Kosningaflugvöllur

Það er útaffyrir sig góð hugmynd hjá Birni Inga að flytja Reykjavíkurflugvöll út á Löngusker - og verður áreiðanlega hægt að semja við Seltirninga um afnot af skerjunum - en samt verður nú að segjast eins og er að það er eitthvað brogað við að flugvöllurinn skuli vera svona mikið í umræðunni fyrir borgarstjórnarkosningarnar þar sem hann heyrir ekki undir borgarstjórn heldur samgönguráðuneyti.

Ég skrifaði Viðhorf um þetta fyrir allnokkru síðan og kópípeista það hérna fyrir neðan. Kannski er þetta til marks um að kosningarnar snúist í raun um lítið annað en ókeypis leikskóla sem allir flokkarnir eru í raun sammála um en deila bara um aðferðina við það. Líklega rétt hjá höfundi Staksteina í Mogga að kosningabaráttan sé fádæma daufleg.

Jæja, hérna er Viðhorfið um flugvallarmálið, það hét "Umræðuflugvöllur", og birtist í Morgunblaðinu um miðjan september í fyrra:

Umræðan um framtíð Vatnsmýrarinnar og þar með Reykjavíkurflugvallar er farin á loft rétt eina ferðina en með harla undarlegum formerkjum, svo ekki sé meira sagt. Flokkarnir sem sjá fram á að berjast um hituna í borgarstjórnarkosningum, Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin, hafa gert flugvallarmálið að einu helsta bitbeini kosningabaráttunnar þótt flugvöllurinn heyri alls ekki undir borgarstjórn heldur samgönguráðuneytið. (Og Sturla hefur staðið sig með mikilli prýði í málinu.) Það er vægast sagt undarleg barátta í uppsiglingu þarna. Menn keppast um að taka sem einarðasta og flottasta afstöðu til hluta sem þeir ráða í rauninni engu um. Kannski eru þarna komin umræðustjórnmálin frægu - hreinræktuð umræða, tært rifrildi, alveg án tengsla við nokkurn áþreifanlegan veruleika. Ekkert nema orðasennur. Baráttan fyrir þessar kosningar verður orðræðubarátta. Að vissu leyti er flugvallarmálið hið fullkomna mál fyrir orðræðubaráttu. Borgarstjórnarflokkarnir geta óhræddir látið vaða hvaða fullyrðingu sem er, því að undir niðri er vitað að þeir bera enga ábyrgð á flugvellinum og þar af leiðandi er gulltryggt að þeir þurfa aldrei að standa við nokkurn skapaðan hlut af því sem þeir segja. Enda hafa menn ekki dregið af sér. Nýjasta snilldin er tillaga vinstrimanna um að efna til hugmyndasamkeppni um skipulag Vatnsmýrarinnar miðað við að flugvöllurinn hverfi þaðan. (Þegar Steinunn Valdís var spurð hvað ef flugvöllurinn fer ekki, fór hún undan í flæmingi.) Og ekki nóg með það. Það á að fá heimsfrægan arkitekt til að taka þátt. Gott ef Hollendingurinn Rem Koolhas var ekki nefndur í því sambandi. Að vísu alveg óljóst með hvaða hætti Koolhas skyldi "koma að málinu" og fróðlegt væri að vita hvort hann veit sjálfur að hugmyndin er að stimpla Vatnsmýrarskipulag með nafninu hans. Það virðist því sem borgarstjórn sé tilbúin að eyða stórfé í að fá heimsfrægt nafn bendlað við skipulag sem borgarstjórn hefur aftur á móti ekki sjálf vald til að framfylgja. Þarna er því enn á ferðinni hrein umræða, án beinna tengsla við áþreifanlegan veruleika. Verst hvað þetta ætlar að verða dýr umræða, dýrt nafn. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa hingað til ekki sagt margt um flugvallarmálið, og maður hafði haldið að það væri einfaldlega vegna þess að þeir væru að því leyti raunsærri en Samfylkingarfulltrúarnir að þeir gerðu sér grein fyrir því hvernig málið er í rauninni vaxið. En nú hefur brugðið svo við að uppúr foringja sjálfstæðismanna skreppa stórar fullyrðingar um að flugvöllurinn skuli burt. Þetta er í fyrstu illskiljanlegt upphlaup, þangað til það rennur upp fyrir manni að Vilhjálmur er greinilega búinn að fatta eðli flugvallarumræðunnar - að hún er hrein orðræða og honum er óhætt að segja hvað sem er. Staksteinaskrifari Morgunblaðsins lét svo til sín taka í þessari orðræðu um daginn og fullyrti að sjálfstæðismenn hefðu nú "tekið forustuna" í flugvallarmálinu. Það er erfitt að koma auga á í hverju þessi meinta "forusta" sjálfstæðismanna getur verið fólgin. Nema þá ef væri því að hafa tekið hvað afdráttarlausasta afstöðu, notað hástemmdustu og gildishlöðnustu orðin. En verður Staksteinahöfundur þá ekki að viðurkenna að með því að nefna nafnið á heimsfrægum arkitekt hafi Samfylkingarmenn átt ansi sterkan leik? Gott ef ekki tekið forustuna aftur. Sjálfstæðismenn eiga því varla annars úrkosti en reyna að nefna arkitekt sem er frægari en Koolhas. Ég sting upp á Kanadamanninum Frank Gehry, sem teiknaði Guggenheim-safnið í Bilbao og er að segja má í kjölfarið frægasti arkitekt í heimi einmitt núna. Í þessu orðakapphlaupi, sem hafið er milli Sjálfstæðisflokks og vinstrimanna í borginni, virðist ýmislegt ætla að fara fyrir ofan garð og neðan. Engum virðist þykja merkilegt að í Vatnsmýrinni er ekki bara mannlíf heldur líka dýralíf, og þá kannski ekki síst fuglalíf. Hafa kríurnar verið spurðar? Svona alveg án gamans, hefur eitthvað verið spáð í það hvaða áhrif þétt íbúðabyggð í Vatnsmýrinni muni hafa á kríubyggðina í Tjörninni? (Athyglisverðan og fágætan vinkil á Vatnsmýrarmálið mátti sjá í grein Sigríðar Ásgeirsdóttur, formanns Dýraverndunarsambands Íslands, á bls. 36 í Morgunblaðinu á sunnudaginn). Og það virðist líka ætla að gleymast alveg í flugvallarorðræðunni í kosningabaráttunni í borginni að þessi blessaði flugvöllur er fjarri því að vera eitthvert einkamál Reykvíkinga. Mætti jafnvel ganga svo langt að segja að hann komi þeim mun minna við en öðrum landsmönnum. Reykvíkingar þurfa ekki á flugvellinum að halda til að komast á fullkomnasta sjúkrahús landsins í hvelli ef mikið liggur við. Reykvíkingar þurfa ekki á flugvellinum að halda til að eiga greiða leið að höfuðborginni. Það verður að segjast eins og er, að utan af landi séð lítur flugvallarumræðan í Reykjavík hálfhjákátlega út. Það er erfitt að koma auga á um hvað fólkið er eiginlega að tala. Að minnsta kosti verður ekki séð að umræðan snúist um neitt áþreifanlegt. Það er í mesta lagi deilt um hvernig pótemkíntjöldin, sem kjósendum eru sýnd, skuli líta út.

 


Um réttlæti og málagjöld

Umsögn um bókina Justice and Desert-Based Emotions, eftir Kristján Kristjánsson. Ashgate, London, 2006. 230 bls. (Morgunblaðið, 9. maí).

SVONEFNDUR "naturalismi" í heimspeki (ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvort hyggilegra væri að nefna hann náttúruhyggju eða eðlishyggju á íslensku) kveður í grófum dráttum á um að heimspekin geti leitað í smiðju annarra fræða og vísinda eftir aðferðum og tækni til þekkingarleitar. Reyndar er naturalisminn ekki strangt skilgreindur, en þó má segja að helsti kjarninn í honum sé að ekki er lengur litið svo á að sérstök heimspekileg aðferð veiti öruggari þekkingu en aðferðir annarra fræða og vísinda. Lögð er áhersla á að tekið sé tillit til greinanlegra staðreynda og raunverulega aðferða, til dæmis vísindanna. Um leið var slakað á kröfunni um gagnrýna afstöðu. Því má segja að með naturalismanum hafi heimspekin verið leidd af þeirri braut að segja fyrir um hvernig hlutirnir skuli vera og notuð til greiningar á því hvernig málum er í raun háttað.

Sú spurning sem Kristján Kristjánsson tekst á við í þessari bók er hvort réttlæti tengist með einhverjum hætti tilfinningum fólks. Þess vegna leitar hann liðsinnis í sálfræði, félagsfræði og kennslufræði til að grafast fyrir um hverjar tilfinningar fólks gagnvart réttlæti raunverulega eru, en fæst ekki einungis við skilgreiningu hugtaksins með því sem kalla mætti heimspekilegum hætti. Kristján segir að innan heimspekinnar hafi að undanförnu orðið meginbreyting á hugmyndum og skrifum um réttlætishugtakið. Horfið hafi verið að nokkru leyti frá þeirri hefðbundnu nálgun að líta á réttlæti fyrst og fremst sem eiginleika opinberra stofnana, eins og John Rawls hafi til dæmis gert í einu frægasta heimspekiriti 20. aldar, Kenningu um réttlæti (A Theory of Justice), 1971, og að spurningin um réttlæti sé þá fyrst og fremst spurningin um það hvort og þá hvernig sameignlegum gæðum sé skipt.

Þess í stað séu heimspekingar farnir að hugsa um réttlæti sem eiginleika fólks. Spurningin er því sú, hvernig raunverulegt fólk hugsi raunverulega um réttlæti. Hvað finnst fólki að átt sé við þegar talað er um réttlæti? Væri Kristján hér á hefðbundnum rökgreiningarheimspekislóðum myndi hann væntanlega snúa sér að því að smíða rökþétta skilgreiningu á réttlætinu sem væri alsendis óháð því hvernig fólk í raun og veru hugsar um réttlæti, en þar sem Kristján hefur hér gerst merkisberi ofnagreinds naturalisma vill hann fremur að leitað verði á slóðir sál- og félagsfræði til að komast að því hverjar hugmyndir fólk í raun og veru hefur um réttlæti og að heimspekinni verði síðan beitt sem greiningartæki á þær, kannski ekki ósvipað því hvernig líffræðingar beita vísindagrein sinni sem tæki til greiningar á gögnum sem safnað hefur verið úti í náttúrunni.

Ef til vill má því segja að með þessum naturalisma, sem líklega verður talinn meginþráðurinn í heimspeki síðari hluta 20. aldar (og nafn Ludwigs Wittgensteins þar helsta kennileitið), hafi heimspekin reynt að komast niður á jörðina. Heimspekingar eru teknir til við að fjalla um raunverulegar hugmyndir, það er að segja, hugmyndir sem fólk í raun og veru hefur, í stað þess að einbeita sér kannski frekar að mögulegum hugmyndum og þá jafnvel harkalegri gagnrýni á þessar raunverulegu hugmyndir fólks vegna meintra röklegra mótsagna í þeim. Heimspekingarnir hafa því leitað til félagsvísindanna eftir aðstoð við að komast að því hverjar þessar raunverulegu hugmyndir fólks eiginlega eru. Helsti áhrifavaldurinn í þessari þróun heimspekinnar eru auðvitað raunvísindin.

Kristján segir það vera eitt helsta markmið sitt með bókinni að "færa rök fyrir nauðsyn á samvinnu heimspekinga og félagsvísindamanna í umfjöllun um réttlæti" (bls. 6), auk þess að "kanna hlutverk málagjalda í réttlætinu" og "útskýra aukinn áhuga" heimspekinga á tilfinningaþætti réttlætishugtaksins. Ennfremur segist Kristján leitast við að kanna þær tilfinningar sem helst eiga rætur í hugmyndinni um málagjöld og draga fram tengsl umfjöllunar sinnar við nýlega þróun mála í þróunar- og félagssálfræði. Þá vill hann réttlæta málagjöld með siðferðislegum hætti, og þær tilfinningar sem eiga rætur að rekja til hugmyndarinnar um málagjöld. Að lokum segist Kristján svo veita ráð um hvernig fjalla skuli um réttlæti og málagjöld í siðferðiskennslu í skólum. (Þetta síðastnefnda atriði varðar svo í rauninni spurningu sem er í sjálfri sér mjög athyglisverð, og Kristján fjallar um í lokakafla bókarinnar. Það er að segja, hvort kenna eigi í skólum hvað sé dyggð og hvað ekki, eða hvort láta eigi duga að kenna nemendum aðferðir við að leggja sjálfir mat á slíkt. Kristján segir að það hafi sýnt sig að það sé ekki nóg að ætla einungis að kenna aðferðir).

Ég hef ekki forsendur til að taka afstöðu til þess hvort Kristján nær þessum yfirlýstu markmiðum sínum í bókinni. Að allri uppbyggingu er þetta mjög hefðbundin rökgreiningarheimspekibók, og það gerir hana þægilega og aðgengilega fyrir lesendur sem eiga slíkri uppbyggingu að venjast. Enda eru þeir væntanlega meginmarkhópur bókarinnar; aðrir heimspekingar sem taka þátt í þeirri umræðu sem bókin er framlag til. Markhópurinn veit upp á hár að hverju hann gengur. Aftur á móti virkar þessi stranga formbinding kannski fráhrindandi fyrir "almennan" lesanda og dregur þannig úr möguleikum hans á að átta sig á þeim hugmyndum sem settar eru fram í bókinni. Honum kann að finnast hún ruglingsleg og dálítið þraskennd. En þannig er nú einu sinni lífið í akademíunni, utanaðkomandi sýnist gjarnan að það sé tómt þras. Ég get ekki heldur lagt á það mat hvort bókin hefur fram að færa eitthvað nýtt í þeirri umræðu sem hún er framlag til, en sú staðreynd að hún er gefin út af akademísku forlagi bendir til að svo muni vera.

En það væri vissulega fróðlegt að vita hvað félagsvísindamönnunum sem Kristján biðlar til finnst um bókina; hvort þeim finnst hún skiljanleg og hvort þeim sýnist að hún gæti nýst með þeim hætti sem höfundur segir henni ætlað að gera, auk þess að vera framlag til tiltekinnar umræðu innan akademískrar heimspeki. En Kristján ætlar bókinni líka enn eitt hlutverkið, og það er líklega fremur óvenjulegt fyrir bók af þessu tagi. Hann leggur hana fram eins og sáttahönd; sem framlag til friðarferlis með aðild heimspekinga og félagsvísindamanna, sem Kristján segir að hafi löngum eldað grátt silfur saman. Það má segja að Kristján sé að sumu leyti að grafa stríðsöxina sjálfur, en ekki aðeins að hvetja aðra til að gera slíkt, því að í fyrri skrifum sínum hefur hann ekki vandað félagsvísindamönnum kveðjurnar, eins og til dæmis í bókinni Þroskakostum, ritgerðasafni sem kom út 1992. Þar fór hann eiginlega háðuglegum orðum um til dæmis kennslufræði og félagsfræði og sagði það fólk sem stundaði hug- og félagsvísindi löngum hafa verið þungt haldið af hinni illræmdu afstæðishyggju, sem heimspekingar - og þá fyrst og fremst rökgreiningarheimspekingar 20. aldar - hafa litið á sem helsta óvin sinn og að ætla mætti alls mannkyns.

Nú veit ég ekki hvort Kristján hefur með tímanum linast í heittrúnaði sínum (eins og mönnum er jú títt með auknum þroska), eða hvort hann telur félagsvísindamenn hafa náð áttum og horfið frá afstæðishyggjuvillunni. En mér finnst sáttatónninn í honum nú vera tvímælalaus kostur á þessari bók.


Erfiðir menn

(Viðhorf, 9. maí).

"Ég hef alltaf beðið eina mjög stutta bæn til Guðs. Hún er svona: "Góði Guð, gerðu óvini vora hina fáránlegustu." Þetta hefur Guð veitt mér." (Voltaire um Rousseau).

Bresku fréttamennirnir og rithöfundarnir David Edmonds og John Eidinow sérhæfa sig í skrifum um erfiða menn - það er að segja, menn sem hafa verið skapstirðir með eindæmum og átt í útistöðum við samtíð sína. Edmonds og Eidinow tóku fyrst upp þennan þráð í bókinni Wittgenstein's Poker, þar sem þeir fjölluðu um heimspekinginn Ludwig Wittgenstein, nánar tiltekið eitt lítið atvik í Cambridge þegar Wittgenstein og Karl Popper voru leiddir saman og sá fyrrnefndi missti stjórn á skapi sínu og hótaði að ganga í skrokk á þeim síðarnefnda með skörungi.

Síðan skrifuðu Edmonds og Eidinow um Bobby Fischer í bókinni Fischer at War (sem ég verð að viðurkenna að ég hef ekki lesið) og nýjasta afurð Bretanna tveggja er svo Rousseau's Dog, sem fjallar um svissneska skaphundinn Jean-Jacques Rousseau, og þá einkum hörð átök hans við skoska heimspekinginn David Hume, sem aftur á móti virðist hafa verið einstakur ljúflingur (í París var hann kallaður le bon David), sem þó að vísu "missti sig" gjörsamlega vegna yfirgengilegrar tortryggni og aðdróttana Rousseaus.

Sagan sem Edmonds og Eidinow rekja í Hundi Rousseaus gerist á upplýsingaöldinni, og helstu persónur hennar eru auk Humes og Rousseaus menn eins og Voltaire, Valpole og Grimm, að ógleymdum hefðardömunum í París sem héldu andans mönnum "salon" þar sem ekki var nú töluð vitleysan. Sagan hefst um það bil sem landar Rousseaus eru búnir að fá alveg nóg af vænisýki hans og yfirdrepsskap og hafa eiginlega hrakið hann á brott frá Genf. Þaðan berst hann til Parísar og svo loks til Bretlands með hjálp Humes, sem lætur sem vind um eyrun þjóta aðvaranir um að hann sé að "ala nöðru við brjóst sér". En það kemur á daginn að Hume, líkt og flestir aðrir sem kynntust Rousseau að ráði, missti alla þolinmæði gagnvart honum og sneri algerlega við honum baki.

Hundur Rousseaus er ekki fræðibók. Maður verður lítils vísari um hugmyndir Rousseaus og Humes af lestri hennar. Höfundarnir leggja alla áherslu á að útlista persónuleika söguhetjanna, muninn á þeim og hvörfin sem verða í samskiptum þeirra. Andleg slagsmál þessara tveggja andans stórmenna eru inntak bókarinnar og því má kannski segja að þetta sé eins konar skemmtisaga úr menntamannaheimum - "Fight Club" fyrir bókabéusa. Að minnsta kosti virðast ýmsir samtímamenn Rousseaus og Humes hafa fylgst með atganginum í þeim úr hæfilegri fjarlægð og haft gaman af. Þar að auki höfðu greinilega mjög margir horn í síðu Rousseaus - þar á meðal Voltaire, sem áleit hann uppskafning af verstu sort - og fannst þetta gott á hann. (Samanber það sem haft er eftir Voltaire um Rousseau hér að ofan).

Hume kemur reyndar ekkert sérlega vel út úr þessu heldur. Honum virðist hafa verið mikið í mun að koma vel fyrir og að fólki líkaði við sig, og konur í París höfðu hann hálft í hvoru eins og kjölturakka - og þótti fínt. En kynnin af Rousseau settu Hume alveg út af ljúfa laginu. Kannski er það satt sem segir á einum stað í bókinni, að heilbrigt fólk geti ekki gert brjálað fólk heilbrigt, en brjálað fólk geti gert heilbrigt fólk brjálað.

En meginviðfangsefni bókarinnar er nú samt, eins og nafn hennar bendir til, persóna Jean-Jacques Rousseau. Dregið er fram býsna margt miður fagurt um hann, eins og til dæmis að hann eignaðist fimm börn en yfirgaf þau öll á hæli fyrir "óvelkomin börn" í París. Konan sem hann átti þau með og var lífsförunautur hans, Thérese Le Vasseur, var varla læs og Rousseau virðist hafa komið fram við hana eins og hún væri þjónn hans. Hann var moldríkur því að bækur hans seldust vel, en samt þóttist hann lítt efnaður. Hann var heilsuhraustur, en samt lífhræddur og síkvartandi. Það var sagt um hann að hann væri sífellt með uppsteyt til að vekja á sér athygli, og að þótt hann talaði sífellt um að þrá það eitt að vera í friði væri friður og ró það eina sem hann þyldi ekki.

Það var mikið sport að gera at í Rousseau, og Hume virðist hafa átt hugmyndina að einni meinlegustu athugasemdinni um hann, en kjarninn í henni var að Rousseau hefði óendanlega þörf fyrir að vera ofsóttur. Eða var hann eins og Ljóti andarunginn, sem allir voru vondir við en var í raun fagur svanur? Nei, af bók Edmonds og Eidinows má ráða að kannski hafi verið nokkuð til í því að Rousseau hafi ekki aðeins verið haldinn ofsóknarkennd heldur beinlínis ofsóknarþörf.

Ef til vill hefur honum verið þetta á einhvern hátt meðfæddur fjandi, og því ekki nema von að hann sæi djöfla í hverju horni. Sá sem er óttasleginn hlýtur jú að gera ráð fyrir að hin eðlilega og rökrétta ástæða ótta - aðsteðjandi hætta - sé fyrir hendi og leitar hennar því sífellt. En þegar óttinn á sér ekki ytri orsakir heldur innri verður leitin endalaus, og maður eins og Rousseau, sem tók ekki mark á neinu nema eigin tilfinningum, á í raun enga mögulega leið út úr slíkum ógöngum.

Enda er niðurstaða þeirra Edmonds og Eidinows alls ekki sú, að Rousseau hafi verið illmenni sem réttast sé að fyrirlíta. Þeir komast fremur að því, að hann hafi verið óheppinn með lundarfar og það hafi gert honum (og reyndar fleirum) lífið leitt alla tíð. Hann verðskuldi því fyrst og fremst meðaumkun.


Hamingjan kostar milljón

(Viðhorf, 25. apríl)

Breski hagfræðingurinn Richard Layard hefur reiknað það út að til að vera hamingjusamur þurfi maður að eiga sem svarar einni milljón króna. Þótt maður eignist eitthvað umfram það eykst hamingja manns ekki í réttu hlutfalli. Og þótt manni hætti til að brosa og hugsa sem svo, að þetta sé nú áreiðanlega einhver brandari, þá er málið alls ekki svo einfalt. Vissulega leiðir fátækt til óhamingju, en lexían sem draga má af útreikningi Layards er að þótt þeir sem eru fátækir verði hamingjusamari við að eignast peninga verða þeir sem þegar eru sæmilega stæðir ekki hamingjusamari af því einu að verða vellauðugir.

Fjölmargar rannsóknir hafa leitt til þeirrar niðurstöðu að aukið ríkidæmi auki ekki hamingju fólks. Einhverntíma í fyrra sá ég frétt þess efnis að Bretar væru nú almennt óhamingjusamari en þeir voru á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Það er svo sannarlega ótrúlegt. Bandaríkjamenn eru núna um það bil tvisvar sinnum ríkari (að meðaltali) en þeir voru á áttunda áratugnum, en það fer lítið fyrir því að þeir segist vera hamingjusamari. Japanir eru sex sinnum ríkari núna en þeir voru á sjötta áratugnum, en hamingja þeirra hefur ekki aukist. Ofan á þetta bætast svo ótölulega margar sögur af fólki sem verður skyndilega brjálæðislega ríkt með því að vinna í lottói en leiðist í kjölfarið út í tóma vitleysu og lífsleiða.

Þessar niðurstöður byggja sál- og félagsfræðingar á gögnum frá ríku löndunum í heiminum. Í staðinn fyrir að nýríkum aukist hamingja eftir því sem auður þeirra vex lenda þeir á því sem sálfræðingarnir kalla "nautnastrit" - væntingarnar vaxa í réttu hlutfalli við auðinn. Gömlu sannindin: Mikið vill meira.

Ég geri ekki ráð fyrir að ofanskrifað komi einum einasta lesanda sérlega mikið á óvart. Nema ef til vill þetta með að hamingjan kosti milljón. Vísast er sú tala miðuð við breskt samhengi og gaman væri að fá Layard til að reikna út hvað hamingjan kostar á Íslandi. Hún er kannski eitthvað dýrari, en varla svo mikið að það breyti nokkru um það sem Layard er fyrst og fremst að benda á: Peningar eru vissulega forsenda hamingjunnar, en aðeins upp að vissu marki.

Ég geri líka ráð fyrir að hver einasti lesandi (það er að segja ef ekki eru allir þegar hættir að lesa þetta vegna þess að þeir hafa ekki séð annað en gamlar tuggur í því sem ég hef hingað til sagt) muni taka undir það að peningar séu ekki aðalatriðið í lífinu. Vissulega er til fólk sem stundar auðsöfnun af ástríðu, svona eins og aðrir stunda íþróttir af ástríðu, en ég held að óhætt sé að fullyrða að þetta er fámennur hópur. Allur þorri fólks miðar líf sitt, velferð og gildi við annað en peninga.

Og einmitt þess vegna má heita furðulegt hvað íslenskir fjölmiðlar eru duglegir við að fjalla um þennan fámenna hóp sem stundar auðsöfnun af ástríðu. Í gær og fyrradag greindu íslenskir fjölmiðlar samviskusamlega frá því að einhverjir Íslendingar væru komnir á lista yfir ríka menn í Bretlandi. Morgunblaðið sagði meira að segja frá þessu á útsíðu, eins og um stóra frétt væri að ræða. Það er kannski skiljanlegt að fjölmiðlar fjalli mikið um ríka menn ef þessir fjölmiðlar eru beinlínis í eigu ríku mannanna sem þeir fjalla um. Og kannski er skiljanlegt að íslenskir fjölmiðlar fjalli um ofsaauð Íslendinga vegna þess að það er tiltölulegt nýmæli að Íslendingar eigi stóran auð.

En það er samt dálítið skrítið, svo ekki sé meira sagt, að fréttaflutningur fjölmiðla á Íslandi skuli snúast að langmestu leyti um ofsagróða fáeinna manna og fyrirtækja, en ekki það sem varðar hamingju fólks. Ofan á þetta bætist svo, að auður Íslendinganna sem komust á listann í Bretlandi varðar lítið venjulega Íslendinga, nema að þessir menn greiði skatt af þessum auði hérlendis, en ég veit satt að segja ekki hvort það kom fram í fréttunum í gær og fyrradag.

Annaðhvort er skýringin sú, að fjölmiðlarnir telja að peningar séu í sjálfu sér merkilegir og því meiri sem peningarnir eru því merkilegra sé málið og þar með fréttnæmara, eða, eins og tæpt var á hér að framan, að það er enn mikið nýmæli á Íslandi að Íslendingar nái ofsagróða. Vonandi er seinni tilgátan rétta útskýringin, því að sú fyrri væri til marks um stórundarlegt fréttamat.

Það sem er athugavert er mikil áhersla á og mikil fyrirferð frétta af viðskiptum, peningum og fólki sem á mikið af peningum. Með því að stjarngera nýmoldríka og flytja andaktugar fréttir af hinum minnstu uppátækjum þeirra eins og um væri að ræða Hollywoodstjörnur eða fótboltamenn draga fjölmiðlar athyglina frá því sem meiru skiptir, og Morgunblaðið nefndi í leiðara á sunnudaginn: "Það á að vera sameiginlegt metnaðarmál þjóðarinnar allrar að bæta [kjör láglaunafólks] svo um munar." Nákvæmlega. Þetta á að vera metnaðarmál þjóðarinnar. Það á ekki að vera metnaðarmál þjóðarinnar að eignast ríkasta fólk í heimi.


Rétt hjá Matthíasi

Það er líklega alveg hárrétt hjá Matthíasi Johannessen, sem kom fram í viðtali við hann í útvarpinu á annan í páskum, að estetískar kröfur eru að engu orðnar. Nú er allt "hugsanlega gott" og bara spurning um að ná góðri markaðssetningu og fá fólk þannig til að trúa því að um sé að ræða "góðan" skáldskap. Það hefði verið gaman ef Matthías hefði velt svolítið vöngum yfir því hvers vegna svona er komið.

Kannski - eins og hann nefndi í dálítið öðru samhengi - hefur túlkunaráráttan gengið af skáldskapnum sjálfum dauðum. Túlkunin - teorían - er sjálf orðin að listformi og einskonar upphafning á skáldskap (byggist á honum en afneitar honum um leið) og þar með er skáldskapurinn ekki lengur á stalli. Hann er ekki dásamaður heldur nýttur. Fræðingarnir líta ekki lengur á sig sem verkamenn í garði skáldgyðjunnar heldur er þeir orðnir - í eigin huga að minnsta kosti - að embættismönnum hjá henni, ráðuneytisstjórum, kosningastjórum, og telja sér hæfa að segja henni fyrir verkum og telja að tilvist hennar sé í rauninni undir þeim komin. Með öðrum orðum, þeir eru farnir að líta niður á hana.

Skáldin eru ekki lengur vitar sem senda frá sér mikilvæg ljósboð sem við hin tökum mark á og förum eftir. Skáldin eru eins og hverjir aðrir iðnaðarmenn, og eins og hveiti er efniviður bakarans og steinsteypan efniviður múrarans er tungumálið efniviður skáldsins. Það er ekki lengur nein dulin merking í orðum skáldanna sem við hin leitum uppi og höldum að brjóstum okkar eins og miklum fjársjóði. Skáldin eru ekki lengur tenórar - þetta eru allt einhverskonar barítónar með stöku bassa inn á milli. Ég er ekki frá því að Matthías sjálfur sé einn síðasti skáldtenórinn sem til er á Íslandi. Enda kemst maður einhvernvegin í hátíðlegt skap við að hlusta á viðtal við hann.


Meira um kanadískar skúringakonur

Ef einhver skyldi hafa áhuga á að lesa nánar um kjör kanadískra skúringakvenna - sbr. blogg hér að neðan, er honum bent á að heimsækja www.globeandmail.com/maidforamonth, þar sem tvær greinar til viðbótar þeirri fyrstu hafa bæst við.

"Guð er dauður en hárið á mér er óaðfinnanlegt"

Observer sagði um helgina frá nýrri bók þar sem franski heimspekingurinn Bernard-Henry Levy, betur þekktur sem BHL, er gagnrýndur harðlega og sagður tilgerðarlegur svikahrappur og holdtekja þess allra versta í frönsku menntalífi þessa dagana. Ég verð að viðurkenna að það hlakkaði í mér.

Ég vissi fyrst um tilvist þessa merka heimspekings fyrir fáeinum árum þegar ég sá grein um hann í Vanity Fair, með myndum af honum og fallegu konunni hans, leikkonunni Arielle Dombasle. Vægast sagt hlýtur að teljast fátítt að heimspekingar komist á síður þessa tímarits. En maður getur svosem haldið í vonina ...

Ókei, ég veit ekkert um heimspeki BHL og ég man satt best að segja ekkert af því sem ég las um hann í Vanity Fair hérna um árið. Ég reyndi að lesa eitthvað í greinaflokki sem hann skrifaði nýlega í Atlantic Monthly um för sína til Bandaríkjanna - í fótspor Alexis deTocqueville - en það var eitthvað svo ruglingslegt að ég gafst upp.

En BHL mun vera mikil fjölmiðlastjarna í Frakklandi og Observer segir hann klæðast "hættulega fráhnepptum, hvítum skyrtum, jakkafötum frægra hönnuða" og mælska hans sé ótvíræð. Hann hefur skrifað einhverjar "rannsóknarskáldsögur" sem seljast í metupplögum.

Í nýju bókinni er hann sakaður um ritstuld, uppspuna, hræsni og að njóta góðs af tengslum sínum við fjölmiðla sem verndi hann fyrir allri gagnrýni. Segir Observer. Höfundar bókarinnar segjast hafa reynt að sundurgreina "BHL-kerfið". Observer hefur eftir öðrum höfunda bókarinnar, Olivier Toscer: "Við teljum að fjölmiðlar hafi búið til goðsögn sem er undirstaða þess sem BHL er og þess sem hann gerir." Toscer er blaðamaður. Hann segir að BHL sé orðinn að "heilagri kú" í Frakklandi og gagnrýni á hann sé ekki leyfð. Semsagt einhverskonar Garðar Hólm-dæmi, nema hérna er Garðar Hólm heimspekingur.

Það þarf líklega ekki að taka fram að BHL er moldríkur - hann á íbúð á Vinstri bakkanum, hús í Suður-Frakklandi og höll frá átjándu öld í Marrakech. (Gott ef myndirnar í Vanity Fair voru ekki teknar þar). Blasir náttúrulega við að maðurinn hljóti að eiga sér öfundarmenn og skóníðinga. Observer segir að í nýlegri grein um hann hafi verið settur saman frasi: "Guð er dauður en hárið á mér er óaðfinnanlegt". 

Er ekki löngu kominn tími til að Lesbók Morgunblaðsins taki manninn upp á sína arma? Í það minnsta fræði íslensku þjóðina um hann og "heimspeki" hans. Og í guðanna bænum hafiði myndir með!


Viðhorf 6. apríl: Vandráður viðutan

Það sem þyrfti fyrst og fremst að breytast er sú hugsun að vísindamenn séu gáfaðri en annað fólk. Þá myndi nördastimpillinn um leið hverfa af vísindamönnum. 
Íslenskar grunnskólastúlkur hafa lítinn áhuga á að verða vísindamenn, og skólabræður þeirra hafa lítið meiri áhuga á því. Þetta kemur alveg greinilega fram í könnun sem gerð var fyrir nokkrum árum og sagt er frá í Rannísblaðinu 30. mars síðastliðinn. Þessar fréttir voru svo sem ekki óvæntar, fyrir ekki löngu síðan sagði fréttavefur breska ríkisútvarpsins frá því að þarlend grunnskólabörn hefðu ekki mikinn áhuga á að helga sig vísindunum.

Það er reyndar fleira sem íslensk og bresk grunnskólabörn eiga sameiginlegt í afstöðunni til vísinda. Til dæmis hafa börn í báðum löndum þá ímynd af vísindamönnum að þeir séu "utan við sig og nördalegir". Það má því ætla að prófessor Vandráður viðutan, góðvinur Tinna, lifi enn góðu lífi í hugum íslenskra og breskra skólabarna.

Það kemur ekki fram í greininni í Rannísblaðinu hvort íslenskir vísindamenn hafi einhverjar áhyggjur af þessu, en í fréttum BBC var haft eftir þarlendum starfsbræðrum þeirra að þetta væri mikið áhyggjuefni. Það hefur reyndar líka komið fram, að í Bretlandi hafa menn áhyggjur af því hversu fáir nemendur leggja stund á raungreinar, og þá sérstaklega eðlisfræði.

Nú má gerast svolítið raunvísindalegur og velta því fyrir sér hvort eitthvert orsakasamhengi sé milli ímyndar vísindamanna meðal grunnskólabarna og lítils áhuga barnanna á að leggja raunvísindi fyrir sig. Börnin - bæði á Íslandi og Bretlandi - töldu að starf vísindamannanna skipti miklu máli fyrir samfélagið allt, en það dugði ekki til.

Eitt af því sem fram kom hjá íslensku börnunum var sú hugmynd að "vísindamaður" sé karlmaður í hvítum slopp. Skyldi þetta vera ein ástæða þess að stúlkur eru síður líklegar til að verða vísindamenn. Eigum við að fara að tala um vísindakonur, þegar það á við, rétt eins og farið er að tala um þingkonur? Ef ég man rétt gildir það sama um stúlkur í Bretlandi og á Íslandi, að þær eru ólíklegri en strákar til að hafa áhuga á að gerast vísindamenn, og þar skiptir orðið ("scientist") engu máli þar sem það er kynlaust. Líklega er skýringin því flóknari.

Bresku vísindamennirnir, sem hafa áhyggjur af þessari þróun mála þar í landi, telja að ein helsta ástæðan fyrir því hvernig komið er sé sú, að kennsla í raunvísindagreinum í grunnskólum sé einfaldlega ekki nógu góð. Það vanti til dæmis kennara með menntun í þeim greinum sem kenndar eru. Of mikil áhersla sé lögð á að kennarar hafi kennaramenntun.

Í greininni í Rannísblaðinu, þar sem fjallað er um rannsókn sem Kristján Ketill Stefánsson, kennslufræðinemi í Ósló, gerði, er látið að því liggja að skortur á sjálfstrausti til að takast á við raunvísindi sé helsta ástæðan fyrir því að íslensk skólabörn geta ekki hugsað sér að verða vísindamenn. Stelpurnar hafa þá líklega minna sjálfstraust en strákarnir, ef þessar niðurstöður eru lagðar saman við þær sem áður voru nefndar, að stelpur séu ólíklegri en strákar til að vilja verða vísindamenn.

En líklega er ástæðan enn flóknari. Því er haldið fram, að stúlkur séu jafnan fyrri til að öðlast félagsþroska en drengir og að þær séu félagslega meðvitaðri en þeir. Kennarar hafa sagt frá dæmum um að stelpur beinlínis þykist heimskari en þær eru til þess að forðast að fá á sig nördastimpil. Nördar eiga nefnilega erfitt með að falla inn í jafningjahópa. Það er eiginlega partur af skilgreiningunni á "nörd" að hann á fáa vini, einfaldlega vegna þess að aðrir krakkar skilja hann ekki. Og flestum krökkum - kannski stelpum sérstaklega - finnst mest um vert að eiga vini. Það er í þeirra augum mikilvægara en að vinna einhver afrek, og lykillinn að hamingjunni. Sumir krakkar hafa sagt eftir á, að í barnaskóla skipti vinirnir mestu - á efri skólastigum fari námið að verða meira um vert.

Þess vegna langar grunnskólakrakkana ekki til að verða vísindamenn, jafnvel þótt þeim finnist starf vísindamanna mikilvægt. Vísindamenn hafa nefnilega enn þá ímynd að þeir séu nördar. Þeir eru Vandráður viðutan.

Þetta er slæmt af tveim ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að þetta er á misskilningi byggt. Vísindamenn eru ekki meira viðutan en gengur og gerist. Ímyndin er röng. Í öðru lagi vegna þess að þetta dregur úr möguleikum krakkanna á að öðlast þekkingu og skilning sem þau gætu vel öðlast án þess að verða þar með að nördum. Vísindaleg þekking er öllum aðgengileg - ekki bara einhverjum "snillingum".

Og þarna dúkkaði svo ef til vill upp toppur á borgarísjakanum sem þetta mál er: Rómantíska hugmyndin um snillinginn - mann sem af innsæi sínu og náðargáfu getur fundið svör við stórum spurningum - lifir enn góðu lífi í fjölmiðlum og afþreyingarefni. Það þarf að drepa þennan snilling. Eða öllu heldur, það þarf að útrýma þessari rómantísku dellu.

Hvernig er hægt að fara að því? Það sem þyrfti fyrst og fremst að breytast er sú hugsun að vísindamenn séu gáfaðri en annað fólk. Þá myndi nördastimpillinn um leið hverfa af vísindamönnum og krökkum gæti farið að finnast óhætt að hugsa sér að verða vísindamaður. Þetta myndi ekki aðeins létta krökkunum lífið, þetta myndi líka auka veg vísindanna.

 


Lífskjör kanadískra skúringakvenna

Besta dagblað í heimi, The Globe and Mail í Kanada, birti á laugardaginn alveg mergjaða frásögn blaðakonunnar Jan Wong af lífskjörum hreingerningarkvenna í Toronto, sem eru eiginlega neðan við neðstu þrep launaskalans. Það er ekki bara að umfjöllunarefnið sé athyglisvert heldur er þessi grein afspyrnu gott dæmi um blaðamennsku eins og hún gerist allra best.

Wong fór ekki leið íslenskra fjölmiðla og tók endalaus viðtöl. Nei, hún réði sig í vinnu í einn mánuð sem skúringakona, eins og það myndi kannski helst heita á íslensku. Og þessi grein er okkur fjölmiðlungum og blaðurmönnum líka góð áminning um það, að við þurfum ekki alltaf að fjalla um stjórnmál, fjármál eða fjarlægar slóðir (nú eða frægt fólk) til að eitthvað sé varið í skrifin okkar.

Það ætti að vera hægt að finna greinina HÉRNA.


Á orðaskýjum eitthvað út í bláinn

Svo að MR sigraði í mælskukeppninni Morfís. Verði þeim að góðu. Þeir eru þá orðnir Íslandsmeistarar í innihaldslausu þvaðri. En svo maður sleppi nú fýlunni, þá eru mælskukeppnir afskaplega vafasamar, ég myndi jafnvel segja vafasamari en fegurðarsamkeppnir.

Ef til vill væri nær að kalla mælskukeppnir fagurgalakeppnir því að þar er jú ekki keppt í öðru en orðavaðli alveg burtséð frá því hvort eitthvert innihald er í honum. Reyndar hafa ýmsir heimspekingar verið duglegir við að halda því fram að með orðunum komi hugsunin, en ég held að þar sleppi þeir jarðsambandinu og komi óorði á heimspekina.

Hvert getur verið markmið manns með því að efna til rökræðu (eða bara samræðu) við einhvern annan? Í mælskukeppni er markmiðið að tala andstæðinginn í kaf, bera sigurorð af honum - vinna. Vera liprari í að "one-uppa" og kveða í kútinn. Með öðrum orðum, markmiðið er ekki að komast að hinu sanna eða komast að því hvaða skoðanir hinn hefur. Nei, alls ekki. Þetta tvennt, sannleikurinn og skoðanir hinna, skipta þvert á móti engu máli í fagurgalakeppni.

Stundum gæti maður haldið að þeim gangi best í svona keppni sem geta algjörlega sleppt takinu af veruleikanum og látið berast á orðaskýjum eitthvað út í bláinn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband