Bílabullur

Tilbrigði við Brand 2

Viðhorf, Morgunblaðið 10. október 2006. 

Breski sjónvarpskokkurinn og Íslandsvinurinn Jamie Oliver sagði um daginn að foreldrar sem sendu börn sín með ruslmat í nesti í skólann væru fífl. Hann sagðist ekki nenna lengur að vera kurteis. Það yrði einfaldlega að nefna hlutina sínum réttu nöfnum. Og foreldrarnir yrðu að taka sig á.

Af einhverjum ástæðum koma þessi orð Olivers upp í hugann þegar lesnar eru fréttir um íslenskar bílabullur sem stunda ofsaakstur og stefna þannig eigin lífi og lífi annarra í voða. Bullurnar líta á sig sem fórnarlömb ef löggan gómar þær, og dæmi munu vera um að foreldrar bílabullanna reyni að "útskýra" hegðun afkvæma sinna fyrir lögreglunni.

Það skiptir máli í umræðum um ósæmilega hegðun í umferðinni að ekki eru endilega allir sem aka greitt þar með orðnir að bílabullum. Lögreglan segir vera nokkurn mun á hraðakstri og ofsaakstri. Þeir sem teknir eru fyrir of hraðan akstur á götum og þjóðvegum landsins eru á öllum aldri og af báðum kynjum. En lögreglan segir að er komi að ofsaakstri og glannaskap eigi undantekningarlítið í hlut ungir strákar. Í mörgum tilvikum með glæný ökuskírteini. En það er auðvitað sama, það er framferðið, en ekki aldur og kyn, sem gerir karla eða konur að bílabullum.

Íslenskar bílabullur eiga það sameiginlegt með enskum fótboltabullum að fá útrás fyrir tilfinningar sínar og kenndir á kostnað meðborgara sinna. Reyndar má telja líklegt að stór hluti af "kikkinu" sem bullurnar fá út úr framferði sínu sé fólginn í því að gera annað fólk skelkað og gefa skít í það með því að koma fram við það á ógnandi hátt. Þetta er því ekki annað en gamla sagan um að gera sjálfan sig stóran með því að lítillækka aðra. Þess vegna er þetta afskaplega ómerkileg hegðun og til marks um lítinn þroska. Oft má auðvitað rekja þetta til ungæðisháttar.

En er þetta svona einfalt? Fyrir fáeinum árum, þegar ensku fótboltabullurnar höfðu einu sinni sem oftar látið til sín taka á meginlandi Evrópu - ég man ekki í hvaða landi - og Englendingar sátu undir skömmum og háðsglósum á alþjóðavettvangi fyrir þessa stórkostlegu útflutningsafurð sína, kom Tony Blair forsætisráðherra bullunum til varnar og sagði að þrátt fyrir allt birtist í bullunum sami frumkrafturinn er hefði komið Englendingum vel í styrjöldum undanfarinnar aldar.

Það má með sama hætti finna, ef nánar er að gáð, mikla aðdáun í íslensku samfélagi á óbeisluðum frumkraftinum sem er til dæmis víða lýst í Íslendingasögunum. Hér er ríkjandi sú rómantíska hugmynd að óheftir og sterkir menn sem láta ekkert aftra sér, síst af öllu siðapredikanir, áminningar um góða hegðun og annan tepruskap, séu þeir sem drífi samfélagið áfram til framfara og umbóta. Að án þessara sterku manna sætum við enn við sjálfsþurftarbúskap, eða værum að minnsta kosti ekki sjálfstæð þjóð.

Þessi hugmynd um nauðsyn þess að sterkir menn fái að fara sínu fram óheftir til að við hin - tilfinngabældu teprurnar - fáum notið góðs af og flotið með í kjölsoginu af þeim leiðir aftur á móti til þess að við teljum okkur trú um að við verðum að umbera agaleysið, bulluháttinn og fylliríið, sem óhjákvæmilega fylgifiska frumkraftsins sem er okkur svo nauðsynlegur til að drífa okkur áfram og koma í veg fyrir að þjóðfélagið staðni. Og það sem hugsanlega væri allra verst - að við glötum sjálfstæðinu.

Þetta er sama aðdáun og menn láta í ljósi yfir skrímslinu Agli Skallagrímssyni, sem hefur lifað sem hetja í íslenskri þjóðarsál þrátt fyrir að sagan sem kennd er við hann beri með sér að hann hafi fyrst og fremst verið morðingi og fyllibytta, og strax í barnæsku sýnt merki um að vera að flestu leyti dusilmenni hið mesta. En - og það skiptir öllu - hann var skáld og gaf skít í kónginn. Frummaður sem lét ekki yfirvald segja sér fyrir verkum. Og slíkt kann íslensk þjóðarsál að meta. Enn þann dag í dag fer um hana unaðshrollur þegar fregnir berast af "íslenskum víkingum" sem verða ríkir á bissniss í útlöndum.

Þessir Skallagrímssynir nútímans, sem gefa skít í lögguna og fara í stórsvigi niður Ártúnsbrekkuna á hundrað og sextíu, eiga sér þannig djúpstæðan og traustan sess í hinni rómantísku íslensku þjóðarsál. Ef einhver af þessum bílabullum skyldi nú reynast skáldmælt og færi að sýna orðfimi sína á live2cruize.com myndi hún á einni nóttu verða hafin upp til skýjanna sem þjóðhetja. Og vei þeim lögreglumönnum sem gera myndu tilraun til að hefta för hins skáldmælta Skallagrímssonar á Imprezunni.

Kjarninn í þeim rómantíska hugsunarhætti sem hér er á ferðinni er draumur hins kúgaða um frelsi, og drifkrafturinn er réttlát reiði þess er býr við ósanngjarnt hlutskipti. Þar af leiðandi reka bullurnar upp ramakvein fórnarlambsins þegar lögreglan hefur afskipti af þeim. En bullurnar búa í raun og veru hvorki við kúgun né ósanngjarnt hlutskipti, og þess vegna eru kvein þeirra svo hjákátleg - og kannski umfram allt barnaleg.

Það væri óskandi að rómantíkin og víkingadýrkunin - sem er í rauninni lítt dulbúin sjálfsdýrkun - færi að líða undir lok á Íslandi. Það væri líka óskandi að horfið yrði frá þeirri hugsun að það sé dyggð að æða áfram og sjást ekki fyrir, fara sínu fram hvað sem hver segir. "Íslenska aðferðin" er ekki dyggð heldur skammaryrði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband