Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Snákar í jakkafötum

c_documents_and_settings_ibm_desktop_image006.jpg

Viðhorf, Morgunblaðið, 7. júní 2006.

Um hvað nákvæmlega voru þeir Jeff Skilling og Ken Lay, fyrrverandi stjórnendur Enron, fundnir sekir núna um daginn? Það hét vissulega að kviðdómurinn í Houston kæmist að þeirri niðurstöðu að þeir væru sekir um ýmis lögbrot - skjalafals, yfirhylmingu, ósannsögli og ýmislegt fleira sem lög kveða á um að sé bannað.

En maður þurfti ekki að fylgjast lengi með fréttum af gangi réttarhaldanna, frásögnum af yfirheyrslum og gagnyfirheyrslum, og einkum málflutningi saksóknara, til að komast að því að það sem þeir Skilling og Lay voru eiginlega ákærðir fyrir - og fundnir sekir um - var siðblinda. En það varð að heita eitthvað annað því að strangt til tekið er siðblinda ekki lögbrot, hún er persónuleikabrestur.

Í tilefni af dómnum yfir Skilling og Lay hafa fjölmiðlar vestanhafs fjallað dálítið um nýútkomna bók sem heitir því skemmtilega nafni Snákar í jakkafötum - siðblindingjar hefja störf (Snakes in Suits: Psychopaths Go To Work), og er eftir þá Robert Hare, fyrrverandi sálfræðiprófessor við Háskólann í British Colombia í Kanada, og Paul Babiak, iðnaðar- og fyrirtækjasálfræðing í New York, en hann rannsakar siðblindu innan fyrirtækja. Hér er stuðst við umfjöllun The Globe and Mail í Kanada um bókina.

Hare er einn helsti sérfræðingurinn í heiminum í rannsóknum á siðblindu, og er höfundur fræðilegrar skilgreiningar á siðblindu sem víða er stuðst við. Fyrir um aldarfjórðungi bjó hann svo til greiningartæki, svonefndan siðblindugátlista, sem nota má til að verjast siðleysingjunum.

Siðblinda er ekki geðveiki. Hún er, eins og fram hefur komið, persónuleikabrestur. Grundvallareinkenni hennar eru algjört samviskuleysi og fullkominn skortur á hluttekningu og samúð. Siðblindingjar eru gráðugir, sjálfselskir, svikulir, óáreiðanlegir og gjarnir á að fá óhamin reiðiköst. Þeir eru rándýrin í mannfélaginu. En við fyrstu kynni eru þeir algjörlega heillandi, skilningsríkir og sjálfsöryggið skín af þeim.

Þeir Hare og Babiak telja að á undanförnum tveim áratugum hafi orðið gríðarlega hraðar breytingar á vettvangi stórfyrirtækja í Ameríku, ekki síst vegna netfyrirtækjabólunnar sem sprakk. Hún hafi meðal annars valdið því að gömul og gróin stórfyrirtæki hafi skroppið saman og/eða runnið saman við önnur. Samkeppnin hafi líka harðnað ofboðslega. Þetta hafi, án þess að það hafi beinlínis verið ætlunin, búið í haginn fyrir fólk haldið siðblindu.

Hare gengur svo langt að fullyrða að nú sé svo komið að það sé eiginlega vænlegra til frama innan stórfyrirtækja að tileinka sér viðhorf siðblindingjanna. Þetta sé ekki síst vegna þess að í samfélaginu almennt aukist nú áherslan á yfirborð og stíl á kostnað áherslu á innihald og grunnatriði. Slíkt geri þeim siðblindu auðveldara um vik að athafna sig án þess að komast í kast við lögin.

Ekki svo að skilja að allir sem komast til metorða innan stórfyrirtækja séu fyrirlitlegir siðleysingjar. Fyrr mætti nú vera. Metorðin segja ekkert um siðgæði fólks, það eru aðferðirnar sem það beitir, og þá fyrst og fremst viðhorf þeirra til samstarfsmanna sinna, sem skera þar úr. Hare segir að líklega sé erfðagalla um að kenna - en vissulega hafi félagslegt umhverfi áhrif - að siðblint fólk finnur ekki tilfinningar á borð við depurð, ótta, sektarkennd og iðrun, þótt það hafi fullkomlega vitsmunalegan skilning á þessum tilfinningum.

En siðblindingjarnir upplifa aldrei tilfinningarnar sjálfar og geta þar af leiðandi ekki haft eiginlegan skilning á því hvernig öðru fólki - sem hefur þessar tilfinningar - raunverulega líður. Og þar af leiðandi geta siðblindingjarnir ekki sett sig í spor þessa fólks. Það mætti líkja þessu við að maður myndi lesa og læra allt sem hægt er að læra um tannpínu, en maður myndi samt ekki í raun og veru skilja þjáningu þess sem haldinn er tannpínu ef maður hefði aldrei fengið hana sjálfur.

Hare telur að í Norður-Ameríku sé um það bil eitt prósent íbúanna siðblint. Þótt siðblint fólk sé í sumum tilfellum vissulega fært um að fremja morð sé það í flestum tilvikum greint og vel upp alið og "nýti" því þennan eiginleika sinn fremur til að öðlast völd, virðingu og peninga. Siðblindingjar séu því í fæstum tilvikum beinlínis hættulegir.

Nú verður auðvitað ekkert um það fullyrt að Skilling og Lay séu siðblindir. Vera má að þeir séu bara "venjulegir Machiavellianar". En hvenær á maður að fara að hafa áhyggjur af því að ekki sé allt með felldu og að maður sem lítur út fyrir að vera traustur og öflugur starfsmaður sé í rauninni siðlaust rándýr?

Hare og Babiak hafa sett saman nýjan lista, svonefnt "Business Scan 360", sem er ætlaður fyrir fyrirtækjastjórnendur sem vilja finna siðblindingjana sem kunna að leynast innan um heiðarlega starfsmenn. Meðal tíu "hættumerkja" sem geta gefið vísbendingu um að siðblindingi sé á ferðinni eru, þótt það kunni að hljóma undarlega, að viðkomandi starfsmaður virðist yfirvegaður, hefur fágaða framkomu og heillandi persónuleika. Flestar samræður hans snúast um hann sjálfan; hann gerir lítið úr öðrum til að bæta eigin ímynd og orðspor; hann lítur svo á að fólk sem hann hefur kveðið í kútinn eða ráðskast með sé heimskt og hann er tækifærissinni, miskunnarlaus og þolir ekki að tapa.

Hættumerkin eru fleiri, en öflugasta vopn þess siðblinda er einstakur hæfileiki hans til að villa á sér heimildir - til að koma sér í mjúkinn hjá fórnarlambinu áður en hann lætur til skarar skríða.


Um réttlæti og málagjöld

Umsögn um bókina Justice and Desert-Based Emotions, eftir Kristján Kristjánsson. Ashgate, London, 2006. 230 bls. (Morgunblaðið, 9. maí).

SVONEFNDUR "naturalismi" í heimspeki (ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvort hyggilegra væri að nefna hann náttúruhyggju eða eðlishyggju á íslensku) kveður í grófum dráttum á um að heimspekin geti leitað í smiðju annarra fræða og vísinda eftir aðferðum og tækni til þekkingarleitar. Reyndar er naturalisminn ekki strangt skilgreindur, en þó má segja að helsti kjarninn í honum sé að ekki er lengur litið svo á að sérstök heimspekileg aðferð veiti öruggari þekkingu en aðferðir annarra fræða og vísinda. Lögð er áhersla á að tekið sé tillit til greinanlegra staðreynda og raunverulega aðferða, til dæmis vísindanna. Um leið var slakað á kröfunni um gagnrýna afstöðu. Því má segja að með naturalismanum hafi heimspekin verið leidd af þeirri braut að segja fyrir um hvernig hlutirnir skuli vera og notuð til greiningar á því hvernig málum er í raun háttað.

Sú spurning sem Kristján Kristjánsson tekst á við í þessari bók er hvort réttlæti tengist með einhverjum hætti tilfinningum fólks. Þess vegna leitar hann liðsinnis í sálfræði, félagsfræði og kennslufræði til að grafast fyrir um hverjar tilfinningar fólks gagnvart réttlæti raunverulega eru, en fæst ekki einungis við skilgreiningu hugtaksins með því sem kalla mætti heimspekilegum hætti. Kristján segir að innan heimspekinnar hafi að undanförnu orðið meginbreyting á hugmyndum og skrifum um réttlætishugtakið. Horfið hafi verið að nokkru leyti frá þeirri hefðbundnu nálgun að líta á réttlæti fyrst og fremst sem eiginleika opinberra stofnana, eins og John Rawls hafi til dæmis gert í einu frægasta heimspekiriti 20. aldar, Kenningu um réttlæti (A Theory of Justice), 1971, og að spurningin um réttlæti sé þá fyrst og fremst spurningin um það hvort og þá hvernig sameignlegum gæðum sé skipt.

Þess í stað séu heimspekingar farnir að hugsa um réttlæti sem eiginleika fólks. Spurningin er því sú, hvernig raunverulegt fólk hugsi raunverulega um réttlæti. Hvað finnst fólki að átt sé við þegar talað er um réttlæti? Væri Kristján hér á hefðbundnum rökgreiningarheimspekislóðum myndi hann væntanlega snúa sér að því að smíða rökþétta skilgreiningu á réttlætinu sem væri alsendis óháð því hvernig fólk í raun og veru hugsar um réttlæti, en þar sem Kristján hefur hér gerst merkisberi ofnagreinds naturalisma vill hann fremur að leitað verði á slóðir sál- og félagsfræði til að komast að því hverjar hugmyndir fólk í raun og veru hefur um réttlæti og að heimspekinni verði síðan beitt sem greiningartæki á þær, kannski ekki ósvipað því hvernig líffræðingar beita vísindagrein sinni sem tæki til greiningar á gögnum sem safnað hefur verið úti í náttúrunni.

Ef til vill má því segja að með þessum naturalisma, sem líklega verður talinn meginþráðurinn í heimspeki síðari hluta 20. aldar (og nafn Ludwigs Wittgensteins þar helsta kennileitið), hafi heimspekin reynt að komast niður á jörðina. Heimspekingar eru teknir til við að fjalla um raunverulegar hugmyndir, það er að segja, hugmyndir sem fólk í raun og veru hefur, í stað þess að einbeita sér kannski frekar að mögulegum hugmyndum og þá jafnvel harkalegri gagnrýni á þessar raunverulegu hugmyndir fólks vegna meintra röklegra mótsagna í þeim. Heimspekingarnir hafa því leitað til félagsvísindanna eftir aðstoð við að komast að því hverjar þessar raunverulegu hugmyndir fólks eiginlega eru. Helsti áhrifavaldurinn í þessari þróun heimspekinnar eru auðvitað raunvísindin.

Kristján segir það vera eitt helsta markmið sitt með bókinni að "færa rök fyrir nauðsyn á samvinnu heimspekinga og félagsvísindamanna í umfjöllun um réttlæti" (bls. 6), auk þess að "kanna hlutverk málagjalda í réttlætinu" og "útskýra aukinn áhuga" heimspekinga á tilfinningaþætti réttlætishugtaksins. Ennfremur segist Kristján leitast við að kanna þær tilfinningar sem helst eiga rætur í hugmyndinni um málagjöld og draga fram tengsl umfjöllunar sinnar við nýlega þróun mála í þróunar- og félagssálfræði. Þá vill hann réttlæta málagjöld með siðferðislegum hætti, og þær tilfinningar sem eiga rætur að rekja til hugmyndarinnar um málagjöld. Að lokum segist Kristján svo veita ráð um hvernig fjalla skuli um réttlæti og málagjöld í siðferðiskennslu í skólum. (Þetta síðastnefnda atriði varðar svo í rauninni spurningu sem er í sjálfri sér mjög athyglisverð, og Kristján fjallar um í lokakafla bókarinnar. Það er að segja, hvort kenna eigi í skólum hvað sé dyggð og hvað ekki, eða hvort láta eigi duga að kenna nemendum aðferðir við að leggja sjálfir mat á slíkt. Kristján segir að það hafi sýnt sig að það sé ekki nóg að ætla einungis að kenna aðferðir).

Ég hef ekki forsendur til að taka afstöðu til þess hvort Kristján nær þessum yfirlýstu markmiðum sínum í bókinni. Að allri uppbyggingu er þetta mjög hefðbundin rökgreiningarheimspekibók, og það gerir hana þægilega og aðgengilega fyrir lesendur sem eiga slíkri uppbyggingu að venjast. Enda eru þeir væntanlega meginmarkhópur bókarinnar; aðrir heimspekingar sem taka þátt í þeirri umræðu sem bókin er framlag til. Markhópurinn veit upp á hár að hverju hann gengur. Aftur á móti virkar þessi stranga formbinding kannski fráhrindandi fyrir "almennan" lesanda og dregur þannig úr möguleikum hans á að átta sig á þeim hugmyndum sem settar eru fram í bókinni. Honum kann að finnast hún ruglingsleg og dálítið þraskennd. En þannig er nú einu sinni lífið í akademíunni, utanaðkomandi sýnist gjarnan að það sé tómt þras. Ég get ekki heldur lagt á það mat hvort bókin hefur fram að færa eitthvað nýtt í þeirri umræðu sem hún er framlag til, en sú staðreynd að hún er gefin út af akademísku forlagi bendir til að svo muni vera.

En það væri vissulega fróðlegt að vita hvað félagsvísindamönnunum sem Kristján biðlar til finnst um bókina; hvort þeim finnst hún skiljanleg og hvort þeim sýnist að hún gæti nýst með þeim hætti sem höfundur segir henni ætlað að gera, auk þess að vera framlag til tiltekinnar umræðu innan akademískrar heimspeki. En Kristján ætlar bókinni líka enn eitt hlutverkið, og það er líklega fremur óvenjulegt fyrir bók af þessu tagi. Hann leggur hana fram eins og sáttahönd; sem framlag til friðarferlis með aðild heimspekinga og félagsvísindamanna, sem Kristján segir að hafi löngum eldað grátt silfur saman. Það má segja að Kristján sé að sumu leyti að grafa stríðsöxina sjálfur, en ekki aðeins að hvetja aðra til að gera slíkt, því að í fyrri skrifum sínum hefur hann ekki vandað félagsvísindamönnum kveðjurnar, eins og til dæmis í bókinni Þroskakostum, ritgerðasafni sem kom út 1992. Þar fór hann eiginlega háðuglegum orðum um til dæmis kennslufræði og félagsfræði og sagði það fólk sem stundaði hug- og félagsvísindi löngum hafa verið þungt haldið af hinni illræmdu afstæðishyggju, sem heimspekingar - og þá fyrst og fremst rökgreiningarheimspekingar 20. aldar - hafa litið á sem helsta óvin sinn og að ætla mætti alls mannkyns.

Nú veit ég ekki hvort Kristján hefur með tímanum linast í heittrúnaði sínum (eins og mönnum er jú títt með auknum þroska), eða hvort hann telur félagsvísindamenn hafa náð áttum og horfið frá afstæðishyggjuvillunni. En mér finnst sáttatónninn í honum nú vera tvímælalaus kostur á þessari bók.


Rétt hjá Matthíasi

Það er líklega alveg hárrétt hjá Matthíasi Johannessen, sem kom fram í viðtali við hann í útvarpinu á annan í páskum, að estetískar kröfur eru að engu orðnar. Nú er allt "hugsanlega gott" og bara spurning um að ná góðri markaðssetningu og fá fólk þannig til að trúa því að um sé að ræða "góðan" skáldskap. Það hefði verið gaman ef Matthías hefði velt svolítið vöngum yfir því hvers vegna svona er komið.

Kannski - eins og hann nefndi í dálítið öðru samhengi - hefur túlkunaráráttan gengið af skáldskapnum sjálfum dauðum. Túlkunin - teorían - er sjálf orðin að listformi og einskonar upphafning á skáldskap (byggist á honum en afneitar honum um leið) og þar með er skáldskapurinn ekki lengur á stalli. Hann er ekki dásamaður heldur nýttur. Fræðingarnir líta ekki lengur á sig sem verkamenn í garði skáldgyðjunnar heldur er þeir orðnir - í eigin huga að minnsta kosti - að embættismönnum hjá henni, ráðuneytisstjórum, kosningastjórum, og telja sér hæfa að segja henni fyrir verkum og telja að tilvist hennar sé í rauninni undir þeim komin. Með öðrum orðum, þeir eru farnir að líta niður á hana.

Skáldin eru ekki lengur vitar sem senda frá sér mikilvæg ljósboð sem við hin tökum mark á og förum eftir. Skáldin eru eins og hverjir aðrir iðnaðarmenn, og eins og hveiti er efniviður bakarans og steinsteypan efniviður múrarans er tungumálið efniviður skáldsins. Það er ekki lengur nein dulin merking í orðum skáldanna sem við hin leitum uppi og höldum að brjóstum okkar eins og miklum fjársjóði. Skáldin eru ekki lengur tenórar - þetta eru allt einhverskonar barítónar með stöku bassa inn á milli. Ég er ekki frá því að Matthías sjálfur sé einn síðasti skáldtenórinn sem til er á Íslandi. Enda kemst maður einhvernvegin í hátíðlegt skap við að hlusta á viðtal við hann.


"Guð er dauður en hárið á mér er óaðfinnanlegt"

Observer sagði um helgina frá nýrri bók þar sem franski heimspekingurinn Bernard-Henry Levy, betur þekktur sem BHL, er gagnrýndur harðlega og sagður tilgerðarlegur svikahrappur og holdtekja þess allra versta í frönsku menntalífi þessa dagana. Ég verð að viðurkenna að það hlakkaði í mér.

Ég vissi fyrst um tilvist þessa merka heimspekings fyrir fáeinum árum þegar ég sá grein um hann í Vanity Fair, með myndum af honum og fallegu konunni hans, leikkonunni Arielle Dombasle. Vægast sagt hlýtur að teljast fátítt að heimspekingar komist á síður þessa tímarits. En maður getur svosem haldið í vonina ...

Ókei, ég veit ekkert um heimspeki BHL og ég man satt best að segja ekkert af því sem ég las um hann í Vanity Fair hérna um árið. Ég reyndi að lesa eitthvað í greinaflokki sem hann skrifaði nýlega í Atlantic Monthly um för sína til Bandaríkjanna - í fótspor Alexis deTocqueville - en það var eitthvað svo ruglingslegt að ég gafst upp.

En BHL mun vera mikil fjölmiðlastjarna í Frakklandi og Observer segir hann klæðast "hættulega fráhnepptum, hvítum skyrtum, jakkafötum frægra hönnuða" og mælska hans sé ótvíræð. Hann hefur skrifað einhverjar "rannsóknarskáldsögur" sem seljast í metupplögum.

Í nýju bókinni er hann sakaður um ritstuld, uppspuna, hræsni og að njóta góðs af tengslum sínum við fjölmiðla sem verndi hann fyrir allri gagnrýni. Segir Observer. Höfundar bókarinnar segjast hafa reynt að sundurgreina "BHL-kerfið". Observer hefur eftir öðrum höfunda bókarinnar, Olivier Toscer: "Við teljum að fjölmiðlar hafi búið til goðsögn sem er undirstaða þess sem BHL er og þess sem hann gerir." Toscer er blaðamaður. Hann segir að BHL sé orðinn að "heilagri kú" í Frakklandi og gagnrýni á hann sé ekki leyfð. Semsagt einhverskonar Garðar Hólm-dæmi, nema hérna er Garðar Hólm heimspekingur.

Það þarf líklega ekki að taka fram að BHL er moldríkur - hann á íbúð á Vinstri bakkanum, hús í Suður-Frakklandi og höll frá átjándu öld í Marrakech. (Gott ef myndirnar í Vanity Fair voru ekki teknar þar). Blasir náttúrulega við að maðurinn hljóti að eiga sér öfundarmenn og skóníðinga. Observer segir að í nýlegri grein um hann hafi verið settur saman frasi: "Guð er dauður en hárið á mér er óaðfinnanlegt". 

Er ekki löngu kominn tími til að Lesbók Morgunblaðsins taki manninn upp á sína arma? Í það minnsta fræði íslensku þjóðina um hann og "heimspeki" hans. Og í guðanna bænum hafiði myndir með!


Viðhorf 6. apríl: Vandráður viðutan

Það sem þyrfti fyrst og fremst að breytast er sú hugsun að vísindamenn séu gáfaðri en annað fólk. Þá myndi nördastimpillinn um leið hverfa af vísindamönnum. 
Íslenskar grunnskólastúlkur hafa lítinn áhuga á að verða vísindamenn, og skólabræður þeirra hafa lítið meiri áhuga á því. Þetta kemur alveg greinilega fram í könnun sem gerð var fyrir nokkrum árum og sagt er frá í Rannísblaðinu 30. mars síðastliðinn. Þessar fréttir voru svo sem ekki óvæntar, fyrir ekki löngu síðan sagði fréttavefur breska ríkisútvarpsins frá því að þarlend grunnskólabörn hefðu ekki mikinn áhuga á að helga sig vísindunum.

Það er reyndar fleira sem íslensk og bresk grunnskólabörn eiga sameiginlegt í afstöðunni til vísinda. Til dæmis hafa börn í báðum löndum þá ímynd af vísindamönnum að þeir séu "utan við sig og nördalegir". Það má því ætla að prófessor Vandráður viðutan, góðvinur Tinna, lifi enn góðu lífi í hugum íslenskra og breskra skólabarna.

Það kemur ekki fram í greininni í Rannísblaðinu hvort íslenskir vísindamenn hafi einhverjar áhyggjur af þessu, en í fréttum BBC var haft eftir þarlendum starfsbræðrum þeirra að þetta væri mikið áhyggjuefni. Það hefur reyndar líka komið fram, að í Bretlandi hafa menn áhyggjur af því hversu fáir nemendur leggja stund á raungreinar, og þá sérstaklega eðlisfræði.

Nú má gerast svolítið raunvísindalegur og velta því fyrir sér hvort eitthvert orsakasamhengi sé milli ímyndar vísindamanna meðal grunnskólabarna og lítils áhuga barnanna á að leggja raunvísindi fyrir sig. Börnin - bæði á Íslandi og Bretlandi - töldu að starf vísindamannanna skipti miklu máli fyrir samfélagið allt, en það dugði ekki til.

Eitt af því sem fram kom hjá íslensku börnunum var sú hugmynd að "vísindamaður" sé karlmaður í hvítum slopp. Skyldi þetta vera ein ástæða þess að stúlkur eru síður líklegar til að verða vísindamenn. Eigum við að fara að tala um vísindakonur, þegar það á við, rétt eins og farið er að tala um þingkonur? Ef ég man rétt gildir það sama um stúlkur í Bretlandi og á Íslandi, að þær eru ólíklegri en strákar til að hafa áhuga á að gerast vísindamenn, og þar skiptir orðið ("scientist") engu máli þar sem það er kynlaust. Líklega er skýringin því flóknari.

Bresku vísindamennirnir, sem hafa áhyggjur af þessari þróun mála þar í landi, telja að ein helsta ástæðan fyrir því hvernig komið er sé sú, að kennsla í raunvísindagreinum í grunnskólum sé einfaldlega ekki nógu góð. Það vanti til dæmis kennara með menntun í þeim greinum sem kenndar eru. Of mikil áhersla sé lögð á að kennarar hafi kennaramenntun.

Í greininni í Rannísblaðinu, þar sem fjallað er um rannsókn sem Kristján Ketill Stefánsson, kennslufræðinemi í Ósló, gerði, er látið að því liggja að skortur á sjálfstrausti til að takast á við raunvísindi sé helsta ástæðan fyrir því að íslensk skólabörn geta ekki hugsað sér að verða vísindamenn. Stelpurnar hafa þá líklega minna sjálfstraust en strákarnir, ef þessar niðurstöður eru lagðar saman við þær sem áður voru nefndar, að stelpur séu ólíklegri en strákar til að vilja verða vísindamenn.

En líklega er ástæðan enn flóknari. Því er haldið fram, að stúlkur séu jafnan fyrri til að öðlast félagsþroska en drengir og að þær séu félagslega meðvitaðri en þeir. Kennarar hafa sagt frá dæmum um að stelpur beinlínis þykist heimskari en þær eru til þess að forðast að fá á sig nördastimpil. Nördar eiga nefnilega erfitt með að falla inn í jafningjahópa. Það er eiginlega partur af skilgreiningunni á "nörd" að hann á fáa vini, einfaldlega vegna þess að aðrir krakkar skilja hann ekki. Og flestum krökkum - kannski stelpum sérstaklega - finnst mest um vert að eiga vini. Það er í þeirra augum mikilvægara en að vinna einhver afrek, og lykillinn að hamingjunni. Sumir krakkar hafa sagt eftir á, að í barnaskóla skipti vinirnir mestu - á efri skólastigum fari námið að verða meira um vert.

Þess vegna langar grunnskólakrakkana ekki til að verða vísindamenn, jafnvel þótt þeim finnist starf vísindamanna mikilvægt. Vísindamenn hafa nefnilega enn þá ímynd að þeir séu nördar. Þeir eru Vandráður viðutan.

Þetta er slæmt af tveim ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að þetta er á misskilningi byggt. Vísindamenn eru ekki meira viðutan en gengur og gerist. Ímyndin er röng. Í öðru lagi vegna þess að þetta dregur úr möguleikum krakkanna á að öðlast þekkingu og skilning sem þau gætu vel öðlast án þess að verða þar með að nördum. Vísindaleg þekking er öllum aðgengileg - ekki bara einhverjum "snillingum".

Og þarna dúkkaði svo ef til vill upp toppur á borgarísjakanum sem þetta mál er: Rómantíska hugmyndin um snillinginn - mann sem af innsæi sínu og náðargáfu getur fundið svör við stórum spurningum - lifir enn góðu lífi í fjölmiðlum og afþreyingarefni. Það þarf að drepa þennan snilling. Eða öllu heldur, það þarf að útrýma þessari rómantísku dellu.

Hvernig er hægt að fara að því? Það sem þyrfti fyrst og fremst að breytast er sú hugsun að vísindamenn séu gáfaðri en annað fólk. Þá myndi nördastimpillinn um leið hverfa af vísindamönnum og krökkum gæti farið að finnast óhætt að hugsa sér að verða vísindamaður. Þetta myndi ekki aðeins létta krökkunum lífið, þetta myndi líka auka veg vísindanna.

 


Viðhorf 31. mars: Mikilvægt verkfæri

Umræðan sem staðið hefur undanfarið um tvítyngi á sér ýmsar hliðar og því er hægt að nálgast hana á marga vegu. Raunin hefur enda orðið sú, að allmargir hafa tekið þátt í umræðunni og kannski svolítið hver frá sinni hlið. Þá vill auðvitað brenna við að menn átti sig ekki á því hvað hinir eru eiginlega að fara. En ekki er þar með sagt að framlag þeirra sé ógilt.

Gauti Kristmannsson lét sér engu að síður sæma, í grein sem hann skrifaði í Lesbók 4. mars, að dæma umræðuna alla á einu bretti "undarlega". Að því er virtist helst á þeirri forsendu að ekki hefðu eiginlegir sérfræðingar eins og hann sjálfur tekið þátt í henni og skilgreint hana. Mig grunar að Gauti hafi ekki áttað sig á því að umræðan á sér fleiri hliðar en bara þá sem hann sjálfur vill nálgast hana frá. Kannski er þetta algeng blinda hjá sérfræðingum og ef til vill er hún bara það sem kalla mætti mannlegi þátturinn í umræðunni. Gerir hana að vísu flóknari en ella, en mannlegu þættirnir vilja jú einmitt vera þeir þættir sem flækja málin.

Í Viðhorfi 9. mars gagnrýndi ég Gauta fyrir að vilja dæma undangengna umræðu dauða og ómerka. Hann svaraði mér í grein á miðopnu Morgunblaðsins fimmtudaginn 23. mars og sakaði mig um orðhengilshátt - að hafa hengt mig á eitt orð í grein hans, nánar tiltekið orðið "uppfinning", og bendir á að hann hafi ekki verið að meina það bókstaflega. Ég myndi drepa lesendur úr leiðindum ef ég færi að elta ólar við útúrsnúninga Gauta á máli mínu, þannig að ég sleppi því. En ef ég hef lesið Gauta rétt er afstaða hans í tvítyngisumræðunni þessi: Íslendingar geta ekki orðið tvítyngdir vegna þess að hér eru ekki fyrir hendi nauðsynlegar forsendur fyrir því að börn læri ensku með sama hætti og þau læra íslensku, það er, á heimilinu og í leikskólunum. Þar af leiðandi er tómt mál að tala um að gera íslendinga tvítyngda.

Af þessu má sjá að Gauti gengur út frá ákveðnum skilgreiningum á því hvað tungumál er. Gott og vel, maður verður alltaf að gefa sér ákveðnar forsendur þegar maður tekur afstöðu. En um leið verður að viðurkenna rétt annarra til að ganga út frá öðrum forsendum, og það er ekki hægt að segja einfaldlega að þeir sem ganga út frá öðrum forsendum en maður sjálfur hafi ekki þekkingu til að taka þátt í umræðunni.

Spurninguna um skilgreininguna á því hvað tungumál er má kalla heimspekilega hlið tvítyngisumræðunnar. Nú má vera að Gauti krossi sig og frábiðji sér heimspekilega umræðu, og það er ekki nema sjálfsagt af minni hálfu að hætta að ræða málið við hann. En ég vona að hann umberi smá heimspeki: Það er umdeilt hvernig skilgreina beri tungumál. Ein leiðin hefur verið sú sem Gauti útskýrir þannig að tungumál sé "aðgangur að menningarveruleika". (Í fyrri greininni talaði hann reyndar um aðgang að heiminum, sem mér fannst óskiljanlegt orðalag og hættulega nálægt einhverskonar hughyggju að hætti Berkeleys, en "aðgangur að menningarveruleika" finnst mér miklu betra og skiljanlegra). Þessa skilgreiningu aðhyllast margir og það má færa fyrir henni góð og skiljanleg rök. Svo er til önnur skilgreining, sem ég í Viðhorfinu 9. mars eignaði Wittgenstein. Hún er fólgin í því að líkja málinu við verkfærasett. Þessi skilgreining hefur ekki síst þann kost að vera blátt áfram og auðskiljanleg.

Ég held að Gauti sé fullfljótur að hafna algerlega verkfærasettsskilgreiningunni. Það er auðvelt að sjá að tungumálið er að nokkru leyti eins og verkfærasett. En um leið er það líka, eins og Gauti segir, aðgangur að menningarveruleika. Ég held að þessar tvær skilgreiningar geti farið saman. Það má færa rök fyrir báðum og andæfa báðum kröftuglega. Ég benti á ýmsar leiðir til þess í Viðhorfinu 4. mars, og þess vegna virðist Gauti halda að ég hafi farið "heljarstökk" í röksemdafærslunni, komist í mótsögn við sjálfan mig og fleira fráleitt.

Ef verkfærasettsskilgreiningunni er ekki fortakslaust hafnað heldur höfð með í svolítið víðtækri og margþættri skilgreiningu á tungumálinu breytast um leið forsendur fyrir tvítyngi. Það er til dæmis hægt að tala um að maður sé tvítyngdur þótt maður hafi ekki "nema" það sem kalla mætti "verkfærasettsþekkingu" á einu tungumáli, en um leið "menningarveruleikaþekkingu" á öðru máli.

Og mér er nær að halda að upphafið á allri tvítyngisumræðunni - hugmyndir einhverrar nefndar Viðskiptaráðs Íslands - hafi eiginlega snúist um eitthvað í þessa veruna. Að það væri æskilegt að stuðla að því að Íslendingar öðluðust einhverskonar "verkfærasettsþekkingu" á ensku.

Þeir sem hafa hvað kröftugast andmælt hugmyndum Viðskiptaráðsnefndarinnar hafa aftur á móti að því er virðist gengið út frá því að um væri að ræða að Íslendingar fengju "menningarveruleikaþekkingu" á ensku, og hafa hafnað öllu tali um verkfærasettsþekkingu sem "pidgin-máli" og ekki "eiginlegu máli".

En slík höfnun er óþarfa hindrun í samskiptum fólks af ólíkum menningarheimum. Verkfærasettsskilgreiningin á tungumálinu verður einmitt þeim mun mikilvægari og hjálplegri eftir því sem samskipti fólks af ólíkum menningarheimum færast í vöxt og æskilegt verður að auðvelda slík samskipti og forðast að þau breytist í illvígar deilur. Og enska er einmitt eitt mikilvægasta og skilvirkasta verkfærið sem við höfum aðgang að til að auðvelda samskipti ólíkra menningarheima.


Fundaflensa

Á vef New York Times í gær birtist athyglisvert viðtal við breskan lækni sem starfar í Ho Chi Minh í Víetnam og hefur meðhöndlað um tuttugu manns sem voru með fuglaflensu. NYT leiðir að því getum að þar með hafi þessi læknir - Jeremy Farrar - ásamt víetnömskum starfssystkinum sínum líklega meiri beina reynslu af meðhöndlun þessa sjúkdóms en nokkur annar í heiminum. Hann hafi þá líklega meira vit á málinu en flestir aðrir, skyldi mega ætla.

 Í byrjun viðtalsins er höfð eftir Farrar sú kaldhæðnislega athugasemd að þótt fáir menn hafi smitast af H5N1, samtals 183 síðan árið 2003, hafi ekki verið neinn hörgull á fundahöldum um flensuna. Sennilega tíu fundir per hvern smitaðan, segir Farrar. Sjálfur hefur hann haldið tölur á slíkum fundum og segir áhugann á málinu gríðarlegan. En hann segist ekki viss um að allur þessi áhugi sé til marks um að mikil hætta sé í rauninni á heimsfaraldri.

 Farrar hefur fylgst með útbreiðslu H5N1 í Asíu í mörg ár og segist telja ólíklegt að það gerist sem talað er um að hætta sé á: Að vírusinn stökkbreytist og fari að smitast milli manna. Og rökin: "Það hafa margir milljarðar af kjúklingum í Asíu smitast og milljónir manna umgengist þá - hér í Asíu erum við í nánum tengslum við fiðurfénaðinn okkar - og innan við 200 manns hafa smitast."

 Það er eitthvað sannfærandi við þetta.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband