KGA

Vissulega brugðust fjölmiðlar

Ástandið var eins og á unglingafylleríi: Allir urðu að drekka með, þeir sem skoruðust undan voru álitnir leiðinlegir og reknir úr partíinu.

Þess vegna er það rétt sem borgarafundur á NASA samþykkti í gær, fjölmiðlar brugðust í aðdraganda kreppunnar. Ástæðan er ofangreind fylleríslíking.

Á fjölmiðlum á Íslandi hefur lengi ríkt kreppa. Hugarfarskreppa. Flest starfsfólk hefur búið við ótta um atvinnumissi. Lengi. Ég veit ekki hvað margar "uppsagnabylgjur" hafa gengið yfir íslenska fjölmiðla undanfarin ár.

Alltaf beið maður milli vonar og ótta.

Misjafnt hvernig fólk brást við. Flestir fóru þá leið að passa sig vandlega að rugga ekki bátnum. Ef eitthvað, þá reyndu menn að "hlaupa eins hratt og þeir gátu", þ.e. gera sig ómissandi í augum stjórnenda.

Það gerir maður með því að taka undir, hátt og skýrt, í kórstarfinu. Dæmin um afleiðingar hins gagnstæða voru þarna til að varast þau.

Þótt það sé eðli mínu fjarstætt að taka undir með Davið Oddssyni get ég ekki annað en gert það nú. Á fjölmiðlunum vissum við vel hverjir "áttu okkur." Og við vissum að maður bítur ekki í höndina sem gefur manni að borða. Þeir sem það gerðu voru álitnir heimskir.

Hver man ekki eftir því þegar Mogginn bjó til sérblað (það hét að vísu ekki það) um Björgólfinn í London, eins og um væri að ræða hálfguð?

George Orwell sagði einu sinni, að versta ritskoðunin væri sjálfsritskoðunin. Það var satt hjá honum. En orsök sjálfsritskoðunar er einfaldlega óttinn við útskúfun.

Af hverju ofurseldu stjórnendur íslenskra fjölmiðla þá auðmönnunum? Í því var fólgið það sem kalla mætti "faglegt sjálfsmorð." Fjölmiðill sem ætlar að standa undir nafni getur ekki verið á klafa eigenda sem eru um leið eigendur þess sem fjölmiðlarnir eiga, eðli sínu samkvæmt, að hafa eftirlit með. 

Varla er þetta svo flókið.

Samt hengdu fjölmiðlarnir sig á slíkan klafa, sem sýnir að þeir tóku sig sennilega ekki alvarlega sem fjölmiðlar.

Spurningin er: Í hvaða leik voru þeir?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ég er sammála svo gott sem öllu sem þú segir (nema undirtekt með Davíð).

Þú getur, Kristján, kannski hjálpað mér/okkur að rifja upp: Þegar forsetinn og þjóðin var búin að hafna fjölmiðlalagasetningu Davíðs og Halldórs var sett upp ný fjölmiðlanefnd og hún komst að þverpólitískri niðurstöðu um innihald fjölmiðlalaga.

Hvað varð um þá niðurstöðu? Myndir þú ekki segja að hún hafi verið sett til hliðar og að stjórnvöld (og þar með Davíð) hafi hætt við áform um fjölmiðlalög? Hefur þú einhverja skýringu á því af hverju menn snéru við í miðri á? Var þörfin farin? Aðrar aðstæður uppi? Var þverpólitíska niðurstaðan kannski Davíð ekki hugnanleg?

Öll upprifjun á þessu vel þegin...

Friðrik Þór Guðmundsson, 18.11.2008 kl. 11:22

2 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Sæll Friðrik.

Því miður get ég ekki orðið að liði við upprifjunina. Ég hef ekki hugmynd um hvers vegna ekkert varð úr neinu. Kom ekki bara eitthvað annað uppá sem menn fengu áhuga á?

Ég bara veit það ekki.

Það sem ég var sammála Davíð um, var það sem hann sagði hjá Viðskiptaráði í morgun: Fjölmiðlar veittu ekki það aðhald sem þeim ber, vegna þess að þeir voru undir hæl eigenda sinna, en það voru einmitt þessir sömu eigendur sem áttu að sæta aðhaldinu af hálfu fjölmiðlanna.

Auðvitað var Davíð bara að vísa í Jón Ásgeir og 365, en ég benti á að Mogginn var undir svipaða sök seldur.

Kristján G. Arngrímsson, 18.11.2008 kl. 12:12

3 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Já, ábyrgð fjölmiðla er nokkuð ljós og án efa hafa eignarhaldsmál spilað þar inn í. Fjölmiðlamenn eru hygg ég EKKI á flótta undan ábyrgð sinni, þöggun og meðvirkni í góðærinu og útrásinni. Menn hafa tekið sökina til sín og ætla sér vonandi að gera betur. Eigendurnir hafa ekki sama skjólið og fyrr þótt tilhneigingin til sjálfsritskoðunar sé áfram sterk.

Að niðurstaða þverpólitísku fjölmiðlanefndarinnar var ekki færð í lög segir mér fyrst og fremst að menn hafi ekki talið brýna þörf á því. Eða hvaða önnur ástæða er boðleg?

Friðrik Þór Guðmundsson, 18.11.2008 kl. 12:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband