Afmæli bókar

Brandó

Viðhorf, Morgunblaðið, 24. október, 2006.

Eitt af umræðuefnum íslenskra "intellektúala" síðastliðið sumar var heimsókn breska fræðingsins Richards Dawkins sem hingað kom og boðaði trúleysi. Eða öllu heldur ræddi um þá kenningu sína að trúarbrögð hefðu í gegnum tíðina verið undirrótin að flestum þeim voðaverkum sem mennirnir hefðu unnið og að það væri best að við myndum losa okkur við þau.

En Dawkins var ekki aðeins í sviðsljósinu hérna á Íslandi í sumar, vegna þess að í ár eru þrjátíu ár liðin síðan bókin sem gerði hann heimsfrægan kom fyrst út. Af því tilefni kom bókin, sem ber þann afskaplega grípandi titil Sjálfselska genið (The Selfish Gene), út í afmælisútgáfu. Einnig hefur allmikið verið um hana fjallað í erlendum fjölmiðlum.

Því miður var Dawkins lítið spurður út í þessa bók í viðtölum sem tekin voru við hann í Íslandsheimsókninni. Hin umdeilda kenning hans um illsku trúarinnar átti hug og hjörtu allra sem við hann ræddu. En hefði ekki verið hægt að tvinna þetta saman - það er að segja blanda kenningu hans um sjálfselska genið inn í umræðuna um meinta illsku trúarinnar?

Kenningin sem Dawkins setti fram í bókinni frægu er í sem stystu máli á þá leið að við mennirnir, "og öll önnur dýr séum vélar búnar til úr genunum í okkur", og að þessi gen sem við erum úr hafi lifað af miskunnarlausa samkeppni við önnur gen í gegnum þróunarsöguna. Af þessu segir Dawkins að draga megi þá ályktun að mikilvægasti og sterkasti eiginleiki þessara gena sem við erum gerð úr og hafi borið sigur úr býtum í samkeppninni hljóti að vera "miskunnarlaus sjálfselska", eins og hann segir í upphafi bókarinnar.

Rétt er að taka fram, eins og Dawkins gerir sjálfur, að þetta er ekki siðfræðirit. Það væri að misskilja bókina algjörlega að halda að hann væri að mæla fyrir einhverskonar félagslegum darwinisma. Hann er öllu heldur að velta því fyrir sér hvaða eiginleikar tryggi dýrum afkomu í þeirri samkeppni - sem fer að öllu leyti fram utan og handan við siðferðisleg lögmál - sem þróun dýrategunda er.

Og niðurstaðan, eða meginályktunin hjá Dawkins, er eitthvað á þá leið að það hljóti að vera eiginleikar sem lýsa megi með orðum eins og sjálfselska, eða öllu heldur það sem kalla mætti "líffræðileg sjálfselska", sem er ekki það sama og siðferðisleg sjálfselska. Og það er einmitt þetta sem hefði verið gaman að spyrja hann út í í sambandi við trúmál.

Það er að segja getur ekki verið að trúarþörfin búi í genum mannsins og hafi þannig gengið í erfðir og að þeir einstaklingar sem hafa fengið þessari þörf svalað hafi staðið betur að vígi í miskunnarlausri þróunarsamkeppninni en þeir sem ekki hafi annaðhvort haft þessa þörf eða hafi haft hana en ekki fengið henni svalað?

Það hefði verið gaman að spyrja Dawkins um þetta, þótt ekki væri nema vegna þess að þannig hefði verið hægt að velta svolítið vöngum yfir því hvort mótsögn væri að finna milli hans eigin kenninga, annarsvegar um trúmál og hinsvegar um líffræði.

Ég held að þetta séu ekki aðeins hártoganir í þrasgjörnum blaðamanni. Ýmsir fræðimenn hafa velt því fyrir sér hvort trúarþörf mannsins sé beinlínis líkamleg, það er að segja hvort "guð búi í heilanum". Síðast í sumar rakst ég á frétt á vef BBC þar sem einhverjir vísindamenn sögðust hafa hrakið þá kenningu. Það væri engin "guðs-stöð" í heilanum.

En trúarþörfin þarf ekki nauðsynlega að vera líkamleg til að geta haft áhrif á afkomumöguleikana í þróunarsamkeppninni. Ef til vill er nóg að þessi þörf sé sálræn. Það er auðvelt að gera sér í hugarlund hvernig trú á æðri máttarvöld getur létt manni lífið. Burtséð frá því hvort guð getur með áþreifanlegum hætti rétt manni hjálparhönd í stórsjóum lífsins getur trú á hann haft einskonar "lyfleysuáhrif", það er að segja, upplifun manns á hjálpræði guðs verður raunveruleg, og getur þannig haft áhrif á mann - jafnvel líkamleg.

Með þessum hætti má gera sér í hugarlund að trú geti komið sér vel fyrir sjálfselska genið og að það sé beinlínis hluti af sjálfselsku gensins að trúa á guð. Og það sem bendir til að trú hafi í raun og veru hlutverki að gegna við að tryggja afkomu genanna í okkur er sú staðreynd að svo virðist sem flestar manneskjur sem komist hafa áfram í þróunarsamkeppninni - það er að segja það fólk sem nú er til á jörðinni - trúi á guð.

Ef trú á guð er jafn slæm fyrir okkur og Dawkins fullyrti í Íslandsheimsókn sinni, væri þá ekki líklegt að þeir sem slegnir hafa verið þessari "óáran" hefðu dáið út en hinir komist af sem væru lausir við þennan galla? Allur meginhluti mannkyns trúir nú, með einum eða öðrum hætti, á æðri mátt. Þetta eru sömu einstaklingarnir og orðið hafa ofan á í miskunnarlausri þróunarsamkeppni.

Þessi samkeppni hefur staðið lengi. Hvenær fóru sumir þátttakendanna í henni að trúa á æðri máttarvöld? Gæti verið að það hefði verið um svipað leyti og þessir sömu einstaklingar fóru að verða ofan á í samkeppninni?

Það veit enginn. En hitt er ljóst að þessar vangaveltur hér verða ekki til neinna einfaldra lykta leiddar. Það hefði verið gaman að geta borið eitthvað af þessu undir Dawkins sjálfan, fremur en gleypa bara trúleysisboðskapinn hans eins og nýtt guðspjall.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þetta eru góð skrif. En vissulega er flókið að velta fyrir sér trúmálum. En ég er þeirrar skoðunar að þeirra merkasta framlag, sé sameiningin. Þeim tekst oft að sameina þjóðfélög og sameinuð þjóðfélög, þjóðflokkar, eða "klön" virka alla jafna betur en sundruð. En auðvitað nægir trúin ein ekki til að hópar manna verði "sigurvegarar" í baráttunni um afkomu, enda hafa margir "trúarhópar" tapað fyrir öðrum "trúarhópum" og það þó að "guð" hafi verið með báðum/öllum "liðum".

En trúarbrögð hafa gjarna haft það að markmið að útskýra umheiminn og umhverfið, hvers vegna eitthvað gerist, hvers vegna eitthvað á eftir að gerast og hvers vegna það gerðist ekki. Að mörgu leyti ekki ósvipað og stjórnmál.

Trúarbrögð fá menn líka til að sætta sig við hlutskipti sitt í von um laun eftir dauðann. Þannig var auðvitað auðveldara að sætta sig við að rjúka fram í orustu, ef eilíf vist í Valhöll var í boði, nægt öl, svínakjöt og skemmilegir bardagar þar sem allir risu upp ósárir. Þetta hljómar ekki ósvipað og mörgum múslimum er boðið upp á í dag, nema að þeir virðast heldur meira upp á kvenhöndina og ekki gefnir fyrir fleskið og ölið.

Kristnum mönnum er svo boðið upp á hörpuleik og víða velli.

Það sem ef til vill helst sækir að trúarbrögðum er að vísindin hafa tekið við að mestu leyti að skýra út fyrir okkur umhverfi okkar og gang lífsins. Trúarbrögðin hafa ekki, í það minnsta svo ég hafi heyrt, náð að aðlaga boðskap sinn og vísindanna svo að vel fari. Því er Þróunarkenningin og Sköpunarkenningin bæði til umræðu í íslensku skólakerfi (eða var það þegar ég gekk þar um sali) en styðja ekki beint hvort annað.

En þetta er barátta sem ábyggilega á eftir að vera í gangi um nokkurn tíma.

G. Tómas Gunnarsson, 25.10.2006 kl. 17:12

2 identicon

,,Richard Dawkins, þróunarfræðingur og trúleysingi teflir fram þeirri þróunarfræðilegri skýringu að það sé trúgirni sem sé ástæðan fyrir trú. Því í gegnum tíðina hafi trúgjörn börn frekar komist af en önnur börn. Trúi þau því sem fullorðnir segja þeim þá verða þau síður fyrir voða. Þannig þessi trúgirni er orðinn innbyggð í manninum.´´

Tilvitnun sem ég hef eftir Birgi Baldurssyni vantrúarmanni úr gömlu viðtali við hann. Hún ætti kannski að einhverju leyti að svara spurningu þinni.

kiddi (IP-tala skráð) 25.10.2006 kl. 19:09

3 identicon

Án þess að ég þykist vita mikið um þessi mál duttu mér eftirfarandi punktar í hug við lestur greinarinnar:
1. Sé það rétt að hinir trúuðu hafi orðið ofan á í miskunnarlausri þróunarsamkeppni virðist mér það renna stoðum undir þá skoðun að trú, fremur en vantrú, sé undirrót grimmmdarverka.
2. Ég efast um að Dawkins leggi mikið upp úr því að gera greinarmun á líkamlegum og sálrænum ástæðum trúarþarfar enda hneigist hann ekki til tvíhyggju svo ég viti til. Og eins og kom fram í fyrri athugasemd þá þarf það ekki að vera í mótsögn við skoðanir Dawkins þótt í ljós komi "trúarstöðin" í heilanum.
3. Miskunnarlaus samkeppni á milli gena þarf ekki að vera í mótsögn við það að eiginleikar eins og manngæska verði ofan á í þróuninni. Ef til vill er frekar átt við að hugtak eins og miskunn á ekki við þegar talað er um samkeppni á milli gena.
4. Ég hugsa að spurningin um hvenær sumir þátttakenda í þróunarsamkeppninni hafi farið að trúa á æðri máttarvöld, sé villandi. Það er hæpið að í upphafi hafi trúlausir og trúaðir verið álíka margir, en svo hafi kostir þess að trúa á æðri máttarvöld orðið til þess að hinum trúlausu hafi fækkað. Líklegra er að trúlausir hafi aldrei verið fleiri en nú. Gæti verið að í lýðræðislegu upplýsingarsamfélagi þar sem offramboð fæðu er stærra vandamál en fæðuskortur, þá séu aðrir eiginleikar nytsamlegir en áður? Gæti verið að í slíku umhverfi veiti það forskot að hugsa sjálfstætt og gagnrýnið, og að þar séu engar skoðanir undanskildar?
Spyr sá sem ekki veit.

Gunnar (IP-tala skráð) 25.10.2006 kl. 21:58

4 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki hvers vegna það ýtir undir grimmdarverk að hinir trúuðu hafi "orðið ofan á" - þessi ályktun virðist gera ráð fyrir að trú fylgi grimmd. Auk þess hefur þróunarsamkeppni ekkert með grimmd að gera. Það er ekki sjálfgefið að hinir grimmu veljist úr í þróunarsamkeppni.

Og trúgirni og trúarþörf er held ég varla það sama. Trúgirni virðist stafa af ógagnrýni, en trúarþörf á mjög líklega rætur í yfirvegun og skynsemi, það er að segja, maður finnur fyrir trúarþörfinni þegar maður finnur til eigin smæðar, skorts á eigin svörum og gerir sér grein fyrir því að maður veit ekki allt best sjálfur. Að taka þekkingu annarra fram yfir sína eigin getur verið í hæsta máta skynsamleg og yfirveguð ákvörðun, eins og til dæmis þegar maður leitar ráða hjá lækni eða öðrum sérfræðingi.

Og líkamlegar og sálrænar ástæður fyrir trúarþörf þurfa ekki að þýða tvíhyggju; með "líkamlegu" er átt við að trúarþörfin búi í einhverri heilastöð og sé þar með beinlínis áþreifanlegur hlutur, en "sálrænt" vísar fremur í að trúarþörfin sé óáþreifanleg - huglæg - afleiðing upplifana einsog til dæmis kvíða, hræðslu, fegurðar og svo framvegis.

Kristján G. Arngrímsson, 26.10.2006 kl. 20:00

5 identicon

Ef til vill misskildi ég þig þegar þú sagðir að hinir trúuðu hefðu orðið ofan á í miskunnarlausri þróunarsamkeppni. Eða ef til vill gerir þú verulegan greinarmun á grimmd og miskunnarleysi. Ég get alveg fallist á að tala um miskunnarleysi frekar en grimmd ef svo er. En ef við erum að tala um miskunnarleysi í samkeppni á milli gena fremur en einstaklinga þá get ég alveg fallist á að það sé rangt að gera einstaklingunum upp þann eiginleika, komi ekkert fleira til.
Ég get fallist á að trúgirni sé ekki sami hlutur og trúarþörf. Samt eru þetta varla alveg óskyldir hlutir. Mér virðist heldur langt seilst að trúarþörf felist í yfirvegun og skynsemi, því að finna til eigin smæðar, skorts á eigin svörum og því að gera sér grein fyrir að maður viti ekki allt best sjálfur. Allt þetta myndi ég frekar kalla gagnrýna hugsun sem Dawkins er afskaplega hlynntur eins og aðrir góðir vísindamenn. Hann er þér örugglega líka hjartanlega sammála að það sé skynsamleg og yfirveguð ákvörðun að taka þekkingu læknis síns fram yfir eigið álit þegar kemur að heilsunni. En hann er þér örugglega ósammála að þetta feli í sér trúarþörf.
Ég er hræddur um að ég skilji ekki fyllilega í hverju munurinn á "líkamlegu" og "sálrænu" er fólginn. Ef till vill er það mismunandi nálgun á sama hlutinn sem á sér efnislega rót. Ef þú átt ekki við það á ég bágt með að skilja hvers vegna ekki má kalla það tvíhyggju. En ég hef bara ósköp almenna þekkingu á þessu og vel má vera að vísindin geri einhvern skýran greinarmun á "líkamlegu" og "sálrænu" sem ég hef ekki hundsvit á.

Gunnar (IP-tala skráð) 27.10.2006 kl. 22:22

6 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Nei, greinarmunurinn sem mér finnst vera á líkamlegu og sálrænu er ekki skýr og skilmerkilegur skal ég viðurkenna. Fremur loðinn. Kannski er það bara einhver latent tvíhyggja í mér sem gerir að verkum að mér finnst þarna vera munur á. En ég myndi vilja taka undir að hvort tveggja eigi sér efnislega rót, eins og þú orðar það. Ég held samt að það sé gagnlegt að halda í það að þarna sé munur á.

Greinarmunurinn á trúgirni og trúarþörf held ég að sé tvímælalaust efni í pælingar, og vonandi hægt að draga hann skarpari línum en líkamlegt/sálrænt. (Þótt vísast sé til fín skilgreining þar á sem maður bara veit ekki af - og skortir þekkingu til að fatta).

Kristján G. Arngrímsson, 28.10.2006 kl. 06:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband