Mikil ölvun

Viðhorf, Morgunblaðið 1. ágúst 2007

Um og eftir næstu helgi fyllast fjölmiðlar af árstíðarbundnum fréttum af ölæði barna og unglinga og öðrum ólifnaði. Sýndar verða myndir af tjaldstæðum sem líta helst út eins og ruslahaugar og rætt verður við misölvaða unga menn sem eru að skemmta sér í haugunum miðjum.

Ég er ekki búinn að nefna það versta af öllu: Það verða líka fréttir af nauðgunum, ofsaakstri og öðru ofbeldi. Eiginleg viðbrögð verða eins og venjulega ekki önnur en þau að setja atburði helgarinnar í tölulegt samhengi og bera saman við fyrri ár. Í kjölfarið fylgja svo viðtöl við skemmtanahaldara sem segja að það hafi verið örfáir sem hafi hagað sér illa, flestir gestir hafi verið siðsamt fjölskyldufólk.

Þetta verður með öðrum orðum hefðbundinn verslunarmannahelgarfréttaflutningur, alveg eins og verið hefur undanfarin ár og verður líklega um komandi ár. Liður í þessum árvissa fréttaflutningi eru tíðindi af "óviðunandi barna- og unglingadrykkju," sem hefur jú tíðkast á Íslandi frá örófi alda og virðist hér teljast nauðsynlegur þáttur í uppvextinum, rétt eins og það er hefðbundinn þáttur í umræðunni að óskapast yfir þessu.

En þetta mun ekki breytast, hvað sem allri hefðbundinni umræðu líður. Börn og unglingar á Íslandi munu halda áfram óhóflegri áfengisneyslu með tilheyrandi fórnarkostnaði og umönnunarkostnaði. Af einhverjum ástæðum, sem ég hef aldrei skilið hverjar eru, telst þetta eðlilegt. Vænt þætti mér um ef einhver gæti útskýrt fyrir mér hvernig þetta getur verið eðlilegt, og hvers vegna þessi (meinti) "fámenni" hópur fær sífellt að ráða ferðinni.

Við hin, þessi furðufyrirbæri sem vita fátt leiðinlegra en fyllirí og ölvað fólk, munum halda áfram að borga brúsann og verða fyrir barðinu á skemmdarfýsninni sem unglingarnir fá útrás fyrir í ölæðinu. Og við höldum áfram að láta þetta yfir okkur ganga vegna þess að frekjan í fyllibyttunum er okkur einfaldlega ofviða. Eða vegna þess að við erum svona meðvirk, ég skal ekki segja.

Ég held samt að það sé kominn tími til að við hættum þessari meðvirkni, hættum að láta í minni pokann og skerum upp herör gegn byttunum. Í þeim tilgangi legg ég til að fyrir verslunarmannahelgina á næsta ári verði settar upp sérstakar ölbúðir einhvers staðar á hálendinu og öllum börnum og unglingum landsins boðið þangað á mikið fyllirí á kostnað hins opinbera. Svæðið verði girt af og innan þess haft friðargæslulið og sjúkralið.

Þetta svæði þyrfti að hafa svo langt í burtu frá allri mannabyggð að við teprurnar yrðum ekki varar við óeirðirnar og mannfallið innan girðingarinnar. Til að fá smá tekjur af þessu má selja erlendum ferðamönnum safaríferðir í rammbyggðum jeppum um svæðið. Einnig mætti hleypa þangað ýmsum vísindamönnum, til dæmis félagsfræðingum, mannfræðingum og afbrotafræðingum, sem vísast gætu aflað þarna mikilvægra gagna í rannsóknir.

Þeir sem veljast til friðargæslu- og hjúkrunarstarfa á svæðinu þurfa að vera þrautreyndir og fá há laun með mikilli áhættuþóknun. Ég verð að viðurkenna að sjálfur myndi ég ekki vera tilbúinn í starfann, sama hve há laun væru í boði. Ég er einfaldlega ekki nógu sterkur til þess, hvorki líkamlega né andlega.

Þessar búðir myndu ennfremur hafa forvarnargildi, því að þær yrðu einskonar darvinsk skilvinda sem myndi greina þá einstaklinga, sem hafa erfðabundna tilhneigingu til ofneyslu áfengis, frá hinum en kosturinn væri sá að þarna kæmi erfðagallinn snemma fram og hægt væri að senda viðkomandi einstaklinga strax í meðferð og spara þannig samfélaginu mikinn umönnunarkostnað í framtíðinni, að ekki sé nú minnst á að samfélaginu yrði hlíft við ónæðinu af þessu fólki og jafnvel misindisverkum þess.

Þótt vissulega myndi þetta kosta ríkissjóð eitthvað væri þar einfaldlega um að ræða kostnað við sjálfsagða þjónustu við stóran, þögulan þjóðfélagshóp sem fram að þessu hefur sætt hálfgerðri kúgun af hálfu minnihlutans sem ekki kann að fara með áfengi og hefur talið sjálfsagt að láta hina borga brúsann.

Hvernig stendur til dæmis á því að almennir skattgreiðendur þurfa að borga "hótelkostnaðinn" fyrir þá sem lögreglan hirðir upp af götunni um helgar og vistar í fangageymslum? Af hverju má ekki rukka þessa einstaklinga þegar þeir rakna úr rotinu? Hvers vegna er þeim sem lögreglan þarf að hafa afskipti af vegna ölvunar ekki sendur reikningur fyrir "umönnunarkostnaði?" Ég er afskaplega ósáttur við að það sem ég borga í skatta skuli að einhverju leyti fara í að greiða kostnaðinn af annarra manna fylliríum.

Hjá þessu mætti að miklu leyti komast með því að sía snemma úr þá sem hafa erfðabundna tilhneigingu til stjórnlausrar áfengisneyslu, og hefja þegar í stað viðeigandi meðhöndlun. Áfengissýki er bæði sjúkdómur og samfélagsmein, og því er nauðsynlegt að koma upp einskonar "leitarstöð," líkt og starfræktar eru í forvarnarskyni gegn öðrum sjúkdómum, eins og til dæmis krabbameini. Ölbúðir á afskekktum stað gætu orðið slík leitarstöð.

Til að fyrirbyggja misskilning vil ég að lokum taka fram að ég er ekki bindindismaður. Þvert á móti. Enginn dagur án bjórs. En ég verð víst að viðurkenna að ég fell í hóp þessara undarlegu einstaklinga sem drekka ofboðslega lítið í einu. Þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir á yngri árum tókst mér ekki að tileinka mér hið hefðbundna íslenska ofdrykkjumynstur, enda hef ég aldrei náð að falla í neinn hóp.

Ég hef hingað til farið með þennan ágalla minn eins og mannsmorð, að viðlagðri fyrirlitningu og útskúfun samfélagsins. En núna er ég kominn út úr skápnum og ætla að berjast fyrir viðurkenningu og réttindum hófdrykkjufólks á Íslandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elías Halldór Ágústsson

Þetta hef ég verið að segja í áratugi. Þessi tilhneiging Íslendinga til áfengismisnotkunar stafar af því að áfengi er hér sjaldséð, dýrt og yfir neyslu þess hvílir einhver bannhelgisljómi. Börn og unglingar skynja bannhelgisljómann og misskilja hann og túlka hann sem tákn um eitthvað af þessum frábæru hlutum sem fullorðnir mega gera en ekki börn, svo sem kynlíf og skattar.

Einnig höfum við, einangrunar okkar vegna og bágrar bruggkunnáttu í gegnum aldirnar, farið á mis við þessa Darwinísku skilvindu sem Miðjarðarhafsþjóðirnar hafa búið við í árþúsundir og nágrannaþjóðir okkar norðan Alpafjalla einnig, þó í eitthvað minna mæli. 

Annars bendi ég á frábært viðtal við Gérard LeMarquis í skólablaði MH 1984; "Íslendingar drekka of lítið". 

Elías Halldór Ágústsson, 3.8.2007 kl. 16:09

2 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

áfram hófdrykkjufólk! Þetta er maður að reyna að kenna börnunum sínum núna.

Verst að það gæti orðið þrautin þyngri að komast yfir þetta skólablað til að lesa viðtalið...

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 3.8.2007 kl. 16:14

3 Smámynd: Elías Halldór Ágústsson

Einnig yrði ég alls ekki hissa þótt það kæmi fram við rannsóknir að drykkjulæti sauðdrukkinna Íslendinga væru ekki nauðsynleg afleiðing ölvunar heldur lært atferli, hárnákvæm fylgni við hlutverk það sem þau hafa gengist inn í; hvert slef og hvert draf er nýtt tilbrigði við handrit kynslóðanna.

Elías Halldór Ágústsson, 3.8.2007 kl. 17:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband