Bölvað upphátt

Viðhorf, Morgunblaðið 17. september, 2007

Sú var tíðin að íslenska þjóðin kunni aðeins ein viðbrögð við ofríki ráðamanna, og það var að bölva í hljóði og halda síðan áfram að strita til að hafa í sig og á. Þegar kom að næstu kosningum voru þessir sömu ráðamenn kosnir næstum rússneskri kosningu og þeir héldu því áfram að beita sömu kjósendur sama ofríkinu.

Ýmislegt bendir nú til að tímarnir séu breyttir. Íslendingar eru margir hverjir hættir að bölva í hljóði og farnir að gera það upphátt. Og það sem meira er, þeir eru farnir að bregðast við ofríki ráðamanna með öðrum hætti en að láta það yfir sig ganga. Í stað þess að bölva bæjarstjórninni safna þeir undirskriftum.

Hverju eru Íslendingar aðallega farnir að mótmæla? Að undanförnu hefur mikið borið á mótmælum við byggingar- og skipulagshugmyndum sem virðast til þess gerðar að gæta fyrst og fremst hagsmuna byggingaverktaka fremur en íbúa á þeim svæðum sem skipulagið og byggingatillögurnar ná til.

Þeim sem mótmæla virðist vera mjög uppsigað við háhýsi. Íbúum í nágrenni byggingarreits vestur á Granda í Reykjavík fannst skipulagsyfirvöld borgarinnar ætla að ganga á bak orða sinna og setja á reitinn mun hærri hús en áður hafði verið gert ráð fyrir. Viðbrögð borgaryfirvalda voru vægast sagt furðuleg: Þegar væri búið að taka heilmikið tillit til íbúanna í grenndinni, hvort virkilega væri ekki komið nóg af slíkri tillitssemi? Með öðrum orðum, borgaryfirvöld virðast líta á þessa borgara sem andstæðinga sína, ekki sem fólkið sem borgaryfirvöld vinna hjá.

Íbúar í Þorpinu (eða Holtahverfi) á Akureyri eru margir ósáttir við hugmyndir um að reistar verði átta hæða blokkir á grænum reit upp af Sandgerðisbót og hafa afhent bæjaryfirvöldum mótmæli og hugmyndir um öðru vísi uppbyggingu og nýtingu á reitnum. Ekki hafa enn borist fregnir af viðbrögðum bæjaryfirvalda, en þau eiga væntanlega eftir að ræða mótmælin - og nýju tillögurnar - á fundi.

Kópavogsbúar eru þó líklega einna duglegastir við að mótmæla austur og vestur, og hafa andæft hugmyndum um skipulag bæði á Kársnesi og á Nónhæð. Bæjarstjórnin hefur að því er virðist tekið heldur dræmt í andmælin, og virðist helst vilja halda ótrauð sínu striki með að byggja á báðum stöðum.

Nú má velta því fyrir sér hvort öll þessi mótmæli eigi sér rætur í einhverri dulinni þörf fyrir að vera á móti öllum sköpuðum hlutum, svona eins og Vinstri græn hafa verið sökuð um að vera haldin, eða jafnvel andstöðu við allar breytingar. Hvort hér sé um að ræða afturhalds- og íhaldssemi sem er dragbítur á framfarir og því ekki ástæða til að taka tillit til.

En ef nánar er að gáð kemur í ljós að það er ekki ástæða til að ætla að svo sé. Í öllum tilvikum hafa íbúarnir fært fram rök fyrir því hvers vegna þeir eru mótfallnir fyrirhuguðum framkvæmdum, og það sem meira er, þeir hafa útlistað hvað þeir vilji fá í staðinn. Það er yfirleitt það sama: Þeir vilja að umrædd svæði verði nýtt til hagsbóta fyrir íbúa í grenndinni.

Þannig sögðu íbúar við Nónhæð í andmælum sínum til bæjarstjórans í Kópavogi, að þeir krefðust þess "að áfram verði gert ráð fyrir að svæðin þjóni fyrst og fremst íbúunum m.a. með görðum og grænum svæðum í anda þess sem heitið var þegar hverfið var skipulagt í upphafi."

Andmæli íbúanna vestur á Granda voru líka á þá lund að borgaryfirvöld stæðu við þær hugmyndir sem fyrst var lagt upp með, það er að segja að á reitnum umdeilda yrði einungis byggð sem væri svipuð að vöxtum og byggðin i næsta nágrenni.

Þeir íbúar í Þorpinu á Akureyri sem hafa andmælt hugmyndum um að reist verði háhýsi á reit sem nú er grænn hafa einnig lagt fram tillögur um hvernig megi verja reitnum á annan máta, það er að segja þannig að hann bæti nærumhverfi íbúanna sem þegar eiga heima í grennd við hann.

Þeir leggja sumsé til að þarna verði "útbúið útivistarsvæði fyrir fjölskyldur með malbikuðum göngustígum" og áfram verði "mikið af gróðri á svæðinu, runnar meðfram göngu/hjólastígum og mikið af trjám. Í miðju svæðisins yrði blómatorg með bekkjum." Byggð verði lágreist og einungis í jaðri svæðisins.

Þau íbúamótmæli sem hér hafa verið tíunduð eru því aðallega byggð á tvennum forsendum, að því er virðist: Í fyrsta lagi að borgar- eða bæjaryfirvöld standi við áætlanir sem þegar hafa legið fyrir, og í öðru lagi að í stað mannvirkja komi græn svæði til útivistar fyrir þá sem þegar eiga heima í grenndinni.

Það sem fólk hefur áhuga á er því þetta: Græn svæði og orðheldni yfirvalda.

Kannski er það nýtt að Íslendingar leggi áherslu á þessa hluti. Áhugi á umhverfinu, bæði nær og fjær, hefur líklega ekki verið fyrirferðarmikill meðal þjóðarinnar fyrr en nú á seinni árum, en hann fer svo sannarlega vaxandi.

Og líklega er það alveg splunkunýtt að kjósendur ætlist til þess að ráðamenn standi við það sem þeir hafa sagt. Hingað til hefur einfaldlega verið gengið að því sem gefnu að stjórnmálamenn séu jafn dyntóttir og óáreiðanlegir og veðrið, og aldrei á vísan að róa hvað setta stefnu varðar, frekar en veðurspána.

Eru þetta jákvæð nýmæli, eða til þess fallin að auka óstöðugleika og hefta framfarir? Verða fyrirtæki og framkvæmdamenn eftirleiðis að búa við það að dyntir misgáfaðs og verkfælins almúga setji þeim skorður? Eða er þetta einfaldlega lýðræði í sinni sönnustu mynd?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Víðir Benediktsson

Góð grein. Sammála þér í einu og öllu.

Víðir Benediktsson, 17.9.2007 kl. 19:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband