Hámörkun hagnaðar

Það getur vel verið að sameining Reykjavik Energy Invest, hins svonefnda "útrásararms" Orkuveitu Reykjavíkur, og Geysir Green Energy sé til hagsbóta fyrir eigendur Orkuveitunnar, það er að segja íbúa þeirra sveitarfélaga sem standa að henni. Því má vel vera að það hafi verið ágætt frumkvæði borgarfulltrúanna sem stuðluðu að sameingingunni að drífa í henni.

En með hvaða hætti var hag íbúanna best borgið með sameiningunni? Jú, Orkuveitan hagnast að öllum líkindum mest með þessum hætti. En til þess að tryggja að þessi hámarkshagnaður næðist þurfti að vísu að sniðganga nokkrar reglur, eins og til dæmis um boðun eigendafundar með vikufyrirvara.

Til þess að tryggja þennan hámarkshagnað almennings þurfti ennfremur að láta nokkrum einstaklingum eftir að skammta sjálfum sér svo og svo mikinn persónulegan gróða af sameiningunni. Það mætti reyndar líka segja að sérþekking þessara manna á hagnaðarhámörkun hafi verið keypt á sanngjörnu verði. Miðað við heildarhagnað almennings séu launin sem þessir menn þiggi einungis smotterí.

Vinstri græn hafa eins og þeim einum er lagið verið með nöldur. En kannski má segja að oft ratist kjöftugum satt á munn, og að það hafi gerst í þessu tilviki. Ef til vill flýttu strákarnir sér aðeins of mikið í sameiningunni. Að minnsta kosti virðist allmörgum eigendum Orkuveitunnar - það er að segja almennum borgurum - vera dálítið misboðið. En hvað nákvæmlega misbýður þessu fólki? Veit þetta fólki ekki að það er að græða alveg rosalega mikið?

Sameining REI og GGE, það er að segja með hvaða hætti fyrirtækin voru sameinuð, er ef til vill gott dæmi til að draga fram helstu einkenni þess gildismats sem liggur til grundvallar forgangsröðuninni í íslensku þjóðfélagi - að minnsta kosti tilteknum geira þess - nú um stundir.

Þeir sem stóðu að því að drífa í sameiningunni gáfu í skyn að það hefði legið á til að fá sem mestan hagnað af henni. Þess vegna hafa menn væntanlega verið fúsir að finna orð og setningar í samstarfssamningi Orkuveitunnar sem túlka mátti á þann veg að úr fengist sú niðurstaða að ekki þyrfti í rauninni að boða eigendafund með heillar viku fyrirvara, nú eða að sú regla væri frávíkjanleg að uppfylltum tilteknum skilyrðum sem líta mátti á sem uppfyllt ef eitt eða annað væri skilið og túlkað á ákveðinn máta.

Mér dettur ekki í hug að halda því fram að þeir borgarfulltrúar sem að sameiningunni stuðluðu hafi vísvitandi gengið gegn því sem þeir telja vera bestu hagsmuni borgarbúa í því skyni að skara eld að eigin köku. Með öðrum orðum, mér dettur ekki í hug að halda því fram að þessir menn séu á nokkurn hátt spilltir stjórnmálamenn.

Mér dettur ekki heldur í hug að halda því fram að annarlegar ástæður hafi legið að baki hjá þeim mönnum sem sátu hinumegin við borðið og tókust á hendur að fá sem mestan hagnað af sölu á íslenskri jarðvarmaorku. Með öðrum orðum, mér dettur ekki í hug að halda því fram að þeir hafi vísvitandi verið að sölsa undir sig peninga og eigur skattgreiðenda. Þeir voru einfaldlega að bjóðast til að gera það sem þeir eru bestir í: Græða peninga. Og þarna liggur líklega hundurinn grafinn.

Áður en lesendur stimpla mig sósíalista og hætta að nenna að lesa þetta vil ég fá að taka fram að ég hef ekkert á móti peningum og ekkert á móti gróða. Og ég veit hreinlega ekki hvort ég er með eða á móti sameiningu REI og GGE (ég veit of lítið um málið til að taka afstöðu til þess).

En ég held, eins og ég nefndi hér að ofan, að sameiningarferlið hafi ef til vill svipt hulunni af gildismati sem kann að vera dálítið skrítið, að ekki sé sagt vafasamt. Það virðist sem menn hafi ákveðið, að ef svo og svo mikill hagnaður er í húfi sé réttlætanlegt að sleppa því að fara að með lýðræðislegum hætti. Það er að segja, ef velja þarf á milli lýðræðislegra "formsatriða" og hagnaðarhámörkunar er það síðarnefnda valið. Hagnaðarhámörkunin hefur meira gildi en lýðræðislegar leikreglur, ef á hólminn er komið.

Gott og vel, kannski er allt í lagi að sniðganga lýðræðið svona einu sinni til að græða. Ekki síst ef maður er harla viss um að lýðurinn verði ánægður með gróðann og alveg til í að þiggja hann og afsala sér í staðinn forræði í málinu. Maður á ekki að alhæfa út frá einu tilviki. Það er ekki eins og Reykjavík sé orðin að lögregluríki þótt í þessu eina tilviki hafi kannski ekki verið fylgt til hins Ýtrasta bókstaf eigendasamnings Orkuveitu Reykjavíkur.

Það mætti jafnvel halda því fram að það sé til marks um að lýðræðið hafi djúpar rætur í samfélaginu ef ekki verður mikið upphlaup út af því að lýðræðislegum leikreglum sé ekki fylgt í einu og einu tilviki. Fólk sé einfaldlega sannfært um að lýðræðið sé svo sterkt að því sé engin hætta búin þótt það sé sniðgengið svona einu sinni.

En einhvernveginn dettur manni nú samt í hug að líta á sameininguna, og hvernig að henni var staðið, sem merki um að ákveðið gildismat sé að ryðja sér til rúms í þjóðfélaginu um þessar mundir. Helsta einkenni þessa gildismats er sú skoðun að hagnaðarhámörkun hljóti að vega þyngra en nokkuð annað, jafnvel lýðræði, þegar til kastanna komi.

Enginn veit hversu útbreitt þetta gildismat er orðið meðal þjóðarinnar, en svo mikið er víst að orðstír sumra þeirra sem tekið hafa þátt í sameiningu REI og GGE verður að því máli loknu ekki jafn góður og hann var fyrir. Og þá á ég ekki eingöngu við stjórnmálamenn.

(Viðhorf, Morgunblaðið 9. október, 2007)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

þetta er einmitt málið sem fólk á að spyrja sjálft sig. Hvort vil ég að sá stjórnmálaflokkur sem ég hef átt þátt í að koma til valda fylgi lýðræðislegum vinnubrögðum og fari eftir þeim reglum sem stjórnsýslan setur þeim eða treysti ég þessu fólki ALGERLEGA til að taka skyndiákvarðanir löðraðar í adrenalíni?

thora gunnarsdottir (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 18:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband