Bjöguð athygli

Viðhorf, Morgunblaðið, 3. október 2006

Ég held að það hafi verið fyrir tveim vikum eða svo að tilkynningin frá lögreglunni í Reykjavík birtist á Lögregluvefnum þar sem sagði að lögreglumönnum sýndist að áróðurinn sem haldið hafi verið upp dagana á undan hafi ekki skilað sér til þeirra sem honum var beint gegn.

Það fór ekki mikið fyrir þessari tilkynningu. Nokkrir fjölmiðlar höfðu þetta orðrétt upp úr Lögregluvefnum, en ég man ekki eftir einu einasta viðtali við lögreglumann um málið, svo dæmi sé tekið. Aftur á móti minnir mig að viðtal hafi verið haft í einhverjum fjölmiðli við auglýsingasmið sem sagði að ekki væri þess að vænta að áróðurinn væri strax farinn að skila árangri.

Síðan lögreglan sendi frá sér þessa tilkynningu hafa ekki borist fregnir af öðru en áframhaldandi ófremdarástandi í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu. Fréttir um ofsaakstur ungra ökumanna með ylvolg bráðabirgðaökuskírteini eru daglegt brauð. Ekki meira um það að segja, að því er virðist.

Ég verð að viðurkenna að ég hef litlar áhyggjur af þeim náttúruspjöllum sem virkjunarframkvæmdir valda á Íslandi, og enn minni af vaxandi gróðurhúsaáhrifum. Það er að segja, áhyggjur mínar af þessu tvennu eru hverfandi miðað við þær áhyggjur sem ég hef af því að fólk haldi áfram að deyja í umferðarslysum.

Ég vildi óska að allur krafturinn og öll ástríðan sem sett er í mótmæli gegn virkjunarframkvæmdum og losun gróðurhúsaáhrifa væri sett í að sporna gegn dauðsföllum í umferðinni. Með þessu er ég ekki að segja að það sé út í hött að mótmæla náttúruspjöllum og gróðurhúsaáhrifum. Ég er öllu heldur að segja að það væri óskandi að fólkið sem hefur fítonskraftinn og réttlætiskenndina – sem er ekki síst ungt fólk – myndi beina kröftum sínum að umferðarmálum.

Þegar farið var um daginn af stað með átak til bættrar umferðarmenningar voru haldnir borgarafundir á sjö stöðum á landinu þar sem meðal annars kom fram fólk sem hafði misst ástvini í umferðarslysum, og einnig miðluðu af reynslu sinni sjúkraflutningamenn sem komið hafa að alvarlegum umferðarslysum. Það var dálítið skrítið hversu lítið fór fyrir frásögnum þessa fólks í fjölmiðlum og almennri umræðu. Þær hurfu mjög flótt af sjónarsviðinu. Í samanburði var ótrúlegt hvernig fjölmiðlar og almenningsálitið fóru á límingunum þegar Ómar Ragnarsson tilkynnti að hann væri orðinn náttúruverndarsinni og ætlaði að vera á árabáti á Hálslóni.

Þessi áhersluslagsíða er reyndar hvorki einsdæmi né séríslenskt fyrirbæri. Fyrir ekki löngu síðan var haldin mikil ráðstefna í Sydney í Ástralíu þar sem fjallað var um offituvandann í hinum vestræna heimi, sem vissulega er gríðarlegur. En það fór ekki mikið fyrir almennri umræðu um það sem fram kom á þessari ráðstefnu, og varla að hún sæist á radar íslenskra fjölmiðla. Samt er það nú svo, að offita verður margfalt fleiri að aldurtila en til dæmis fuglaflensa.

Læknar hafa ennfremur bent á að það sé misræmi í því hversu lítið heimspressan fjalli um hjarta og æðasjúkdóma miðað við að þetta sé sá sjúkdómur sem dragi flesta jarðarbúa til dauða. Umfjöllun um áðurnefnda fuglaflensu, HABL og AIDS sé margfalt meiri, þótt áhrifin sem þessir sjúkdómar – svo alvarlegir sem þeir vissulega eru – séu ekki nærri eins útbreidd og djúpstæði og áhrifin sem hjarta- og æðasjúkdómar hafi. Í raun sé því mun meiri þörf á aðgerðum gegn hjarta- og æðasjúkdómum en til dæmis fuglaflensu og AIDS.

Hvað veldur þessari bjögun á athygli? Hvers vegna vekur ófremdarástand í umferðarmálum ekki nærri því jafn mikinn og viðvarandi áhuga og meint náttúruspjöll af völdum virkjunarframkvæmda, jafnvel þótt hið fyrrnefnda kosti beinlínis mannslíf, en hið síðarnefnda ekki?vHvasdfsaj Vissulega má halda því fram að þarna sé um að ræða ósambærilega hluti, en ég held að viðbrögð almennings og fjölmiðla við þeim séu fyllilega sambærileg. Í báðum tilvikum er um að ræða viðbrögð við ástandi sem talið er óviðunandi.

Fleira kemur til. Umferðarslys og hjartasjúkdómar eru hvort tveggja menningarbundin óáran, eða lífstílsbundin. Og hvort tveggja hefur verið stór hluti af lífi Vesturlandabúa um langa hríð. Hið sama má núorðið segja um offitu. Þannig að það er ekkert nýtt við þetta, og sagt hefur verið að "breyting á ríkjandi ástandi" sé það sem skilgreini hvað sé frétt og hvað ekki. Umferðarslys og hjartasjúkdómar falla þannig utan hefðbundinnar skilgreiningar á frétt, en sinnaskipti Ómars Ragnarssonar eru stórfrétt.

Einnig ræður þarna eflaust miklu að hjartasjúkdómar og "ástandið í umferðinni" eru orðin harla hversdagsleg óáran og verið felld undir verksvið tiltekinna stofnana – sjúkrahúsa og lögreglu. Það er því komið á könnu "fagaðila" að takast á við þessa hluti, þannig að okkur hinum finnst við vera stikkfrí og geta beint kröftum okkar að nýstárlegri og göfugri vandamálum.

Enda finnst eflaust mörgum eitthvað óviðeigandi við það að lögreglan skuli opinberlega gagnrýna háttarlag ökumanna í umferðinni. Slíkt telst kannski ekki "faglegt" af lögreglunni. En ég verð að segja eins og er, að ég vildi að lögreglan gerði meira af því að húðskamma opinberlega þá sem keyra eins og fífl.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband