Uppreisn í miðborginni

Viðhorf, Morgunblaðið 29. ágúst, 2007

Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi gætti þess vandlega í sjónvarpsviðtali um helgina að bera lof á lögreglumennina sem hann og fleira Samfylkingarfólk hafði farið með á vaktina í miðborg Reykjavíkur þá um nóttina. Dagur tók fram að íslensku lögregluþjónarnir væru hreint ekki eins og kleinuhringjaétandi löggurnar sem maður sér í bandarískum bíómyndum.

Þessi síðastnefnda athugasemd hans var nú dálítið hallærisleg og einhvernvegin skot yfir markið, en það var þó gott hjá honum að tala um það að lögreglan ynni gott og vanþakklátt starf þarna á ófriðarsvæði 101. Mér finnst líka gott hjá Stefáni Eiríkssyni lögreglustjóra að hnykla vöðvana á armi laganna svolítið.

En Dagur hefði í þessu sambandi mátt hafa orð á því sem miklu skiptir þegar friðelskandi borgarbúar hafa nú allt í einu tekið upp á því að höfða til lögreglunnar að skakka næturleikinn í 101, það er að segja smánarlegum laununum sem lögreglumönnunum eru greidd fyrir varðstöðuna.

Það vita allir sem vilja að reyndir lögreglumenn hafa verið að segja upp störfum vegna lélegra launa, en lögreglumennirnir sjálfir ræða það ekki opinberlega, sem er á sinn hátt afskaplega virðingarvert. Þess vegna hefði verið flott hjá Degi að taka upp hanskann fyrir lögreglumennina að þessu leyti, í stað þess að segja eitthvað kjánalegt eins og það að þeir séu ekkert að borða kleinuhringi á næturvaktinni.

Hún er óneitanlega athyglisverð þessi uppreisn sem þögli meirihlutinn virðist nú vera farinn að gera gegn hávaðasama minnihlutanum sem leggur undir sig miðborgina um nætur um helgar, og í skjóli myrkurs og ölæðis veldur þar í besta falli ferlegum sóðaskap og í versta falli eignaspjöllum og alvarlegum áverkum.

Hvað kemur til? Af hverju núna? Tölur benda ekki til þess að ástandið hafi versnað sérstaklega upp á síðkastið. Hvað hefur þá breyst? Líklega er það upplifun fólks á ástandinu í miðborginni sem hefur breyst, og líka er farið að örla á þeirri hugmynd að þetta sé kannski ekki ofureðlilegt og óumbreytanlegt ástand sem maður geti ekki gert annað með en að sætta sig við.

Skyndilega eru málsmetandi miðborgarbúar farnir að tala um að þeir séu jafnvel hálf smeykir í nærumhverfi sínu á nóttunni. Þetta er ekki fólk sem er þekkt að því að reka einstrengingslegan bindindisáróður. Þvert á móti hefur það hingað til talað fyrir umburðarlyndi, frjálslyndi og skemmtilegheitum.

En núna er þetta fólk að því er virðist farið að krefjast síns eigin réttar - til svefnfriðar, þó ekki væri annað. Grein Fríðu Bjarkar Ingvarsdóttur á miðopnu Morgunblaðsins á mánudaginn var metfé. Grípandi lýsing á upplifun hennar á stöðu mála, og slíkt segir mun meiri sögu í þessum efnum en tölulegar staðreyndir, vegna þess að þetta mál snýst um samskipti fólks.

Þegar svo er skipta tölulegar staðreyndir um fjölgun eða fækkun tilkynntra afbrota á tilteknu svæði engu máli. Tölulegar staðreyndir myndu kannski skipta meginmáli ef um kaupsýslu væri að ræða, en þetta eru ekki viðskipti heldur samskipti.

Ég verð þó að segja að ég skil vel viðhorf lögreglumannanna sem Fríða lýsti í greininni. Þeir verða að velja sér orrustur af gaumgæfni og ekki eyða kröftum í það sem er minniháttar vegna þess að alltaf má reikna með að rétt handan við hornið bíði bókstaflega átök þar sem þarf að hafa undir snarbrjálaða menn.

Merkilegt má telja að lögreglumennirnir séu yfirleitt til í slaginn fyrir þau lúsarlaun sem þeir fá. En um þá gildir líklega það sama og aðrar umönnunarstéttir á Íslandi og víðar. (Því að auðvitað eru lögreglumenn að sinna umönnunarstarfi þegar þeir fara heim með meðvitundarlausa unglinga, eða koma í veg fyrir að ölóðir sjóðstjórar og blaðamenn berji hvorir aðra í spað).

Þeir sem eru í umönnunarstörfum láta sig nefnilega oft hafa það að þiggja léleg laun vegna þess að samfélagslegt mikilvægi starfa þeirra er á sinn hátt umbun erfiðisins. (Þó er vægast sagt siðferðislega vafasamt af hálfu valdhafanna að gera út á þetta, eins og þeir virðast gera). Þeir sem aftur á móti sinna störfum sem ekki eru samfélaginu jafn mikilvæg verða hinsvegar að fá öðru vísi umbun, og hún er í langflestum tilvikum í formi auðs og valda, og/eða athygli fjölmiðla og almennings.

Þeir síðarnefndu eru því í raun mun háðari þeim fyrrnefndu en útlit kann að vera fyrir ef fljótt er á litið. Á þetta reynir nú í Reykjavík á fleiri vígstöðvum en einum, og eru miðborgarvígstöðvarnar aðeins eitt dæmi - að vísu afskaplega dramatískt.

Fróðlegt verður því að fylgjast með hvernig orrustunni um miðborgina lyktar. Mun lögreglunni endast mannskapur til að koma á einhverskonar friði, eða neyðast þeir sem friðarins óska til að hækka laun lögreglumanna svo að fjölga megi nægilega í stéttinni til að hún geti haft hemil á villtum borgurum? Að minnsta kosti er það ekki rétta aðferðin að skammast út í lögregluna.

Fríða Björk sagði í grein sinni að það sem ylli ósköpunum í miðborginni væri skortur á velsæmi og tillitssemi. Þar hitti hún naglann á höfuðið. Þess vegna kemur tvennt til greina til að bæta ástandið: Að fara og tala um fyrir næturgestum miðborgarinnar og fá þá til að gæta velsæmis og vera tillitssamir; eða að þeir verði fjarlægðir - þá væntanlega af lögreglunni.

Er líklegt að þessi mannskapur taki fortölum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistill hér á ferð ... 

... en ég kom aðallega hingað inn á síðuna þína til að þakka þér fyrir frábæran pistil um Hótel Akureyri í Mogganum í dag. Ég vildi óska þess að hver einasti Akureyringur læsi þennan pistil. Ég vonast til að sjá pistilinn hér inni á bloggsíðunni þinni og myndi þá gjarnan vilja fá leyfi til að setja link á hann á síðunni minni.

Ég skrifaði um daginn á bloggsíðunni minni um annað yfirvofandi skipulagsslys hér á Akureyri. Í því tilfelli stefnir í að gráðugir byggingaverktakar fái enn einu sinni að deiliskipuleggja græna reiti með sjö hæða Baldurshagablokkum í hverfi þar sem engin hús eru hærri en tvær hæðir.  

Í pistlinum þínum lýsir þú nákvæmlega sömu áhyggjum varðandi aðkomu Akureyrar að skipulagsmálum og ég, og margir aðrir hafa gert, sem reyna að beita áhrifum sínum til að koma í veg fyrir skipulagsslysið í okkar hverfi. Mér er það óskiljanlegt ef  bæjaryfirvöld  líta ekki á það sem hlutverk sitt að koma í veg fyrir menningarsögulegt slys eins og það að rífa Hótel Akureyri eða almennt skipta sér meira af því hvernig bærinn minn lítur út . Enn og aftur takk fyrir að vekja máls á því með þessum frábæra pistli. 

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 7.9.2007 kl. 10:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband