Færsluflokkur: Vísindi og fræði
28.11.2006 | 08:50
Á þreifurunum
Viðhorf, Morgunblaðið, 28. nóv, 2006
Það var afar athyglisvert hvernig séra Jóna Hrönn Bolladóttir komst að orði í viðtali í Morgunblaðinu á sunnudaginn þegar hún sagði að það væri eins og sum börn "færu í gegnum lífið á þreifurunum" vegna þess að þótt foreldrar þeirra sinni vel grunnþörfum þeirra leggi foreldrarnir ekki rækt við að innræta börnunum neitt gildismat, og því geti börnin ekki fundið neina sannfæringu í eigin brjósti sem þau geta byggt á til að vita hvað sér beri að gera og hvað megi ekki gera.
Ég er ekki frá því að sú kynslóð sem núna er að ferma börnin sín (það er kynslóðin okkar Jónu Hrannar) hafi einmitt um það leyti er hún tók út vitsmunaþroska sinn fengið þau skilaboð frá helstu opinberu áhrifaöflunum í menningar- og menntalífinu að það ætti einmitt að láta börnin "uppgötva sinn eigin sannleika", og ef reynt væri að halda að þeim einhverjum fyrirfram mótuðum sannleika væri verið að svipta þau frelsi til að verða þau sjálf. Slíkt var "félagsleg innræting", og þótti afskaplega ljótt. Gott ef ekki beinlínis smáborgaralegt og þjónkun við "feðraveldið".
Forsendan fyrir þessari afstöðu sem mörg helstu vitsmunaljósin héldu á lofti á sínum tíma var sú hugsun, að gildismat kynslóðar foreldranna væri alls ekki sannara en eitthvert annað gildismat. Ef grannt væri skoðað kæmi í ljós að öll "gildismöt" væru jafnrétthá, og börnin ættu að fá að ákveða sjálf hvert þeirra - ef eitthvert - þau gerðu að sínu.
Menn voru á þessum tíma alveg óskaplega uppteknir af því í háskólum að "afhjúpa" undirstöðuleysi borgaralegs gildismats. Hugmyndir '68-kynslóðarinnar héldu innreið sína í fræðaheiminn. Menn lögðu sig fram um að vera miskunnarlausir í upprætingu þeirrar lygi að borgaralega gildismatið væri byggt á einhverjum algildum siðferðilegum sannleika. Nei, sýnt var fram á að það gildismat væri bara ein af mörgum svonefndum "stórsögum", eins og það hét á póstmódernistamáli.
Eins og ungum kynslóðum er tamt gleyptum við í okkur nýju sannindin og dáðumst að postulunum sem voru svo gáfaðir að þeir sáu í gegnum allan blekkingavefinn, og svo fórum við út á lífið syngjandi baráttusöng þessa tíma, Pink Floyd: "Við þurfum enga kennslu, við þurfum enga hugsunarstjórnun." Sú kaldhæðnislega þversögn að það var einmitt verið að kenna okkur að "sjá í gegnum" meintar lygar og stýra hugsun okkar inn á ákveðna braut fór langt fyrir ofan höfuðið á okkur.
Enn lengra fyrir ofan skýjaglópahöfuðin flaug sú viska að það var í rauninni verið að kenna okkur gildismat sem gekk út á að hafna öllu gildismati sem þvingunum. Sú hugsun sem okkur var kennd fól því í sér sjálfstortímandi þversögn, og þeir sem ekki voru svo heppnir að hafa fengið hollt og undirstöðuríkt hugmyndanesti úr foreldrahúsum urðu þessari vitsmunalegu sjálfstortímingu að bráð. Frelsið til að segja nei - til að hafna gildismati - hafði snúist upp í andhverfu sína, skyldu til að segja nei - bann við öllu gildismati.
Einn helsti postuli þessarar hugmyndafræði var og er bandaríski heimspekingurinn Richard Rorty. Hann hélt því fram að þar sem ekkert gildanet væri sannara en annað myndi maður einfaldlega bara velja sér sjálfur það net sem hentaði hverju sinni, eða það sem skipaði manni í einhvern tiltekinn hóp. Hugsunin í þessu var sú, að það sé sjálfstæð og frjáls ákvörðun hvers einstaklings að skipa sér í hópinn, að gera gildismatið að sínu.
Frelsið var ekki síst fólgið í því að einstaklingurinn átti að geta slitið sig úr netinu ef honum byði svo við að horfa. Þessi svokölluðu net, eða kerfi, voru útskýrð með því að líkja þeim við leik. Allir leikir hafa reglur sem þátttakendur verða að fylgja til að leikurinn gangi upp. Maður getur ákveðið sjálfur hvort maður tekur þátt eða ekki, en ef maður tekur ákvörðun um að taka þátt verður ekki vikist undan að hlýða þeim reglum sem gilda í leiknum.
Þetta var allt saman mjög svalt að sjá. Með þessu mátti komast hjá innrætingu og nauðung, en samt gera kröfu um að reglum væri framfylgt. Fljótlega fór þó að verða vart einhverra óþæginda og tilfinningar fyrir því að eitthvað gengi ekki upp í líkingunni. Svo fór, að þessi smávægilegu óþægindi urðu að illyfirstíganlegu vandamáli sem mátti orða svona: Á hverju á að byggja ákvörðunina um hvort og þá hvaða leikur skuli leikinn?
Það kom nefnilega á daginn að til að taka sjálfstæða ákvörðun þarf maður að hafa gildismat sem maður efast ekki um, og getur ekki horfið frá. Búi maður ekki að slíku lendir maður í þeirri kreppu sem mér fannst Jóna Hrönn lýsa svo vel með þreifaralíkingunni. Það dapurlegasta af öllu er þó kannski það, að við (sem núna erum að ferma börnin okkar) höfum í góðri trú og af fyllstu einlægni forðast að innræta börnunum okkar nokkurn skapaðan hlut, vegna þess að okkur var sjálfum kennt að ef við gerðum það værum við að ganga erinda illra afla, og gera börnin okkar "just another brick in the Wall".
Þótt ég verði að viðurkenna að ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að hugmyndafræðin sem flæddi um hinn vestræna menntaheim með '68-kynslóðinni sé einhver mesta vitleysuvæðing sem orðið hefur á síðari árum er ég alveg sannfærður um að það er vitatilgangslaust að kenna einhverjum um þessa kreppu sem börn minnar kynslóðar virðast núna vera í. En ég er líka sannfærður um - og það er enginn leikur sem ég hef valið mér sjálfur - að við þurfum að kenna þeim annað gildismat en að gildi séu hlekkir.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 09:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.11.2006 | 22:20
Vísindi og trú
Viðhorf, Morgunblaðið, 8. nóvember, 2006.
Getur verið að vísindi og trú eigi eitthvað sameiginlegt? Fyrir utan það að hvort tveggja er alltumlykjandi kerfi sem ætlað er - eða var upphaflega ætlað - að leita hins endanlega sannleika. Einhver sagði (kannski var það lygi) að útskýringin á "science" í gamalli Brittannicu hafi einfaldlega verið "sannleikurinn".
Það má finna að minnsta kosti tvennt sem vísindi og trú eiga sameiginlegt fyrir utan það að vera kerfi til að finna sannleikann: Hvorugt er lýðræðislegt, og hvorugt gengi upp án skírskotunar til yfirvalds. Vísast má finna ýmislegt fleira, en látum þetta duga í bili og athugum nánar.
Að vísu þarf líklega ekki að fara nákvæmlega út í það með hvaða hætti trú er hvorki lýðræðisleg né fengist þrifist án yfirvalds. En vísindi? Var það ekki meirihlutaákvörðun á vísindamannaþingi núna um daginn sem svipti Plútó reikistjörnutitlinum? Sumir héldu því jafnvel fram að þetta hefði verið pólitísk ákvörðun, fremur en vísindaleg.
Er það ekki einmitt frelsi vísindanna undan yfirvaldi sem gerir þau svo miklu áreiðanlegri en trúna? Eru ekki skynsemin og sannleikurinn einu "yfirvöldin" sem vísindin lúta? Þegar uppgangur vísinda og tækni var sem mestur í byrjun síðustu aldar ríkti sannkölluð "vísindatrú". Þeir voru álitnir hinir mestu kverúlantar og afturhaldshjassar sem ekki viðruðu óhefta sannfæringu sína um að vísindin og tæknin myndu leysa allan vanda mannkynsins.
Þetta er gömul saga sem óþarft er að klifa á. Núna er það viðtekin skoðun að árangur í vísindum og tækni hafi verið mikill, en fáir eru ennþá sannfærðir um að vísindin geti (að minnsta kosti í prinsippinu) leitt mannkynið í allan sannleika um það sem vert er að vita. Þessi skoðun er svo viðtekin, að jafnvel páfinn hefur hana. Á fundi í Vísindaakademíu Páfagarðs í fyrradag sagði Benedikt að "maðurinn [geti] ekki treyst vísindum og tækni svo fullkomlega og skilyrðislaust að trúa því að vísindalegar og tæknilegar framfarir geti útskýrt allt og fullnægt alveg tilvistarlegum og andlegum þörfum hans".
En að hvaða leiti eru vísindin lík trúnni, og í hverju eru takmarkanir þeirra helst fólgnar? Í bókinni Vísindabyltingar (sem væntanlega kemur út í íslenskri þýðingu undirritaðs í lærdómsritaröð bókmenntafélagsins á næsta ári) gerði bandaríski heimspekingurinn Thomas Kuhn grein fyrir tvennskonar vísindum. Annarsvegar því sem hann nefndi "venjuleg vísindi" og hins vegar "byltingarkenndum vísindum".
Það sem hér skiptir máli, er að svo að segja öll vísindi eru "venjuleg", eða skipulögð. Þau byltingarkenndu eru eðli sínu samkvæmt ekki stunduð á skipulagðan hátt. Öll þau vísindi sem fregnir berast af dags daglega, og öll vísindi sem stunduð hafa verið á Íslandi, svo dæmi sé tekið, eru venjuleg.
Og í venjulegum vísindum gilda strangar reglur, þar er farið eftir ákveðnum aðferðum og þar er yfirvald reyndra manna jafnan ekki dregið í efa. Það er ekki samkomulagsatriði hvort vísindalegri aðferð skuli fylgt, og það er ekki atkvæðagreiðsla sem sker úr um hvort vísindaleg tilraun skilar tilætluðum árangri. Svona "kreddufesta" er forsenda þess að vísindi séu marktæk og skili árangri. En "kreddufestuna" eiga vísindin sameiginlega með trúnni.
Líkt og kreddufesta er bæði forsenda trúar og helsta fótakefli hennar er hin stranga vísindalega aðferð bæði forsenda vísindanna og helsta fótakefli þeirra í leitinni að sannleikanum. Um miðja síðustu öld gerði þýski heimspekingurinn Hans-Georg Gadamer ítarlega grein fyrir þessu eðli vísindanna, aðferðar þeirra og sannleikans, í bókinni Sannleikur og aðferð.
Ólíkt kennara sínum, Martin Heidegger, hafnaði Gadamer þó ekki vísindum og tækni. En vísindalegri aðferð, sagði hann, verður ekki beitt til árangurs á öllum sviðum mannlífsins, og hún getur ekki leitt allan sannleika í ljós. Til dæmis fær hún engu áorkað þegar útskýra skal þann sannleika sem finna má í miklum listaverkum. Það er vegna þess að sá sannleikur sem um ræðir er fólginn í upplifun einstaklingsins, sem aftur ræðst af sögubundinni mótun hans. Sannleikur verksins er ekki fólginn í því sjálfu. Það má útskýra listaverk endalaust, en útskýringin nær aldrei utan um sannleikann sem verkið segir, því hann er ekki í því sjálfu.
Allt er þetta líka vel þekkt saga sem óþarft er að fara náið í. Þeir Kuhn og Gadamer áttu hvor með sínum hætti (og hvor í sinni heimsálfunni) stóran þátt í að gera grein fyrir þeim takmörkunum sem vísindin eru háð, og núna eru hugmyndir þeirra næsta viðteknar. Þær eru þó alls ekki óumdeildar, og kannski bendir ýmislegt til þess að vísindin séu á ný - ekki síst vegna árangurs er náðst hefur í erfðafræði, einræktun og stofnfrumurannsóknum - að öðlast svipaðan sess og þau höfðu í byrjun tuttugustu aldar.
Til marks um þennan uppgang vísindanna má reyndar hafa sterk viðbrögð þeirra sem aðhyllast kenninguna um svokallaða "vitsmunahönnun", og hafa látið verulega til sín taka í bandarísku skólakerfi á undanförnum árum. Þeir hafa fyrst og fremst verið að bregðast við því sem þeim finnst vera yfirgangssemi hins vísindalega lífsviðhorfs, og tillitsleysi þess við önnur lífsviðhorf. Auðvitað hefur það ekki sakað fyrir þá, að hafa forsetann sín megin.
En núna eru menn reynslunni ríkari, og villast ekki út á sama hála ísinn og fyrir einni öld, þegar allt mátti leysa með því að gera það vísindalega, og meira að segja var gerð tilraun til að byggja upp "vísindalegt" þjóðfélag (það hét Sovétríkin). Nú hafa menn varan á. Eða hvað?
Vísindi og fræði | Breytt 8.11.2006 kl. 16:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.10.2006 | 07:43
Trúgirni og trúarþörf
Viðhorf, Morgunblaðið, 31. október, 2006.
Á trúarþörf fullorðins fólks sér rætur í trúgirni barnsins? Er fullorðið fólk sem ekki getur hafnað tilvist æðri máttarvalda einfaldlega að endurupplifa hvöt barnsins til að hlýðnast foreldrum sínum? Getur verið að börnum sem hlýða fullorðnum hafi í gegnum tíðina farnast betur en börnum sem hafa óhlýðnast og þannig hafi hlýðnigen fremur komist af í þróunarsamkeppninni en gen þeirra sem óhlýðnast?
Allt kann þetta að vera að einhverju leyti rétt, en vart verður þessum spurningum nokkurntíma svarað til hlítar. En það er aftur á móti hægt að gera nokkra grein fyrir þeim mun sem er á trúgirni og trúarþörf. Á þessu tvennu held ég að sé reginmunur, og hann helstur sá, að trúgirni felur í sér ógagnrýnið samþykki, en trúarþarfar verður vart vegna upplýstrar og gagnrýninnar yfirvegunar.
Að óathuguðu máli kann að virðast sem trúarþörf stafi af vanþekkingu og ógagnrýnu samþykki við gömlum hefðum og boði yfirvalds, það er að segja kirkjunnar. Útlit er fyrir að þann sem finnur til trúarþarfar skorti þekkingu eða forvitni til að leita sjálfur svara við þeim spurningum sem á hann leita um lífið og tilveruna, og í staðinn taki hann einfaldlega með ógagnrýnum hætti á móti þeim svarapakka sem trúin veitir.
En fyrst og fremst er kannski útlit fyrir að sá sem trúir hafi einfaldlega ekki vitsmuni eða dug í sér til að hlýða kalli Immanúels Kants og voga sér að beita sinni eigin skynsemi hugsa sjálfur. Í staðinn verður ofan á hlýðni barnsins við foreldra og yfirvöld (að viðlagðri refsingu), og hinn fullorðni ýtir eigin hugsunum og jafnvel sannfæringu til hliðar og fer að boði annarra. Ekki vegna þess að þetta boð annarra sé í sjálfu sér réttara og betra en boð manns eigin hugsana, heldur einfaldlega vegna þess að hinn ytri þrýstingur ber manns eigin sannfæringu ofurliði.
Við þetta viðhorf til trúarþarfarinnar er þó ýmislegt að athuga. Til dæmis virðist það gera ráð fyrir að boð yfirvaldsins (eða samfélagsþrýstingurinn) stangist á við rödd skynseminnar í brjósti einstaklingsins. Svo þarf alls ekki að vera. Það er meira að segja ekki ólíklegt að þessi innri rödd skynseminnar sé að mestu mótuð af ytri röddum samfélagsins og því eins líklegt að þessar raddir séu fullkomlega sammála. (Og má ekki meira að segja ætla að þegar málum er þannig farið séu mestar líkur á að einstaklingurinn verði hamingjusamur? Þegar hann lifir lífi sínu í samhljóm með öllum hinum í kringum hann?)
Ekki þarf heldur að hugsa málið lengi til að ljóst verði að ekkert bendir til að meiri líkur séu á að voðaverk séu framin í nafni æðri máttarvalda en að eigin frumkvæði þeirra einstaklinga sem verkin fremja. Meira að segja má ætla að í mörgum tilvikum sé skírskotun til æðri boða ekki annað en skálkaskjól manna sem í raun og veru eru reknir áfram af persónulegum hefndarþorsta eða illsku.
Eflaust mætti fara nánar ofan í gagnrýnisviðhorfið til trúarþarfarinnar og þjarma að því, en það verður ekki gert hér. Gegn þessu viðhorfi er aftur á móti teflt þeirri afstöðu til trúarþarfarinnar að hún sé afsprengi ítarlegrar yfirvegunar og gagnrýninnar hugsunar. Sterk trúarþörf sem ekki verður vikist undan kemur fram þegar ljóst er orðið hversu skammt mannleg skynsemi hrekkur, og hversu takmarkað gildi það hefur í sjálfu sér að hafa þá grundvallarreglu í heiðri að taka jafnan eigin hugmyndir fram yfir hugmyndir annarra.
Það blasir við hvernig það getur verið í hæsta máta skynsamlegt að víkja eigin skynsemi og hugmyndum til hliðar og þiggja ráð annarra og fara að boðum þeirra. Hér þarf ekki að nefna annað en svo hversdagslega athöfn sem það að fara til læknis þegar maður finnur til. Það er óskynsamlegt beinlínis lífshættulegt að fara ekki til læknis þegar maður finnur óúskýrðan verk fyrir brjóstinu. Og það er líka óskynsamlegt að fara ekki að því ráði sem læknirinn veitir, jafnvel þótt maður skilji ekki alveg forsendurnar fyrir því.
Ég er ekki að halda því fram að læknar, eða aðrir sérfræðingar, séu óskeikulir. Ég á við að það er manns eigin, upplýsta ákvörðun að fylgja boði þeirra, og sú ákvörðun er byggð á vitundinni um að manns eigin þekking á því máli sem um ræðir (til dæmis starfsemi líffæra) sé minni og óáreiðanlegri en þekking læknisins á þessu tiltekna máli. Þannig er þetta upplýst og skynsamleg ákvörðun, þótt hún feli í sér að manns eigin hugmyndum og skynsemi sé ýtt til hliðar og boðum og skynsemi yfirvalds hlýtt í staðinn.
Það er einmitt með þessum hætti sem trúarþörf skilur sig frá trúgirni. Trúarþörf er gagnrýnin og upplýst afstaða til manns sjálfs, og manns eigin máttar og þekkingar. Gagnrýnin og upplýst afstaða til þess sem trúað er á getur síðan fylgt í kjölfarið. En ég held að gagnrýnin afstaða til manns sjálfs sé forsenda þess að hægt sé að taka eignlega gagnrýna afstöðu til trúarinnar. Að taka gagnrýna afstöðu til trúarinnar áður en maður tekur gagnrýna afstöðu til sjálfs sín er hroki.
Kannski myndi einhver segja þetta sýna að trúarþörf stafi greinilega bara af skorti á sjálfstrausti og/eða brotinni sjálfsmynd. Þeir sem finni til trúarþarfar eigi því fremur að leita til sálfræðings en prests. Og víst er um það að ekki er óhjákvæmilegt að maður finni til trúarþarfar ef maður vegur og metur eigin skynsemi, þekkingu og mátt. Þeir eru áreiðanlega ófáir sem við slíka skoðun komast að því að ekkert sé þeim ofviða. Slíkt fólk er öfundsvert og þarf enga trú. En ég held að það sé einfaldlega staðreynd að hinir eru fleiri, sem lærist af biturri reynslu að þeir vita sjaldnast sjálfir hvað er þeim fyrir bestu.
Vísindi og fræði | Breytt 8.11.2006 kl. 16:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.10.2006 | 10:13
Afmæli bókar
Viðhorf, Morgunblaðið, 24. október, 2006.
Eitt af umræðuefnum íslenskra "intellektúala" síðastliðið sumar var heimsókn breska fræðingsins Richards Dawkins sem hingað kom og boðaði trúleysi. Eða öllu heldur ræddi um þá kenningu sína að trúarbrögð hefðu í gegnum tíðina verið undirrótin að flestum þeim voðaverkum sem mennirnir hefðu unnið og að það væri best að við myndum losa okkur við þau.
En Dawkins var ekki aðeins í sviðsljósinu hérna á Íslandi í sumar, vegna þess að í ár eru þrjátíu ár liðin síðan bókin sem gerði hann heimsfrægan kom fyrst út. Af því tilefni kom bókin, sem ber þann afskaplega grípandi titil Sjálfselska genið (The Selfish Gene), út í afmælisútgáfu. Einnig hefur allmikið verið um hana fjallað í erlendum fjölmiðlum.
Því miður var Dawkins lítið spurður út í þessa bók í viðtölum sem tekin voru við hann í Íslandsheimsókninni. Hin umdeilda kenning hans um illsku trúarinnar átti hug og hjörtu allra sem við hann ræddu. En hefði ekki verið hægt að tvinna þetta saman - það er að segja blanda kenningu hans um sjálfselska genið inn í umræðuna um meinta illsku trúarinnar?
Kenningin sem Dawkins setti fram í bókinni frægu er í sem stystu máli á þá leið að við mennirnir, "og öll önnur dýr séum vélar búnar til úr genunum í okkur", og að þessi gen sem við erum úr hafi lifað af miskunnarlausa samkeppni við önnur gen í gegnum þróunarsöguna. Af þessu segir Dawkins að draga megi þá ályktun að mikilvægasti og sterkasti eiginleiki þessara gena sem við erum gerð úr og hafi borið sigur úr býtum í samkeppninni hljóti að vera "miskunnarlaus sjálfselska", eins og hann segir í upphafi bókarinnar.
Rétt er að taka fram, eins og Dawkins gerir sjálfur, að þetta er ekki siðfræðirit. Það væri að misskilja bókina algjörlega að halda að hann væri að mæla fyrir einhverskonar félagslegum darwinisma. Hann er öllu heldur að velta því fyrir sér hvaða eiginleikar tryggi dýrum afkomu í þeirri samkeppni - sem fer að öllu leyti fram utan og handan við siðferðisleg lögmál - sem þróun dýrategunda er.
Og niðurstaðan, eða meginályktunin hjá Dawkins, er eitthvað á þá leið að það hljóti að vera eiginleikar sem lýsa megi með orðum eins og sjálfselska, eða öllu heldur það sem kalla mætti "líffræðileg sjálfselska", sem er ekki það sama og siðferðisleg sjálfselska. Og það er einmitt þetta sem hefði verið gaman að spyrja hann út í í sambandi við trúmál.
Það er að segja getur ekki verið að trúarþörfin búi í genum mannsins og hafi þannig gengið í erfðir og að þeir einstaklingar sem hafa fengið þessari þörf svalað hafi staðið betur að vígi í miskunnarlausri þróunarsamkeppninni en þeir sem ekki hafi annaðhvort haft þessa þörf eða hafi haft hana en ekki fengið henni svalað?
Það hefði verið gaman að spyrja Dawkins um þetta, þótt ekki væri nema vegna þess að þannig hefði verið hægt að velta svolítið vöngum yfir því hvort mótsögn væri að finna milli hans eigin kenninga, annarsvegar um trúmál og hinsvegar um líffræði.
Ég held að þetta séu ekki aðeins hártoganir í þrasgjörnum blaðamanni. Ýmsir fræðimenn hafa velt því fyrir sér hvort trúarþörf mannsins sé beinlínis líkamleg, það er að segja hvort "guð búi í heilanum". Síðast í sumar rakst ég á frétt á vef BBC þar sem einhverjir vísindamenn sögðust hafa hrakið þá kenningu. Það væri engin "guðs-stöð" í heilanum.
En trúarþörfin þarf ekki nauðsynlega að vera líkamleg til að geta haft áhrif á afkomumöguleikana í þróunarsamkeppninni. Ef til vill er nóg að þessi þörf sé sálræn. Það er auðvelt að gera sér í hugarlund hvernig trú á æðri máttarvöld getur létt manni lífið. Burtséð frá því hvort guð getur með áþreifanlegum hætti rétt manni hjálparhönd í stórsjóum lífsins getur trú á hann haft einskonar "lyfleysuáhrif", það er að segja, upplifun manns á hjálpræði guðs verður raunveruleg, og getur þannig haft áhrif á mann - jafnvel líkamleg.
Með þessum hætti má gera sér í hugarlund að trú geti komið sér vel fyrir sjálfselska genið og að það sé beinlínis hluti af sjálfselsku gensins að trúa á guð. Og það sem bendir til að trú hafi í raun og veru hlutverki að gegna við að tryggja afkomu genanna í okkur er sú staðreynd að svo virðist sem flestar manneskjur sem komist hafa áfram í þróunarsamkeppninni - það er að segja það fólk sem nú er til á jörðinni - trúi á guð.
Ef trú á guð er jafn slæm fyrir okkur og Dawkins fullyrti í Íslandsheimsókn sinni, væri þá ekki líklegt að þeir sem slegnir hafa verið þessari "óáran" hefðu dáið út en hinir komist af sem væru lausir við þennan galla? Allur meginhluti mannkyns trúir nú, með einum eða öðrum hætti, á æðri mátt. Þetta eru sömu einstaklingarnir og orðið hafa ofan á í miskunnarlausri þróunarsamkeppni.
Þessi samkeppni hefur staðið lengi. Hvenær fóru sumir þátttakendanna í henni að trúa á æðri máttarvöld? Gæti verið að það hefði verið um svipað leyti og þessir sömu einstaklingar fóru að verða ofan á í samkeppninni?
Það veit enginn. En hitt er ljóst að þessar vangaveltur hér verða ekki til neinna einfaldra lykta leiddar. Það hefði verið gaman að geta borið eitthvað af þessu undir Dawkins sjálfan, fremur en gleypa bara trúleysisboðskapinn hans eins og nýtt guðspjall.Vísindi og fræði | Breytt 8.11.2006 kl. 16:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.10.2006 | 06:20
Börn að leik
Viðhorf, Morgunblaðið 17. október 2006.
Bandarískir barnalæknar sáu ástæðu til þess um daginn að gefa út skýrslu í nafni akademíu sinnar. Skilaboðin í þessari skýrslu voru til foreldra og harla einföld: Börn þurfa að fá að leika sér. Það er nauðsynlegt til að heilinn í þeim vaxi eðlilega og þau nái fullum þroska, líkamlegum, andlegum og félagslegum. Að ekki sé nú minnst á hvað þau hafa gaman að því að leika sér.
Þeirri viðvörun sem ljóslega er fólgin í skýrslunni er fyrst og fremst beint til bandarískra foreldra, sem læknunum þykja margir hverjir fullduglegir við að skipuleggja líf barnanna út í ystu æsar, með þeim afleiðingum að börnin fái orðið lítinn tíma til að leika sér upp á gamla mátann, að legg og skel - nú eða Barbí og Ken eða í löggu og bófa, ef börnin vilja það heldur.
Það er ekki síst athyglisvert sem fram kemur í skýrslu læknanna, að því er segir í frétt frá AFP í síðustu viku, að það sé beinlínis hollt fyrir vöxt heilans í börnum að þau fái að leika sér. En ég held að það sé ekki nóg með að leikur sé forsenda þess að heilinn í börnum þroskist, það má beinlínis halda því fram að leikur sé forsenda þess að börn læri að vera hamingjusöm.
Ekki svo að skilja að læknarnir telji að foreldrarnir séu vísvitandi að gera börnunum illt til að fullnægja eigin löngunum og þrám. Foreldrarnir einfaldlega sjáist ekki fyrir í kapphlaupinu - læðist að vísu að manni sá grunur að oft sé þetta kapphlaup við foreldra annarra barna - við að tryggja börnunum sínum öll hugsanleg tækifæri til að skara fram úr og þroska þá hæfileika sem þau búa yfir.
En þrátt fyrir að þetta sé afskaplega vel meint, segja læknarnir, getur þetta haft þveröfug áhrif og leitt til þess að börnin verði kvíðin, stressuð og jafnvel þunglynd. En þegar börn fái að leika sér frjáls geti þau "beitt sköpunargáfu sinni, þroskað ímyndunaraflið og fínhreyfingar, og aukið líkamlegan, vitsmunalegan og tilfinningalegan styrk sinn". Með leik læri börnin "snemma að takast á við heiminn".
Sem fyrr segir má ráða af fréttum um skýrslu læknanna að henni sé beint til bandarískra foreldra, og þá líklega fyrst og fremst til efnaðra og langskólagenginna foreldra. En það er áreiðanlega alveg sama hvar í heiminum borið er niður, von allra foreldra til handa börnunum sínum, hvort sem um er að ræða efnaða Bandaríkjamenn eða íslenska meðaljóna, er að þau séu hamingjusöm. Líklega væru flestir foreldrar meira að segja reiðubúnir að fórna eigin hamingju til að tryggja börnunum sínum hamingju.
En hvað er hamingja? Ef til vill þykir einhverjum þetta óviðeigandi spurning í þessu samhengi, og ekki annað en ávísun á hártoganir. Vissulega er þetta heimspekileg spurning, og jafnvel sú heimspekilegasta sem til er. En ég held að vangaveltur um börn, þroska þeirra og leik, sé einmitt rétta samhengið til að spyrja hennar í.
Þá á ég ekki við að maður eigi að spyrja börn að því hvað hamingja sé, alls ekki. Þau myndu aldrei geta svarað því. Börn eru ekki góðir heimspekingar. Þau eru hreint alls engir heimspekingar. Heilbrigt barn í andlegu jafnvægi myndi aldrei spyrja hvað hamingja sé. Aftur á móti eru allar líkur á að andlega heilbrigt barn - jafnvel þótt það sé ekki líkamlega heilbrigt - geti verið hamingjusamt. Þannig að þótt börn spyrji ekki hvað hamingja sé geta þau líklega betur en aðrar manneskjur veitt svar við spurningunni, þó að vísu ekki með orðum heldur æði.
Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að ég er ekki að halda því fram að "barnslegt sakleysi" jafngildi hamingju. Hamingjan er ekki fólgin í sælukenndu vitundarleysi um illsku heimsins. Og hún er ekki heldur fólgin í því að öðlast sem mesta vitsmuni, eins og John Stuart Mill virtist halda fram þegar hann sagði í Nytjastefnunni þau frægu orð að það sé betra að vera óánægður Sókrates en ánægt svín.
Þeir fræðimenn sem nú velta hamingjunni fyrir sér virðast flestir hallir undir það viðhorf að hamingjan sé hvorki eitthvað sem maður hefur (og ætti þar með að geta öðlast með réttri ástundun) né fólgin í því að vera laus undan einhverju, heldur sé hún fólgin í upplifun. Þá eiga þeir ekki við að hún búi í því sem er upplifað (og sé þar með undir því komin að hið rétta sé upplifað), heldur upplifuninni sjálfri. Þetta hefur stundum verið kallað að "vera í flæði" - sem fúslega skal viðurkennt að er hræðileg íslenska, kannski væri nær lagi að tala um að "ná sér á flug".
Það er svo sannarlega erfitt að útskýra á skiljanlegan máta hvað fræðingarnir eiga við með þessu, og þá er gott að geta nefnt dæmi. (Það er alltaf gott í heimspekilegum pælingum að geta nefnt dæmi - og því einfaldara og almennara sem það er, því betra.) Börn sem ná sér á flug í frjálsum leik, hvort heldur ein eða í hóp, eru áreiðanlega tærasta birtingarmynd hreinnar hamingju. Þegar ímyndunaraflið tekur öll völd, og vitund barnsins beinlínis rennur saman við veröld leggsins og skeljarinnar (eða Barbíar og Kens, löggunnar og bófans).
Kannski má orða þetta eitthvað á þá lund, að þegar barnið er í upplifuninni, án þess að vera sér beinlínis meðvitað um að það sé í henni, þá sé komið það ástand sem fræðingarnir virðast nú flestir hallast að sem skilgreiningu á hamingju. Leikur er því ekki aðeins forsenda líkamlegs, andlegs og félagslegs þroska barnanna, hann er forsenda þess að þau læri á unga aldri í hverju hamingjan er fólgin, og viti því þegar þau komast á fullorðinsár hvar og hvernig beri að leita hennar.
Vísindi og fræði | Breytt 8.11.2006 kl. 16:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2006 | 15:49
Bílabullur
Viðhorf, Morgunblaðið 10. október 2006.
Breski sjónvarpskokkurinn og Íslandsvinurinn Jamie Oliver sagði um daginn að foreldrar sem sendu börn sín með ruslmat í nesti í skólann væru fífl. Hann sagðist ekki nenna lengur að vera kurteis. Það yrði einfaldlega að nefna hlutina sínum réttu nöfnum. Og foreldrarnir yrðu að taka sig á.
Af einhverjum ástæðum koma þessi orð Olivers upp í hugann þegar lesnar eru fréttir um íslenskar bílabullur sem stunda ofsaakstur og stefna þannig eigin lífi og lífi annarra í voða. Bullurnar líta á sig sem fórnarlömb ef löggan gómar þær, og dæmi munu vera um að foreldrar bílabullanna reyni að "útskýra" hegðun afkvæma sinna fyrir lögreglunni.
Það skiptir máli í umræðum um ósæmilega hegðun í umferðinni að ekki eru endilega allir sem aka greitt þar með orðnir að bílabullum. Lögreglan segir vera nokkurn mun á hraðakstri og ofsaakstri. Þeir sem teknir eru fyrir of hraðan akstur á götum og þjóðvegum landsins eru á öllum aldri og af báðum kynjum. En lögreglan segir að er komi að ofsaakstri og glannaskap eigi undantekningarlítið í hlut ungir strákar. Í mörgum tilvikum með glæný ökuskírteini. En það er auðvitað sama, það er framferðið, en ekki aldur og kyn, sem gerir karla eða konur að bílabullum.
Íslenskar bílabullur eiga það sameiginlegt með enskum fótboltabullum að fá útrás fyrir tilfinningar sínar og kenndir á kostnað meðborgara sinna. Reyndar má telja líklegt að stór hluti af "kikkinu" sem bullurnar fá út úr framferði sínu sé fólginn í því að gera annað fólk skelkað og gefa skít í það með því að koma fram við það á ógnandi hátt. Þetta er því ekki annað en gamla sagan um að gera sjálfan sig stóran með því að lítillækka aðra. Þess vegna er þetta afskaplega ómerkileg hegðun og til marks um lítinn þroska. Oft má auðvitað rekja þetta til ungæðisháttar.
En er þetta svona einfalt? Fyrir fáeinum árum, þegar ensku fótboltabullurnar höfðu einu sinni sem oftar látið til sín taka á meginlandi Evrópu - ég man ekki í hvaða landi - og Englendingar sátu undir skömmum og háðsglósum á alþjóðavettvangi fyrir þessa stórkostlegu útflutningsafurð sína, kom Tony Blair forsætisráðherra bullunum til varnar og sagði að þrátt fyrir allt birtist í bullunum sami frumkrafturinn er hefði komið Englendingum vel í styrjöldum undanfarinnar aldar.
Það má með sama hætti finna, ef nánar er að gáð, mikla aðdáun í íslensku samfélagi á óbeisluðum frumkraftinum sem er til dæmis víða lýst í Íslendingasögunum. Hér er ríkjandi sú rómantíska hugmynd að óheftir og sterkir menn sem láta ekkert aftra sér, síst af öllu siðapredikanir, áminningar um góða hegðun og annan tepruskap, séu þeir sem drífi samfélagið áfram til framfara og umbóta. Að án þessara sterku manna sætum við enn við sjálfsþurftarbúskap, eða værum að minnsta kosti ekki sjálfstæð þjóð.
Þessi hugmynd um nauðsyn þess að sterkir menn fái að fara sínu fram óheftir til að við hin - tilfinngabældu teprurnar - fáum notið góðs af og flotið með í kjölsoginu af þeim leiðir aftur á móti til þess að við teljum okkur trú um að við verðum að umbera agaleysið, bulluháttinn og fylliríið, sem óhjákvæmilega fylgifiska frumkraftsins sem er okkur svo nauðsynlegur til að drífa okkur áfram og koma í veg fyrir að þjóðfélagið staðni. Og það sem hugsanlega væri allra verst - að við glötum sjálfstæðinu.
Þetta er sama aðdáun og menn láta í ljósi yfir skrímslinu Agli Skallagrímssyni, sem hefur lifað sem hetja í íslenskri þjóðarsál þrátt fyrir að sagan sem kennd er við hann beri með sér að hann hafi fyrst og fremst verið morðingi og fyllibytta, og strax í barnæsku sýnt merki um að vera að flestu leyti dusilmenni hið mesta. En - og það skiptir öllu - hann var skáld og gaf skít í kónginn. Frummaður sem lét ekki yfirvald segja sér fyrir verkum. Og slíkt kann íslensk þjóðarsál að meta. Enn þann dag í dag fer um hana unaðshrollur þegar fregnir berast af "íslenskum víkingum" sem verða ríkir á bissniss í útlöndum.
Þessir Skallagrímssynir nútímans, sem gefa skít í lögguna og fara í stórsvigi niður Ártúnsbrekkuna á hundrað og sextíu, eiga sér þannig djúpstæðan og traustan sess í hinni rómantísku íslensku þjóðarsál. Ef einhver af þessum bílabullum skyldi nú reynast skáldmælt og færi að sýna orðfimi sína á live2cruize.com myndi hún á einni nóttu verða hafin upp til skýjanna sem þjóðhetja. Og vei þeim lögreglumönnum sem gera myndu tilraun til að hefta för hins skáldmælta Skallagrímssonar á Imprezunni.
Kjarninn í þeim rómantíska hugsunarhætti sem hér er á ferðinni er draumur hins kúgaða um frelsi, og drifkrafturinn er réttlát reiði þess er býr við ósanngjarnt hlutskipti. Þar af leiðandi reka bullurnar upp ramakvein fórnarlambsins þegar lögreglan hefur afskipti af þeim. En bullurnar búa í raun og veru hvorki við kúgun né ósanngjarnt hlutskipti, og þess vegna eru kvein þeirra svo hjákátleg - og kannski umfram allt barnaleg.
Það væri óskandi að rómantíkin og víkingadýrkunin - sem er í rauninni lítt dulbúin sjálfsdýrkun - færi að líða undir lok á Íslandi. Það væri líka óskandi að horfið yrði frá þeirri hugsun að það sé dyggð að æða áfram og sjást ekki fyrir, fara sínu fram hvað sem hver segir. "Íslenska aðferðin" er ekki dyggð heldur skammaryrði.
Vísindi og fræði | Breytt 8.11.2006 kl. 16:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lesbók, 23. september, 2006 (í tilefni af málþingi um Mill).
Því hefur verið haldið fram að kveikjan að Frelsinu, sem óhætt er að segja eitthvert víðlesnasta og umdeildasta stjórnmálaheimspekirit sem til er, hafi verið óánægja höfundarins, Johns Stuarts Mills, og konu hans, Harriet Taylors, með einsleitni samfélagsins sem þau bjuggu í, og hversu lítið fór þar fyrir áræðnum og ævintýragjörnum einstaklingum sem gáfu lífinu lit.
Það hafi með öðrum orðum verið ótti Mills við að moðkenndur hugsunarháttur millistéttarinnar myndi verða allsráðandi og kæfa frjóa hugsun sem hvatti hann til dáða. Til munu vera bréfaskriftir Mills og Taylors þar sem þau ræða þessar dapurlegu horfur. Í Frelsinu má vissulega sjá víða þá áherslu sem Mill leggur á mikilvægi sjálfstæðrar hugsunar og að þeir sem að henni búa fái að rækta hana án þess að meirihlutinn (millistéttin) setji þeim stólinn fyrir dyrnar.
Ég legg því ríka áherslu á mikilvægi snillinga í samfélaginu og nauðsyn þess að veita þeim fyllsta frelsi til að þroskast til orðs og æðis, segir Mill (bls. 125). En: Frumleiki er sálargáfa, sem ófrumlegir menn geta ekki skilið, að komi að nokkrum notum ... Sannleikurinn er sá, að hversu mjög sem menn telja sig hylla raunverulega eða ímyndaða yfirburði og hylla þá jafnvel í raun, þá er hvarvetna ríkjandi tilhneiging til að leiða meðalmennskuna til æðstu valda (bls. 126).
Mill telur það sjálfljóst að einungis örsmár minnihluti sé gæddur snillingsgáfu, og að eðli málsins samkvæmt skeri þeir sig úr fjöldanum vegna þess að þeir séu gæddir ríkara einstaklingseðli en annað fólk (bls. 125). Voðinn sem stafar af útrýmingarhættu snillinganna er sá, að það séu þeir sem í rauninni haldi lífi í siðferði og trú, sem án þeirra myndu úrkynjast og verða að tómum vana. Og vanahugsun er aftur á móti hættuleg vegna þess að hún er í raun ekki annað en mót sem samfélagið býr mönnum í því skyni að spara þeim ómakið að þroskast sjálfir.
Áherslan sem Mill lagði á vitsmunalegt frelsi, áræðni og ævintýragirni, miðaði því öll að þeirri meginhugsun sem hann setti fram í einkunnarorðum Frelsisins, og fékk lánuð hjá Wilhelm von Humboldt: Öll þau rök, sem birtast á þessum blöðum, hníga að einni mikilli meginreglu: að um mannlegan þroska í ýtrasta margbreytileika sé meira vert en alla hluti aðra.
Sú vitsmunalega úrvalshyggja sem Mill aðhylltist því tvímælalaust er ef til vill ekki öllum að skapi. Enda hefur hún líklega aldrei verið það sem mest hefur þótt um vert í Frelsinu. Það hefur oftar verið túlkað sem pólitískt rit, en að vísu hafa bæði hægri og vinstrimenn skírskotað til þess, málstað sínum til varnar. Þetta hefur án efa átt hvað stærstan þátt í því hve lífseig bókin er, en hinu má auðvitað ekki gleyma að hún er kannski eitthvert best skrifaða heimspekirit sem til er. (Og íslensk þýðing þeirra Jóns Hnefils Aðalsteinssonar og Þorsteins Gylfasonar er hreint meistaraverk).
Frelsinu er iðulega flaggað sem helsta varnarriti einstaklings- og málfrelsis, en um leið samfélagsvitundar og virðingar fyrir öðrum. Til dæmis lagði Mill mikla áherslu á þann skilyrðislausa rétt sem allir einstaklingar eigi á menntun, og að ef foreldrar geti ekki gætt þessara réttinda barna sinna verði ríkið að gera það - að vísu á kostnað foreldranna eftir því sem unnt sé (sjá bls. 186).
Mill fer þó hvergi út í það hvar séu og í hverju nákvæmlega séu fólgin mörkin á milli einstaklingsfrelsis og samfélagsvitundar. Hann virðist allt að því segja að snillingar séu eiginlega mikilvægari en annað fólk (því að þeir haldi siðmenningunni á lífi), en segir aftur á móti ekkert um það hvort þetta þýði til dæmis að snillingum leyfist að hefja sjálfa sig yfir venjulegt og ófrumlegt fólk. Er til dæmis mikilvægara að þeir sem fengið hafa snilligáfu í vöggugjöf njóti menntunar en þeir sem ófrumlegir eru af náttúrunnar hendi, ef ekki er unnt að mennta báða?
Ef til vill má kalla það röklegan veikleika á málsvörn Mills fyrir snillinginn að hann gengur hreinlega út frá því sem gefnu að snilligáfa sé til. En um það má vissulega deila, og halda ýmsir því fram að snillingshugmyndin sé af rómantískum rótum runnin, og ef nánar sé að gáð standist hún ekki, frekar en hugmynd Jean Jaqcues Rousseaus um göfuga villimanninn. En jafnvel þótt maður sé algjörlega ósammála Mill um að snilligáfa sé raunverulega til dugar það engan veginn til að gera Frelsið að ómerkilegri bók.
Um það má eflaust líka deila hvort Mill hafi talið sjálfan sig til snillinga. Líklega hefur hann þó verið of hógvær til þess. Aftur á móti virðist engum blöðum um það að fletta að hann var öðru vísi en fólk var og er flest, og hann vissi það upp á sjálfan sig og fann fyrir því. Í Sjálfsævisögu sinni segir hann að faðir sinn, James, hafi alið sig upp til strangs vitsmunalífs, og svo rammt hafi kveðið að þessu uppeldi að það hafi beinlínis orðið á kostnað líkamlegs og félagslegs atgervis.
Frelsið kom fyrst út 1859 og hefur tvisvar verið þýtt á íslensku. Fyrst af Jóni Ólafssyni, og hét þá Um frelsið, og var gefin út 1886. Þorsteinn Gylfason segir í formála þýðingar sinnar og Jóns Hnefils að það verði með engu móti annað sagt en að þýðing Jóns Ólafssonar ... hafi farið fyrir ofan garð og neðan á Íslandi ... og verður þess varla vart að Íslendingar hafi lesið bókina, hvað þá að kenning Mills hafi haft minnstu áhrif í landinu (bls. 11). Ný þýðing Þorsteins og Jóns Hnefils kom síðan út 1979 og hefur verið prentuð þrisvar.
Hið íslenska kvenfélag gaf Kúgun kvenna út árið 1900 í þýðingu Sigurðar Jónassonar úr dönsku, og Bókmenntafélagið gaf þýðinguna síðan aftur út tæplega öld síðar. Upphaflega kom bókin út 1869, síðla á ævi Mills, og hefur því verið haldið fram að hann hafi vísvitandi beðið með að gefa hana út til að þær róttæku hugmyndir sem hann setti þar fram yrðu ekki til að veikja stöðu fyrri rita hans.
Þótt Kúgun kvenna hafi á sínum tíma verið róttækt rit er það nú orðið klassískt kvenfrelsisrit. Mill hélt því fram að ef frelsi væri körlum nauðsyn væri það einnig konum nauðsyn, og hafnaði þeim gagnrökum að eðli kvenna væri ólíkt eðli karla og að á þeim forsendum væri hægt að réttlæta þá fráleitu hugmynd að þessi meinti eðlismunur kynjanna gerði að verkum að frelsi væri ekki báðum nauðsyn til fulls þroska.
Þriðja bókin eftir Mill sem komið hefur út á íslensku er Nytjastefnan. Hana þýddi Gunnar Ragnarsson og Bókmenntafélagið gaf hana út 1998. Kjarni Nytjastefnunnar (sem kom fyrst út 1861) er sú siðferðilega grundvallarregla að breytni sé góð eða slæm eftir því hvort hún stuðli að hamingju eða ekki. Það er að segja, breytni er góð ef hún lætur fólki líða vel, slæm ef hún leiðir til þess að fólki líði illa.
En þetta er auðvitað ekki alveg svona einfalt. Mill tekur vara við því að ruglað sé saman hamingju og ánægju: Það er betra að vera óánægð manneskja en ánægt svín; betra að vera óánægður Sókrates en ánægður auli. Og ef aulinn og svínið eru ósammála þessu þá er það vegna þess að þau þekkja aðeins sína hlið málsins. Hinn aðilinn í samanburðinum þekkir báðar hliðar.
Þessar skemmtilegu setningar eru og hafa orðið efni í langar ritgerðir, en í sem stystu máli virðist Mill halda því fram að vitsmunir séu forsenda eiginlegrar hamingju. Hér bólar því aftur á vitsmunalegu úrvalshyggjunni sem nefnd var að ofan, og spyrja má hvort Mill hafi litið svo á að þeir sem frá náttúrunnar hendi státa ekki af miklu magni þess sem venjan er að kalla vitsmuni geti ekki orðið hamingjusamir þótt vissulega geti þeir verið ánægðir.
Ef til vill mætti þá einnig spyrja hvort Mill hafi litið svo á að börn geti ekki verið hamingjusöm þótt þau geti verið glöð og ánægð. Hér er vissara fara varlega og láta duga að spyrja að þessu en fullyrða ekkert. Þarna virðist þó vera á ferðinni óþægilega þröngur skilningur á hamingjuhugtakinu, og það tvímælalaust gert að skör sem er hærri en ánægjan ein.
Vísindi og fræði | Breytt 8.11.2006 kl. 16:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.9.2006 | 12:30
Ævintýraborgin
Viðhorf, Morgunblaðið 26. september, 2006.
Það er nú vart í frásögur færandi að maður fari í vinnuna sína á morgnana. En ég ætla nú samt að færa það í frásögur.
Eins og venjulega tók ég lestina á Bræðraborgarstöð og hún bar mig sem leið liggur undir Vesturbæinn, Grjótaþorpið og inn á Aðalstrætisstöðina undir gamla Moggahúsinu. Síðan áfram undir Lækjartorg og Bankastræti og Laugaveginum endilöngum upp á Hlemm.
Svona hófst ferðin í vinnuna í huga mínum, en í bláköldum veruleikanum sat ég í bílnum mínum þessa venjulegu og þráðbeinu leið, Hringbraut, Miklabraut, Vesturlandsvegur. Ég man ekki hvar á þessari leið í þéttri bílaumferð það gerðist að ég datt út í draumóra um hvað það væri nú mikill munur ef maður gæti látið berast þessa leið í jarðlest í stað þess að fara hana akandi, einn í bílnum mínum.
Ég fór að hugsa um hvað það yrði frábrugðið ferðalag og einfaldara. Ég gæti verið viss um að lestin kæmi á stöðina mína vestur í bæ á réttum tíma, vegna þess að jarðlestir eru óháðar tiktúrum bílaumferðar. Þannig að ég gæti vitað upp á hár, eða þar um bil, hvenær ég þyrfti að leggja af stað niður á lestarstöðina.
Þegar lestin kæmi gæti ég sest inn og farið að lesa Moggann eða jafnvel bók, og gæti sökkt mér í hana þyrfti aldrei að svo mikið sem líta upp þessar fimmtán til tuttugu mínútur sem það tæki lestina að fara upp á Háls. Kannski þyrfti ég þá að grípa til þessara jafnfljótu, og það gæti orðið krefjandi í vondum veðrum. En það væri líka hægt að tengja strætóferð við hverja lestarkomu og þannig auðvelda ferðalagið.
Leiðin í vinnuna yrði þar með afslappandi og ég myndi mæta jafn, ef ekki betur úthvíldur og ég var þegar ég vaknaði. Ég dundaði mér líka við að búa til í huganum stóra og mikla skiptistöð undir Kringlunni, þar sem línurnar tvær í jarðlestarkerfinu mínu skárust. Af þessari skiptistöð var innangengt í Kringluna og jafnvel líka Hús verslunarinnar. Já, ég gleymdi að nefna áðan að frá stöðinni undir Lækjartorgi er auðvitað innangengt í fína tónlistarhúsið.
Þetta voru svo sannarlega skemmtilegar hugleiðingar, og ég er viss um að þær lyftu mér upp og gerðu mig að betri starfskrafti fyrir Árvakur þennan dag. Það var ekki fyrr en seinna að það rann upp fyrir mér að þessar hugleiðingar mínar um jarðlestarferðina í vinnuna voru í rauninni hreinræktuð fantasía. Það sem gerir þær að hreinu ævintýri er það hversu fjarri þær eru veruleikanum, og hversu fjarri því fer að þær verði nokkurntíma að veruleika.
Myndin sem ég dró upp í huga mér af Reykjavík með einfalt jarðlestarkerfi til dæmis eina línu frá Granda og upp í Mosfellsbæ, og aðra línu úr Grafarvogi og suður í Hafnarfjörð var mynd af ævintýraborg, miðað við þann áþreifanlega og blákalda veruleika sem við manni blasir og maður býr í og heitir Stór-Reykjavíkursvæðið.
Þegar þetta hvað hugarflugið hafði í rauninni leitt mig út í mikla draumóra hafði runnið upp fyrir mér var ég ekki lengur upplyftur heldur niðurlútur og fúll. Mun verri starfskraftur en um morguninn. Ég sá fram á það að þessi draumur minn yrði aldrei að veruleika. Þess í stað verð ég um ókomna tíð að eyða bestu kröftum dagsins stundinni sem orðtækið segir að gefi gull í mund í að keyra bílinn minn og passa mig á hinum bílunum, taka af stað og stoppa, gefa í og hægja á. Ekki að undra að í einhverri breskri könnun sem ég las um fyrir skömmu sagði að fólki þættu ökuferðir í og úr vinnu vera mest stressandi tímar dagsins.
Og það sem gerir þetta enn blóðugra er að ég hef kynnst því af eigin raun hvernig það er að geta upplifað þennan veruleika sem ég lét mig dreyma um þennan morgun á leið í vinnuna. Eins og svo ótalmargir aðrir sem núna eiga heima í Reykjavík átti ég einu sinni heima í útlöndum, í stórborg sem er með alvöru almenningssamgöngukerfi. Samt var þetta norður-amerísk borg sem á það sammerkt með Reykjavík að vera mikil bílaborg og gríðarlega víðfem miðað við íbúafjölda.
Ég bjó í úthverfi, en um tíma sótti ég skóla í miðborginni og fór þangað með jarðlestinni á hverjum morgni. Margfalt lengri leið en ég þarf núna að fara í vinnuna, en það rifjaðist einmitt upp fyrir mér þarna um morguninn þegar ég gleymdi mér í draumórunum, að samt var það mun þægilegra og afslappaðra ferðalag en ökuferðin er núna á morgnana. Gott ef það var ekki einmitt þessi þanki sem sem kom draumórunum af stað.
Daginn eftir þessa draumóraferð mína í vinnuna las ég það svo í fréttum að formaður umhverfissviðs borgarinnar segði ljóst að aðalumferðaræðar borgarinnar séu fullmettar. Varla held ég að þetta hafi talist til marks um ótrúlega skarpskyggni mannsins eða verið sérstök skúbbfrétt. Svo fór maðurinn að tala eins og að Sundabraut myndi leysa vandann, þannig að ekki þyrfti í raun að velta þessu máli meira fyrir sér. Hvort tveggja er rangt hjá honum Sundabraut mun ekki leysa vandann, og það þarf að velta þessu meira fyrir sér. Það hefur líka komið fram í fréttum nýlega að hér sé óhemju mikið af bílum miðað við hliðstæðar borgir í nágrannalöndunum.
Það þarf að fara að hugsa upp á nýtt um lausnir á þeirri martröð sem samgöngur í Reykjavík eru orðnar. Og það þarf að hætta að hugsa um að þétta byggðina. Þétting byggðarinnar gerir martröðina verri. Fyrst þarf að búa til neðanjarðarævintýraborgina sem ég var að lýsa hérna að ofan. Þegar hún er komin er hægt að þétta byggðina án þess að Reykjavík verði að hjarta- og æðasjúklingi.
Til að búa til alvöru borg þarf ekki fyrst og fremst að búa til gljáandi fjármálahverfi, eins og yfirvöld í Reykjavík virðast nú halda. Það sem mestu skiptir er samgöngukerfið. Núna þarf að hætta að hugsa um skammtímaumbætur á því. Sundabraut mun í mesta lagi leysa vandann til fáeinna ára. Það þarf einfaldlega að fara að hugsa um alveg nýja tegund af samgöngukerfi.
Við eigum ekki að láta okkur dreyma um það eitt að í Reykjavík rísi glæsilegt tónlistarhús og röð af glæsilegum háhýsum. Við eigum ekki að miða framtíðarhugmyndirnar við að koma okkur upp slíkum gljándi skrautgripum til að sýna gestum og monta okkur af. Þess í stað þurfum við hluti sem gera borgina betri fyrir okkur að búa í.
Eiginlega er alveg fáránlegt að manni skuli finnast það fantasíukennt að hugsa um Reykjavík með alvöru borgarsamgöngukerfi. En á meðan íbúunum finnst slík tilhugsun fantasíukennd og draumórar einir getur Reykjavík ekki talist alvöru borg. Glerhýsi á hafnarbakkanum, þar sem norðanáttin getur ausið sjónum yfir það látlaust og þakið það seltu og skít, mun ekki gera Reykjavík að alvöru borg.
Og þetta snýst ekki heldur um að fara að horfa til himins og fylla borgina af háhýsum. Ekki er langt síðan að bent var á að slíkt stangast á við veðurfræðilegar staðreyndir um borgina. Þar af leiðandi er slíkt beinlínis óskynsamlegt. Nei, það þarf þvert á móti að fara að horfa niður fyrir lappirnar á sér og auka jarðtenginguna og hreinlega byggja niður í jörðina.
Vísindi og fræði | Breytt 8.11.2006 kl. 16:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.9.2006 | 17:42
Reglur og afleiðingar
Viðhorf, Morgunblaðið, 12. september, 2006
Þeir George W. Bush Bandaríkjaforseti og Alexander Downer, utanríkisráðherra Ástralíu, héldu því báðir fram í síðustu viku að leynifangelsi CIA og "sérstakar aðferðir" við yfirheyrslur á föngum hafi skilað verulegum árangri; beinlínis komið í veg fyrir hryðjuverk og þannig bjargað mannslífum.
Þetta vekur þá athyglisverðu og sígildu spurningu hvort það geti virkilega verið réttlætanlegt að beita fáeina einstaklinga - sem allt útlit er fyrir að hafi margt til saka unnið - "sérstökum aðferðum" (við vitum jú öll hvað átt er við með því, er það ekki?) til að koma í veg fyrir að margfalt fleira blásaklaust fólk - og líklega þar á meðal börn - deyi.
Þetta er siðferðileg spurning. Hvernig er hægt að leita svars við henni? Hver einasta manneskja með heilbrigða réttlætiskennd getur fundið svar í eigin brjósti, byggt á einlægri sannfæringu. Að vísu getur verið misjafnt hversu ákveðið fólk er í sinni sök, og eins víst að flestir myndu finna með sjálfum sér djúpstæða togstreitu. Franski heimspekingurinn Albert Camus mun einhvern tíma hafa verið spurður hvort hann myndi vera reiðubúinn að fórna réttlætinu til að bjarga lífi móður sinnar, og segir sagan að hann hafi svarað á þá leið að hann vonaði að hann myndi hafa hugrekki til að velja þann kostinn að bjarga lífi móður sinnar.
Þótt ólíklegt sé að ef og þegar á reynir sé fyrir hendi þolinmæði eða yfirleitt tími til að leita fræðilegra svara við þessari spurningu er hún engu að síður afar athyglisverð frá sjónarhóli siðfræðinnar - þeirrar fræðigreinar sem leitast við að svara almennt spurningunni um hvað manni sé leyfilegt að gera.
Það sem gerir spurninguna um beitingu "sérstakra aðferða" við yfirheyrslur sérstaklega áhugaverða fyrir siðfræðinga er að í henni lýstur svo augljóslega saman tveim af helstu tegundunum sem til eru af siðfræðikenningum, það er að segja reglusiðfræði og afleiðingasiðfræði.
Reglusiðfræðin kveður á um að rétt breytni ráðist af algildum reglum, eins og til dæmis boðorðunum tíu, og þannig er kristið siðferði gott dæmi um reglusiðferði. Afleiðingasiðfræði kveður aftur á móti á um að það sem sker úr um hvort breytni er góð eða vond sé það hvort hún hefur góðar eða slæmar afleiðingar fyrir sem flesta. Það er að segja hvort breytnin "hámarkar hamingju", eins og það myndi heita á viðskiptaíslensku.
Orð þeirra Bush og Downers í síðustu viku voru greinilega sprottin af einhverskonar afleiðingasiðferðishugsun. Þeir sem gagnrýnt hafa Bandaríkjamenn fyrir leynifangelsi og meintar "sérstakar aðferðir" við yfirheyrslur hafa aftur á móti ekki það ég man skírskotað til neinna meintra afleiðinga heldur yfirleitt til meintra brota á algildum grundvallarreglum, eins og til dæmis mannréttindum og Genfarsáttmálanum.
En má þá vænta þess að siðfræðingar geti skorið úr um hvort það eru á endanum prinsippmennirnir eða pragmatistarnir sem hafa á réttu að standa? (Væri vissulega gaman að heyra frá atvinnusiðfræðingum um þetta efni). Uns annað kemur á daginn verður að teljast afskaplega ólíklegt að siðfræðin geti skorið þarna úr. Sem fyrr kemur hún því að litlum notum þegar á reynir.
Vissulega getur siðfræðin dregið fram ýmis rök í málinu. Til dæmis má benda á, reglusiðferðinu til stuðnings, að það getur verið afskaplega torvelt að sjá fyrir afleiðingar allrar breytni, og segja má að ógerlegt sé með öllu að vera handviss um að tiltekin breytni muni í raun og veru hafa tilætlaðar, jákvæðar afleiðingar fyrir svo og svo marga. Aftur á móti má benda á að maður getur verið viss um að öll breytni hafi einhverjar afleiðingar, og því sé maður að skorast undan ábyrgð á eigin gjörðum ef maður reynir ekki að sjá afleiðingarnar fyrir.
Ennfremur má halda því fram, að þar sem afleiðingar verði í flestum tilfellum ekki séðar fyrir - og því ekki hægt að taka ákvörðun í ljósi þeirra - verði einfaldlega að hafa fyrirfram gefnar og algildar reglur til að fara eftir, því að annars sé alls ekki hægt að taka neina ákvörðun. Samkvæmt þessu leiðir eiginlegt afleiðingasiðferði (þar sem breytni er raunverulega byggð á fyrirfram séðum afleiðingum) til einskonar siðferðislömunar, því að það sé sjaldnast hægt að skera úr um réttmæti breytni.
En það má líka segja að sá sem breytir samkvæmt fyrirfram gefinni reglu, án þess að reyna að sjá fyrir afleiðingarnar, virðist loka augunum fyrir hinum áþreifanlega veruleika og leita skjóls í einhverskonar hugsjón, og sé jafnvel tilbúinn til að fórna lífi saklauss fólks til að ekki falli blettur á hugsjónina.
En ef við nú höfum engar grundvallarreglur, er þá ekki hætta á að við missum tökin og leiðumst út í hina hroðalegustu breytni? Er vogandi að setja siðferðið í hendur mannanna? Verður það ekki að vera með einhverjum hætti mönnunum "æðra", það er að segja, komið frá Guði eða hreinni skynsemi?
Ég held satt að segja að lengra komist siðfræðin ekki með svar við spurningunni sem spurt var hér í upphafi. En það má þó kannski segja að siðfræðina megi nota til að henda að einhverju leyti reiður á þeim grundvallarsiðferðisgildum sem lendir saman þegar svör eru gefin við spurningunni.
Vísindi og fræði | Breytt 8.11.2006 kl. 16:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.6.2006 | 10:07
Öld broddgaltarins
Viðhorf, Morgunblaðið, 26. júní 2006
Sir Isaiah Berlin skrifaði einu sinni heillandi ritgerð um Tolstoj. Hún heitir Broddgölturinn og refurinn (The Hedgehog and the Fox) og er meira grípandi en saga eftir Grisham, meira upplýsandi en margra tíma sveim um netið, skiljanlegri en fréttir dagsins og betur skrifuð en nokkur skáldsaga.
Byrjunin á þessari ritgerð er fyrir löngu orðin fræg, og það hefur svo oft verið vitnað í hana að varla er á bætandi. En það var þetta með góða vísu sem aldrei verður of oft kveðin...
Berlin byrjar ritgerðina sem sé á því að vitna í brot út kvæði eftir forngrískt skáld sem hét Arkilokus: "Refurinn veit margt, en broddgölturinn veit aðeins einn stóran sannleika." Þessa tilvitnun túlkar Berlin síðan á þann hátt að í grófum dráttum megi skipta fólki í tvo hópa, refi og broddgelti. Að settum hefðbundnum fyrirvörum um merkingareyðandi einfaldanir heldur Berlin því fram að þessi skipting geti að ýmsu leyti verið hjálpleg og upplýsandi. Og hún er það enn. (Í það minnsta er hún mjög skemmtileg.)
Túlkun Berlins er á þá leið að refir og broddgeltir upplifi veröldina og lifi lífinu með gerólíkum hætti. Líf broddgaltarins snýst allt um eitt meginatriði; allt sem hann upplifir skilur hann og túlkar útfrá þessum eina pól sem hann getur ekki hvikað frá vegna þess að hann sér engan annan. Fyrir broddgöltinn er lífið því tiltölulega einfalt.
Líf refsins er aftur á móti markað af fjölmörgum sjónarhólum sem hann getur skotist á milli, og hann getur skilið upplifanir sínar frá hverjum þeirra sem er. Hann gerir sér fullkomna grein fyrir því að veröldin er margbrotin og flókin smíð sem ekki er hægt að fella í eitt meginkerfi.
Það er enginn dómur fólginn í þessari skiptingu; hvorki að broddgölturinn sé þröngsýnn né að refurinn sé vingull. Berlin heldur því fram í ritgerðinni að Tolstoj hafi í rauninni verið líkari refnum en broddgeltinum, en um leið hafi hann trúað því að líf broddgaltarins væri betra og sannara en líf refsins, og reynt eftir mætti að breytast í broddgölt.
En skyldi líf broddgaltarins í raun vera eftirsóknarverðara en líf refsins? Ætli svarið við því ráðist ekki af ytri aðstæðum á hverjum tíma. Við sumar aðstæður er lífsafstaða refsins vænlegri til afkomu, en broddgaltarins við aðrar. Og svo maður reynir nú jafnvel að vera praktískur mætti halda því fram að refurinn henti vel í sum störf, en broddgölturinn í önnur.
Því hefur þannig verið haldið fram, að ætli maður sér að ná árangri í viðskiptum verði maður að finna broddgöltinn í sjálfum sér. Með öðrum orðum, maður þarf að vera stefnufastur. Í stjórnunarfræðum mun meira að segja vera til svokölluð "broddgaltarhugmynd", það er að segja, útgangspunkturinn sem allt annað miðast við og veltur á. Stóri kosturinn við lífssýn broddgaltarins er sá, að hann getur gert veröld sem við fyrstu sýn er óheyrilega flókin alveg nauðaeinfalda. Það verður því alveg kýrskýrt hvað þarf að gera, og hvað skiptir minna máli.
Í ljósi þess hvernig ytri aðstæður eru núna - þeirrar ofuráherslu og miklu athygli sem kaupsýsla hverskonar nýtur núna - er líklega alveg óhætt að segja að nú sé öld broddgaltarins. Það er að segja, um þessar mundir er betra að vera broddgöltur en refur.
En það ræðst ekki af eiginlegum yfirburðum broddgaltarins, heldur miklu fremur af því að aldarfarið er hallkvæmt broddgeltinum, hefur hann til vegs og virðingar, telur hann stefnufastan fremur en þröngsýnan, ákveðinn fremur en einstrengingslegan. Í þessu sama aldarfari er refurinn vingull fremur en víðsýnn, reikull fremur en eftirtektarsamur.
Það er ekki langt síðan refnum var hampað eins og broddgeltinum nú. Þarf ekki að fara aftur nema tvær þrjár kynslóðir - hippatíminn var gullöld refsins; í því aldarfari var broddgölturinn afturhaldssamur, þröngsýnn og fanatískur.
En núna sitja refirnir hoknir á básum sínum (sem broddgeltirnir hafa gefið það virðulega heiti "vinnustöðvar"), helteknir upplýsingafíkn og sanka að sér hinum aðskiljanlegustu vitneskjubútum sem þeim gengur þó illa að fella saman í einhverja heild. Því er alveg undir hælinn lagt hvort refurinn getur með einhverjum hætti hagnýtt sér allar upplýsingarnar sem hann sankar að sér. Líklegra er að hann verði bara ringlaður. Það hefur áreiðanlega verið refur sem bjó til hugtakið "upplýsingamettun".
Kenning Berlins um Tolstoj getur verið refum nútímans bæði huggun og holl lesning. Þar að auki bendir ýmislegt til þess að farið sé að síga á seinni hluta gullaldar kaupsýslubroddgaltanna. Eina raunhæfa leiðin til að afstýra svokölluðum menningarárekstrum - sem verða sífellt harkalegri og færast sífellt nær - er að byggja upp fjölmenningarsamfélög, og við slíkar ytri aðstæður er líklegt að það sem núna lítur út fyrir að vera vingulsháttur refsins geti blómstrað sem umburðarlyndi.
Sjálfur var Berlin refur. Hver nema sannur refur gæti séð lífið frá tveim svona gerólíkum sjónarhólum? Og hann blómstraði í lífsafstöðu refsins, en kannski var það vegna þess að þá var jarðvegurinn frjór. Það er ekki að vita hvað yrði um hann núna.
Vísindi og fræði | Breytt 7.8.2006 kl. 17:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)