Áfengi í þverpokum

Það er athyglisvert að heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, skuli vera fylgjandi afnámi á einkasölu ríkisins á léttvíni og bjór. Sérstaklega í ljósi þess að landlæknisembættið lýsti því yfir í tilefni af enn einu afnámsfrumvarpinu að ríkiseinokun á áfengissölu sé til þess fallin að draga úr áfengisneyslu og um leið því samfélagstjóni sem af henni hlýst. Vísar landlæknir til tilgreindra rannsókna máli sínu til stuðnings.

Þetta vekur óhjákvæmilega þá spurningu hvort heilbrigðisráðherrann taki ekkert mark á landlækni, eða telji það vera í lagi að samfélagstjón af völdum áfengisneyslu aukist. Hvort heldur sem er má það kallast merkileg afstaða ráðherrans. Að vísu hafði hann uppi einhver orð um að hann vildi líka auka forvarnir, en samkvæmt heimildum sem landlæknir vísar í eru forvarnir ekki meðal þess sem talið er draga úr áfengisneyslu.

Eftir situr sú spurning hvort ráðherra Guðlaugur tekur ekki mark á landlækni eða hefur ekkert á móti því að samfélagslegur heilsuskaði aukist. Er þetta ekki dálítið undarlegt viðhorf hjá æðsta manni heilbrigðismála í landinu?

Áður en Guðlaugur varð heilbrigðisráðherra hafði hann sjálfur staðið að því að reyna að fá einkasölu ríkisins á áfengi afnumda, og flutningsmaður tillögunnar núna er Sigurður Kári Kristjánsson, flokksbróðir Guðlaugs, og kannski telur ráðherrann flokkstengslin meira um verð en heilbrigðismál þjóðarinnar.

Þegar mbl.is flutti fregnir af afstöðu landlæknis hlóðust á fréttina bloggfærslur og voru ófáir bloggarar þeirrar skoðunar að auðvitað ætti að afnema einokunina. Kannski er ástæðan fyrir afstöðu ráðherrans sú að honum er illa við að taka óvinsæla afstöðu, jafnvel þótt hún sé studd vísindalegum rökum. Enda er það ekki nýtt í stjórnmálum að hugmyndafræði vegi þyngra en skynsamleg rök.

Á vef landlæknisembættisins er vísað til nýlegrar bókar um áfengismál, Alcohol: No Ordinary Commodity - Research and Public Policy. Í bókinni "hefur verið rýnt í allar helstu rannsóknir sem nýtast við stefnumótun í áfengismálum," segir á vef landlæknis. Titill bókarinnar segir mikið af því sem segja þarf: "No Ordinary Commodity," áfengi er "engin venjuleg vara." Hvers vegna ekki?

Svarið er einfalt: "Áfengi er vímuefni sem getur valdið fíkn og er því engin venjuleg neysluvara." Í þessari bók er meðal annars fjallað "um vísindaleg rök fyrir ýmsum leiðum til að koma í veg fyrir eða draga úr skaða sem rekja má til áfengisneyslu." Ein þessara leiða er ríkiseinkasala áfengis.

Kannski hefur ráðherra Guðlaugur ekki séð þessa umfjöllun á vef landlæknis. Eða er afstaða hans byggð á einhverjum öðrum rökum og sterkari? Ef svo er væri gaman að Guðlaugur tíndi þau til og birti, eða benti á hvar þau er að finna. Það er ekki nóg að hann flaggi einhverjum klisjum um að hann sé fylgjandi auknum forvörnum.

Allt um það. Núna er í fyrsta sinn útlit fyrir að frumvarpið um ríkiseinokunina verði að veruleika. Mbl.is sagði frá því um daginn að Bónus biði spenntur eftir því að geta farið að selja ódýran bjór undir merkinu Euroshopper. Verði það að veruleika leysist kannski "vandinn" sem fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, reyndi að bregðast við með því að láta fjarlægja bjórkælinn úr ríkinu í Austurstræti.

Fastir viðskiptavinir ÁTVR, sem borgarstjórinn fyrrverandi vildi losna við úr miðborginni, flytja sig þá væntanlega þangað sem bjórinn er ódýrastur, það er að segja til þeirra verslana sem selja hann. (Að vísu er ein slík á Laugaveginum, svo þessir kúnnar þurfa kannski ekki að fara langt).

Í nágrannaríkjum okkar, þar sem bjór er seldur í matvöruverslunum, er málum einmitt svona háttað; utangarðsmennirnir halda sig fyrir utan verslanirnar, milli þess sem þeir skreppa inn og kaupa meiri bjór - og kannski brauðhleif til að hafa með. Ég veit ekki hvort verslunarstjórar Bónuss yrðu hrifnir af þessari viðbót við kúnnahópinn.

Sú afstaða að áfengi eigi að vera eins og hver önnur neysluvara og fást í venjulegum matvörubúðum er byggð á tiltekinni hugmyndafræði - það er að segja, hugmyndum um hvernig hlutunum eigi að vera háttað, en ekki með tilliti til þess hvernig þeir eru í raun og veru. Það er væntanlega forsendan fyrir viðhorfi heilbrigðisráðherrans til málsins.

Hin afstaðan, að áfengi sé ekki venjuleg neysluvara og eigi ekki að vera eins aðgengilegt og venjulegar vörur, er aftur á móti ekki byggð á hugmyndafræði heldur vísindalegum rannsóknum, það er að segja athugunum á því hvernig hlutunum er í raun og veru háttað (burtséð frá því hvort maður vilji að þeim sé þannig háttað). Þetta er tilfært á vef landlæknis:

"Niðurstöður rannsókna benda eindregið til þess að einkasala ríkisins á áfengi dragi úr neyslu og tjóni sem af henni hlýst og ef einkasölunni er aflétt aukist heildarneysla áfengis. Athygli vekur [...] að fræðsla skilar ekki mælanlegum árangri en opinberar aðgerðir verulegum."

Vinur minn einn var á sínum yngri árum - eins og gjarnt er um unga menn sem vilja sýnast hörkutól - staðráðinn í að maður ætti jafnvel að hafa fullt frelsi til að fara til helvítis ef maður kysi það. Svo mikilvæga taldi hann frelsishugsjónina, að mannslífum væri fórnandi fyrir hana.

Þetta var óneitanlega kúl afstaða og dramatísk en að sama skapi óskynsamleg. En eins og ég sagði, þessa afstöðu hafði vinur minn þegar hann var ungur, og ungir menn hafa jú aldrei verið þekktir fyrir að reiða skynsemina í þverpokum.

(Viðhorf, Morgunblaðið 22. október 2007)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistill hjá þér. Ég tek undir mér þér að það er sérkennilegt að heilbrigðisráðherra skuli stilla sér á þann stað sem hann gerir. Þar sem þú nefndir viðbrögð bloggara við innleggi landlæknis langar mig að deila með þér link á færslu sem ég setti inn reyndar áður en landlæknir kom með sitt komment. Það er ljóst á umræðunum sem sköpuðust í kommentakerfinu að fólk hefur ýmislegt til þessara mála að leggja. Hér linkur á færsluna: http://anno.blog.is/blog/anno/entry/340203/

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 09:36

2 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Já þetta er athyglisverður þráður sem þú linkar á. Er það glámskyggni mín, eða er greinilegur munur á afstöðu kynjanna? Eru strákarnir líklegri til að vilja selja vín í búðum? Það kemur sosum ekki á óvart, sú afstaða að vilja afnema einkasölu ríkisins þykir líklega til marks um að maður sé töff og gefi skít í kveifarskap. Þykir sjálfsagt móðurleg afstaða að vilja takmarka aðgengið. Æ hvað strákar geta verið vitlausir! Bara afþví að þeir vilja sýnast töff. Vinir mínir sem hafa orðið Bakkusi að bráð eru ekki mjög töff, þvert á móti.

Kristján G. Arngrímsson, 22.10.2007 kl. 10:12

3 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Mjög góður pistill,takk fyrir hann.Er Heilbrigðisráðherra ekki á dálítð hálum ís í þessum efnum,jafnvel í mótsögn við sjálfan sig.

Ari Guðmar Hallgrímsson, 22.10.2007 kl. 12:01

4 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ekki skal ég segja um hvort hann er í mótsögn við sjálfan sig - en mér finnst hann kominn í mótsögn við embættið sem hann gegnir.

Kristján G. Arngrímsson, 22.10.2007 kl. 13:43

5 identicon

Ég að það sé rétt hjá þér að það sé munur á kynjunum. Án þess að ég vilji alhæfa neitt þá virðist mér strákarnir gjarnari á að horfa á ákveðin „tré“ eins og ég kalla það í færslunni minni á meðan stelpurnar virðast meira horfa á „skóginn“ í heild sinni.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 15:21

6 identicon

ÚPPS! - Ég held að það sé rétt hjá þér ... - ætlaði ég að segja

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 15:22

7 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Já, þær lifa lengi ritgerðirnar og rata sumar á endanum í blöðin :-)

Í þeim heimi sem margir virðast vilja lifa í, myndi heilbrigðisráðherra sjálfsagt beita sér fyrir því að að skyndibitar yrðu bannaðir, allir yrðu skyldaðir til að stunda líkamsrækt, jafnvel sjóðböð (sem ku vera ákaflega holl), áfengi yrði með öllu bannað, leyfi þyrfti frá ríkinu til að nota bifreið (þar sem ganga eða hjólreiðar eru ákaflega hollar) tóbak yrði að sjálfsögðu gert útlægt og undanþágur þyrfti til að nota sykur og salt.  Svona mætti líklega lengi halda áfram.

Það er einfaldlega órökrétt að ætla eilíflega að hafa vit fyrir fólki.  Fræðsla er af hinu góðu, en böð og bönn ná sjaldnast ef nokkur tíma tilgangi sínum. 

Það er reyndar vel þess virði að velta fyrir sér að sem rök á móti frjálsari sölu á áfengi er gjarna notað að úrvalið myndi minkka og verðið hækka, en samt á aðgengið og neyslan að aukast.  Sömuleiðis fulllyrða menn að þeim þyki ekkert óhagræði af því að fara í aðra verslun til að kaupa vín og aldrei hafi þeim skort áfengi þess vegna, en svo er fullyrt að aðgengið aukist.

Sem umhugsunarefni má líka velta fyrir sér hve hart var barist gegn bjórnum á sínum tíma, og hve margir myndu hvetja til þess að hann yrði bannaður nú?

G. Tómas Gunnarsson, 25.10.2007 kl. 02:42

8 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Sko, menn vita upp á sig sökina!

Nei, það er allt í lagi að Gulli hafi sína skoðun, en það þýðir þá einfaldlega að hann er ósammála landlækni, sem er dáldið merkileg staða fyrir ráðherrann.

Og það er mér prívat og persónulega alveg að meinalausu að bjór og léttvín fáist í Bónus - nema kannski ef maður hugsar málið aðeins lengra, alveg að þeim punkti að ef aðgengi að áfengi er aukið vex heilsutjón, sem leiðir til aukinnar umönnunarþarfar, sem leiðir til aukinna opinberra útgjalda, sem leiðir hugsanlega til hærri skatta. Jamm, ungir Sjallar að mæla með auknum opinberum útgjöldum, ja öðru vísi mér áður brá.

Kristján G. Arngrímsson, 25.10.2007 kl. 10:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband