Almannahagsmunir

Fyrir mann sem hefur alltaf átt í mestu erfiðleikum með að skilja út á hvað stjórnmál í raun og veru ganga, og með naumindum getað ákveðið sig á kjördag, var síðasta vika næstum því eins og skyndinámskeið.

Að vísu má ætla af umræðunni að margir botni betur í framvindu mála en ofangreint pólitískt viðrini, sem er þrátt fyrir allt ekki enn með það á hreinu hver er eiginlega júdasinn, hver gekk erinda hvaða auðmanna og hver hefur í raun og veru gætt almannahagsmuna.

Að eigin sögn hafa reyndar allir aðilar málsins gengið erinda almennings og fylgt ströngum meginreglum, eða prinsippum. En getur það verið að aðilar sem eru svo heiftarlega ósammála að þeir láta sig ekki muna um að brjóta blað í íslenskri stjórnmálasögu séu báðir - eða allir - að gæta almannahagsmuna? Hlýtur ekki einhver að vera að villa á sér heimildir?

Það er ekki til þess fallið að auka pólitísku viðrini skilning að svörin við ofangreindum spurningum eru eftirfarandi: Já, það getur vel verið að allir aðilar hafi litið svo á, af fullum heilindum, að þeir væru að gæta almannahagsmuna; nei, það er ekki einboðið að einhver hafi verið að villa á sér heimildir.

Engu að síður verður hinu pólitíska viðrini starsýnna á suma þætti málsins en aðra. Mestan áhuga hefur það á þessu með almannahagsmunina, sem það telur í fyrsta lagi að séu í raun og veru til og í öðru lagi að skipti í raun og veru máli - og séu jafnvel það sem allir stjórnmálamenn ættu að hafa í huga umfram annað. (Þó verður að viðurkennast að ofangreint viðrini hefur alltaf haft grun um að hugmyndir sínar um gildi almannahagsmuna sé til marks um pólitíska einfeldni).

Þegar hugsað er um þennan þátt málsins - almannahagsmuni - verður áleitin sú spurning hvort ekki hefði verið hægt að vísa málinu til þeirra sem eiga umræddra hagsmuna að gæta, það er að segja almennings. Með öðrum orðum, hefði ekki verið einfaldara að slíta meirihlutasamstarfinu í borgarstjórn og mynda ekki nýjan meirihluta heldur boða til kosninga?

Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki hvort einhverjir formlegir annmarkar eru á því að halda borgarstjórnarkosningar á miðju kjörtímabili. Kannski er það bannað með lögum, en það eru þá eitthvað undarleg lög. Kannski er einfaldlega ekkert fordæmi fyrir slíkum kosningum á miðju tímabili, en hefði ekki eins mátt brjóta þar blað eins og í því að slíta samstarfinu á miðju kjörtímabili, það er að segja ef lög banna ekki kosningar við slíkar kringumstæður?

Það eru ýmsar ástæður fyrir því að manni dettur í hug að best hefði verið að halda kosningar. Meginástæðan er sú, að í ljósi orða sem fallið hafa í aðdraganda stjórnarslitanna er vægast sagt furðulegt að þeir sem standa að nýja meirihlutanum skyldu vera tilbúnir til samstarfs.

En kannski skín þarna í eina helstu ástæðuna fyrir því að maður hefur aldrei náð að átta sig á því hvernig stjórnmál fara fram: Í stjórnmálum eru orð eins og föt; maður grípur til þess sem hentar hverju tækifæri og tilefni, og suma daga ræðst valið af því hvernig liggur á manni þegar maður vaknar; og reglulega verður að skipta um, yst sem innst, því að annars sjúskast og slitnar, og maður fer að líta út eins og fátæklingur eða sérvitringur.

Með þessa líkingu að vopni er hægt að skilja hvernig það má vera að fólk sem hljómaði eins og svarnir óvinir fyrir tæpri viku er nú sest hlið við hlið og ætlar að fara að dansa saman. Þetta verður kannski líkt og tangó: Hvert spor eins og hótun um banvæna hnífsstungu.

En án gamans og samlíkinga: Það sem áhugamenn um stjórnmál bíða nú spenntir eftir að fá að sjá er ekki hvernig nýi meirihlutinn fer að því að leysa vanda leikskólanna í borginni - þótt það sé raunar mikilvægasta verkefnið sem bíður nýju borgarstjórnarinnar - heldur hvernig borgarfulltrúar flokkanna fjögurra (kannski þá helst fulltrúi VG) fara að því að kjafta sig út úr horninu sem þeir töluðu sig svo rækilega inn í í aðdraganda stjórnarslitanna.

Kannski finnst einhverjum að þá muni virkilega koma í ljós eiginleg pólitísk hæfni þessara borgarfulltrúa, og að þá muni þeir virkilega sýna hvað í þeim býr og hvort þeir séu í raun og veru efni í nýja leiðtoga flokka sinna, eins og sumir fréttaskýrendur hafa talað um.

En pólitísku viðrini, sem er enn ekki búið að fatta almennilega út á hvað stjórnmál ganga, þrátt fyrir skyndinámskeiðið í síðustu viku, finnst eiginlega að málið sé búið. Héðan af verða þessir borgarfulltrúar varla trúverðugir.

Nema þá helst borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins. Svo furðulega sem það nú hljómar. Þeir sem voru "sviknir," eins og þeir sögðu sjálfir, og sviptir völdum, virðast þegar allt kemur til alls hafa sýnt mest heilindin. (Vilhjálmur Þ. er farinn að minna mest á tragíska hetju sem hvikar ekki frá sannfæringu sinni og fellur því fyrir hendi undirförulla keppinauta.)

En eins og ég segi, ef til vill byggist þessi niðurstaða mín fremur á pólitískum viðvaningshætti en pólitískri sannfæringu. Af sömu sökum kemst ég ekki undan þeirri hugsun, að leiðtogi VG í borginni, sem sýndi afburðaframmistöðu í aðdraganda stjórnarslitanna, hefði átt að neita þátttöku í nýjum meirihluta á þeirri forsendu að of mikið bæri í milli.

Í ljósi þess hve duglegir fulltrúar allra flokka hafa verið við að segjast vilja gæta almannahagsmuna hefðu þeir einfaldlega átt að vísa málinu til almennings, sem hefði verið meira en tilbúinn til að fella dóm í málinu.

(Viðhorf, Morgunblaðið 15. október 2007)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll Kristján
Velti dálítið fyrir mér þessu með að boða til sveitarstjórnarkosninga til að leysa úr rifrildismálum á borð við þau sem nú ganga yfir í  höfuðborginni. Sé að fleiri en þú hafa nefnt slíkt í fjölmiðlum.

Í fyrsta lagi held ég að það sé skýrt í lögum að félagsmálaráðuneytið boðar til kosninga og sveitarstjórnir eru kosnar til fjögurra ára í senn. Kjördagur einhver tiltekinn dagur í maí - að mig minnir að standi í lögunum. Með öðrum orðum búum við ekki við það kerfi að hægt sé að "rjúfa" sveitarstjórn og boða til kosninga. Þetta er svona ámóta og í Noregi þar sem þingkosningar eru á fimm ára fresti og sé ekki möguleg starfhæf meirihlutastjórn í spilunum þá starfa minnihlutastjórnir.

En segjum nú sem svo að með einhverjum hætti væri hægt að hlaupa til almennings og láta kjósa ef upp koma erfið og átakasöm mál. Í fyrsta lagi væri þá ábyrgð þeirra sem kjörnir eru hverju sinni minni á því að leysa úr málum. Þeirra hugsun væri alltaf sú að ef allt fer í bál og brand þá er bara boðað til nýrra kosninga. Í öðru lagi spyr ég hvar á að draga mörkin - hvenær skapast þær aðstæður að boða eigi til kosninga. Er það eitthvað ákveðið rifrildisstig í fjölmiðlum? Á til dæmis frekar að boða til kosninga vegna máls á borð við Orkuveituna en þeirrar staðreyndar að málefni leikskóla og öldrunarmál eru meira og minna í kalda koli í höfuðborginni? Orkuveitumálið er vissulega stórt en í mínum huga er grunnþjónustan samt öllum málum stærri. En hver á að taka ákvörðun um þessi mörk?
Í þriðja lagi finnst mér áhugavert umhugsunarefni hvort þessi margumtalaði almenningur veit nógu mikið til að "skera úr" í máli sem Orkuveituþrasinu með atkvæði sínu. Með fullri virðingu fyrir fjölmiðlunum, sem við erum svo miklir áhugamenn um, þá er ég handviss um að ekki nema brot af þjóðinni heldur þræði í öllum fréttaflaumnum um OR, REI, GGE og hvað þetta heitir nú allt saman. Ég held að þegar öllu er á botninn hvolft þá höfum við þó séð eðlilega framvindu í stjórnsýslu sveitarfélaga í borginni í síðustu viku. Mín vegna má fólk kalla það valdagræðgi að kjörnir fulltrúar setjist í meirihluta og skipti með sér stjórnunarstöðum sem meirihlutavald. Með kosningum hefur fólk hins vegar fært þessum fulltrúum umboð sitt til að stjórna - því varla er fólk að ganga að kjörborði og velja sér flokka og fulltrúa nema ætla viðkomandi að hafa áhrif.

Og svona að lokum:
Hvernig hefði þetta mál allt saman þróast ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði náð marki sínu í síðustu kosningum og hreinum meirihluta? 

kveðja úr éljagangnum á Akureyri suður yfir heiðar

Jóhann Ólafur

Jóhann Ólafur Halldórsson (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 09:31

2 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Komdu ævinlega margblessaður.

Já mig grunaði reyndar að ekki væri gert ráð fyrir því að hægt væri að hlaupa í kosningar á miðju kjörtímabili. En það ætti alveg að vera hægt að hafa aukakosningar.

 Hvar er línan dregin? Ja, í þessu máli var hún dregin þegar Björn Ingi komst að þeirri niðurstöðu að hann gæti ekki lengur starfað með Sjálfstæðisflokknum og rauf meirihlutasamstarfið.

Það vildi svo til að hann gerði það út af Orkuveitumálinu, og má deila um hvort það mál hafi verið þess virði. Hvers vegna hafði ekki samstarfið brostið vegna leikskólamálanna? Gæti verið góð spurning.

Annars átti ég við að kosningar hefðu verið orðnar hreint neyðarbrauð, því að menn og konur höfðu talað þannig að það virtist enginn grundvöllur fyrir neinu samstarfi. En eins og ég tók fram, kannski leggja stjórnmálamenn almennt mun minna upp úr vægi orða en ég geri sjálfur.

Hér er sól, en engin sunnanblíða - svalur norðangarri ...

Kristján G. Arngrímsson, 16.10.2007 kl. 09:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband