Hlýðnir Íslendingar

Viðhorf, Morgunblaðið 27. júní, 2007

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sagði eitthvað í þá veruna um daginn að hún og einhverjir fleiri íslenskir ráðamenn þyrftu að fara til Mið-Austurlanda vegna ástandsins þar. Það var að vísu óljóst af orðum Ingibjargar hverju hún vonaðist til að fá áorkað í slíkri för, en kannski er tilgangurinn að kenna Ísraelum og Palestínumönnum umræðustjórnmál, þannig að þeir myndu hætta að drepa hvorir aðra.

Að minnsta kosti má telja víst að ef íslenskir ráðamenn fara til Palestínu og láta til sín taka muni ástandið þar skána; gott ef deilan mun ekki áreiðanlega leysast við það eitt að Íslendingar mæta á svæðið.

En alveg án gamans: Áður en Ingibjörg heldur í Mið-Austurlandaför þyrfti hún að minnsta kosti að greina þjóðinni frá því til hvers hún ætlar að fara slíka för, hverju hún vonast til að fá áorkað, öðru en því að kosta miklu til sem að sjálfsögðu greiðist úr vasa íslenskra skattborgara.

Það verður í fljótu bragði ekki séð að íslenskur utanríkisráðherra muni verða til annars en trafala í Mið-Austurlöndum, og slík för myndi ekki skila öðru en vekja athygli á umræddum utanríkisráðherra í heimalandi hans sjálfs. Íslenskir fjölmiðlar myndu að sjálfsögðu verða uppfullir af fréttum af Ingibjörgu í Palestínu, en hún myndi áreiðanlega ekki komast í erlenda miðla.

Ein ferð utanríkisráðherra örþjóðar skiptir nákvæmlega engu í svo stóru samhengi sem Palestínudeilan er. Að halda eitthvað annað er í besta falli barnaskapur, en í versta falli stórmennskubrjálæði.

En Ingibjörg Sólrún er alls ekki eini íslenski ráðamaðurinn sem virðist telja að Ísland geti skipt sköpum á alþjóðavettvangi. Alltaf öðru hvoru má sjá í fjölmiðlum - nú síðast í Morgunblaðinu fyrir viku eða tveim - fréttir af framboði Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Ég held að ég fylgist ágætlega með fréttum, en það hefur alveg farið framhjá mér hver tilgangurinn með öryggisráðsframboðinu er, og ekki hef ég heldur séð í þessum fréttum stakt orð um hvernig þetta framboð kom til. Hvernig kviknaði þessi stórbrotna hugmynd?

Fregnir af framboði Íslands til ráðsins eru meira eins og fréttir af gengi íslensks íþróttaliðs á erlendu stórmóti, eða í Evróvisjón. Hvaða lönd eru helstu keppinautarnir og hvernig er "strategían?" Hvað þarf að tryggja mörg atkvæði - duga 128? - og hvernig verður best farið að því?

Það sem ég hef saknað úr umfjöllun fjölmiðla um þetta framboð eru útlistanir á tilganginum með því, ástæðunum fyrir því og upptökunum að því. En fjölmiðlar láta eins og þessir þættir séu allir útræddir og ekki lengur um þá deilt. Eins og allir séu sammála um að það sé sjálfsagður hlutur að Ísland reyni að komast í öryggisráðið.

En um öryggisráðsframboð ríkir ekki sama eindrægnin meðal þjóðarinnar og þátttöku í Evróvisjón. Þess vegna verða fjölmiðlar að spyrja þessara spurninga og fá svör ráðamanna við þeim í hvert sinn sem fjallað er um málið. Einungis þannig geta lesendur sjálfir fellt dóma um það hvort þeir telji rétt að Ísland standi í þessu framboði. Ef ekki er fjallað um þessa þætti lítur helst út fyrir að fjölmiðlar séu þátttakendur í heldur ljótum leik ráðamanna, að komast í ráðið hvað sem þjóðin tautar og raular.

Ég vil taka það fram að ég er alls ekki skilyrðislaust mótfallinn því að Ísland bjóði fram til öryggisráðsins. En þar sem ekki blasir beint við hvaða erindi við getum átt á þann vettvang - eins og aftur á móti blasir við að við eigum erindi í til dæmis heimsmeistarakeppnina í handbolta - sakna ég nánari útskýringa. Annaðhvort frá utanríkisráðuneytinu eða fjölmiðlum.

Hver er tilgangurinn með framboði til öryggisráðsins? Að hafa áhrif á alþjóðavettvangi? Gæta hagsmuna Íslands í ráðinu? Hverjir eru þá þeir hagsmunir? Eða er tilgangurinn kannski frekar að vekja athygli á Íslandi á alþjóðavettvangi? Eða að gefa íslenskum ráða- og embættismönnum tækifæri til að sitja alþjóðafundi þar sem teknar eru ákvarðanir um heimsmál á borð við kjarnorkudeiluna við Íran?

Hver er ástæðan fyrir þessu framboði? Er talið að fulltrúar Íslands gætu haft áhrif á ákvarðanir öryggisráðsins? Er talið einsýnt að ráðið hafi ekki verið eins skilvirkt og það gæti verið og þyrfti að vera, og að þörf sé á íslenskri athafnagleði og skipulagshæfni til að breyta því? Eða er ástæðan fyrir framboðinu sú, að íslenska utanríkisþjónustan vill vekja á sér athygli hér innanlands og sýna og sanna fyrir þjóðinni að utanríkisþjónusta skipti máli - því að það er jú augljóst að þjóðin hefur alvarlegar efasemdir um það.

Hvað er langt síðan farið var að ræða um framboð Íslands til öryggisráðsins? Hver voru upphaflega rökin fyrir því að fara í slíkt framboð? Hvenær fór málið af umræðustigi og á framkvæmdastig? Er enn hægt að hætta við framboðið?

Það gertur varla verið að sæti í öryggisráðinu sé nauðsynlegt til að tryggja utanríkishagsmuni Íslands. Þeir hagsmunir eru í raun og veru fólgnir í því einu að falla ekki í ónáð hjá Bandaríkjamönnum. Tryggja þarf að við séum í náðinni hjá þeim, þá er utanríkishagsmunum okkar borgið. Þetta hafa ráðstafanir íslenskra stjórnvalda margoft sýnt og sannað, nú síðast þegar við vorum sett í hóp hinna staðföstu.

Enda sagði Nicholas Burns, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, fyrir skömmu er hann var inntur álits á öryggisráðsframboði Íslands, að honum litist vel á það. Úr frekari orðum hans mátti lesa að hann gerði ráð fyrir að fengju Íslendingar sæti í ráðinu yrðu þeir þar þægir og góðir, og hlýðnir við Bandaríkamenn. Það er að segja, sæti Íslands í öryggisráðinu myndi í rauninni ekki vera annað en aukaatkvæði fyrir Bandaríkin þar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband