KGA

Við erum í miðri byltingu

Enn fjölgar vísbendingunum um að Ísland sé ekki einungis í miðri fjármálakreppu heldur einnig í miðri byltingu. Ef til vill blasir ekki beint við, að nú standi yfir bylting. Þegar maður hugsar um byltingu dettur manni í hug ofbeldi og blóð, herskár mannfjöldi sem “tekur á sitt vald”, eins og sagt er í fréttum, opinberar stofnanir.

  Hin eiginlega framvinda byltingar er aftur á móti með allt öðrum hætti, og ekki nærri eins dramatísk. Meira að segja mætti halda því fram, að kjarninn í byltingum sé svo lágstemmdur að hann fari hreinlega framhjá fjölmiðlum, sem aldrei kveikja á neinu nema það sé hávaðasamt og dramatískt.

  Það sem fjölmiðlar sjá og greina frá sem “byltingu” eru fjöldasamkomur, þrumandi ræðumenn og því um líkt, það er að segja, atburðir sem falla að hinni fyrirfram gefnu skilgreiningu á byltingum, skilgreiningu sem fengin er úr fréttum, sögum og jafnvel kvikmyndum, en ekki raunveruleikanum, sem er allt of hægfara og tilbreytingarsnauður til að athyglisbrostnir fjölmiðlar taki eftir honum.

  En hverjar eru þá þær vísbendingar um að bylting standi yfir, sem hefur mátt sjá undanfarið, ef að er gáð?

  Bylting felur í sér að viðtekið viðmið hverfur og annað kemur í staðinn. Viðmið er þær fyrirfram gefnu forsendur sem ekki er efast um þegar staða mála er vegin og metin og ákvarðanir teknar um hvaða viðfangsefni það séu sem leysa þurfi, með hvaða hætti þurfi að leysa þau, hverjir megi takast á við þau, og ef til vill umfram allt hvað geti talist lausn á viðfangsefninu.

  Og viðmið búa ekki síst í fólki með fastmótaðar hugmyndir og lífsgildi. Lokahnykkur byltinga er í því fólginn, að síðustu einstaklingarnir af gömlu kynslóðinni hverfa af hinum opinbera vettvangi. Hér í gamla daga var þetta fólk fjarlægt með hinum ruddalegasta hætti, oft með því að gera það bókstaflega höfðinu styttra, en sem betur fer er sá ósiður nú aflagður. Nú er fólk sent í launaða útlegð.

  Byltingar byrja á mjög eindreginni tilfinningu fyrir því, að ríkjandi aðferðir dugi ekki til að leysa aðsteðjandi vanda. Hér á landi fylgdumst við þannig lengi með vonlausri baráttu Seðlabankans við að ná verðbólgumarkmiði. Margir höfðu orðið heiftarlega á tilfinningunni að verðbólgumarkmið og stýrivextir væru vitagagnslaus tæki til að leysa þann vanda sem að steðjaði.

  Hérlendis hefur lengi verið um það þegjandi samkomulag að framkvæmdavaldið sé hið eiginlega löggjafarvald. Þetta sést á því, að hér er lögð mikil áhersla á að mynda ríkisstjórn með stóran meirihluta á þingi. Minnihlutastjórnir þykja algjört neyðarbrauð. Nú hefur þögnin um þetta samkomulag verið rofin, og þar með samkomulagið. Nokkrir þingmenn – meira að segja stjórnarliðar – vilja breytingu á þessu ríkjandi ástandi.

  Ný kynslóð þingmanna og ráðherra, sem hefur öðru vísi hugsunarhátt en fyrri kynslóð, er nú skyndilega farin að láta í sér heyra, því að hún hefur orðið svo yfirþyrmandi tilfinningu fyrir því að þörf sé á nýjum aðferðum til að hægt sé að leysa aðsteðjandi vanda. Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra og Björgvin G. Sigurðsson bankamálaráðherra eru fulltrúar þessarar nýju kynslóðar.

  Þau létu í ljósi þá skoðun, að efna beri til kosninga til að leita endurnýjaðs umboðs fyrir valdhafann. Þessi kynslóð telur að sú lýðræðisframkvæmd sem í kosningum felst sé svo mikilvæg að til hennar verði að grípa þrátt fyrir að ytri aðstæður séu langt í frá hallkvæmar. Þetta er til marks um öðru vísi forgangsröðun en hingað til hefur verið viðtekin.

  Eldri kynslóð sýnir þessum breyttu viðhorfum andstöðu. Fulltrúar þeirrar kynslóðar eru oddvitar stjórnarflokkanna. Það er svo enn ein vísbendingin um byltingu, að átökin milli kynslóðanna eru orðin sýnileg. Framvinda byltingarinnar verður svo með þeim hætti, að smám saman skipta fleiri og fleiri úr hópi fulltrúa hins fráfallandi viðmiðs um skoðun og fallast á hið nýja. Þeir sem allra fastast standa gegn því hverfa af sjónarsviðinu. Við sáum afgerandi dæmi um þetta einkenni byltinga þegar Guðni Ágústsson sagði skyndilega af sér og fór til Kanarí. Fleiri dæmi munum við sjá þegar bankastjórar Seðlabankans hverfa um leið og bankinn verður sameinaður Fjármálaeftirlitinu.

  Það hefur líka verið hluti af ríkjandi viðmiði hér á landi, að það væri hluti af íslenskri þjóðarvitund að við tilheyrum ekki Evrópusambandinu. Andstaða við ESB hér á landi hefur að miklu leyti átt rætur í þeirri hugsun að ESB-aðild væri ekki samræmanleg sjálfsskilgreiningu þjóðarinnar.

  Nú má sjá vísbendingu um að þetta sé að breytast, og að bráðum hættum við að skilgreina okkur með því sem við erum ekki, og förum að skilgreina okkur með því sem við erum. Það er að segja, þjóðernishyggjan sem var stór hluti gamla viðmiðsins hopar fyrir alþjóðahyggjunni sem er hluti nýja viðmiðsins.

  Þegar yfirstandandi bylting verður afstaðin verður Ísland breytt, fyrst og fremst vegna þess að hugmynd Íslendinga um sjálfa sig verður orðin öðru vísi en hún er núna. Þegar núverandi kynslóð ráðamanna hverfur af vettvangi kemur í staðinn kynslóð sem hefur mótast af erlendum hugmyndum, ekki síður en ömmum sínum.

(Birtist í Morgunblaðinu 26. nóvember)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það er svo rétt að taka fram, svo heimilda sé nú getið, að byltingarskilgreiningin sem notuð er hér að ofan er fengin frá Thomasi Kuhn, eins og kunnugir munu glöggt sjá. En þar sem hann tók vara við því að hún væri notuð í pólitísku og félagslegu samhengi ákvað ég að vera ekki að nefna nafn hans í greininni. Má þó til með að geta þess hér. Ég vona að enginn misvirði við mig þessa "misnotkun" á Kuhn.

Kristján G. Arngrímsson, 26.11.2008 kl. 09:00

2 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Þetta er fín grein og mikið til í henni hjá þér. Ég vil helst tala um hugarfarsbyltingu og vona svo innilega að breytingarnar sem liggja í loftinu verði að veruleika og viðhorfin hin nýju byggi á raunverulegum lýðræðislegum leiðum.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 26.11.2008 kl. 09:01

3 Smámynd: Andrés.si

Ég segi sama í margar víkur. Athygli vekur að engin fjölmiðill segir ekki frá byltingu, nema fundir og laugardagar á Austurvelli. :)

Andrés.si, 26.11.2008 kl. 12:42

4 Smámynd: Diesel

Flott grein. Mikið til í þessu.

Langar svo að benda á færsluna Vaxtaokur á blogginu mínu.

Diesel, 26.11.2008 kl. 15:03

5 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Góð grein.

Georg P Sveinbjörnsson, 26.11.2008 kl. 20:22

6 Smámynd: Haraldur Hansson

Las þessa fínu grein í Mogga í dag. Skil lokakaflann sem spá um veru Íslands í ESB innan fárra ára, það kemur í ljós hvort hún gangi eftir.

Haraldur Hansson, 26.11.2008 kl. 20:54

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Eru ný kynslóð þingmanna og ráðherra byltingarhetjur? Þórunn Sveinbjarnardóttir og Björgvin G Sigurðsson?

Hvað með Ragnar Reykás?

Eða er þetta kannski leynibylting?

Magnús Sigurðsson, 26.11.2008 kl. 20:59

8 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það eru engar hetjur í byltingum. Svoleiðis er bara í sögum og goðsögnum um byltingar. Í sögum eru menn sem halda þrumandi ræður yfir lýðnum og leiðir honum hinn stóra sannleika fyrir sjónir. En í raunveruleikanum er ekki heldur til neinn stór sannleikur.

Byltingar, eins og þær eru í fréttum, sögum og kvikmyndum eru í rauninni ekki til. Það er ekki þar með sagt að byltingar séu ekki til.

Kristján G. Arngrímsson, 26.11.2008 kl. 22:10

9 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það væri auðvitað heimssögulegu viðburður ef bankamálaráðherra yrði skilgreindur sem byltingarhetja.

Magnús Sigurðsson, 26.11.2008 kl. 23:45

10 identicon

Magnús, þú er gott dæmi um: " Eldri kynslóð (sem) sýnir þessum breyttu viðhorfum andstöðu"

Elvar Geir Sævarsson 27.11.2008 kl. 08:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband