingarvefur; lygi til að forða okkur frá því að þurfa að horfast í augu við nöturleika heimsins eins og hann er í raun og veru. Að trúa á einhvern guð - að ekki sé nú talað um himnaríki og eilíft líf - er eins og að stinga hausnum í sandinn. Það er heimska.
Að afneita allri trú felur því ekki síst í sér yfirlýsingu um að maður sjái í gegnum blekkingavefinn og horfist í augu við raunveruleikann, sama hversu jökulkaldur hann kann að vera. Að afneita trú er að berja sér á brjóst og lýsa því yfir að maður sé sko enginn heimskingi, heldur gáfumenni. Eiginlega vitsmunalegt ofurmenni. Þarf ekki á neinni hjálp að halda - síst af öllu frá einhverjum biskupi!
En á endanum er brandarinn auðvitað á kostnað þessara vitsmunalegu ofurmenna. Þau þrífast ekki í andlegum hafís. Til að halda á sér hita fara þau að berja á trúnni, en það er skammgóður vermir, eins og það jafnan er að bíta í höndina á þeim sem gefur manni að borða.
Því að það er ekki hægt að aðhyllast tómhyggju eina og sér eins og kenningu, vegna þess að eins og nafnið bendir til boðar hún ekkert. Tómhyggja, eins og allar hugsunarhefðir sem ganga út á að hafna öllum hefðum, er óhjákvæmilega háð því sem hún hafnar, og verður því, líkt og öll sníkjudýr, að gæta þess vandlega að drepa ekki hýsil sinn.
Kristnin er aftur á móti öflug hefð með djúpar rætur og getur því sótt sér næringu langt niður í mannkynssöguna. Þess vegna gæti kristnin áreiðanlega án þessarar óværu verið, en þar eð kærleikur og fyrirgefning eru grunngildi kristninnar getur hún ekki einu sinni vísað sníkjudýrunum á dyr, heldur þvert á móti styrkir kærleika sinn og fyrirgefningu með því að skjóta skjólshúsi yfir þau.
27.3.2007 | 08:21
Sannleikur vísindanna
Viðhorf, Morgunblaðið, 27. mars, 2007
Það urðu allnokkrir lesendur til að bregðast við því sem ég skrifaði í síðustu viku um "fordóma vísindanna", og voru viðbrögðin allt frá skömmum yfir því að pistillinn hefði verið með öllu óskiljanlegur yfir í ánægju með hann í bland við gagnrýni á einstök atriði í honum.
Ég varð ákaflega upp með mér af ítarlegum viðbrögðum og ætla því að láta eftir mér að skrifa meira um meinta fordóma vísindanna - þó ekki væri til annars en að gera tilraun til að gera það skiljanlega.
Eins og góðfúsir lesendur bentu mér á er það næsta viðtekin skoðun meðal vísindamanna að ekki sé hægt að fjalla með vísindalegum hætti um hvað sem er, til dæmis ástina og guð. Ég held að vísu að margir telji að með vísindalegum hætti sé hægt til dæmis að afsanna tilvist guðs (og þar með í raun fjalla um hann á vísindalegan hátt), og jafnvel sýna fram á að ástin sé ekki annað en efnaferli í heilanum (og þannig smætta ástina niður í eðlisfræði).
Kannski er það þó algengast að talið sé að ekki verði fjallað um ástina og guð með vísindalegum hætti, en ég held aftur á móti að því viðhorfi fylgi jafnframt sú skoðun að þar með sé ekki hægt að segja neitt satt eða ósatt um ástina og guð. Það eru fordómar vísindanna.
Það er að segja, mér er nær að halda það sé næsta útbreidd skoðun að vísindaleg aðferð geti ein tryggt að einhver vísir að "sannleika" komi í ljós, og að ef ekki sé hægt að beita vísindalegri aðferð (eins og til dæmis ef umfjöllunarefnið er guð eða málverk eða ást) sé þar með ekki hægt að segja neinn sannleika um málið, heldur bara hægt að fabúlera og bulla og í besta falli segja eitthvað sem hefur skemmtigildi, en ekki neitt sem hefur sannleiksgildi. Einungis með því að beita vísindalegri aðferð er hægt að segja eitthvað sem hefur sannleiksgildi.
Auðvitað dettur engum heilvita vísindamanni í hug að vísindin geti sagt endanlegan sannleika um alla hluti, en ég á við að það sé algengt viðhorf að einungis með vísindalegum hætti sé hægt að segja eitthvað sem er að einhverju leyti satt, eða miðar að því að nálgast sannleikann.
Þetta minnir svolítið á lokasetningu bókarinnar Tractatus eftir heimspekinginn Ludwig Wittgenstein: "Maður á að þegja um það sem ekki er hægt að tala um." Það sem ekki var hægt að tala um að hans dómi voru hlutir eins og siðferði, fegurð og guð. (Hann sneri að vísu við blaðinu seinna meir, en það er önnur saga.) Ef þessi setning er heimfærð upp á vísindahyggjuna gæti hún litið svona út: Það sem ekki er hægt að fjalla um með vísindalegum hætti er ekki hægt að fjalla um svo vit sé í.
Þessi fordómar eru af sömu ætt og fordómar viðskiptanna, sem eru svo sannarlega útbreiddari en fordómar vísindanna (þótt dæmi séu um að þetta fari saman), en þeir eru fólgnir í því viðhorfi að allt sé "á endanum" bissniss og spurning um framboð og eftirspurn. Það er að segja, að verðgildið sé hið eina eiginlega gildi, og að það sem ekki lúti lögmálum markaðarins sé í rauninni einskis virði. En með því að markaðsvæða það sé aftur á móti hægt að gefa því gildi.
Fordómar vísindanna geta með sama hætti birst í því, að grundvallargildum vísindanna er þröngvað upp á önnur svið mannlífsins, þar sem þau eiga í rauninni ekki við, einmitt vegna þess viðhorfs sem hér að ofan var útlistað, að einungis sé hægt að segja eitthvað sem hefur sannleiksgildi ef það er gert með vísindalegum hætti. Hinni vísindalegu afstöðu er því troðið upp á hvaðeina í þeim tilgangi að hægt sé að segja eitthvað af viti um það.
Þótt þetta sé áreiðanlega í öllum tilvikum gert af góðum hug getur þetta (eins og svo margt sem gert er af góðum hug en takmörkuðum skilningi) haft slæmar afleiðingar. Tvö dæmi: Ég nefndi í síðustu viku að vísindi séu ólýðræðisleg. Fordómar vísindanna geta til dæmis birst í þeirri afstöðu að það geti beinlínis verið nauðsynlegt að láta lýðræðið víkja fyrir hinni vísindalegu niðurstöðu. Með öðrum orðum að það geti verið nauðsynlegt að hafa vit fyrir lýðnum. Með þessum hætti geta fordómar vísindanna alið á forræðishyggju.
Þá erum við komin að hinu dæminu, sem varðar tjáningarfrelsi. Í fjölmiðlun er það grundvallargildi að þagga helst ekki neitt niður, sama hversu heimskulega eða "vitleysislega" það kann að hljóma, eða óábyrgt það er. (Auðvitað á þetta sér takmörk, og um hver þau eru hafa verið skrifaðar margar lærðar bækur.) Þetta er ekki eins mikilvægt í vísindum; þar getur þvert á móti verið fullkomlega eðlilegt og ábyrgt að kveða í kútinn og þagga niður rödd sem talar óvísindalega, því að hún getur beinlínis aftrað því að hin vísindalega afstaða - sem miðar að sannleikanum - verði ofan á.
Hvorugu þessara dæma er ætlað að koma höggi á vísindin sjálf. Eins og lesandi benti mér á eru þau í eðli sínu hlutlaus. En það er vont þegar farið er, í nafni þessa hlutleysis, í einskonar krossferðir til að frelsa meinta heiðingja úr fjötrum þeirra eigin fáfræði og lýsa upp dimman helli þeirra með björtum kyndli vísindanna. Oftar en ekki enda svoleiðis herfarir með því að í hita leiksins er borinn eldur að verðmætum, eins og til dæmis frjálsri hugsun.
20.3.2007 | 17:03
Fordómar vísindanna
Viðhorf, Morgunblaðið, 20. mars, 2007
Þegar franski heimspekingurinn René Descartes taldi sig hafa lokið við að skrifa bókina Orðræða um aðferð (sem inniheldur meðal annars eina frægustu setningu heimsbókmenntanna, "ég hugsa, þess vegna er ég til") fékk hann bakþanka og ákvað að bæta einum kafla við.
Orðræða um aðferð markar þáttaskil í hugmyndasögunni, og með henni hefst svokölluð nýöld. Stefnubreytingin sem hún markaði fólst í því, að með því að beita fyrirfram mótaðri aðferð mætti nálgast sannleikann, í stað þess að hann væri opinberaður eða ákvarðaður af yfirvaldi.
Aðferðin sem Descartes kynnti fyrir lesendum sínum fólst í sem stystu máli í því að hafa ekkert fyrir satt að óyfirveguðu máli, og yfirvegunin fólst nánar tiltekið í því að fylgja fjórum einföldum reglum sem gerð var grein fyrir í bókinni.
En í kaflanum sem Descartes bætti í bókina eftir að hann hafði lokið fyrstu gerð hennar segist hann hafa ákveðið að á meðan hann væri að taka hugmyndir sínar til rækilegrar endurskoðunar myndi hann setja sér "siðareglur til bráðabirgða", og þær voru meðal annars fólgnar í að fara að landslögum og viðteknum venjum, og fylgja boðorðum þeirrar trúar sem honum hafi verið innrætt frá blautu barnsbeini. Hann setti nánar tiltekið hinni vísindalegu aðferð sinni ákveðin takmörk. Hann ákvað, að hún myndi ekki ná til vissra sviða tilverunnar.
Því er gjarnan haldið fram að Descartes hafi bætt þessu í bókina til að komast hjá því að veraldleg og trúarleg yfirvöld bönnuðu hana - enda segir hann að þessar siðareglur séu aðeins til bráðabirgða. Ekki veit ég hvað nákvæmlega er satt í þessu, en hugmyndasagan hefur leitt í ljós að Descartes hitti naglann á höfuðið, vísindalegri aðferð eru takmörk sett.
Þeir eru ófáir heimspekingarnir sem hafa gert uppreisn gegn alræði svonefndrar "Cartesarhyggju", það er, að aðferð tryggi að sannleikurinn verði leiddur í ljós. Slík uppreisn þarf ekki að fela í sér algera höfnun á vísindalegri hugsun, heldur einungis höfnun á alræði vísindalegrar hugsunar, það er að segja, að horft sé á öll svið mannlegrar tilveru með vísindalegum gleraugum, ef svo má að orði komast.
Svona vísindaleg alræðishyggja - sem líka mætti nefna fordóma vísindanna gagnvart hugsun sem ekki er vísindaleg - er merkilegt nokk ennþá talsvert útbreidd og á sér fræga málsvara (eins og til dæmis bandaríska heimspekinginn Daniel Dennett), en líklega er hún þó algengust meðal ungs fólks sem er að taka sín fyrstu skref á vísindabrautinni.
Það er kannski ekki skrítið. Ekki er að ófyrirsynju útbreidd sú skoðun að vísindin séu krýningardjásn mannlegrar skynsemi, og hvergi virðast framfarir jafn greinilegar og í vísindum. Þau virðast því vera það skynsamlegasta af öllu skynsamlegu, og blasir við að draga þá ályktun að tryggasta leiðin til að vera skynsamur sé að hugsa vísindalega. Og hver vill ekki vera skynsamur?
En vísindaleg aðferð hefur þann megingalla að það er ekki hægt að beita henni sjálfri til að finna svar við því hvenær hún eigi við og hvenær ekki. Að þessu leyti eru vísindin undir sömu sök seld og flest önnur hugmyndakerfi (þótt reyndar hafi verið færð gild rök að því að vísindin séu líklega með betri "öryggisventla" hvað þetta varðar en flest önnur kerfi). Þetta leiðir til þess að það getur verið erfitt að forðast vísindalega alræðishyggju, eða vísindalega fordóma.
En í hverju eru fordómar vísindanna fólgnir? Hvernig taka þeir á sig áþreifanlega mynd? Ein mikilvægasta reglan í vísindum (að vísu óskrifuð) kveður á um að í vísindalegum efnum megi aldrei skjóta málum til veraldlegra yfirvalda eða almenningsálitsins. Eina úrskurðarvaldið í vísindalegum efnum er vísindasamfélagið sjálft. Valdboð er bannað, og meirihlutaræði ríkir þar ekki. (Ekki er þó langt síðan það var "lýðræðislega samþykkt" á vísindaráðstefnu í París að svipta Plútó reikistjörnutitlinum, og gott ef vísindin biðu ekki nokkurn álitshnekki fyrir vikið).
Svona er málum ekki farið á ótalmörgum öðrum sviðum mannlífsins, og er þá kannski skýrast að benda á lýðræðið. Sovétríkin sálugu voru tilraun til að búa til þjóðfélag á vísindalegum forsendum, og þar var því ekkert pláss fyrir lýðræði. Trúin á það sameiginlegt með vísindunum að í henni er ekki lýðræði, en ólíkt vísindunum byggir trú á opinberun sannleikans, og hafnar því að hans sé leitað með fyrirfram gefinni aðferð.
Þar sem "markhópur" vísindamanna er þeirra eigið samfélag - það er að segja vísindasamfélagið - þarf framsetningarmáti þeirra að miðast við kröfur þessa afmarkaða markhóps, og engin þörf er á að fara út fyrir þær. Þvert á móti er það óbeint bannað - vísindaritgerð sem skrifuð væri á "alþýðlegu máli" fengist aldrei birt í viðurkenndum og jafningjadæmdum vísindatímaritum.
Þessu er beinlínis þveröfugt farið í fjölmiðlun, svo dæmi sé tekið. Þar er markhópurinn fjölbreyttur, og framsetningarmátinn þarf því að miðast við það. Þar er jafnframt óbeint bannað að nota sérfræðimál - lesendur myndu fljótlega hætta að nota fjölmiðil sem þeir gætu ekki skilið, og fjölmiðillinn færi á hausinn. (Og þarna kom svo í ljós enn frekari munur: Í vísindum hafa markaðslögmálin engin áhrif, en þau hafa veruleg áhrif í fjölmiðlun).
Það er líklega rétt að taka það fram svona í lokin að þótt alræði vísindalegrar aðferðar sé hafnað felur það alls ekki í sér að hinni vísindalegu aðferð sé hafnað. En því er hafnað að skynsemin sé einfaldlega lögð að jöfnu við vísindalega afstöðu. Það þarf skynsemi til að finna út hvenær vísindaleg aðferð á við, og hvenær ekki. En þetta er ekki hægt að finna út með vísindalegum hætti.
13.3.2007 | 09:16
Vísindi á færeysku
Viðhorf, Morgunblaðið, 13. mars, 2007
Það er mikill ósiður hjá sumum bandarískum blaðamönnum að mæta á ári hverju á þing samtímamálfræðinga (MLA) og skrifa síðan drepfyndnar fréttir af "fræðunum" sem þar eru fram borin, það er að segja langsóttum ályktunum fræðinganna og torræðu málfari þeirra.
Þetta er ósiður hjá blaðamönnunum af að minnsta kosti tveim ástæðum. Í fyrsta lagi þeirri sem við blasir, að þeir eru að gera gys að fólki fyrir að það skuli ekki tala og skrifa "venjulegt" mál eins og þeir sjálfir. Minnir mig á ónefndan íslenskan blaðamann sem ég vann einu sinni með; honum fannst færeyska svakalega hlægileg, en kunni það ég best veit ekki bofs í henni, og henti gaman að henni á síðum blaðsins sem við unnum á, blaðinu og honum sjálfum til lítils sóma.
Í öðru lagi er þetta ósiður hjá blaðamönnunum vegna þess að þeir bregðast þarna grundvallarskyldu sinni gagnvart lesendum, sem er í því fólgin að veita upplýsingar um umfjöllunarefnið á máli sem er lesendum aðgengilegt. Blaðamenn eiga fyrst og fremst skyldur við lesendur sína, en líka við viðmælendur sína eða umfjöllunarefni. Af þessu tvennu myndi ég þó segja að skyldan við lesendur vegi þyngra.
Ef nánar er að gáð kemur í ljós að ofangreindur ósiður blaðamannanna er líklega ágætis dæmi um það þegar fólk gerir enga tilraun til að hafa hemil á fordómum sínum. Blaðamennirnir benda á fræðingana og segja: Þeir eru öðru vísi en ég; sjáiði hvað þeir eru asnalegir! Blaðamennirnir hafa enga þekkingu á fræðimennskunni sem þeir gera gys að (og gysið byggist í rauninni á því að engrar slíkrar þekkingar sé aflað), bera ekkert skynbragð á þau gildi og markmið sem höfð eru í heiðri í fræðunum heldur meta fræðimennskuna eingöngu út frá sínum eigin forsendum, það er að segja forsendum markmiða og gilda blaðamennskunnar.
En á þessu tvennu er grundvallarmunur. Eins og ég sagði áðan er það megingildi í blaðamennsku að veita upplýsingar til að gera umfjöllunarefnið aðgengilegt hinum almenna lesanda. En þetta er alls ekki megingildi í fræðimennsku, sérstaklega ekki á ráðstefnu þar sem saman koma fræðingar. Þeir eiga þar fyrst og fremst erindi við fagsystkini sín, ekki almenna lesendur. Blaðamönnunum sést aftur á mót alveg yfir þetta atriði, og dæma fræðin ekki á forsendum fræðanna sjálfra heldur á forsendum blaðamennsku, eins og það séu hinar einu "réttu og eðlilegu" forsendur. Þetta er alveg skólabókardæmi um fordóma.
Blaðamaðurinn sem ég vann með fyrir norðan hérna um árið, þessi sem fannst færeyska svo hlægileg, gerði enga tilraun til að skilja það sem hann las í Dimmalætting, hann gerði bara grín að færeyskunni á þeim forsendum að hún hljómaði eins og einhver væri að gera fáránlega misheppnaða tilraun til að skrifa eða tala íslensku. (Ef ég man rétt endaði þetta með því að færeyskur lesandi blaðsins sem við unnum á hafði samband og spurði hvort Færeyingar hefðu gert blaðamanninum eitthvað.)
En það eru ekki aðeins blaðamenn sem eru fordómafullir. Stundum verða þeir og fagið þeirra fyrir barðinu á fordómum fólks úr öðrum fögum. Líkt og í tilviki bandarísku blaðamannanna sem fara á MLA-þing og samstarfsmanns míns sem fannst færeyska hlægileg stafa þessir fordómar undantekningarlítið af vanþekkingu á grundvallargildum og markmiðum þess sem fordómarnir beinast gegn - í þessu tilviki blaðamennsku.
Ég veit ekki hvort einhverjar tilteknar stéttir eru gjarnari en aðrar á fordóma í garð blaðamanna, en mig langar til að taka hér nýlegt dæmi. Ég átti þess kost um helgina að sitja þrjá fyrirlestra á samkomu nýs félags sem heitir Res extensa. Samkoman var um gagnrýna hugsun. Í einum lestrinum sem ég hlýddi á fengu blaðamenn (og þá sérstaklega við sem vinnum á mbl.is) á baukinn hjá Margréti Björk Sigurðardóttur, sem er MSc í líffræði.
Það er ekki nema hollt að sæta gagnrýni, en ég verð að viðurkenna að undir lestri Margrétar varð mér hugsað til kollega míns sem fannst færeyska hlægileg en kunni ekki bofs í henni. Skotmark Margrétar voru fréttir fjölmiðla af vísindarannsóknum, og ekki fór á milli mála að henni þóttu þessar fréttir afskaplega illa gerðar.
Að vísu kom fljótlega í ljós í lestri Margrétar að hún ruglaði iðulega saman göllum á vísindarannsókninni sem tiltekin frétt var um og meintum göllum á fréttinni um rannsóknina. Það er að segja, hún gerði ekki greinarmun á fréttinni og fréttaefninu. Þetta er reyndar mjög algengur ruglingur hjá þeim sem ekki kunna nein skil á fréttamennsku, og ég skal viðurkenna að ég hef oftar en einu sinni séð vísindamenn ruglast á þessu þegar þeir gagnrýna vísindablaðamennsku.
Eins og góðum vísindamanni sæmir kom Margrét auga á vankanta á rannsóknunum sem fjallað var um í fréttunum og orðum vísindamannanna sem vitnað var í, en af einhverjum ástæðum virtist hún telja að þarna væri um að ræða vankanta á fréttinni og við blaðamanninn að sakast en ekki vísindamanninn.
Líkt og blaðamaðurinn sem fannst færeyska fyndin vegna þess að hann skildi hana ekki henti Margrét gaman að þessum vísindafréttum án þess að skilja bofs í blaðamennsku. Fyrirlestur hennar var því einnig skólabókardæmi um fordóma. Hún leit á fréttirnar sem fáránlega fyndna tilraun til vísindaskrifa - vísindi á færeysku! Alveg drepfyndið.
Margrét lét í ljós þá skoðun, sem ég hef oftar en einu sinni heyrt frá vísindasinnuðu fólki, að það þurfi vísindamenn til að skrifa fréttir af vísindarannsóknum til að fréttirnar verði "réttar". Ég hef alltaf haft efasemdir um þetta, og það má segja að Margrét hafi staðfest þessar efasemdir mínar, og sýnt fram á í lestri sínum hvers vegna það getur verið mjög óráðlegt að láta vísindamenn skrifa vísindafréttir.
28.2.2007 | 21:53
Velferð barna
Viðhorf, Morgunblaðið, 28. febrúar, 2007
Íslendingar hafa lítið mátt vera að því að ræða um skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (Unicef) um hlutskipti barna í ríkum löndum sem kom út um daginn. Við vorum svo heppin að vera ekki með í samanburðinum svo að við höfum ekki þurft að pæla í þessu, enda eins gott því að við höfum öðrum og mun mikilvægari hnöppum að hneppa, hér eru peningamenn fyrir rétti og klámhundar bíða æstir eftir því að komast inn í landið.
Það var annars margt harla athyglisvert að finna í þessari skýrslu, sem hefði getað orðið efni í áhugaverða umræðu og fjölmiðlaskrif. En þetta var afgreitt snöfurmannlega af íslenskum miðlum á einum degi, og þeir sneru sér á ný að því sem þjóðin hefur í raun áhuga á: Peningum og fólki sem græðir mikið.
Dapurlegt, í þessu samhengi, er að sjá fyrstu skref nýs fjölmiðils á Íslandi, Krónikunnar. Ef fjölmiðlar eru speglar samfélagsins mátti sjá á fyrstu forsíðu þess blaðs spegilmynd íslensku þjóðarinnar í svakalegu "klósöppi": Hannes Smárason í svarthvítu. Í næsta tölublaði voru spákaupmenn á forsíðunni. Fer ekki á milli mála á hvaða mið þessi nýjasti fjölmiðill ætlar að róa; þau hin sömu og allir hinir - nýríku Íslendingana.
Ég skal viðurkenna að Unicef-skýrslan er löngu liðin tíð (sjálfsagt einhverjar tvær vikur síðan hún var í fréttum) og vísast að lesendur séu búnir að gleyma því litla sem þeir sáu um hana í fjölmiðlum, enda margt meira spennandi verið á seyði síðan.
Það var afar athyglisvert að í efstu sætunum á lista landanna sem fjallað var um í skýrslunni voru lönd sem löngum hafa þótt afskaplega óspennandi á Íslandi, Holland og Svíþjóð, en löndin þar sem hlutskipti barna er síst eru einmitt þau lönd þar sem mest tækifæri eru á að græða peninga, Bandaríkin og Bretland.
Þetta er ótvíræð vísbending um að áhersla á þetta tvennt, peninga og börn, fari ekki saman, heldur stefni þvert á móti í andstæðar áttir. Ofboðslegur áhugi íslenskra fjölmiðla á nýríku fólki og hvers kyns viðskiptum gefur ennfremur vísbendingu um í hvora áttina íslenskt samfélag stefni. Enda ekki langt síðan bent var á að misskipting auðs á Íslandi fari vaxandi og samfélagsgerðin sé sífellt meira farin að líkjast þeirri bresku.
Nú kann einhver að vilja benda á að það hafi líka komið fram nýlega að fátækt sé lítil á Íslandi, og það gildi líka um börn, hér búi færri börn við fátækt en gerist í öðrum löndum. Þar með á að vera afgreitt það sem máli skiptir samkvæmt því eina viðmiði sem haft er á Íslandi núna: peningaviðmiðinu. Við erum auðug þjóð að meðaltali, svo hvers meira getum við óskað okkur?
Reyndar er ekkert undarlegt að þetta viðmið sé það fyrsta sem kemur upp í hugann. Brjóstvitið segir manni að auður sé frumskilyrði velferðar, og þess vegna er kannski eðlilegt að draga án frekari umhugsunar þá ályktun að því meira sem til sé af peningum því fleiri eigi tækifæri á að láta sér líða vel, bara ef þeir vilji og kunni að grípa tækifærin sem gefast. Sé áhersla lögð á auðinn hljóti það að leiða til velferðar og hamingju.
Sú staðreynd - sem sífellt fleiri rannsóknir leiða í ljós - að ofboðslegur auður fáeinna manna skilar ekki aukinni velferð og hamingju fjölmargra annarra, og jafnvel ekki einu sinni auðmannanna sjálfra, gengur því gegn brjóstvitinu, og maður þarf svolítið að taka á honum stóra sínum til að átta sig á því hvernig það má vera að misskipting auðs komi engum til góða, heldur öllum illa.
En Unicef-skýrslan kann einmitt að gefa vísbendingu um hvernig þetta má vera. Einn höfunda hennar, Jonathan Bradshaw, prófessor við York-háskóla, sagði við BBC að helstu ástæður dapurlegs hlutskiptis breskra barna væru fátækt og einsemd. Tvöfalt fleiri börn byggju við fátækt en árið 1979 og aðeins 40 af hundraði breskra barna fannst vinir sínir hjálplegir og vingjarnlegir.
Bradshaw sagðist lesa úr niðurstöðum skýrslunnar að þjóðfélagsgerðin í þeim löndum sem verst komu út einkenndist af miskunnarleysi. Og miskunnarleysi stafar af skorti á samkennd, og skortur á samkennd stafar af skorti á sameiginlegri sjálfsmynd. Samfélagsgjáin sem myndast með misskiptingu auðs er fyrst og fremst fólgin í því, að þeir sem búa sitthvorumegin við hana hætta að upplifa hvorir aðra sem meðborgara sína, sem fólk eins og sjálfa sig, og þar með hverfur samkenndin með þeim og miskunnarleysi gagnvart þeim tekur við.
Kannski getur fullorðið fólk með þroskaða skynsemi komist yfir slíka gjá, en börnum sem alast upp við hana verður hún óyfirstíganleg hindrun sem jafnvel getur heft skynsemisþroska þeirra, þannig að miskunnarleysi í garð annarra verður þeim sjálfsagður hlutur.
Það er ómaksins vert að gera tilraun til að koma einkunnarorðum Unicef-skýrslunnar á íslensku og láta fljóta hér með, þótt einhverjum kunni að finnast þau froðukennd og tilfinningahlaðin um of:
"Hinn sanni mælikvarði á stöðu þjóðar er hversu vel hún hugsar um börnin sín - heilsu þeirra og öryggi, efnahag þeirra, menntun þeirra og félagsmótun, og tilfinningu þeirra fyrir því að þau séu elskuð, metin að verðleikum og talin með í fjölskyldunni og þjóðfélaginu sem þau fæðast inn í."