30.10.2007 | 07:55
Hugsað stutt
Setjum sem svo að frumvarpið hljóti samþykki. Næsta krafa ungu hægrimannanna verður þá auðvitað sú að ÁTVR hætti að selja bjór og léttvín því að ríkið eigi ekki að vera í samkeppni við einkaaðila. Þetta er það sama og ungu hægripostularnir hafa klifað á í sambandi við auglýsingar í Ríkisútvarpinu. Þar með yrðu Bónus og Hagkaup einu verslanirnar í landinu sem gætu selt bjór og léttvín. Er líklegt að í Bónusi fengist jafn gott úrval og í ÁTVR?
Svarið blasir við. Og þó, málið kannski ekki alveg svona einfalt. Vísast yrðu til sérverslanir sem selja myndu dýrari bjórtegundir og háklassaléttvín, en verðið í þessum verslunum yrði eflaust hærra en verðið á þessu áfengi er núna hjá ÁTVR, einfaldlega vegna þess að viðskiptavinir þessara verslana yrðu efnað fólk sem væri tilbúið að borga meira fyrir vöruna. Því myndu bjór- og léttvínskaupmenn einfaldlega hækka verðið.
Með öðrum orðum, aðgengið myndi kannski aukast í heildina en fyrir meðaljóninn myndi úrvalið snarminnka. Fyrir efnamenn myndi úrvalið kannski aukast og áreiðanlega telja ungu hægripostularnir víst að þeir muni sjálfir verða í hópi þeirra sem hafa munu efni á þessu aukna úrvali.
Þannig að það verður ekki nóg með að þeir geti valið úr meiru og keypt vínið sem þeim er sagt að sé gott, þeir fá þarna að auki enn eina leiðina til að skilja sig frá almúganum og stíga þrepi ofar í þeim eina þjóðfélagsvirðingarstiga sem þeir taka mark á; áberandi auðlegð.
Æi, þetta er nú kannski ekki sanngjarnt. Það getur varla verið að mennirnir séu svona ofboðslega grunnhyggnir, jafnvel þótt þeir séu hægripostular. Þá er nú skárra að ímynda sér að það sem búi að baki sé, eins og fullyrt var hér í byrjun, einhverskonar prinsipp, eins og til dæmis það að ríkið eigi ekki að hafa vit fyrir fólki. Maður á sjálfur að sjá fótum sínum forráð, og geti maður það ekki á maður ekki að geta við annan sakast en sjálfan sig. Kannski er ég að því leytinu hægrisinnaður sjálfur að ég er alveg til í að skrifa upp á þetta.
En þá vandast nú málið. Vegna þess að ef nánar er að gáð og hugsað lengra en nemur manns eigin nefi kemur í ljós að það er allt eins líklegt að sala bjórs og léttvíns í matvöruverslunum leiði til þess sem ég er alveg hjartanlega sammála ungu hægrimönnunum um að sé af hinu illa, það er að segja aukinnar skattheimtu. Ef ríkiseinkasala á áfengi kemur í veg fyrir að skattheimta aukist er ég henni enn meira hlynntur en ég hef hingað til verið, og var þó vart á bætandi fylgispekt mína við ríkiseinokun á áfengi.
Lógíkin í þessu er með sem einföldustum hætti einhvern veginn svona:
Fyrsta forsenda: Afnám ríkiseinokunar á áfengissölu eykur aðgengi að áfengi (ef ekki úrvalið).
Önnur forsenda: Aukið aðgengi að áfengi eykur almenna neyslu á því.
Þriðja forsenda: Aukin almenn áfengisneysla eykur lýðheilsutjón af völdum áfengis.
Fjórða forsenda: Aukið lýðheilsutjón krefst aukinnar heilbrigðisþjónustu.
Fimmta forsenda: Aukin heilbrigðisþjónusta kallar á aukin opinber útgjöld til heilbrigðisþjónustu:
Sjötta forsenda: Aukin opinber útgjöld (til heilbrigðisþjónustu) kalla á aukna skattheimtu.
Niðurstaða: Afnám ríkiseinokunar á áfengissölu kallar á aukna skattheimtu.
Hvað segja ungu hægripostularnir um þetta? Síðan hvenær hafa þeir verið fylgismenn aukinnar skattheimtu? Það skyldi þó ekki vera að þeim hefði yfirsést eitthvað? Kannski hafa þeir bara ekki hugsað málið nógu langt. Að minnsta kosti er mjög undarlegt að sjá unga menn í Sjálfstæðisflokknum mæla fyrir lagafrumvarpi sem við nánari athugun mun vísast kalla á aukin opinber útgjöld og þar með aukna skattheimtu.
(Ef bregðast á við þessari niðurstöðu með því að krefjast einfaldlega afnáms ríkiseinokunar á heilbrigðisþjónustu, og þar með afnáms skattheimtu, má benda á að heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum, sem er líklega það "frjálsasta" í heimi er einnig það langdýrasta í heimi og jafnframt eitt það óskilvirkasta og versta).
Til að forðast niðurstöðuna í röksemdafærslunni hérna að ofan þarf að sýna fram á að einhver forsendan sé röng. Fljótt á litið eru þrjár fyrstu forsendurnar einna grunsamlegastar en þó hafa að undanförnum bæði landlæknir og velferðarráð Reykjavíkur vísað til rannsókna er renna stoðum undir þær, þannig að líklega verður ekki hjá niðurstöðunni komist.
Þannig greindi mbl.is frá því fyrir tíu dögum eða svo, að velferðarráð hefði "vísað til þess að rannsóknir í Svíþjóð, Finnlandi, Bandaríkjunum og Kanada sýni fram á margföldun á neyslu þegar aðgengi sé aukið með afnámi einkasölu."
Það er líklega helst þarna sem má reyna að höggva gat í lógíkina. Það má rífast um túlkanir á þessum rannsóknum. En einfalda spurningin sem ekki hefur verið svarað er þessi: Hvers vegna er svona mikilvægt að afnema ríkiseinkasölu á áfengi og bjór þrátt fyrir að eindregnar vísbendingar séu um að það hafi slæmar afleiðingar?
(Viðhorf, Morgunblaðið 30. otkóber 2007)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.