Bílabullur

Tilbrigði við Brand 2

Viðhorf, Morgunblaðið 10. október 2006. 

Breski sjónvarpskokkurinn og Íslandsvinurinn Jamie Oliver sagði um daginn að foreldrar sem sendu börn sín með ruslmat í nesti í skólann væru fífl. Hann sagðist ekki nenna lengur að vera kurteis. Það yrði einfaldlega að nefna hlutina sínum réttu nöfnum. Og foreldrarnir yrðu að taka sig á.

Af einhverjum ástæðum koma þessi orð Olivers upp í hugann þegar lesnar eru fréttir um íslenskar bílabullur sem stunda ofsaakstur og stefna þannig eigin lífi og lífi annarra í voða. Bullurnar líta á sig sem fórnarlömb ef löggan gómar þær, og dæmi munu vera um að foreldrar bílabullanna reyni að "útskýra" hegðun afkvæma sinna fyrir lögreglunni.

Það skiptir máli í umræðum um ósæmilega hegðun í umferðinni að ekki eru endilega allir sem aka greitt þar með orðnir að bílabullum. Lögreglan segir vera nokkurn mun á hraðakstri og ofsaakstri. Þeir sem teknir eru fyrir of hraðan akstur á götum og þjóðvegum landsins eru á öllum aldri og af báðum kynjum. En lögreglan segir að er komi að ofsaakstri og glannaskap eigi undantekningarlítið í hlut ungir strákar. Í mörgum tilvikum með glæný ökuskírteini. En það er auðvitað sama, það er framferðið, en ekki aldur og kyn, sem gerir karla eða konur að bílabullum.

Íslenskar bílabullur eiga það sameiginlegt með enskum fótboltabullum að fá útrás fyrir tilfinningar sínar og kenndir á kostnað meðborgara sinna. Reyndar má telja líklegt að stór hluti af "kikkinu" sem bullurnar fá út úr framferði sínu sé fólginn í því að gera annað fólk skelkað og gefa skít í það með því að koma fram við það á ógnandi hátt. Þetta er því ekki annað en gamla sagan um að gera sjálfan sig stóran með því að lítillækka aðra. Þess vegna er þetta afskaplega ómerkileg hegðun og til marks um lítinn þroska. Oft má auðvitað rekja þetta til ungæðisháttar.

En er þetta svona einfalt? Fyrir fáeinum árum, þegar ensku fótboltabullurnar höfðu einu sinni sem oftar látið til sín taka á meginlandi Evrópu - ég man ekki í hvaða landi - og Englendingar sátu undir skömmum og háðsglósum á alþjóðavettvangi fyrir þessa stórkostlegu útflutningsafurð sína, kom Tony Blair forsætisráðherra bullunum til varnar og sagði að þrátt fyrir allt birtist í bullunum sami frumkrafturinn er hefði komið Englendingum vel í styrjöldum undanfarinnar aldar.

Það má með sama hætti finna, ef nánar er að gáð, mikla aðdáun í íslensku samfélagi á óbeisluðum frumkraftinum sem er til dæmis víða lýst í Íslendingasögunum. Hér er ríkjandi sú rómantíska hugmynd að óheftir og sterkir menn sem láta ekkert aftra sér, síst af öllu siðapredikanir, áminningar um góða hegðun og annan tepruskap, séu þeir sem drífi samfélagið áfram til framfara og umbóta. Að án þessara sterku manna sætum við enn við sjálfsþurftarbúskap, eða værum að minnsta kosti ekki sjálfstæð þjóð.

Þessi hugmynd um nauðsyn þess að sterkir menn fái að fara sínu fram óheftir til að við hin - tilfinngabældu teprurnar - fáum notið góðs af og flotið með í kjölsoginu af þeim leiðir aftur á móti til þess að við teljum okkur trú um að við verðum að umbera agaleysið, bulluháttinn og fylliríið, sem óhjákvæmilega fylgifiska frumkraftsins sem er okkur svo nauðsynlegur til að drífa okkur áfram og koma í veg fyrir að þjóðfélagið staðni. Og það sem hugsanlega væri allra verst - að við glötum sjálfstæðinu.

Þetta er sama aðdáun og menn láta í ljósi yfir skrímslinu Agli Skallagrímssyni, sem hefur lifað sem hetja í íslenskri þjóðarsál þrátt fyrir að sagan sem kennd er við hann beri með sér að hann hafi fyrst og fremst verið morðingi og fyllibytta, og strax í barnæsku sýnt merki um að vera að flestu leyti dusilmenni hið mesta. En - og það skiptir öllu - hann var skáld og gaf skít í kónginn. Frummaður sem lét ekki yfirvald segja sér fyrir verkum. Og slíkt kann íslensk þjóðarsál að meta. Enn þann dag í dag fer um hana unaðshrollur þegar fregnir berast af "íslenskum víkingum" sem verða ríkir á bissniss í útlöndum.

Þessir Skallagrímssynir nútímans, sem gefa skít í lögguna og fara í stórsvigi niður Ártúnsbrekkuna á hundrað og sextíu, eiga sér þannig djúpstæðan og traustan sess í hinni rómantísku íslensku þjóðarsál. Ef einhver af þessum bílabullum skyldi nú reynast skáldmælt og færi að sýna orðfimi sína á live2cruize.com myndi hún á einni nóttu verða hafin upp til skýjanna sem þjóðhetja. Og vei þeim lögreglumönnum sem gera myndu tilraun til að hefta för hins skáldmælta Skallagrímssonar á Imprezunni.

Kjarninn í þeim rómantíska hugsunarhætti sem hér er á ferðinni er draumur hins kúgaða um frelsi, og drifkrafturinn er réttlát reiði þess er býr við ósanngjarnt hlutskipti. Þar af leiðandi reka bullurnar upp ramakvein fórnarlambsins þegar lögreglan hefur afskipti af þeim. En bullurnar búa í raun og veru hvorki við kúgun né ósanngjarnt hlutskipti, og þess vegna eru kvein þeirra svo hjákátleg - og kannski umfram allt barnaleg.

Það væri óskandi að rómantíkin og víkingadýrkunin - sem er í rauninni lítt dulbúin sjálfsdýrkun - færi að líða undir lok á Íslandi. Það væri líka óskandi að horfið yrði frá þeirri hugsun að það sé dyggð að æða áfram og sjást ekki fyrir, fara sínu fram hvað sem hver segir. "Íslenska aðferðin" er ekki dyggð heldur skammaryrði.


Bjöguð athygli

Viðhorf, Morgunblaðið, 3. október 2006

Ég held að það hafi verið fyrir tveim vikum eða svo að tilkynningin frá lögreglunni í Reykjavík birtist á Lögregluvefnum þar sem sagði að lögreglumönnum sýndist að áróðurinn sem haldið hafi verið upp dagana á undan hafi ekki skilað sér til þeirra sem honum var beint gegn.

Það fór ekki mikið fyrir þessari tilkynningu. Nokkrir fjölmiðlar höfðu þetta orðrétt upp úr Lögregluvefnum, en ég man ekki eftir einu einasta viðtali við lögreglumann um málið, svo dæmi sé tekið. Aftur á móti minnir mig að viðtal hafi verið haft í einhverjum fjölmiðli við auglýsingasmið sem sagði að ekki væri þess að vænta að áróðurinn væri strax farinn að skila árangri.

Síðan lögreglan sendi frá sér þessa tilkynningu hafa ekki borist fregnir af öðru en áframhaldandi ófremdarástandi í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu. Fréttir um ofsaakstur ungra ökumanna með ylvolg bráðabirgðaökuskírteini eru daglegt brauð. Ekki meira um það að segja, að því er virðist.

Ég verð að viðurkenna að ég hef litlar áhyggjur af þeim náttúruspjöllum sem virkjunarframkvæmdir valda á Íslandi, og enn minni af vaxandi gróðurhúsaáhrifum. Það er að segja, áhyggjur mínar af þessu tvennu eru hverfandi miðað við þær áhyggjur sem ég hef af því að fólk haldi áfram að deyja í umferðarslysum.

Ég vildi óska að allur krafturinn og öll ástríðan sem sett er í mótmæli gegn virkjunarframkvæmdum og losun gróðurhúsaáhrifa væri sett í að sporna gegn dauðsföllum í umferðinni. Með þessu er ég ekki að segja að það sé út í hött að mótmæla náttúruspjöllum og gróðurhúsaáhrifum. Ég er öllu heldur að segja að það væri óskandi að fólkið sem hefur fítonskraftinn og réttlætiskenndina – sem er ekki síst ungt fólk – myndi beina kröftum sínum að umferðarmálum.

Þegar farið var um daginn af stað með átak til bættrar umferðarmenningar voru haldnir borgarafundir á sjö stöðum á landinu þar sem meðal annars kom fram fólk sem hafði misst ástvini í umferðarslysum, og einnig miðluðu af reynslu sinni sjúkraflutningamenn sem komið hafa að alvarlegum umferðarslysum. Það var dálítið skrítið hversu lítið fór fyrir frásögnum þessa fólks í fjölmiðlum og almennri umræðu. Þær hurfu mjög flótt af sjónarsviðinu. Í samanburði var ótrúlegt hvernig fjölmiðlar og almenningsálitið fóru á límingunum þegar Ómar Ragnarsson tilkynnti að hann væri orðinn náttúruverndarsinni og ætlaði að vera á árabáti á Hálslóni.

Þessi áhersluslagsíða er reyndar hvorki einsdæmi né séríslenskt fyrirbæri. Fyrir ekki löngu síðan var haldin mikil ráðstefna í Sydney í Ástralíu þar sem fjallað var um offituvandann í hinum vestræna heimi, sem vissulega er gríðarlegur. En það fór ekki mikið fyrir almennri umræðu um það sem fram kom á þessari ráðstefnu, og varla að hún sæist á radar íslenskra fjölmiðla. Samt er það nú svo, að offita verður margfalt fleiri að aldurtila en til dæmis fuglaflensa.

Læknar hafa ennfremur bent á að það sé misræmi í því hversu lítið heimspressan fjalli um hjarta og æðasjúkdóma miðað við að þetta sé sá sjúkdómur sem dragi flesta jarðarbúa til dauða. Umfjöllun um áðurnefnda fuglaflensu, HABL og AIDS sé margfalt meiri, þótt áhrifin sem þessir sjúkdómar – svo alvarlegir sem þeir vissulega eru – séu ekki nærri eins útbreidd og djúpstæði og áhrifin sem hjarta- og æðasjúkdómar hafi. Í raun sé því mun meiri þörf á aðgerðum gegn hjarta- og æðasjúkdómum en til dæmis fuglaflensu og AIDS.

Hvað veldur þessari bjögun á athygli? Hvers vegna vekur ófremdarástand í umferðarmálum ekki nærri því jafn mikinn og viðvarandi áhuga og meint náttúruspjöll af völdum virkjunarframkvæmda, jafnvel þótt hið fyrrnefnda kosti beinlínis mannslíf, en hið síðarnefnda ekki?vHvasdfsaj Vissulega má halda því fram að þarna sé um að ræða ósambærilega hluti, en ég held að viðbrögð almennings og fjölmiðla við þeim séu fyllilega sambærileg. Í báðum tilvikum er um að ræða viðbrögð við ástandi sem talið er óviðunandi.

Fleira kemur til. Umferðarslys og hjartasjúkdómar eru hvort tveggja menningarbundin óáran, eða lífstílsbundin. Og hvort tveggja hefur verið stór hluti af lífi Vesturlandabúa um langa hríð. Hið sama má núorðið segja um offitu. Þannig að það er ekkert nýtt við þetta, og sagt hefur verið að "breyting á ríkjandi ástandi" sé það sem skilgreini hvað sé frétt og hvað ekki. Umferðarslys og hjartasjúkdómar falla þannig utan hefðbundinnar skilgreiningar á frétt, en sinnaskipti Ómars Ragnarssonar eru stórfrétt.

Einnig ræður þarna eflaust miklu að hjartasjúkdómar og "ástandið í umferðinni" eru orðin harla hversdagsleg óáran og verið felld undir verksvið tiltekinna stofnana – sjúkrahúsa og lögreglu. Það er því komið á könnu "fagaðila" að takast á við þessa hluti, þannig að okkur hinum finnst við vera stikkfrí og geta beint kröftum okkar að nýstárlegri og göfugri vandamálum.

Enda finnst eflaust mörgum eitthvað óviðeigandi við það að lögreglan skuli opinberlega gagnrýna háttarlag ökumanna í umferðinni. Slíkt telst kannski ekki "faglegt" af lögreglunni. En ég verð að segja eins og er, að ég vildi að lögreglan gerði meira af því að húðskamma opinberlega þá sem keyra eins og fífl.


Var Mill hræddur um að hugsunarháttur millistéttarinnar yrði allsráðandi?

Lesbók, 23. september, 2006 (í tilefni af málþingi um Mill).

Því hefur verið haldið fram að kveikjan að Frelsinu, sem óhætt er að segja eitthvert víðlesnasta og umdeildasta stjórnmálaheimspekirit sem til er, hafi verið óánægja höfundarins, Johns Stuarts Mills, og konu hans, Harriet Taylors, með einsleitni samfélagsins sem þau bjuggu í, og hversu lítið fór þar fyrir áræðnum og ævintýragjörnum einstaklingum sem gáfu lífinu lit.           

Það hafi með öðrum orðum verið ótti Mills við að moðkenndur hugsunarháttur millistéttarinnar myndi verða allsráðandi og kæfa frjóa hugsun sem hvatti hann til dáða. Til munu vera bréfaskriftir Mills og Taylors þar sem þau ræða þessar dapurlegu horfur. Í Frelsinu má vissulega sjá víða þá áherslu sem Mill leggur á mikilvægi sjálfstæðrar hugsunar og að þeir sem að henni búa fái að rækta hana án þess að meirihlutinn (millistéttin) setji þeim stólinn fyrir dyrnar.           

“Ég legg því ríka áherslu á mikilvægi snillinga í samfélaginu og nauðsyn þess að veita þeim fyllsta frelsi til að þroskast til orðs og æðis,” segir Mill (bls. 125). En: “Frumleiki er sálargáfa, sem ófrumlegir menn geta ekki skilið, að komi að nokkrum notum ... Sannleikurinn er sá, að hversu mjög sem menn telja sig hylla raunverulega eða ímyndaða yfirburði og hylla þá jafnvel í raun, þá er hvarvetna ríkjandi tilhneiging til að leiða meðalmennskuna til æðstu valda” (bls. 126).           

Mill telur það sjálfljóst að “einungis örsmár minnihluti” sé gæddur snillingsgáfu, og að “eðli málsins samkvæmt” skeri þeir sig úr fjöldanum vegna þess að þeir séu “gæddir ríkara einstaklingseðli en annað fólk” (bls. 125). Voðinn sem stafar af útrýmingarhættu snillinganna er sá, að það séu þeir sem í rauninni haldi lífi í siðferði og trú, sem án þeirra myndu úrkynjast og verða “að tómum vana”. Og vanahugsun er aftur á móti hættuleg vegna þess að hún er í raun ekki annað en mót “sem samfélagið býr mönnum í því skyni að spara þeim ómakið að þroskast sjálfir”.           

Áherslan sem Mill lagði á vitsmunalegt frelsi, áræðni og ævintýragirni, miðaði því öll að þeirri meginhugsun sem hann setti fram í einkunnarorðum Frelsisins, og fékk lánuð hjá Wilhelm von Humboldt: “Öll þau rök, sem birtast á þessum blöðum, hníga að einni mikilli meginreglu: að um mannlegan þroska í ýtrasta margbreytileika sé meira vert en alla hluti aðra.”           

Sú vitsmunalega úrvalshyggja sem Mill aðhylltist því tvímælalaust er ef til vill ekki öllum að skapi. Enda hefur hún líklega aldrei verið það sem mest hefur þótt um vert í Frelsinu. Það hefur oftar verið túlkað sem pólitískt rit, en að vísu hafa bæði hægri og vinstrimenn skírskotað til þess, málstað sínum til varnar. Þetta hefur án efa átt hvað stærstan þátt í því hve lífseig bókin er, en hinu má auðvitað ekki gleyma að hún er kannski eitthvert best skrifaða heimspekirit sem til er. (Og íslensk þýðing þeirra Jóns Hnefils Aðalsteinssonar og Þorsteins Gylfasonar er hreint meistaraverk).

Frelsinu er iðulega flaggað sem helsta varnarriti einstaklings- og málfrelsis, en um leið samfélagsvitundar og virðingar fyrir öðrum. Til dæmis lagði Mill mikla áherslu á þann skilyrðislausa rétt sem allir einstaklingar eigi á menntun, og að ef foreldrar geti ekki gætt þessara réttinda barna sinna verði ríkið að gera það - að vísu á kostnað foreldranna eftir því sem unnt sé (sjá bls. 186).

Mill fer þó hvergi út í það hvar séu og í hverju nákvæmlega séu fólgin mörkin á milli einstaklingsfrelsis og samfélagsvitundar. Hann virðist allt að því segja að snillingar séu eiginlega mikilvægari en annað fólk (því að þeir haldi siðmenningunni á lífi), en segir aftur á móti ekkert um það hvort þetta þýði til dæmis að snillingum leyfist að hefja sjálfa sig yfir venjulegt og “ófrumlegt” fólk. Er til dæmis mikilvægara að þeir sem fengið hafa snilligáfu í vöggugjöf njóti menntunar en þeir sem ófrumlegir eru af náttúrunnar hendi, ef ekki er unnt að mennta báða?

Ef til vill má kalla það röklegan veikleika á málsvörn Mills fyrir snillinginn að hann gengur hreinlega út frá því sem gefnu að snilligáfa sé til. En um það má vissulega deila, og halda ýmsir því fram að snillingshugmyndin sé af rómantískum rótum runnin, og ef nánar sé að gáð standist hún ekki, frekar en hugmynd Jean Jaqcues Rousseaus um göfuga villimanninn. En jafnvel þótt maður sé algjörlega ósammála Mill um að snilligáfa sé raunverulega til dugar það engan veginn til að gera Frelsið að ómerkilegri bók.

Um það má eflaust líka deila hvort Mill hafi talið sjálfan sig til snillinga. Líklega hefur hann þó verið of hógvær til þess. Aftur á móti virðist engum blöðum um það að fletta að hann var öðru vísi en fólk var og er flest, og hann vissi það upp á sjálfan sig og fann fyrir því. Í Sjálfsævisögu sinni segir hann að faðir sinn, James, hafi alið sig upp til strangs vitsmunalífs, og svo rammt hafi kveðið að þessu uppeldi að það hafi beinlínis orðið á kostnað líkamlegs og félagslegs atgervis.

Frelsið kom fyrst út 1859 og hefur tvisvar verið þýtt á íslensku. Fyrst af Jóni Ólafssyni, og hét þá Um frelsið, og var gefin út 1886. Þorsteinn Gylfason segir í formála þýðingar sinnar og Jóns Hnefils að það verði “með engu móti annað sagt en að þýðing Jóns Ólafssonar ... hafi farið fyrir ofan garð og neðan á Íslandi ... og verður þess varla vart að Íslendingar hafi lesið bókina, hvað þá að kenning Mills hafi haft minnstu áhrif í landinu” (bls. 11). Ný þýðing Þorsteins og Jóns Hnefils kom síðan út 1979 og hefur verið prentuð þrisvar.

Hið íslenska kvenfélag gaf Kúgun kvenna út árið 1900 í þýðingu Sigurðar Jónassonar úr dönsku, og Bókmenntafélagið gaf þýðinguna síðan aftur út tæplega öld síðar. Upphaflega kom bókin út 1869, síðla á ævi Mills, og hefur því verið haldið fram að hann hafi vísvitandi beðið með að gefa hana út til að þær róttæku hugmyndir sem hann setti þar fram yrðu ekki til að veikja stöðu fyrri rita hans.

Þótt Kúgun kvenna hafi á sínum tíma verið róttækt rit er það nú orðið klassískt kvenfrelsisrit. Mill hélt því fram að ef frelsi væri körlum nauðsyn væri það einnig konum nauðsyn, og hafnaði þeim gagnrökum að “eðli” kvenna væri ólíkt “eðli” karla og að á þeim forsendum væri hægt að réttlæta þá fráleitu hugmynd að þessi meinti eðlismunur kynjanna gerði að verkum að frelsi væri ekki báðum nauðsyn til fulls þroska.

Þriðja bókin eftir Mill sem komið hefur út á íslensku er Nytjastefnan. Hana þýddi Gunnar Ragnarsson og Bókmenntafélagið gaf hana út 1998. Kjarni Nytjastefnunnar (sem kom fyrst út 1861) er sú siðferðilega grundvallarregla að breytni sé góð eða slæm eftir því hvort hún stuðli að hamingju eða ekki. Það er að segja, breytni er góð ef hún lætur fólki líða vel, slæm ef hún leiðir til þess að fólki líði illa.

En þetta er auðvitað ekki alveg svona einfalt. Mill tekur vara við því að ruglað sé saman hamingju og ánægju:  “Það er betra að vera óánægð manneskja en ánægt svín; betra að vera óánægður Sókrates en ánægður auli. Og ef aulinn og svínið eru ósammála þessu þá er það vegna þess að þau þekkja aðeins sína hlið málsins. Hinn aðilinn í samanburðinum þekkir báðar hliðar.”

Þessar skemmtilegu setningar eru og hafa orðið efni í langar ritgerðir, en í sem stystu máli virðist Mill halda því fram að vitsmunir séu forsenda eiginlegrar hamingju. Hér bólar því aftur á vitsmunalegu úrvalshyggjunni sem nefnd var að ofan, og spyrja má hvort Mill hafi litið svo á að þeir sem frá náttúrunnar hendi státa ekki af miklu magni þess sem venjan er að kalla “vitsmuni” geti ekki orðið hamingjusamir – þótt vissulega geti þeir verið “ánægðir”.

Ef til vill mætti þá einnig spyrja hvort Mill hafi litið svo á að börn geti ekki verið hamingjusöm – þótt þau geti verið glöð og ánægð. Hér er vissara fara varlega og láta duga að spyrja að þessu en fullyrða ekkert. Þarna virðist þó vera á ferðinni óþægilega þröngur skilningur á hamingjuhugtakinu, og það tvímælalaust gert að skör sem er hærri en “ánægjan ein”.


Ævintýraborgin

Viðhorf, Morgunblaðið 26. september, 2006.

Það er nú vart í frásögur færandi að maður fari í vinnuna sína á morgnana. En ég ætla nú samt að færa það í frásögur.

Eins og venjulega tók ég lestina á Bræðraborgarstöð og hún bar mig sem leið liggur undir Vesturbæinn, Grjótaþorpið og inn á Aðalstrætisstöðina undir gamla Moggahúsinu. Síðan áfram undir Lækjartorg og Bankastræti og Laugaveginum endilöngum upp á Hlemm.

Svona hófst ferðin í vinnuna í huga mínum, en í bláköldum veruleikanum sat ég í bílnum mínum þessa venjulegu og þráðbeinu leið, Hringbraut, Miklabraut, Vesturlandsvegur. Ég man ekki hvar á þessari leið í þéttri bílaumferð það gerðist að ég datt út í draumóra um hvað það væri nú mikill munur ef maður gæti látið berast þessa leið í jarðlest í stað þess að fara hana akandi, einn í bílnum mínum.

Ég fór að hugsa um hvað það yrði frábrugðið ferðalag og einfaldara. Ég gæti verið viss um að lestin kæmi á stöðina mína vestur í bæ á réttum tíma, vegna þess að jarðlestir eru óháðar tiktúrum bílaumferðar. Þannig að ég gæti vitað upp á hár, eða þar um bil, hvenær ég þyrfti að leggja af stað niður á lestarstöðina.

Þegar lestin kæmi gæti ég sest inn og farið að lesa Moggann eða jafnvel bók, og gæti sökkt mér í hana – þyrfti aldrei að svo mikið sem líta upp – þessar fimmtán til tuttugu mínútur sem það tæki lestina að fara upp á Háls. Kannski þyrfti ég þá að grípa til þessara jafnfljótu, og það gæti orðið krefjandi í vondum veðrum. En það væri líka hægt að tengja strætóferð við hverja lestarkomu og þannig auðvelda ferðalagið.

Leiðin í vinnuna yrði þar með afslappandi og ég myndi mæta jafn, ef ekki betur úthvíldur og ég var þegar ég vaknaði. Ég dundaði mér líka við að búa til í huganum stóra og mikla skiptistöð undir Kringlunni, þar sem línurnar tvær í jarðlestarkerfinu mínu skárust. Af þessari skiptistöð var innangengt í Kringluna og jafnvel líka Hús verslunarinnar. Já, ég gleymdi að nefna áðan að frá stöðinni undir Lækjartorgi er auðvitað innangengt í fína tónlistarhúsið.

Þetta voru svo sannarlega skemmtilegar hugleiðingar, og ég er viss um að þær lyftu mér upp og gerðu mig að betri starfskrafti fyrir Árvakur þennan dag. Það var ekki fyrr en seinna að það rann upp fyrir mér að þessar hugleiðingar mínar um jarðlestarferðina í vinnuna voru í rauninni hreinræktuð fantasía. Það sem gerir þær að hreinu ævintýri er það hversu fjarri þær eru veruleikanum, og hversu fjarri því fer að þær verði nokkurntíma að veruleika.

Myndin sem ég dró upp í huga mér af Reykjavík með einfalt jarðlestarkerfi – til dæmis eina línu frá Granda og upp í Mosfellsbæ, og aðra línu úr Grafarvogi og suður í Hafnarfjörð – var mynd af ævintýraborg, miðað við þann áþreifanlega og blákalda veruleika sem við manni blasir og maður býr í og heitir Stór-Reykjavíkursvæðið.

Þegar þetta – hvað hugarflugið hafði í rauninni leitt mig út í mikla draumóra – hafði runnið upp fyrir mér var ég ekki lengur upplyftur heldur niðurlútur og fúll. Mun verri starfskraftur en um morguninn. Ég sá fram á það að þessi draumur minn yrði aldrei að veruleika. Þess í stað verð ég um ókomna tíð að eyða bestu kröftum dagsins – stundinni sem orðtækið segir að gefi gull í mund – í að keyra bílinn minn og passa mig á hinum bílunum, taka af stað og stoppa, gefa í og hægja á. Ekki að undra að í einhverri breskri könnun sem ég las um fyrir skömmu sagði að fólki þættu ökuferðir í og úr vinnu vera mest stressandi tímar dagsins.

Og það sem gerir þetta enn blóðugra er að ég hef kynnst því af eigin raun hvernig það er að geta upplifað þennan veruleika sem ég lét mig dreyma um þennan morgun á leið í vinnuna. Eins og svo ótalmargir aðrir sem núna eiga heima í Reykjavík átti ég einu sinni heima í útlöndum, í stórborg sem er með alvöru almenningssamgöngukerfi. Samt var þetta norður-amerísk borg sem á það sammerkt með Reykjavík að vera mikil bílaborg og gríðarlega víðfem miðað við íbúafjölda.

Ég bjó í úthverfi, en um tíma sótti ég skóla í miðborginni og fór þangað með jarðlestinni á hverjum morgni. Margfalt lengri leið en ég þarf núna að fara í vinnuna, en það rifjaðist einmitt upp fyrir mér þarna um morguninn þegar ég gleymdi mér í draumórunum, að samt var það mun þægilegra og afslappaðra ferðalag en ökuferðin er núna á morgnana. – Gott ef það var ekki einmitt þessi þanki sem sem kom draumórunum af stað.

Daginn eftir þessa draumóraferð mína í vinnuna las ég það svo í fréttum að formaður umhverfissviðs borgarinnar segði ljóst að aðalumferðaræðar borgarinnar séu fullmettar. Varla held ég að þetta hafi talist til marks um ótrúlega skarpskyggni mannsins eða verið sérstök skúbbfrétt. Svo fór maðurinn að tala eins og að Sundabraut myndi leysa vandann, þannig að ekki þyrfti í raun að velta þessu máli meira fyrir sér. Hvort tveggja er rangt hjá honum – Sundabraut mun ekki leysa vandann, og það þarf að velta þessu meira fyrir sér. Það hefur líka komið fram í fréttum nýlega að hér sé óhemju mikið af bílum miðað við hliðstæðar borgir í nágrannalöndunum.

Það þarf að fara að hugsa upp á nýtt um lausnir á þeirri martröð sem samgöngur í Reykjavík eru orðnar. Og það þarf að hætta að hugsa um að þétta byggðina. Þétting byggðarinnar gerir martröðina verri. Fyrst þarf að búa til neðanjarðarævintýraborgina sem ég var að lýsa hérna að ofan. Þegar hún er komin er hægt að þétta byggðina án þess að Reykjavík verði að hjarta- og æðasjúklingi.

Til að búa til alvöru borg þarf ekki fyrst og fremst að búa til gljáandi fjármálahverfi, eins og yfirvöld í Reykjavík virðast nú halda. Það sem mestu skiptir er samgöngukerfið. Núna þarf að hætta að hugsa um skammtímaumbætur á því. Sundabraut mun í mesta lagi leysa vandann til fáeinna ára. Það þarf einfaldlega að fara að hugsa um alveg nýja tegund af samgöngukerfi.

Við eigum ekki að láta okkur dreyma um það eitt að í Reykjavík rísi glæsilegt tónlistarhús og röð af glæsilegum háhýsum. Við eigum ekki að miða framtíðarhugmyndirnar við að koma okkur upp slíkum gljándi skrautgripum til að sýna gestum og monta okkur af. Þess í stað þurfum við hluti sem gera borgina betri fyrir okkur að búa í.

Eiginlega er alveg fáránlegt að manni skuli finnast það fantasíukennt að hugsa um Reykjavík með alvöru borgarsamgöngukerfi. En á meðan íbúunum finnst slík tilhugsun fantasíukennd og draumórar einir getur Reykjavík ekki talist alvöru borg. Glerhýsi á hafnarbakkanum, þar sem norðanáttin getur ausið sjónum yfir það látlaust og þakið það seltu og skít, mun ekki gera Reykjavík að alvöru borg.

Og þetta snýst ekki heldur um að fara að horfa til himins og fylla borgina af háhýsum. Ekki er langt síðan að bent var á að slíkt stangast á við veðurfræðilegar staðreyndir um borgina. Þar af leiðandi er slíkt beinlínis óskynsamlegt. Nei, það þarf þvert á móti að fara að horfa niður fyrir lappirnar á sér og auka jarðtenginguna – og hreinlega byggja niður í jörðina.


Spólað í hugarfarinu

Viðhorf, Morgunblaðið, 19. september, 2006.

Það er ekki líklegt að átakið sem hafið var í síðustu viku gegn umferðarslysum undir slagorðinu Nú segjum við stopp! muni skila miklum árangri. Því miður. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hitti svo sannarlega naglann á höfuðið þegar hann sagði að taka yrði á því ofbeldi sem mætti okkur í umferðinni næstum því daglega. Ofbeldi er rétta orðið.

Vegna þess að þeir sem með fífldirfsku og leikaraskap verða valdir að slysum beita annað fólk ofbeldi. Hert viðurlög við umferðarlagabrotum, aukinn sýnileiki lögreglunnar og jafnvel hækkun á bílprófsaldri hefur því ekkert með skerðingu á frelsi einstaklinga að gera heldur snýst eingöngu um að reyna að koma í veg fyrir að tillitsleysi og heimska fáeinna bitni á þeim sem hafa ekkert til saka unnið.

Þannig lúta slíkar hertar aðgerðir í rauninni að því að vernda frelsi einstaklinga fyrir þeim sem sökum ungæðisháttar, skapgerðarbresta eða af öðrum völdum eru ófærir um að taka tillit til annarra.

Ástæðan fyrir því að átakið gegn umferðarslysum er ekki líklegt til að skila árangri er sú, að það miðar að því að leysa vandann með hugarfarsbreytingu. En hugarfari verður ekki breytt með handafli. Vissulega getur hugarfar breyst, en það gerist í svo smáum skrefum og á svo ófyrirsjáanlegan hátt að það er fyrirfram vonlaust að ætla að leysa einhvern vanda með hugarfarsbreytingu.

Og ástæðan fyrir því að ekki er hægt að koma böndum á hugarfarið er sú, að það er að svo mikilvægu leyti óyrt. Hugarfar felur í sér grundvallarviðhorf og gildi samfélagsins, þau gildi sem móta breytni manns í þeim efnum sem talin eru mestu skipta, eins og til dæmis við uppeldi barna, setningu laga og mat á því hvað telst fréttnæmt í samfélaginu. Það er í þessum áþreifanlegu þáttum, en ekki orðum foreldra, þingmanna og fréttamanna, sem í ljós kemur hið eiginlega hugarfar.

Reyndar er ekki nóg með að raunverulega hugarfarið sé óyrt heldur verða orðin sem sögð eru í mörgum tilvikum beinlínis til að fela það. Þetta er ekki nein samsæriskenning. Ég er ekki að halda því fram að valdamenn segi vísvitandi annað en þeim raunverulega finnst. Ég á við að hugarfarið sé óyrt vegna þess að tungumálið dugi ekki til að nálgast það. Ef reynt er að nálgast hugarfarið með því að tala um það eru allar líkur á að maður festist í orðræðunni, líkt og á brautarteinum, og bruni eftir þeim fyrir fram mótaða leið. (Þess vegna finnst manni svo oft að maður hafi heyrt ótal sinnum áður það sem ráðamenn segja í hátíðarræðum).

Úr þessu verður einskonar tvöfeldni - annarsvegar það sem maður segir og hins vegar það sem manni finnst - og það má segja að hið eiginlega markmið alls skáldskapar og allrar heimspeki hafi frá upphafi verið að reyna að eyða þessari tvöfeldni. Reyna að koma orðum að því sem manni finnst. Það hefur einmitt verið þá sjaldan að slíkt hefur tekist að til hafa orðið mestu skáldskaparperlurnar og dýpsta heimspekin.

En hvort sem hún er góð eða slæm held ég að þessi tvöfeldni sé fyrst og fremst ein af staðreyndum lífsins. Þótt þeir sem setja lög á Íslandi noti oft orðabrautarteina á borð við "grípa til aðgerða", "forvarnir" og fleira í þeim dúr - að ógleymdri sjálfri "hugarfarsbreytingunni", sem er einhverjir mest notuðu orðabrautarteinar sem til eru á íslensku - verður að segjast eins og er að lítið sést af áþreifanlegum aðgerðum eða forvörnum. Yfirleitt eru þetta ekki annað en orð.

Og þótt fífldirfska, tillitsleysi, leikaraskapur og ókurteisi séu allt vel þekkt hnjóðsyrði sem notuð hafa verið í umræðu þjóðfélagsins um háttalag ökuníðinga verður að segjast eins og er, að hugarfarið í þjóðfélaginu virðist almennt vera á þá leið að þetta séu í rauninni eftirsóknarverðir eiginleikar og að án þeirra náist enginn árangur. Við spólum í því hugarfari að hinir tillitssömu komi ætíð síðastir í mark.

Daginn eftir að Morgunblaðið hafði eftir Umferðarstofu í baksíðufrétt að mannslífum væri fórnað fyrir fífldirfsku og leikaraskap í umferðinni birti blaðið lærða lofgrein um "harðasta naglann á Wall Street", sem komist hefði til mikilla metorða og peninga með því að vera allt annað en tillitssamur.

Um leið og almannarómurinn talar illa um þá sem valda skaða í umferðinni með hraða og tillitsleysi horfir hann með lotningu til þeirra sem með nákvæmlega sömu meðulum komast til valda og áhrifa í þjóðfélaginu. Það virðist beinlínis vera talinn eftirsóknarverður og raunhæfur möguleiki að verða hafinn yfir lög og rétt.

Ef til vil má halda því fram að tillitssemi og kurteisi séu jákvæðir eiginleikar hjá þeim sem ekur bíl, en dragbítar í stjórnmálum og viðskiptum. En það getur verið erfitt og tekið tíma að átta sig á því hvenær maður á að vera tillitssamur og hvenær ekki. Hætt er við að maður láti freistast til að grípa hvert það tækifæri sem gefst til að sýna að maður sé "harðasti naglinn", í þeirri von að ávinna sér aðdáun, virðingu og peninga.

Ef hin óyrtu skilaboð samfélagsins á einum vettvangi eru þau, að þeir tillitssömu verði aldrei frægir og ríkir er kannski ekki að undra að tillitssemi verði fátíð á fleiri sviðum.


Reglur og afleiðingar

Á Reykjavíkurflugvelli

Viðhorf, Morgunblaðið, 12. september, 2006

Þeir George W. Bush Bandaríkjaforseti og Alexander Downer, utanríkisráðherra Ástralíu, héldu því báðir fram í síðustu viku að leynifangelsi CIA og "sérstakar aðferðir" við yfirheyrslur á föngum hafi skilað verulegum árangri; beinlínis komið í veg fyrir hryðjuverk og þannig bjargað mannslífum.

Þetta vekur þá athyglisverðu og sígildu spurningu hvort það geti virkilega verið réttlætanlegt að beita fáeina einstaklinga - sem allt útlit er fyrir að hafi margt til saka unnið - "sérstökum aðferðum" (við vitum jú öll hvað átt er við með því, er það ekki?) til að koma í veg fyrir að margfalt fleira blásaklaust fólk - og líklega þar á meðal börn - deyi.

Þetta er siðferðileg spurning. Hvernig er hægt að leita svars við henni? Hver einasta manneskja með heilbrigða réttlætiskennd getur fundið svar í eigin brjósti, byggt á einlægri sannfæringu. Að vísu getur verið misjafnt hversu ákveðið fólk er í sinni sök, og eins víst að flestir myndu finna með sjálfum sér djúpstæða togstreitu. Franski heimspekingurinn Albert Camus mun einhvern tíma hafa verið spurður hvort hann myndi vera reiðubúinn að fórna réttlætinu til að bjarga lífi móður sinnar, og segir sagan að hann hafi svarað á þá leið að hann vonaði að hann myndi hafa hugrekki til að velja þann kostinn að bjarga lífi móður sinnar.

Þótt ólíklegt sé að ef og þegar á reynir sé fyrir hendi þolinmæði eða yfirleitt tími til að leita fræðilegra svara við þessari spurningu er hún engu að síður afar athyglisverð frá sjónarhóli siðfræðinnar - þeirrar fræðigreinar sem leitast við að svara almennt spurningunni um hvað manni sé leyfilegt að gera.

Það sem gerir spurninguna um beitingu "sérstakra aðferða" við yfirheyrslur sérstaklega áhugaverða fyrir siðfræðinga er að í henni lýstur svo augljóslega saman tveim af helstu tegundunum sem til eru af siðfræðikenningum, það er að segja reglusiðfræði og afleiðingasiðfræði.

Reglusiðfræðin kveður á um að rétt breytni ráðist af algildum reglum, eins og til dæmis boðorðunum tíu, og þannig er kristið siðferði gott dæmi um reglusiðferði. Afleiðingasiðfræði kveður aftur á móti á um að það sem sker úr um hvort breytni er góð eða vond sé það hvort hún hefur góðar eða slæmar afleiðingar fyrir sem flesta. Það er að segja hvort breytnin "hámarkar hamingju", eins og það myndi heita á viðskiptaíslensku.

Orð þeirra Bush og Downers í síðustu viku voru greinilega sprottin af einhverskonar afleiðingasiðferðishugsun. Þeir sem gagnrýnt hafa Bandaríkjamenn fyrir leynifangelsi og meintar "sérstakar aðferðir" við yfirheyrslur hafa aftur á móti ekki það ég man skírskotað til neinna meintra afleiðinga heldur yfirleitt til meintra brota á algildum grundvallarreglum, eins og til dæmis mannréttindum og Genfarsáttmálanum.

En má þá vænta þess að siðfræðingar geti skorið úr um hvort það eru á endanum prinsippmennirnir eða pragmatistarnir sem hafa á réttu að standa? (Væri vissulega gaman að heyra frá atvinnusiðfræðingum um þetta efni). Uns annað kemur á daginn verður að teljast afskaplega ólíklegt að siðfræðin geti skorið þarna úr. Sem fyrr kemur hún því að litlum notum þegar á reynir.

Vissulega getur siðfræðin dregið fram ýmis rök í málinu. Til dæmis má benda á, reglusiðferðinu til stuðnings, að það getur verið afskaplega torvelt að sjá fyrir afleiðingar allrar breytni, og segja má að ógerlegt sé með öllu að vera handviss um að tiltekin breytni muni í raun og veru hafa tilætlaðar, jákvæðar afleiðingar fyrir svo og svo marga. Aftur á móti má benda á að maður getur verið viss um að öll breytni hafi einhverjar afleiðingar, og því sé maður að skorast undan ábyrgð á eigin gjörðum ef maður reynir ekki að sjá afleiðingarnar fyrir.

Ennfremur má halda því fram, að þar sem afleiðingar verði í flestum tilfellum ekki séðar fyrir - og því ekki hægt að taka ákvörðun í ljósi þeirra - verði einfaldlega að hafa fyrirfram gefnar og algildar reglur til að fara eftir, því að annars sé alls ekki hægt að taka neina ákvörðun. Samkvæmt þessu leiðir eiginlegt afleiðingasiðferði (þar sem breytni er raunverulega byggð á fyrirfram séðum afleiðingum) til einskonar siðferðislömunar, því að það sé sjaldnast hægt að skera úr um réttmæti breytni.

En það má líka segja að sá sem breytir samkvæmt fyrirfram gefinni reglu, án þess að reyna að sjá fyrir afleiðingarnar, virðist loka augunum fyrir hinum áþreifanlega veruleika og leita skjóls í einhverskonar hugsjón, og sé jafnvel tilbúinn til að fórna lífi saklauss fólks til að ekki falli blettur á hugsjónina.

En ef við nú höfum engar grundvallarreglur, er þá ekki hætta á að við missum tökin og leiðumst út í hina hroðalegustu breytni? Er vogandi að setja siðferðið í hendur mannanna? Verður það ekki að vera með einhverjum hætti mönnunum "æðra", það er að segja, komið frá Guði eða hreinni skynsemi?

Ég held satt að segja að lengra komist siðfræðin ekki með svar við spurningunni sem spurt var hér í upphafi. En það má þó kannski segja að siðfræðina megi nota til að henda að einhverju leyti reiður á þeim grundvallarsiðferðisgildum sem lendir saman þegar svör eru gefin við spurningunni.


Bloggfrí

c_documents_and_settings_austur_desktop_brandur1.jpg

Blogg geta verið til margs nytsamleg. Þau geta meira að segja orðið manni efni í uppgötvanir um sjálfan sig. Þannig hefur þessi atlaga mín að því að halda úti bloggsíðu orðið til þess að ég gerði mér grein fyrir að ég hef greinilega ekki nærri því eins mikla tjáningarþörf og ég hélt mig hafa. Um daginn breyttist þessi bloggsíða sumsé í geymslustað fyrir Viðhorf og önnur skrif mín á síður Morgunblaðsins. Og það er ágætt.

En þar sem ég er nú að fara í langt sumarfrí - alveg fram í september - mun engin hreyfing verða á blogginu næstu tvo mánuði. Bloggfrí.


Öld broddgaltarins

image029.jpg

Viðhorf, Morgunblaðið, 26. júní 2006 

Sir Isaiah Berlin skrifaði einu sinni heillandi ritgerð um Tolstoj. Hún heitir Broddgölturinn og refurinn (The Hedgehog and the Fox) og er meira grípandi en saga eftir Grisham, meira upplýsandi en margra tíma sveim um netið, skiljanlegri en fréttir dagsins og betur skrifuð en nokkur skáldsaga.

Byrjunin á þessari ritgerð er fyrir löngu orðin fræg, og það hefur svo oft verið vitnað í hana að varla er á bætandi. En það var þetta með góða vísu sem aldrei verður of oft kveðin...

Berlin byrjar ritgerðina sem sé á því að vitna í brot út kvæði eftir forngrískt skáld sem hét Arkilokus: "Refurinn veit margt, en broddgölturinn veit aðeins einn stóran sannleika." Þessa tilvitnun túlkar Berlin síðan á þann hátt að í grófum dráttum megi skipta fólki í tvo hópa, refi og broddgelti. Að settum hefðbundnum fyrirvörum um merkingareyðandi einfaldanir heldur Berlin því fram að þessi skipting geti að ýmsu leyti verið hjálpleg og upplýsandi. Og hún er það enn. (Í það minnsta er hún mjög skemmtileg.)

Túlkun Berlins er á þá leið að refir og broddgeltir upplifi veröldina og lifi lífinu með gerólíkum hætti. Líf broddgaltarins snýst allt um eitt meginatriði; allt sem hann upplifir skilur hann og túlkar útfrá þessum eina pól sem hann getur ekki hvikað frá vegna þess að hann sér engan annan. Fyrir broddgöltinn er lífið því tiltölulega einfalt.

Líf refsins er aftur á móti markað af fjölmörgum sjónarhólum sem hann getur skotist á milli, og hann getur skilið upplifanir sínar frá hverjum þeirra sem er. Hann gerir sér fullkomna grein fyrir því að veröldin er margbrotin og flókin smíð sem ekki er hægt að fella í eitt meginkerfi.

Það er enginn dómur fólginn í þessari skiptingu; hvorki að broddgölturinn sé þröngsýnn né að refurinn sé vingull. Berlin heldur því fram í ritgerðinni að Tolstoj hafi í rauninni verið líkari refnum en broddgeltinum, en um leið hafi hann trúað því að líf broddgaltarins væri betra og sannara en líf refsins, og reynt eftir mætti að breytast í broddgölt.

En skyldi líf broddgaltarins í raun vera eftirsóknarverðara en líf refsins? Ætli svarið við því ráðist ekki af ytri aðstæðum á hverjum tíma. Við sumar aðstæður er lífsafstaða refsins vænlegri til afkomu, en broddgaltarins við aðrar. Og svo maður reynir nú jafnvel að vera praktískur mætti halda því fram að refurinn henti vel í sum störf, en broddgölturinn í önnur.

Því hefur þannig verið haldið fram, að ætli maður sér að ná árangri í viðskiptum verði maður að finna broddgöltinn í sjálfum sér. Með öðrum orðum, maður þarf að vera stefnufastur. Í stjórnunarfræðum mun meira að segja vera til svokölluð "broddgaltarhugmynd", það er að segja, útgangspunkturinn sem allt annað miðast við og veltur á. Stóri kosturinn við lífssýn broddgaltarins er sá, að hann getur gert veröld sem við fyrstu sýn er óheyrilega flókin alveg nauðaeinfalda. Það verður því alveg kýrskýrt hvað þarf að gera, og hvað skiptir minna máli.

Í ljósi þess hvernig ytri aðstæður eru núna - þeirrar ofuráherslu og miklu athygli sem kaupsýsla hverskonar nýtur núna - er líklega alveg óhætt að segja að nú sé öld broddgaltarins. Það er að segja, um þessar mundir er betra að vera broddgöltur en refur.

En það ræðst ekki af eiginlegum yfirburðum broddgaltarins, heldur miklu fremur af því að aldarfarið er hallkvæmt broddgeltinum, hefur hann til vegs og virðingar, telur hann stefnufastan fremur en þröngsýnan, ákveðinn fremur en einstrengingslegan. Í þessu sama aldarfari er refurinn vingull fremur en víðsýnn, reikull fremur en eftirtektarsamur.

Það er ekki langt síðan refnum var hampað eins og broddgeltinum nú. Þarf ekki að fara aftur nema tvær þrjár kynslóðir - hippatíminn var gullöld refsins; í því aldarfari var broddgölturinn afturhaldssamur, þröngsýnn og fanatískur.

En núna sitja refirnir hoknir á básum sínum (sem broddgeltirnir hafa gefið það virðulega heiti "vinnustöðvar"), helteknir upplýsingafíkn og sanka að sér hinum aðskiljanlegustu vitneskjubútum sem þeim gengur þó illa að fella saman í einhverja heild. Því er alveg undir hælinn lagt hvort refurinn getur með einhverjum hætti hagnýtt sér allar upplýsingarnar sem hann sankar að sér. Líklegra er að hann verði bara ringlaður. Það hefur áreiðanlega verið refur sem bjó til hugtakið "upplýsingamettun".

Kenning Berlins um Tolstoj getur verið refum nútímans bæði huggun og holl lesning. Þar að auki bendir ýmislegt til þess að farið sé að síga á seinni hluta gullaldar kaupsýslubroddgaltanna. Eina raunhæfa leiðin til að afstýra svokölluðum menningarárekstrum - sem verða sífellt harkalegri og færast sífellt nær - er að byggja upp fjölmenningarsamfélög, og við slíkar ytri aðstæður er líklegt að það sem núna lítur út fyrir að vera vingulsháttur refsins geti blómstrað sem umburðarlyndi.

Sjálfur var Berlin refur. Hver nema sannur refur gæti séð lífið frá tveim svona gerólíkum sjónarhólum? Og hann blómstraði í lífsafstöðu refsins, en kannski var það vegna þess að þá var jarðvegurinn frjór. Það er ekki að vita hvað yrði um hann núna.


Snákar í jakkafötum

c_documents_and_settings_ibm_desktop_image006.jpg

Viðhorf, Morgunblaðið, 7. júní 2006.

Um hvað nákvæmlega voru þeir Jeff Skilling og Ken Lay, fyrrverandi stjórnendur Enron, fundnir sekir núna um daginn? Það hét vissulega að kviðdómurinn í Houston kæmist að þeirri niðurstöðu að þeir væru sekir um ýmis lögbrot - skjalafals, yfirhylmingu, ósannsögli og ýmislegt fleira sem lög kveða á um að sé bannað.

En maður þurfti ekki að fylgjast lengi með fréttum af gangi réttarhaldanna, frásögnum af yfirheyrslum og gagnyfirheyrslum, og einkum málflutningi saksóknara, til að komast að því að það sem þeir Skilling og Lay voru eiginlega ákærðir fyrir - og fundnir sekir um - var siðblinda. En það varð að heita eitthvað annað því að strangt til tekið er siðblinda ekki lögbrot, hún er persónuleikabrestur.

Í tilefni af dómnum yfir Skilling og Lay hafa fjölmiðlar vestanhafs fjallað dálítið um nýútkomna bók sem heitir því skemmtilega nafni Snákar í jakkafötum - siðblindingjar hefja störf (Snakes in Suits: Psychopaths Go To Work), og er eftir þá Robert Hare, fyrrverandi sálfræðiprófessor við Háskólann í British Colombia í Kanada, og Paul Babiak, iðnaðar- og fyrirtækjasálfræðing í New York, en hann rannsakar siðblindu innan fyrirtækja. Hér er stuðst við umfjöllun The Globe and Mail í Kanada um bókina.

Hare er einn helsti sérfræðingurinn í heiminum í rannsóknum á siðblindu, og er höfundur fræðilegrar skilgreiningar á siðblindu sem víða er stuðst við. Fyrir um aldarfjórðungi bjó hann svo til greiningartæki, svonefndan siðblindugátlista, sem nota má til að verjast siðleysingjunum.

Siðblinda er ekki geðveiki. Hún er, eins og fram hefur komið, persónuleikabrestur. Grundvallareinkenni hennar eru algjört samviskuleysi og fullkominn skortur á hluttekningu og samúð. Siðblindingjar eru gráðugir, sjálfselskir, svikulir, óáreiðanlegir og gjarnir á að fá óhamin reiðiköst. Þeir eru rándýrin í mannfélaginu. En við fyrstu kynni eru þeir algjörlega heillandi, skilningsríkir og sjálfsöryggið skín af þeim.

Þeir Hare og Babiak telja að á undanförnum tveim áratugum hafi orðið gríðarlega hraðar breytingar á vettvangi stórfyrirtækja í Ameríku, ekki síst vegna netfyrirtækjabólunnar sem sprakk. Hún hafi meðal annars valdið því að gömul og gróin stórfyrirtæki hafi skroppið saman og/eða runnið saman við önnur. Samkeppnin hafi líka harðnað ofboðslega. Þetta hafi, án þess að það hafi beinlínis verið ætlunin, búið í haginn fyrir fólk haldið siðblindu.

Hare gengur svo langt að fullyrða að nú sé svo komið að það sé eiginlega vænlegra til frama innan stórfyrirtækja að tileinka sér viðhorf siðblindingjanna. Þetta sé ekki síst vegna þess að í samfélaginu almennt aukist nú áherslan á yfirborð og stíl á kostnað áherslu á innihald og grunnatriði. Slíkt geri þeim siðblindu auðveldara um vik að athafna sig án þess að komast í kast við lögin.

Ekki svo að skilja að allir sem komast til metorða innan stórfyrirtækja séu fyrirlitlegir siðleysingjar. Fyrr mætti nú vera. Metorðin segja ekkert um siðgæði fólks, það eru aðferðirnar sem það beitir, og þá fyrst og fremst viðhorf þeirra til samstarfsmanna sinna, sem skera þar úr. Hare segir að líklega sé erfðagalla um að kenna - en vissulega hafi félagslegt umhverfi áhrif - að siðblint fólk finnur ekki tilfinningar á borð við depurð, ótta, sektarkennd og iðrun, þótt það hafi fullkomlega vitsmunalegan skilning á þessum tilfinningum.

En siðblindingjarnir upplifa aldrei tilfinningarnar sjálfar og geta þar af leiðandi ekki haft eiginlegan skilning á því hvernig öðru fólki - sem hefur þessar tilfinningar - raunverulega líður. Og þar af leiðandi geta siðblindingjarnir ekki sett sig í spor þessa fólks. Það mætti líkja þessu við að maður myndi lesa og læra allt sem hægt er að læra um tannpínu, en maður myndi samt ekki í raun og veru skilja þjáningu þess sem haldinn er tannpínu ef maður hefði aldrei fengið hana sjálfur.

Hare telur að í Norður-Ameríku sé um það bil eitt prósent íbúanna siðblint. Þótt siðblint fólk sé í sumum tilfellum vissulega fært um að fremja morð sé það í flestum tilvikum greint og vel upp alið og "nýti" því þennan eiginleika sinn fremur til að öðlast völd, virðingu og peninga. Siðblindingjar séu því í fæstum tilvikum beinlínis hættulegir.

Nú verður auðvitað ekkert um það fullyrt að Skilling og Lay séu siðblindir. Vera má að þeir séu bara "venjulegir Machiavellianar". En hvenær á maður að fara að hafa áhyggjur af því að ekki sé allt með felldu og að maður sem lítur út fyrir að vera traustur og öflugur starfsmaður sé í rauninni siðlaust rándýr?

Hare og Babiak hafa sett saman nýjan lista, svonefnt "Business Scan 360", sem er ætlaður fyrir fyrirtækjastjórnendur sem vilja finna siðblindingjana sem kunna að leynast innan um heiðarlega starfsmenn. Meðal tíu "hættumerkja" sem geta gefið vísbendingu um að siðblindingi sé á ferðinni eru, þótt það kunni að hljóma undarlega, að viðkomandi starfsmaður virðist yfirvegaður, hefur fágaða framkomu og heillandi persónuleika. Flestar samræður hans snúast um hann sjálfan; hann gerir lítið úr öðrum til að bæta eigin ímynd og orðspor; hann lítur svo á að fólk sem hann hefur kveðið í kútinn eða ráðskast með sé heimskt og hann er tækifærissinni, miskunnarlaus og þolir ekki að tapa.

Hættumerkin eru fleiri, en öflugasta vopn þess siðblinda er einstakur hæfileiki hans til að villa á sér heimildir - til að koma sér í mjúkinn hjá fórnarlambinu áður en hann lætur til skarar skríða.


Í leit að keppikefli

Viðhorf, Morgunblaðið, 23. maí 2006.

Ef eitthvað hefur umfram annað einkennt baráttuna fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík nú í lok mánaðarins er það hversu hljótt hún hefur farið. Ef til vill er það bara þessi Viðhorfaskrifari sem hefur svona takmarkaðan áhuga á pólitík, en þá ber að nefna að hann er ekki sá eini sem nefnir þetta. Skrifari Staksteina í Morgunblaðinu hefur ítrekað kvartað undan þessu og beðið frambjóðendur vinsamlegast að fara nú í smá "fæting", þó ekki væri til annars en að kjósendur gleymi kosningunum ekki.

Hvað veldur þessari hljóðlátu baráttu?

Það segir sína sögu að ef eitthvað ætlar að verða að hitamáli þá er það framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni. En um leið vita allir sem hlut eiga að máli að þar er ekki um raunverulegt kosningamál að ræða þar sem það er í rauninni ekki á könnu borgarstjórnarinnar að taka ákvörðun um flugvöllinn. Og hefur ekki samgönguráðherra bent mönnum vinsamlegast á að það liggi þegar fyrir að völlurinn verði á sínum stað næstu tíu árin?

Ef til vill skiptir líka máli að menn eru raunsæir og þykjast vita að úrslit kosninganna í Reykjavík hafi í raun og veru ráðist þegar R-listinn datt í sundur. Með öðrum orðum, kosningarnar eru bara formsatriði, svo tekur Sjálfstæðisflokkurinn við völdum. Eina spurningin er hvort Björn Ingi eða Ólafur F. þarf að ganga í lið með sjálfstæðismönnum, en það þykir vitað að þeir báðir verða fáanlegir til þess. Þetta eru því eiginlega ekki alvöru kosningar sem framundan eru og þess vegna varla nema von að menn nenni ekki að tala sig heita. Hvers vegna að hækka blóðþrýstinginn að óþörfu? Nóg er nú samt.

Útslagið í þessu öllu saman gerir svo sjálft eðli stjórnmálabaráttu eins og hún er í fjölmiðlasamfélagi. Hún er að miklu leyti sýndarveruleiki. Maður les það stundum í skáldsögum og sér í dramatískum sjónvarpsþáttum að í stjórnmálum sé "sýndin veruleiki". Ef þetta er rétt þýðir það að ef engin er sýndin þá er enginn veruleiki. Þess vegna verða menn að geta sýnt sig, sperrt á sér stélið, og forsenda þess er að hægt sé að hafa eiginlegar kappræður. Alvöru samræður hafa tilhneigingu til að gera þá sem þátt í þeim taka alveg ósýnilega og þess vegna geta samræður hæglega orðið banamein kröftuglegrar kosningabaráttu.

Nú verður ef til vill einhver til þess að saka Viðhorfsskrifara um hártoganir og segja að það sé enginn grundvallarmunur á samræðum og kappræðum. En það er ekki rétt. Á þessu tvennu er einmitt grundvallarmunur. Markmiðið er til dæmis gerólíkt. Markmiðið með samræðu er að komast að samkomulagi, en markmiðið með kappræðum er fullnaðarsigur annars keppandans. Í samræðu leitast maður jafnmikið við að tryggja hag viðmælanda síns og sinn eigin hag, en í kappræðu leitast maður fyrst og fremst við að koma höggi á viðmælandann, slá hann út. Í kappræðu gildir eigingirnin, í samræðu samkenndin.

Munurinn á samræðu og kappræðu er líka fólginn í afstöðu þátttakendanna sjálfra til umræðunnar. Það sem úrslitum ræður er að þegar maður tekur þátt í samræðu verður maður að gera ráð fyrir að viðmælandi manns kunni að hafa rétt fyrir sér og maður sjálfur rangt. En þetta má maður alls ekki gera í kappræðu. Þvert á móti verður maður í kappræðu að vera fullkomlega sannfærður um að viðmælandinn hafi á röngu að standa - alveg burtséð frá því hvað hann hefur að segja.

Kappræðan er því tvíburasystir sýndarmennskunnar og náskyld tilgerð og yfirborðsmennsku. Kappræðan stendur þannig raunverulegum samskiptum fyrir þrifum og þeir sem kunna ekki annað en kappræðu geta aldrei átt samræðu við neinn, aldrei orðið sammála neinum um neitt. Þátttakandi í kappræðu hugsar fyrst og fremst um að sýna sjálfan sig, en síður um að sjá aðra. Þátttakandi í samræðu bæði sýnir sjálfan sig og sér viðmælanda sinn. (En umfram allt: Í samræðu verður maður að gera ráð fyrir að viðmælandinn kunni að hafa rétt fyrir sér).

Vegna þess hve stjórnmálabarátta er að miklu leyti orðin að sýndarveruleika er hún fyrst og fremst af kappræðukyni, þar sem þátttakendur leggja megináherslu á að sjást (og skyggja helst á andstæðinginn um leið) með því að halda glæstar (og jafnvel lærðar) einræður. Það má því segja að "samræðustjórnmál" séu eiginlega þversögn, svona eins og "kvæntur piparsveinn".

Nú má lesandinn ekki halda að ég sé að segja að kappræður séu í sjálfu sér eitthvað slæmar. Alls ekki. Þær, líkt og sýndar- og yfirborðsmennska, eiga í mörgum tilvikum við, og eru oft mjög skemmtilegar. Samræður, eins og þær voru skilgreindar hér að ofan, geta aftur á móti orðið þungar í vöfum og jafnvel teprulegar. Þær krefjast svo mikillar tillitssemi að kröftugir leiðtogar (til dæmis stjórnmálaleiðtogar) geta lent í hinu mesta basli með þær. Slíkum leiðtogum lætur betur að láta gamminn geisa í kappræðum.

Ég er því alls ekki að halda því fram að þar sem stjórnmálabarátta sé fremur af kappræðukyni en samræðu séu hún eitthvað ómerkileg og að almennilegt fólk eigi að forðast hana. Fyrr mætti nú vera. Ég á aðeins við að kosningabaráttan í Reykjavík hefur verið daufleg vegna þess að það virðist vanta raunverulegt keppikefli.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband