Miðlar í kreppu

Eru íslenskir fréttamiðlar í einhverri kreppu? Ef marka má formann Alþjóðasambands blaðamanna, Aidan White, eru íslenskir fréttamiðlar í kreppu, rétt eins og fréttamiðlar hvarvetna í heiminum. Þetta kom fram í afar athyglisverðu viðtali við White sem birtist hérna í Morgunblaðinu í tilefni af baráttudegi evrópskra blaðamanna á mánudaginn.

Ég held að ég sé alveg sammála White. Íslenskir fréttamiðlar eru í kreppu. En hvað veldur henni?

Eitt af þremur grunngildum fréttamennskunnar, sagði White, er virðing fyrir sannleikanum. Nú dettur mér ekki í hug að halda því fram, að nokkur íslenskur fjölmiðlamaður fari vísvitandi með lygar, en stundum held ég að áhersla á sannleikann fari halloka í íslenskum fjölmiðlum fyrir áherslu á og eftirsókn eftir flottheitum og kúli. Það er að segja, það skiptir í rauninni litlu máli hvað maður er að segja, en mikilvægt er að maður líti sjálfur út fyrir að vera gagnrýninn og með allt á hreinu.

Kannski er þetta ekki nema von. Íslenskir fjölmiðlar eru fyrir löngu búnir að ofmetta markaðinn, bæði hvað varðar lestur og áhorf og einnig hvað varðar umfjöllunarefni. Þessa vanda varð fyrst vart erlendis með fjölmiðlabyltingunni fyrir um tuttugu árum þegar CNN og Sky fóru að senda út fréttir - eða ætti maður að hafa það innan gæsalappa, "fréttir"? - allan sólarhringinn. Þá var orðið til form sem krafðist innihalds, og óhjákvæmilega varð þrettándinn þunnur.

Fréttamenn sem eru sæmilega gagnrýnir í hugsun finna oft á dag fyrir því að þeir séu að skrifa fréttir um eitthvað sem er ekki neitt, eða skiptir engan máli nema ef til vill þann sem fjallað er um, sem nýtur þess að fá athygli eða auglýsingu. Þetta er einfaldlega orðið eðlilegur þáttur í starfinu.

Fréttamenn verða líka fljótlega varir við að lesendur hafa í rauninni sáralítinn áhuga á svona innihaldsrýrum fréttum - nema þær séu skemmtilegar. Þar af leiðandi fer afþreyingargildi frétta (hljómar vissulega eins og mótsögn, en staðreynd engu að síður) að vega þyngra eftir því sem sífellt meira fjölmiðlaframboð krefst sífellt meira innihalds, og leiðir því til sífellt hærra hlutfalls af innihaldsrýrum fréttum.

Því að það er alveg ljóst hverju lesendur sækjast eftir. Þeir vilja fá að vita sannleikann um stóra atburði (og því fjær sem þeir eru því stærri þurfa þeir að vera til að lesendur taki eftir þeim - það gilda greinilega sömu lögmál um fréttir og fjöll), og svo leita þeir að einhverju sem þeim finnst forvitnilegt eða beinlínis skemmtilegt.

Hvort svona afþreyingarfréttir eru alveg "sannleikanum samkvæmt" held ég að lesendur láti sér oftast í léttu rúmi liggja, enda líta þeir fyrst og fremst (og réttilega) á þessar "fréttir" sem afþreyingu. En þegar kemur að fregnum af alvarlegum og stórum atburðum gera lesendur strangar kröfur um að allt sé sannleikanum samkvæmt - þeim fréttamönnum sem verður hált á því svelli er sendur tónninn svo um munar.

White nefndi einnig í viðtalinu að annað grunngildi fréttamennsku sé sjálfstæði. Þarna kreppir skórinn svo sannarlega að mörgum íslenskum fjölmiðlum. Það er líklega eitt þekktasta hlutverk fjölmiðla að veita valdhöfum aðhald, og þess vegna eru svokölluð "málgögn" ekki alvöru fréttamiðlar.

Vandinn hér á landi (og kannski víðar) er nú orðinn sá, að margir fréttamiðlar eru beinlínis í eigu hinna eiginlegu valdhafa - það er að segja moldríkra kaupsýslumanna. Svo er komið að við liggur að einungis ríkisfjölmiðlar séu eiginlega sjálfstæðir fjölmiðlar. Að minnsta kosti er æðsta vald ríkisfjölmiðlanna lýðræðislega kjörið og sækir þannig umboð til almennings og ber (strangt til tekið, að minnsta kosti) ábyrgð gagnvart þessum sama almenningi.

Æðsta vald fjölmiðla sem eru í eigu moldríkra kaupsýslumanna var ekki kosið af neinum og ber því ekki (jafnvel strangt til tekið) ábyrgð gagnvart neinum og getur því gert það sem því sýnist. Við slíkar aðstæður getur orðið erfitt um vik fyrir óbreytta blaðamenn að starfa sjálfstætt, þótt vissulega séu eigendur fjölmiðlanna alveg sjálfstæðir - í þeirri merkingu að þeir geta gert það sem þeim sýnist við fjölmiðlana sína.

En kreppan í íslenskri fjölmiðlun er ekki bara vondum og gráðugum eigendum að kenna. Sjálfsritskoðun fréttamanna er líklega verri en utanaðkomandi ritskoðun. Sjálfsritskoðun á íslenskum fjölmiðlum birtist með ýmsum hætti, en ekki síst þeim sem tilgreindur var hérna í byrjun: Það virðist skipta fréttamenn mestu máli að koma vel fyrir - líta út fyrir að vera kúl og krítískur - og vega þessir þættir í mörgum tilvikum þyngra en sjálft umfjöllunarefnið.

Sú sjálfsritskoðun sem er þó líklega sýnu verst er sú sem bannar allt neikvæði og krefst í staðinn yfirborðslegs og skefjalauss jákvæðis. Fréttamenn sem verða þessu jákvæðitrúboði að bráð verða fljótlega bitlausir fréttamenn vegna þess að góðir fréttamenn beita neikvæði eins og hverju öðru vinnutæki.

Vegna þess sem hér að framan var haft eftir White, um mikilvægi þess að fréttamenn geti starfað sjálfstætt, skiptir ekki síst máli að fréttamenn noti neikvæðið eins og brynju gagnvart þeim valdhöfum sem þeir eiga að veita aðhald - og þá á ég bæði við ráðherra og ríkisbubba.

Á íslenskum fjölmiðlum hefur aftur á móti lengi viðgengist einhver undarleg stimamýkt í samskiptum við þessa valdamenn (og þá á ég bæði við ráðherra og ríka menn). Og þetta heyrir ekki sögunni til. En slík stimamýkt getur þó í rauninni ekki verið samboðin neinum fréttamanni með snefil af sjálfsvirðingu.

(Viðhorf, Morgunblaðið 8. nóvember 2007)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband