Óþægilegar niðurstöður

Viðhorf, Morgunblaðið 15. ágúst, 2007

Samfélagsleg fjölbreytni dregur úr samfélagslegri þátttöku, dregur úr trausti manna í millum, dregur úr kjörsókn og framlögum til líknarmála. Með öðrum orðum, samfélagsleg fjölbreytni - hvort heldur af þjóðerni eða kynþáttum - veldur því að fólk dregur sig inn í skelina. Í stað þess að fara út meðal samborgara sinna situr það heima og horfir á sjónvarpið.

Þetta eru helstu niðurstöður ítarlegrar rannsóknar sem bandaríski stjórnmálafræðingurinn Robert Putnam hefur birt, og blaðið Boston Globe (boston.com) sagði frá fyrr í mánuðinum. Niðurstöður Putnams eru í samræmi við niðurstöður sífellt fleiri rannsókna er benda til að eftir því sem fjölbreytni samfélagsins vex - eftir því sem íbúarnir koma úr fleiri áttum - því minni líkur séu á að fólk láti sig varða sameiginlega hagsmuni.

Niðurstöður rannsóknar Putnams, og væntanlega fleiri rannsókna, stangast á við báðar kenningarnar sem hingað til hafa verið helstar í þessum efnum. Annars vegar þá, að eftir því sem samskipti fólks af ólíkum þjóðernum og kynþáttum aukist, því meiri skilningur og samstaða ríki meðal þess; og hins vegar þá, að aukin samfélagsfjölbreytni leiði til spennu og átaka milli samfélagshópa. Þessar kenningar hafa verið kallaðar "sambandskenningin" og "átakakenningin".

Haft er eftir Putnam í Boston Globe, að í samfélögum þar sem fjölbreytni íbúanna - af þjóðerni og kynþáttum - er mikil myndist hvorki náin tengsl milli ólíkra þjóðernis- og kynþáttahópa né skapist mikil átök milli þessara hópa. Fólk einfaldlega hafi tilhneigingu til að halda sig innan síns hóps, en jafnvel dragi úr trausti og samskiptum innan hvers hóps fyrir sig. Þannig að það dragi úr öllum samskiptum, og fólk dragi sig inn í sína eigin skel.

"Fjölbreytni, að minnsta kosti til skemmri tíma litið," hefur blaðið eftir Putnam, "virðist höfða til skjaldbökunnar í okkur öllum." Hann segist hafa tekið tillit til allra hugsanlegra og óhugsanlegra óvissuþátta, og margoft farið yfir niðurstöðurnar áður en hann birti þær (í júníhefti tímaritsins Scandinavian Political Studies), vegna þess að hann hafi gert sér grein fyrir því hversu eldfimar þær myndu verða.

Putnam þessi er prófessor við ekki ómerkari stofnun en Harvard-háskóla, og mun ekki vera neinn íhaldsmaður í samfélagsmálum, heldur þvert á móti frjálslyndur og eindreginn talsmaður samfélagslegrar fjölbreytni. Hann segist hafa óttast að niðurstöðurnar yrðu túlkaðar á þá lund að þær bendi til að kynþáttahyggja sé af hinu góða.

Hann segir niðurstöður rannsóknarinnar engu hafa breytt um sannfæringu sína í þeim efnum. Samfélagsleg fjölbreytni sé einfaldlega krefjandi verkefni sem takast verði á við. Einhverjir fræðingar munu hafa orðið til þess að gagnrýna Putnam fyrir það að grein hans um niðurstöðurnar væri ekki óhlutdræg útlistun heldur tæki hann afstöðu í henni, og það eigi fræðimenn ekki að gera í fræðaskrifum.

Í Boston Globe kemur enn fremur fram, að aðrar rannsóknir hafi sýnt að samfélagsleg fjölbreytni auki framleiðni og nýsköpun, eins og glöggt megi sjá í stórborgum á borð við London og New York, þar sem fjölbreytni samfélagsins er hvað mest, og nýsköpun í framleiðslu er einnig hvað mest - en um leið má kannski segja að í stórborgum sé samkenndin meðal fólks hvað minnst.

Blaðið hefur eftir Scott Page, stjórnmálafræðingi við University of Michigan, að á vinnustöðum þar sem mikillar sérþekkingar sé krafist komi í ljós kostir þess að fólk af ólíkum toga hugsi hvert með sínum hætti. Það sé ögrandi og krefjandi að vinna með fólki sem hugsi öðru vísi en maður sjálfur, en einmitt þess vegna leiði fjölbreytnin til aukinnar framleiðslu og nýbreytni. Þegar ólík viðhorf blandist saman verði til ný.

Eru niðurstöður þessara manna, Putnams og Page, og annarra sem rannsakað hafa samfélagsfjölbreytni rök með eða á móti fjölmenningarsamfélögum á borð við það sem er að verða til hér á Íslandi? Um það verður ekkert fullyrt, að minnsta kosti ekki í ljósi einnar blaðafregnar af þeim. Ég verð að viðurkenna að ég hef alltaf verið eindreginn fylgismaður "sambandskenningarinnar" um áhrif samfélagsfjölbreytni, þannig að mér þykja niðurstöður Putnams ekkert alltof uppörvandi.

En það verður að slá að minnsta kosti einn, almennan varnagla í sambandi við þær, og hann er sá, að rannsóknina gerði hann í Bandaríkjunum, og það er ekki víst að fjölmenningarsamfélagið þar sé sömu gerðar og önnur slík samfélög. Þess vegna verður að hafa varann á þegar niðurstöður rannsóknar Putnams eru heimfærðar upp á önnur lönd en Bandaríkin.

Bandarísku samfélagi er stundum líkt við deiglu, þar sem ólíkir samfélagshópar eiga að bræðast saman í einn. Ókostinn við þetta segja sumir vera þann, að fólki finnist það vanta samfélagslegar rætur sem eru nauðsynlegar fyrir sterka sjálfsímynd - og svar við grundvallarspurningunni: Hver er ég?

Norðan landamæranna, aftur á móti, í Kanada, er fjölmenningarsamfélagið hugsað lítið eitt öðruvísi og gjarnan líkt við mósaík, þar sem lögð er áhersla á að ólíkir samfélagshópar fá að halda mörkum sínum og einkennum. Aftur á móti blandast hóparnir á almennum vettvangi, ekki síst í háskólum og í atvinnulífinu, einmitt þar sem rannsóknirnar sýna að fjölbreytni er tvímælalaus kostur.

Það er ekkert sem bendir til annars en að rannsóknir og niðurstöður Putnams séu áreiðanlegar og marktækar. Þess vegna verður ekki hjá því komist að horfast í augu við að niðurstöðurnar eru óþægilegar. Nema auðvitað ef manni er illa við fjölbreytni og fjölmenningu, þá getur maður fundið talsvert púður í þeim.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband