Íslenska til útflutnings

Viðhorf, Morgunblaðið 5. október, 2007

Ég, líkt og sennilega milljónir manna um heim allan, á hægindastól sem heitir Poäng og bókahillur sem heita Billy, að ógleymdum farsímanum mínum, sem heitir "Sótsvartur," eða eitthvað í þá áttina, en er þó betur þekktur sem Nokia.

Hlutdeild Nokia á farsímamarkaðinum í heiminum er yfirgnæfandi. Nokia 1100 síminn, sem var upphaflega hannaður fyrir fimm eða sex árum, mun vera orðinn mest selda raftæki sögunnar. Þau Poäng og Billy, ásamt öllum hinum IKEA húsgögnunum sem heita syngjandi sænskum nöfnum, eru líklega frægustu húsgögn í heimi - mun frægari en jafnvel stóllinn Barcelona eða Eames-hægindastóllinn (veit einhver lesandi hvaða stólar þetta eru?)

Þessari gríðarlegu útbreiðslu, eða "markaðshlutdeild" eins og það heitir á útrásaríslensku, hafa Nokiasímarnir og IKEAhúsgögnin náð þrátt fyrir sín norrænu nöfn, sem ekki hefur verið vikið til hliðar fyrir enskum nöfnum. (Söguna um IKEA-nafnið sjálft þekkja líklega allir, en svo að öllu sé nú til haga haldið er rétt að útskýra hér að IKEA er skammstöfun og stendur fyrir nafn Ingvars Kamprads, sem stofnaði fyrirtækið árið 1943, nafn bóndabæjarins sem hann ólst upp á í Smálöndunum, Elmtaryd, og þorpið sem bærinn tilheyrði, Agunnaryd).

Nafnið Nokia á sér aftur á móti ævafornar rætur í Finnlandi og finnskunni, svo fornar reyndar, að menn virðast ekki alveg sammála um hvernig þær liggi. En til er bærinn Nokia, sem stendur á bökkum Nokianvirta, sem er á í Suður-Finnlandi, og mun "nokia" vera fleirtölumynd orðsins "noki," sem þýðir "sót." Til að flækja málið má finna skyldleika með "nokia" og fornu, finnsku orði sem skírskotar til dýra með dökkan feld.

Út úr þessu öllusaman, með lítilsháttar blöndun við íslenska málvenju, fékk ég út hérna að ofan að síminn minn heiti "Sótsvartur." Jahérna. Hversu margir ánægðir eigendur Nokiasíma skyldu hafa hugmynd um þetta alltsaman? Líklega fæstir.

Á rölti í gegnum risastóru IKEA-búðina í Garðabænum um daginn fór ég að velta því fyrir mér, á meðan augun hvörfluðu frá snúningsstólnum Snille til hillunnar Järpen, að líklega hefðu fá tungumál í sögunni gert jafn víðreist í heiminum á jafn skömmum tíma og sænskan hefur gert með IKEA.

Þegar svo bætist við, að sænskan er fráleitt mikið heimsmál verður áreiðanlega úr alveg einstakt fyrirbæri. Látum vera þótt sænskar bókmenntir stuðli að útbreiðslu sænskunnar í heiminum - en að húsgagnaverslun skuli gera slíkt er áreiðanlega fátítt. Og með svipuðum hætti hefur Nokia laumað smáræði af finnskri menningararfleifð út um víða veröld og gert hana tungutama allri heimsbyggðinni.

Skyldu nú vera til einhver hliðstæð íslensk dæmi? Björk kemur auðvitað strax upp í hugann. Eða á maður frekað að segja Bjork? Og það verður ekki séð að "Baugur" hafi orðið því fyrirtæki til trafala í útrásinni, eða "Kaupþing" (Kaupthing?) sett þann banka í spennitreyju.

Nei, dæmin sýna að íslenskunni er alveg jafn vel treystandi á alþjóðavettvangi og sænskunni og finnskunni. Það er fullkominn óþarfi að búa til ónefni á borð við "Reykjavik Energy Invest," svo tekið sé alveg splunkunýtt dæmi.

Af hverju mátti það fyrirtæki ekki eins heita til dæmis "Reykjavíkurorka"? Mætti svo einfalda nafnið í "Reykjavík orka" þegar farið verður að selja afurðina, jarðvarmaorku, á erlendum vettvangi - nú eða nefna fyrirtækið einfaldlega "Orka," sem er alveg ekta íslenska, en um leið jafn þjált og til dæmis "Nokia."

Það er ekki gott að segja hvort menn óttast að verða álitnir sveitó ef þeir vilja nota íslensk orð á alþjóðavettvangi, eða hvort þá skortir einfaldlega ímyndunarafl, kjark og þor. Ef eitthvað af þessu er ástæðan má benda mönnunum á, að Baugi (Group) verður líklega seint borin nesjamennska eða roluskapur á brýn. Og að "Björk" er áreiðanlega eitthvert verðmætasta vörumerki sem til hefur orðið á Íslandi fyrr og síðar.

En þeim sem ekki treysta sér til að hafa íslensk nöfn á fyrirtækjunum sínum þegar þeir fara með þau á alþjóðlegan vettvang er vorkunn. Sú hugmynd að íslenska geti beinlínis verið útflutningsvara virðist í fyrstu vera í besta falli langsótt, og í versta falli uppskrift að markaðssjálfsvígi.

Hvorki IKEA né Nokia voru upphaflega ætluð til útflutnings. Það er ómögulegt að segja hvort þessi nöfn hefðu orðið fyrir valinu ef útrás hefði beinlínis verið markmiðið með stofnun þessara fyrirtækja. Mér er þó sem ég sjái íslenskan nútímaviðskiptajöfur fara með vörur sínar í verslun í New York undir rammíslenskum nöfnum - til dæmis hægindastólinn "Bókaorm" - þótt sala á honum hafi gengið vel á Íslandi undir því nafni. Nei, bókaormurinn kæmi áreiðanlega til New York undir nafninu "Bookworm," eða jafnvel einhverju allsendis óskyldu nafni.

En við nánari athugun kemur í ljós, að ef vel er að verki staðið og ekki rasað um ráð fram getur íslenska orðið fyrirtaks útflutningsvara, sem þar að auki er alveg ókeypis og birgðirnar óþrjótandi.

Í þessu efni sem öðru skiptir þó einna mestu að kunna sér hóf, og kannski væri til dæmis óráðlegt að reyna að selja íslenska vöru í Los Angeles undir nafninu "Vaðlaheiði." Af eigin reynslu veit ég að enskumælandi fólki getur beinlínis "vafist tunga um höfuð" ef það þarf að segja "Arngrímsson" upphátt. En því tekst það nú reyndar með smá æfingu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband