31.10.2006 | 07:43
Trúgirni og trúarþörf
Viðhorf, Morgunblaðið, 31. október, 2006.
Á trúarþörf fullorðins fólks sér rætur í trúgirni barnsins? Er fullorðið fólk sem ekki getur hafnað tilvist æðri máttarvalda einfaldlega að endurupplifa hvöt barnsins til að hlýðnast foreldrum sínum? Getur verið að börnum sem hlýða fullorðnum hafi í gegnum tíðina farnast betur en börnum sem hafa óhlýðnast og þannig hafi hlýðnigen fremur komist af í þróunarsamkeppninni en gen þeirra sem óhlýðnast?
Allt kann þetta að vera að einhverju leyti rétt, en vart verður þessum spurningum nokkurntíma svarað til hlítar. En það er aftur á móti hægt að gera nokkra grein fyrir þeim mun sem er á trúgirni og trúarþörf. Á þessu tvennu held ég að sé reginmunur, og hann helstur sá, að trúgirni felur í sér ógagnrýnið samþykki, en trúarþarfar verður vart vegna upplýstrar og gagnrýninnar yfirvegunar.
Að óathuguðu máli kann að virðast sem trúarþörf stafi af vanþekkingu og ógagnrýnu samþykki við gömlum hefðum og boði yfirvalds, það er að segja kirkjunnar. Útlit er fyrir að þann sem finnur til trúarþarfar skorti þekkingu eða forvitni til að leita sjálfur svara við þeim spurningum sem á hann leita um lífið og tilveruna, og í staðinn taki hann einfaldlega með ógagnrýnum hætti á móti þeim svarapakka sem trúin veitir.
En fyrst og fremst er kannski útlit fyrir að sá sem trúir hafi einfaldlega ekki vitsmuni eða dug í sér til að hlýða kalli Immanúels Kants og voga sér að beita sinni eigin skynsemi hugsa sjálfur. Í staðinn verður ofan á hlýðni barnsins við foreldra og yfirvöld (að viðlagðri refsingu), og hinn fullorðni ýtir eigin hugsunum og jafnvel sannfæringu til hliðar og fer að boði annarra. Ekki vegna þess að þetta boð annarra sé í sjálfu sér réttara og betra en boð manns eigin hugsana, heldur einfaldlega vegna þess að hinn ytri þrýstingur ber manns eigin sannfæringu ofurliði.
Við þetta viðhorf til trúarþarfarinnar er þó ýmislegt að athuga. Til dæmis virðist það gera ráð fyrir að boð yfirvaldsins (eða samfélagsþrýstingurinn) stangist á við rödd skynseminnar í brjósti einstaklingsins. Svo þarf alls ekki að vera. Það er meira að segja ekki ólíklegt að þessi innri rödd skynseminnar sé að mestu mótuð af ytri röddum samfélagsins og því eins líklegt að þessar raddir séu fullkomlega sammála. (Og má ekki meira að segja ætla að þegar málum er þannig farið séu mestar líkur á að einstaklingurinn verði hamingjusamur? Þegar hann lifir lífi sínu í samhljóm með öllum hinum í kringum hann?)
Ekki þarf heldur að hugsa málið lengi til að ljóst verði að ekkert bendir til að meiri líkur séu á að voðaverk séu framin í nafni æðri máttarvalda en að eigin frumkvæði þeirra einstaklinga sem verkin fremja. Meira að segja má ætla að í mörgum tilvikum sé skírskotun til æðri boða ekki annað en skálkaskjól manna sem í raun og veru eru reknir áfram af persónulegum hefndarþorsta eða illsku.
Eflaust mætti fara nánar ofan í gagnrýnisviðhorfið til trúarþarfarinnar og þjarma að því, en það verður ekki gert hér. Gegn þessu viðhorfi er aftur á móti teflt þeirri afstöðu til trúarþarfarinnar að hún sé afsprengi ítarlegrar yfirvegunar og gagnrýninnar hugsunar. Sterk trúarþörf sem ekki verður vikist undan kemur fram þegar ljóst er orðið hversu skammt mannleg skynsemi hrekkur, og hversu takmarkað gildi það hefur í sjálfu sér að hafa þá grundvallarreglu í heiðri að taka jafnan eigin hugmyndir fram yfir hugmyndir annarra.
Það blasir við hvernig það getur verið í hæsta máta skynsamlegt að víkja eigin skynsemi og hugmyndum til hliðar og þiggja ráð annarra og fara að boðum þeirra. Hér þarf ekki að nefna annað en svo hversdagslega athöfn sem það að fara til læknis þegar maður finnur til. Það er óskynsamlegt beinlínis lífshættulegt að fara ekki til læknis þegar maður finnur óúskýrðan verk fyrir brjóstinu. Og það er líka óskynsamlegt að fara ekki að því ráði sem læknirinn veitir, jafnvel þótt maður skilji ekki alveg forsendurnar fyrir því.
Ég er ekki að halda því fram að læknar, eða aðrir sérfræðingar, séu óskeikulir. Ég á við að það er manns eigin, upplýsta ákvörðun að fylgja boði þeirra, og sú ákvörðun er byggð á vitundinni um að manns eigin þekking á því máli sem um ræðir (til dæmis starfsemi líffæra) sé minni og óáreiðanlegri en þekking læknisins á þessu tiltekna máli. Þannig er þetta upplýst og skynsamleg ákvörðun, þótt hún feli í sér að manns eigin hugmyndum og skynsemi sé ýtt til hliðar og boðum og skynsemi yfirvalds hlýtt í staðinn.
Það er einmitt með þessum hætti sem trúarþörf skilur sig frá trúgirni. Trúarþörf er gagnrýnin og upplýst afstaða til manns sjálfs, og manns eigin máttar og þekkingar. Gagnrýnin og upplýst afstaða til þess sem trúað er á getur síðan fylgt í kjölfarið. En ég held að gagnrýnin afstaða til manns sjálfs sé forsenda þess að hægt sé að taka eignlega gagnrýna afstöðu til trúarinnar. Að taka gagnrýna afstöðu til trúarinnar áður en maður tekur gagnrýna afstöðu til sjálfs sín er hroki.
Kannski myndi einhver segja þetta sýna að trúarþörf stafi greinilega bara af skorti á sjálfstrausti og/eða brotinni sjálfsmynd. Þeir sem finni til trúarþarfar eigi því fremur að leita til sálfræðings en prests. Og víst er um það að ekki er óhjákvæmilegt að maður finni til trúarþarfar ef maður vegur og metur eigin skynsemi, þekkingu og mátt. Þeir eru áreiðanlega ófáir sem við slíka skoðun komast að því að ekkert sé þeim ofviða. Slíkt fólk er öfundsvert og þarf enga trú. En ég held að það sé einfaldlega staðreynd að hinir eru fleiri, sem lærist af biturri reynslu að þeir vita sjaldnast sjálfir hvað er þeim fyrir bestu.
Meginflokkur: Trúmál og siðferði | Aukaflokkur: Vísindi og fræði | Breytt 8.11.2006 kl. 16:49 | Facebook
Athugasemdir
Í dag finnst mönnum almennt heimskulegt að trúa á Guð og Biblíuna og halda að með því séu þeir að sýna gagnrýna, sjálfstæða hugsun. En menn átta sig ekki á því að við hafa tekið ný trúarbrögð; trú á vísindi. Og menn aðhyllast þau trúarbrögð af sama gagnrýnisleysi og sumir önnur trúarbrögð.
Í okkar samfélagi þarf því sjálfstæða og gagnrýna hugsun til að trúa á Guð.
(Að ætlast til þess að trú á æðri máttarvöld sé rökstudd með sömu aðferðafræði og vísindi, er álíka gáfulegt og að stunda hvalveiðar með fiðrildaháf. Sumar aðferðir eru ágætar til síns brúks en eiga bara ekki við allsstaðar og í öllum tilfellum.)
gerður rósa gunnarsdóttir, 31.10.2006 kl. 19:09
Við höfum ekkert í hendi sem staðfestir tilvist æðri máttarvalda.
Ég tel því skynsamlegasta niðurstaðan í þessu sambandi sé efahyggja. Ef eitthvað er óþekkt er engin lausn að hrapa að bara einhverri niðurstöðu. Vísindi og vísindaleg aðferðafræði er það sem hefur skilað okkur þekkingu. Við getum auðvitað öll lagst á eitt og ímyndað okkur eitthvað, en það er gagnlaus leið til að skilja veröldina sem við lifum í. Vísindi eru ekki trúarbrögð heldur leit að þekkingu. Trúarbrögð ganga út á það að fella veruleikann að fyrir fram ákveðinni heimsmynd sama hversu fáránleg hún er.
Arnold Björnsson (IP-tala skráð) 31.10.2006 kl. 21:35
Ég held ég skilji hvað þú átt þegar þú lýsir því hvað trúarþörf felur í sér. En ég myndi ekki nota þetta orð. Ég myndi frekar tala um skilningsþörf og gagnrýna hugsun bæði inn á við og út á við. Ég tel mig hafa býsna gagnrýna og upplýsta afstöðu til mín sjálfs, máttar míns og þekkingar, þótt eitthvað skorti örugglega á, hjá mér eins og öllum öðrum. En ég tel mig ekki hafa trúarþörf, a.m.k. ekki í þeim skilningi að ég finni nokkra þörf til að trúa á "æðri máttarvöld" eða e.k. yfirnáttúru. Og mér virðist það gilda alveg eins um alla aðra hluti eins og um trúna, að það er mikilvægt að beina gagnrýni inn á við í a.m.k. jafn miklum mæli og út á við. Vel þekkt orð um flís og bjálka koma upp í hugann.
Gunnar (IP-tala skráð) 1.11.2006 kl. 00:00
Varðandi athugasemd Arnolds o.fl. Akkúrat það sem ég er að tala um varðandi að nota vísindalegar nálganir á viðfangsefni sem það á ekki við um. Við erum bara orðin svo gegnsýrð þessum vísindalega þankagangi að við föttum það hreinlega ekki. Þekking á hlutum sem hönd á festir er ágæt, og vísindin eru fín í að rannsaka þau mál; þau eru mikilvæg og koma að góðum notum. Og það er ÞESSvegna sem þau eru rannsökuð á þann hátt; afþví að það er okkur mikilvægt. Mikilvægi. Það er lykilorðið. Og að ætla að sniðganga mikilvægi fyrir þekkingu, sem þó grundvallast á mikilvægi sínu, ekki öfugt, er rökleysa. Og þar sem rökfræði er einmitt tæki vísinda ætti sá vísindalega þenkjaði að skilja það. Mikilvægið kemur fyrst.Ætla menn að neita því að til séu fyrirbæri sem ekki festir hönd á en eru manninum þó afar mikilvæg? T.d. ást. Tilfinningar. Sjálfsupplifun. Mér sýnist nú menn eltast við ástina nógu andskoti mikið þrátt fyrir að það hafi ekki tekist að sanna tilvist hennar ennþá. Það er hægt að rugla menn í ríminu og tengja ástina við taugaboð og efnaferli en sem komið er veit ég ekki til þess að tilvist hennar sé sönnuð á nokkurn sannfærandi hátt. Samt sem áður umhverfa menn lífi sínu af hennar sökum. Vel upplýst og menntað fólk. Og sjálfið. Hvernig ætla menn að festa hönd á því? Með sneiðmyndatöku? Svo vilja menn taka trú á Guð og setja í einhvern sérdálk sem eitthvað yfirnáttúrulegt? Ég sé engan eðlismun á trú á Guð og trú á það að sjálf manns sé til. Veruleiki verður ekki endilega ákvarðaður með rannsóknum. Hann getur verið upplifun.Vísindaleg þekking er því ekki forsenda mikilvægis. Við þurfum ekki að fara á námskeið í dauðanum til að drepast eða kúrs í sjálfsvitund til að öðlast hana.Með því að segja að ekki sé búið að sanna tilvist ástarinnar eða sjálfsins ennþá gef ég möguleika á því að það verði gert einhverntímann. Það getur vel verið, þó ég efist um það. En um leið er þá hægt að gera ráð fyrir því að tilvist Guðs verði sönnuð einhverntímann. Það finnst mér þó einnig fráleitt.Það þarf ekki að skilja fyrirbæri til að þau öðlist gildi. Notagildi þess að gleypa hluti hráa getur verið ótvírætt. Og því mjög gáfulegt. En auðvitað er gott að vita hvenær maður ákveður að gleypa hluti hráa.Efahyggja getur verið mjög skynsamleg, en það þarf að vita hvenær á að beita henni. Það er ekki skynsamlegt að útiloka fyrirbæri sem koma manni að góðum notum þrátt fyrir að verða ekki negld niður vísindalega.
Trúarþörf er líklega viðbrögð hins skynsama manns við því að skilja að hann skilur ekki. Það skilur eftir ákveðið tómarúm. Það að gera sér grein fyrir óendanleika en geta svo ekki fest hönd á honum á nokkurn hátt er verulega óþægilegt, einmitt vegna þessarar þarfar mannsins að skilja allt. En einhverja lausn þarf að finna til að maðurinn geti lifað með sjálfum sér og meðvituðum ófullkomleika, og af hugviti sínu finnur hann lausn: Trú.
Trúgirni kemur trúarþörf ekkert meira við en öðru þó í íslensku sé orðið ´trú´ í þeim báðum. Ef maður notar naivitet í staðinn þá verður það e.t.v. ljósara. Trúgjarn maður trúir bara almennt því sem honum er sagt gagnrýnislaust, hvort sem um trú eða aðra hluti er að ræða. Auðvitað eru til trúgjarnir trúaðir menn, en einnig trúgjarnir trúlausir menn.
gerður rósa gunnarsdóttir, 2.11.2006 kl. 11:24
"Trúarþörf er líklega viðbrögð hins skynsama manns við því að skilja að hann skilur ekki."
Nákvæmlega! Þá fer hann að leita út fyrir sjálfan sig því að það sem hann finnur í sjálfum sér dugar ekki til. Hann áttar sig á því að hann er maður, en ekki alvís. Því er sagt að einkunnarorð véfréttarinnar í Delfí, "Þekktu sjálfan þig," hafi mátt túlka sem svo: Gerðu þér grein fyrir að þú ert maður en ekki guð.
Kristján G. Arngrímsson, 3.11.2006 kl. 11:02
Mér virðist viðbrögð hins skynsama manns við því að skilja að hann skilur ekki - að hann er ekki alvís - vera að draga allar hugmyndir sínar í efa, þar á meðal þá skoðun að sumt verði einungis útskýrt með því að til séu yfirskilvitlegar vitsmunaverur. Og ef hægt sé að skýra allt sem fyrir ber með jarðbundnari skýringum, þá sé rétt að sneiða burt guðshugmyndina (með rakhníf Ockhams).
Ég hygg að tilfinningar eins og ást, trúarþörf og lotning fyrir tilverunni sé vel hægt að skýra með jarðbundnum hætti. Þessar tilfinningar hafa komið sér vel í "þróunarsamkeppninni". En það þýðir ekki að einhver yfirnáttúra búi að baki trúarþörfinni. Svo ég vitni í heimsbókmenntirnar, þá gagnaðist Ólympíustrumpinum sú trú að jarðarberjasultan sem hann bar á nefið fyrir keppni væri töfrasmyrsl. En þetta var samt bara jarðarberjasulta. Lyfleysuáhrifin geta gert eitthvað gagn, en lyf sem raunverulega virka eru gagnlegri. Trúarbrögð hafa átt hlut að því að koma mannkyninu á þann stað sem það er á núna, en það þýðir ekki að "trúarandlagið" sé raunverulegt. Ef til vill er gullöld trúarþarfarinnar að renna sitt skeið á enda, eins og kom fyrir steinöxina í lok steinaldarinnar.
Gunnar (IP-tala skráð) 4.11.2006 kl. 01:58
Ef þú dregur allar hugmyndir þínar í efa, verður þú líka að draga þá hugmynd þína í efa að þú skiljir að þú skiljir ekki. Kannski skilurðu það ekki heldur. Í rauninni verður þú þá að draga efahyggjuna sjálfa í efa líka, sem er ágætt. Þá ertu kominn í hring. Eiginlega er efahyggja endaleysa, í raunveruleikanum verður maður einhverntímann að slá einhverju föstu. Rök er hægt að rekja endalaust afturábak; rökstyðja þarf rökin sem notuð eru til að rökstyðja önnur rök o.s.frv. þangað til það endar á því að menn verða hreinlega bara að ákveða að eitthvað sé einhvernveginn, án nokkurs rökstuðnings.
Það má vel segja að engin yfirnáttúra búi að baki trúarþörfinni, enda ekki verið að tala um hvort Guð sé til, heldur hvað trúarþörf sé og hvað valdi henni.
Að skýra hluti með ´jarðbundnari´ hætti er allt í lagi – þegar það er hægt. En að ætla að útiloka hluti vegna þess að við höfum ekki haldbærar skýringar, er fremur óskynsamlegt en hitt. Ef allir hugsuðu þannig væri jörðin enn flöt.
Að trúa á tilvist sjálfs síns er líklega uppruni allrar trúar. Raunveruleiki sjálfsupplifunar manna stendur ekki og fellur með því að hún verði skýrð á nokkurn hátt, ´jarðbundinn´ eða annan. Þeir verða að byrja á því að ákveða að trúa að þeir séu til. Allt annað kemur á eftir. Og þar með er komin réttlæting fyrir tilvist trúarhugtaksins. Að ætla að láta trú fyrir róða er að afneita tilvist sjálfs síns um leið.
Hvort menn vilja svo flokka sjálfsupplifun sína sem ´yfirnáttúrlega´, er þeirra mál.gerður rósa gunnarsdóttir, 4.11.2006 kl. 18:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.