Hótel Akureyri

Viðhorf, Morgunblaðið 7. september, 2007

Fátt virðist nú geta komið í veg fyrir að húsið á Hafnarstræti 98 á Akureyri, Hótel Akureyri, verði rifið og í staðinn byggt Guð má vita hvað. Verður þetta niðurrif stórkostlegt menningarsöguslys eða bæjarhreinsun?

Húsið er svo sannarlega ekki fallegt í því ástandi sem það er núna. Það virðist helst sem ekkert hafi verið gert við húsið síðan það var byggt árið 1923, annað en að breyta því á stöku stað eftir því sem hentaði breyttu hlutverki hverju sinni. Afleiðingin er sú að húsið lítur út eins og margstöguð og úr sér gengin flík.

Ég veit ekki hvort til eru ljósmyndir af húsinu eins og það var nýbyggt, nema það má sjá grilla í það í gömlum götumyndum úr Hafnarstrætinu, og þá virðist það hafa sett sterkan svip á götuna.

Það er kannski tilgangslaust að velta því lengur fyrir sér hvort rík ástæða væri til að varðveita húsið og gera það upp. Bæjaryfirvöld vilja ekki koma nálægt málinu og segja núverandi eigendur hússins ráða örlögum þess. Og eigendurnir segjast bara bíða eftir því að bærinn láti rífa og það á jafnvel að gerast strax í þessum mánuði.

En þar sem fyrirhugað niðurrif hefur vakið deilur, og þar sem um er að ræða hús sem á sér sögu sem er hluti af sögu Akureyrar og hluti af hjarta bæjarins, gæti verið ómaksins vert að inna eigendur hússins eftir því hvort þeir hafi velt því eitthvað fyrir sér að þeir kunni að vera með í höndunum verðmæti sem ekki teljast einungis í peningum.

Einnig mætti spyrja bæjaryfirvöld að því hvort þau séu alveg handviss um að þeirra hlutverk í þessu deilumáli geti ekki verið í neinu öðru fólgið en að fela afdrif hússins alfarið í hendur eigenda þess. Ef um væri að ræða eitthvert hús niðri á Eyri eða úti í Þorpi, svo dæmi séu tekin, væri kannski fullkomlega eðlilegt að bæjaryfirvöld segðu málið sér óviðkomandi, en á Akureyri er Hótel Akureyri ekki bara eitthvert hús í einhverju hverfi.

Má ekki með nokkrum rétti ætlast til þess að bæjaryfirvöld leggi mat á hvað teljist menningarsöguleg verðmæti í bænum og hlutist til um að gæta þeirra? Það hefur verið dálítið undarlegt að fylgjast með framgöngu bæjaryfirvalda á Akureyri í skipulagsmálum undanfarin ár. Engu er líkara en bæjarstjórnin hafi verið staðráðin í því einu að ryðja burtu öllum helstu einkennum bæjarins, og það hefur meira að segja gengið svo langt að hugmyndir voru uppi um að grafa burt miðbæinn næstum í heilu lagi.

Stafar þetta af því að bæjaryfirvöld hafa nákvæmlega enga mótaða stefnu í skipulagsmálum og láta einfaldlega dynti manna sem eiga mikið af peningum og eru haldnir stjórnlausri framkvæmdagleði ráða ferðinni? Eða stafar þetta af því að þeim sem kosnir hafa verið til að stjórna málum bæjarins finnst bærinn svo skelfilega ljótur og mannvirkin í honum svo menningarsögusnauð að þeir sjá þann grænstan að strika út það gamla og byrja á nýrri sögu?

Setjum nú sem svo að ég ætti alveg ofboðslega mikið af peningum og byðist til að reisa nýtt, sérhannað leikhús og afhenda það Leikfélagi Akureyrar til afnota með því skilyrði að ég fengi Samkomuhúsið keypt til niðurrifs og heimild til að byggja mér einbýlishús í gotneskum stíl þar sem Samkomuhúsið stendur nú. Væru bæjaryfirvöld til viðtals um þetta?

Það myndu sannarlega allir hagnast, bæði bærinn og leikfélagið, og ég fengi að búa þar sem mig hefur alltaf langað til að eiga heima. Myndu bæjaryfirvöld ekki sjá neina meinbugi á því að Samkomuhúsið yrði rifið, svo fremi sem LA fengi annað heimili (og meira að segja mun leiklistarvænna) og enginn kostnaður félli á bæjarsjóð?

Ég er ekki að leggja menningarsögulegt verðmæti Hótels Akureyrar að jöfnu við Samkomuhúsið, heldur spyrja hvort bæjaryfirvöld myndu draga línu einhvers staðar og segja hingað og ekki lengra? Hvar væri þá sú lína? Eða er það afstaða yfirvalda í bænum að þar sem "menningarsögulegt gildi" er afstætt og óhjákvæmilega komið undir mannlegu mati sé þegar á hólminn kemur ekki hægt að draga neina línu?

Hver hefðu orðið örlög gamla barnaskólans, sem stendur við hliðina á Samkomuhúsinu ef eigendur fjárfestingabankans Saga Capital hefðu ekki ákveðið að endurbyggja hann með glæsibrag? Ég leyfi mér að fullyrða að menningarsögulegt gildi barnaskólans verður lagt að jöfnu við gildi Samkomuhússins.

Einhverntíma stóð til að rífa skólahúsið, og mikið vildi ég óska að það hafi verið að frumkvæði bæjaryfirvalda sem hætt var við að jafna það við jörðu. Ég veit ekki hver ákvað að endurbyggja húsið, en hafi yfirvöld ekki hvatt til þess væri gaman að vita hvort þeim hafi staðið nákvæmlega á sama. Finnst þeim kannski bara að tal um varðveislu gamalla húsa sé óraunsæ fúaspýtnakofarómantík?

Ég skal viðurkenna að ég veit lítið sem ekkert um sveitarstjórnalög, og það getur vel verið að í slíkum lögum séu beinlínis ákvæði um að bæjar- og sveitarstjórnir megi ekki kosta varðveislu gamalla húsa. En þetta er ekki einungis spurning um lagabókstafi. Núverandi bæjarstjórnarmeirihluti á Akureyri, sem og sá fyrrverandi, hefur ekki sýnt snefil af myndugleika í skipulagsmálum, heldur virðist eingöngu rekinn áfram af bláköldum peningasjónarmiðum.

Myndugleiki gæti til dæmis birst í því að bæjarstjórnarmeirihlutinn sýndi að hann beri skynbragð á sögu bæjarins eins og hún verður lesin úr húsunum sem risið hafa, eitt af öðru, hvert á sínum tíma og hvert eftir einkennum síns tíma, og þannig smám saman gert bæinn að þeim bæ sem hann er. Ef bæjaryfirvöld telja það algjörlega utan síns verkahrings að velta svona hlutum fyrir sér gætu þau sem best sparað peninga með því að leggja niður skipulagsnefnd bæjarins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband