Um fjögur Lærdómsrit

g0rel79i.jpg

Lesbók, 16. des. 2006

Hið íslenska bókmenntafélag gefur á þessu ári út fjórar bækur í flokknum Lærdómsrit, Játningar Ágústínusar í þýðingu Sigurbjörns Einarssonar, Um sársauka annarra eftir Susan Sontag í þýðingu Ugga Jónssonar, Um fagurfræðilegt uppeldi mannsins eftir Friedrich Schiller í þýðingu Arthúrs Björgvins Bollasonar og Þrastar Ásmundssonar og Síðasta setning Fermats eftir Simon Singh í þýðingu Kristínar Höllu Jónsdóttur.

Játningarnar skrifaði Ágústínus um aldamótin 400, og er þetta almennt talið eitt áhrifamesta trúarrit sem skrifað hefur verið. Í formála um guðfræði Ágústínusar segir Einar Sigurbjörnsson meðal annars að Ágústínus hafi haft ótvíræð áhrif á íslenska hugsun, og söguskoðun hans birtist í íslenskum miðaldabókmenntum. Ari fróði hafi verið undir áhrifum hans við ritun Íslendingabókar, og ræða Þorgeirs Ljósvetningagoða á þingi hafi verið mjög ágústínsk. Ágústínus mun hafa haft mikil áhrif á samruna forngrískrar heimspekihefðar og gyðing-kristilegrar trúarhefðar, en þessi samruni mótaði með afgerandi hætti hina vestrænu heimspekihefð.

Framan af eru Játningarnar átakamikil ævisaga, og munu hafa verið fyrsta sjálfsævisagan sem sögur fara af. Um leið er bókin lofgjörð til Guðs og heimspekileg greining á ritningunni og átök við spurningar á borð við tilvist Guðs og hvaðan illskan sé sprottin. Eftir því sem á líður, og Ágústínusi hefur tekist með Guðs hjálp að losna að mestu undan oki "óseðjandi fýsnar, sem var orðin mér vani og harðsnúinn, kveljandi löstur" (bls. 218) verður bókin hreinræktaðri heimspeki.

En þótt dragi úr hinu áþreifanlega drama verða átök hugans síst minni, og spurningarnar sem fengist er við alveg jafn afdrifaríkar. Þegar Ágústínus hafði náð að fóta sig í hinum líkamlega heimi snéri hann sér að hugarheiminum og skoðar hug sinn. En ekki í þeirri merkingu að hann velti fyrir sér hvaða skoðanir hann hafi, heldur þeirri hvað hugurinn sé. Minnið, segir hann til dæmis, er eins og magi hugans. Það er að segja, þangað safnast það sem síðan er unnið úr. Líkingar verða ekki snjallari eða skýrari.

En Ágústínus lætur ekki við það sitja að útskýra hugann með snjöllum líkingum, enda er hann fremur heimspekingur en skáld. "En ekki eru það hlutirnir sjálfir, sem inn [í hugann] fara, heldur myndir af því, sem skynjað er. Þær eru til taks, þegar hugsunin rifjar þær upp" (bls. 339). Og hvernig gerist þetta? "Að læra það, sem skynfærin skila ekki í myndum, heldur greinir hugurinn það eins og það er sjálft, er í því einu fólgið, að umhugsun tekur saman það, sem er fyrir í minni en sundurlaust, ósamið, og kemur því með einbeittu átaki þannig fyrir, að það sem var dreift og dulið í minni, verður tiltækt og auðfundið kunnugum hug" (bls. 343).

Þetta er hrein þekkingarfræði, og má meðal annars sjá þarna gerðan greinarmun á milli þess hvernig hlutirnir koma fyrir sjónir og þess hvernig eðli þeirra er. Þessi greinarmunur á rætur að rekja til Platóns, enda er Ágústínus jafnan flokkaður með svonefndum Nýplatónistum. Þótt Ágústínus þreytist ekki á að vegsama Guð og handleiðslu hans ofurselur hann sig ekki þessari handleiðslu heldur hefur fulla trú á sjálfum sér: "Og þennan kraft á hugur minn, hann er mér meðskapaður" (bls. 340). Hvaða "kraftur" er þetta sem hugurinn á? Það er skynsemin. Það er hún sem er manninum ásköpuð, þetta viskuljós, eins og Descartes kallaði hana síðar.

Þessi trú á tilvist og mátt mannlegrar skynsemi er grundvöllur vestrænnar heimspekihefðar, með viðkomu í ritum Descartes, Kants og Hegels, svo einhverjir séu nefndir, hefð sem enn er í miklum blóma þrátt fyrir sterka útúrdúra á borð við Nietzsche, Heidegger og póstmódernismann.

En leið Ágústínusar að þessum hreinræktuðu heimspekilendum var þyrnum stráð. Það verður að viðurkennast að frásögn hans af æsku sinni, vitsmunalegum bernskubrekum, stjórnlausum losta og ýmsum hormónastýrðum uppátækjum (þótt Ágústínus hafi náttúrulega ekki vitað að hormónar voru til) minnir stundum helst á viðfangsefni unglingabóka síðari ára, og þótt lesandinn velkist ekki í vafa um að höfundurinn segi í einlægni frá hugarvíli sínu og að því leyti sé þetta enginn skemmtilestur er frásögnin á köflum grípandi með svipuðum hætti og bersögul ævisaga.

Í þessum köflum bókarinnar er að finna svo skýra og beinskeytta greiningu á grunnhyggni og frægðarþrá (eða ætti maður kannski fremur að kalla það vitsmunalegan ungæðishátt?) að erfitt er að ímynda sér að það verði betur gert, og þessi greining á mikið og þarft erindi til samtímans. "Ég var villtur af oflæti og hraktist fyrir hverjum vindi" (bls. 152). Það sem hugur hins unga Ágústínusar stóð til var mælskulistin, og hann dáði mjög Híeríus, mælskumann í Rómaborg. Það er að segja, hann dáði lærdómsfrægðina sem Híeríus naut, því "aðallega stafaði þó álit mitt af því, að aðrir dáðu hann og báru hann lofi fjöllum hærra" (bls. 151).

En sá Ágústínus sem skrifaði Játningarnar er búinn að sjá í gegnum eigin grunnhyggni: "Ef sömu menn hefðu ekki lofað hann, heldur lastað, og lagt honum til lasts og hnjóðs það hið sama, sem þeir sögðu um hann, hefði ég ekki orðið hrifinn og heillaður af honum. Og þó hefði málefnum ekki verið á annan veg háttað né maðurinn sjálfur annar, heldur aðeins hugarfar sögumanna, það hefði eitt verið öðruvísi" (bls. 152). Þetta má svo sannarlega kalla skilmerkilega lexíu í gagnrýnni hugsun.

Um annan mann segir Ágústínus: "Þeir hugðu hann hygginn vitsmunamann, af því að þeim þótti gott að hlusta á hann" (bls. 170). En þó er alls ekki svo að skilja, að gott málfar og íburðarmikið sé skilyrðislaust til marks um innihaldsleysi. Og ruddalegt og brogað málfar er ekki ótvírætt einkenni sannleikans. Það er að segja, málfarið ræður engu um gildi þess sem sagt er. Þetta er líka lexía sem á brýnt erindi nú á tímum endalausra sjónvarpsumræðuþátta þar sem "munngolan blæs úr kverkum þeirra, sem halda sig hafa skoðanir" (bls. 152-3).

Ágústínus lýsir því af fyllstu einlægni hvernig hann naut þessa lífs til fulls, en þó hefur einhverstaðar búið með honum efi um gildi þess, því að hann áttar sig um síðir á því - fyrir tilstilli Guðs, eins og hann þakkar sífellt fyrir - hvernig hann hefur verið á valdi sjálfsins, og sett það ofar öllu öðru. Að öðlast trú á Guð er einmitt fólgið í því að losna undan valdi sjálfsins, og það gerist (ef það gerist) eftir að sjálfið hefur rekist á að það hefur takmarkanir. Það var Ágústínusi vel ljóst löngu seinna, þegar hann dásamaði mátt skynseminnar sem hann sagði sér meðskapaða, og orðaði svo hnyttilega: "En sjálfur skil ég ekki að fullu, hver ég er. Hugurinn er of þröngur til þess að rúma sjálfan sig" (bls. 340).

Það sem þessi setning tjáir er enn ríkt viðfangsefni heimspekinga, og til dæmis var vísindahyggja tuttugustu aldar harðlega gagnrýnd fyrir að gera ráð fyrir að allt mætti leysa með vísindalegum hætti. Þannig var bent á að hin vísindalega aðferð gæti ekki fært sönnur á eigin sannleiksgildi. Með öðrum orðum: Hin vísindalega aðferð er of þröng til að rúma sjálfa sig.

Þessi djúpu heimspekimið eru fjarri þeim sem Susan Sontag rær á í umfjöllun sinni um sársauka annarra. Það má reyndar segja að hún sé ekki að fjalla um sársauka annarra heldur myndir af honum. Í bókinni er síðasta stóra ritgerðin sem hún skrifaði, en hún lést í desember 2004. Þetta er sama viðfangsefni og hún fékkst við í þekktri bók frá 1976, Um ljósmyndun . Hverju skila ljósmyndir? Sýna þær veruleikann og er maður þá að bregðast við veruleikanum þegar maður bregst við ljósmynd? Eða eru ljósmyndir bjögun á veruleikanum og maður þar af leiðandi nauðsynlega ekki að bregðast við veruleikanum þegar maður bregst við ljósmynd?

Það eru ekki síður viðbrögð áhorfandans við ljósmyndum - og þá er Sontag fyrst og fremst að fjalla um fréttaljósmyndir, einkum stríðsljósmyndir - sem eru viðfangsefnið. Ef varlegt er að treysta ljósmyndunum, er þá óhætt að treysta tilfinningunum sem þær vekja? Hjálmar Sveinsson, sem skrifar formála að bókinni, hefur sagt að skrifum Sontags sé "ekki ætlað að sanna eitt eða neitt, né heldur að byggja smátt og smátt upp akademíska kenningu um veruleikann. Þeim er miklu fremur ætlað að opna augu lesendanna fyrir margbreytileika tilverunnar, fegurð listaverka og siðferðilegum vanda mannsins á ofanverðri tuttugustu öld" ("Er ástæða til að skrifa um ljósmyndir?" Lesbók, 11. mars 2006).

Samkvæmt þessu er Sontag ekki að boða neitt, þótt hún fjalli á gagnrýninn hátt um hlutverk ljósmynda og áhrif þeirra í samtímanum, en aftur á móti var Friedrich Schiller, samtímamaður Goethes, að setja fram fagurfræðikenningu sína og boða mikilvægi listarinnar og fegurðarinnar, og firringu mannsins frá náttúrunni vegna ofurvalds skynseminnar. Hann taldi nauðsynlegt að efla listræna reynslu til þess að maðurinn gæti orðið mennskur á ný.

Sagan um síðustu setningu Pierre de Fermat, sem var franskur stærðfræðingur á sautjándu öld, er af öðrum toga en þær þrjár bækur sem greint hefur verið frá hér að ofan. Þetta er saga um stærðfræðilögmál, manninn sem uppgötvaði það og átök annarra stærðfræðinga við það. Þetta er saga um leyndardóm, stærðfræðilega fullyrðingu sem uppgötvast á spássíu í bók eftir að maðurinn sem skrifaði hana er látinn. Á spássíunni segist höfundur fullyrðingarinnar hafa uppgötvað "dásamlega sönnun" á þessari fullyrðingu, en þessi sönnun komist ekki fyrir á spássíunni. Þá hefst leitin að hinum heilaga gral stærðfræðinnar, sönnuninni dásamlegu.


Að skipta um skoðun

Viðhorf, Morgunblaðið 19. des. 2006

Fjölskyldustefna fyrirtækja, eins og lesa mátti um í Morgunblaðinu á sunnudaginn, er mikilvægur liður í að tryggja réttindi barna til að búa við eðlilegt fjölskyldulíf, og líka er hún mikilvægur - ef ekki hreinlega mikilvægasti - liður í að tryggja rétt feðra til að ala upp börnin sín.

Það er mikilvægt að bæta þessu atriði við það sem haft er eftir Herdísi Þorgeirsdóttur á sunnudaginn, þar sem hún vitnar í Vegvísi Evrópusambandsins 2006-2011 sem kveður á um að miðað skuli að því "að konur séu efnahagslega jafn sjálfstæðar og karlar, það er að heimur þeirra og barna þeirra hrynji til dæmis ekki við hjónaskilnað, aukinni samræmingu vinnu og fjölskyldulífs, aukinni þátttöku kvenna við stjórnvölinn í viðskiptalífinu og samfélaginu, útrýmingu á kynbundnu ofbeldi og staðalímyndum og útbreiðslu jafnréttissjónarmiða utan Evrópu".

Að tryggja körlum jafnan rétt til að ala upp börnin sín er jafnframt virk aðferð til að auka möguleika kvenna á efnahagslegu sjálfstæði og aukna þátttöku þeirra í stjórnun fyrirtækja, að ekki sé nú talað um hvað það getur breytt miklu fyrir útrýmingu á kynbundnum staðalímyndum.

Það er nefnilega tilfellið að meginástæðan fyrir því að karlar njóta ekki í raun jafns réttar og konur til uppeldis barna eru fyrst og fremst kynjabundnar staðalímyndir - öðru nafni fordómar - sem standa mun fastari fótum í íslensku samfélagi en við viljum vera láta. Vegvísir ESB ætti auk þess sem að framan er talið að kveða á um mikilvægi þess að karlar hafi jafna réttarstöðu og konur til dæmis ef kemur til skilnaðar, en það er kunnara en frá þurfi að segja að við slíkar aðstæður er hætt við að heimur karla og barna þeirra hrynji vegna þess að þeir eru ekki með "forræðislegt sjálfstæði" (sbr. "efnahagslegt sjálfstæði" kvenna). Þeir eru í mörgum tilvikum háðir konunum hvað varðar forræði barnanna, rétt eins og margar konur eru háðar körlum hvað varðar efnahagslega afkomu.

Fjölskylduvæna stefnan sem öll fyrirtæki segjast nú fylgja í starfsmannamálum er áreiðanlega til bóta fyrir alla aðila, starfsfólkið og fyrirtækin, en engu að síður er við ramman reip að draga í þessum efnum, því að þótt auðvelt sé að tala gegn kynjabundnum staðalímyndum er erfiðara að uppræta þær í raun.

Fullyrt er í greininni í Morgunblaðinu á sunnudaginn að það sé ekki nauðsynlegt að fórna fjölskyldunni fyrir starfið. Ég veit að vísu ekki hvort þarna er um að ræða sannindi sem búið er að sýna fram á með afkomutölum fyrirtækja, eða hvort þetta er bara eitthvað sem allir myndu samþykkja í orði.

Hitt hef ég aftur á móti sterkan grun um, að þegar karlar eiga í hlut sé þetta allt annað en viðtekið viðhorf. Ég held að enn sé ákaflega útbreitt það viðhorf að karlmaður eigi að velja á milli þess hvort hann taki fjölskylduna fram yfir starfsframa, eða öfugt. Og sá sem velur fjölskylduna er ekki talinn efni í háttsettan stjórnanda. Ég leyfi mér að efast um að konur þurfi að velja á milli starfsframa og fjölskyldu með jafn afgerandi hætti og karlmenn. Maður sem hefur valið fjölskylduna er þar með búinn að gera sig "ósamkeppnishæfan", og maður sem er búinn að velja starfið hefur þar með afsalað sér möguleikanum á að geta, ef til þess kemur, orðið aðaluppalandi barnanna sinna.

Það eru til óteljandi dapurleg - jafnvel beinlínis sorgleg - dæmi um menn sem hafa látið undan óyrtri kröfu vinnuveitanda og vinnufélaga og í raun látið af hendi stórt hlutverk í fjölskyldu sinni til þess að finnast þeir ekki glata möguleikum og mannvirðingu í vinnunni.

Það sem er dapurlegast af öllu við þetta er að ástæðurnar fyrir þessu hafa ekkert með að gera hæfni þessara manna til að sinna vinnunni sinni, eða vanhæfni þeirra til að sinna uppeldi barnanna sinna. Þetta hefur ekkert með að gera áþreifanlega þætti, heldur eru meginástæðurnar fyrir þessu rótgrónar staðalímyndir sem teknar eru sem óumflýjanlegur sannleikur. Með öðrum orðum, þetta sorglega hlutskipti alltof margra manna er til komið vegna fordóma og úreltra viðhorfa bæði þeirra sjálfra og vinnuveitenda þeirra, og ekki síður samfélagsins í heild. (Að ógleymdri heimskulegustu ástæðunni, sem engu að síður ræður kannski meiru en mann grunar: Þörf manna fyrir metorð og vald.)

Tökum svo eitt einfalt dæmi um gömul viðhorf sem enn standa djúpum rótum: Að kona taki sér frí úr vinnu til að sinna veiku barni þykir sjálfsagt mál. (En gleymum því ekki að um leið þykir sjálfsagt mál að hún sé með lægri laun en karlmaður.) Að karlmaður taki sér frí úr vinnu til að sinna veiku barni þykir ekki sjálfsagt mál. Aftur á móti er alveg sjálfsagt að karlmaður taki sér frí úr vinnu til að vera við jarðarför. (En án þess að þar með þyki sjálfsagt að hann hafi lægri laun en þeir sem aldrei fara á jarðarfarir.) Af hverju jarðarför en ekki veikindi barns? Við þessari spurningu er ekki til neitt skynsamlegt svar. Þetta er bara svona. Þetta er eitt lítið dæmi um birtingarmynd djúpstæðra viðhorfa, svo djúpstæðra að það má kalla þau lífsviðhorf. Slík viðhorf eiga sér oft ekki neina skynsamlega skýringu, og það eru þau sem erfiðast er að breyta. Jafnvel má halda því fram að það sé hreinlega ekki hægt að breyta þeim með handafli. Það eina sem hægt er að gera er að bíða eftir því að þau breytist.

Er það ekki dapurlegra en orð fá lýst að réttindi og velferð barna séu fyrir borð borin vegna þess að fólk þorir ekki - eða kann ekki - að skipta um skoðun?


Hollur skyndibiti

Viðhorf, Morgunblaðið, 12. des. 2006

Það er ekki auðvelt að vera á móti Latabæ á Íslandi, segir Dagný Kristjánsdóttir í grein sinni í nýjasta hefti TMM. En eins og fræðingi sæmir nálgast hún viðfangsefnið á gagnrýninn hátt, og því er óhjákvæmilegt að tónninn í greininni verði dálítið neikvæður. En Dagný fer afskaplega varlega í neikvæðnina, sem er vissulega skiljanlegt því að það er hárrétt hjá henni að það er ekki auðvelt að vera á móti Latabæ. Svolítið eins og að vera á móti góðu veðri. Eða jólunum. Maður sem er á móti Latabæ stimplar sig ekki aðeins sérvitring heldur liggur við að hann geri sig útlægan úr íslensku samfélagi, svo einróma hefur lofsöngurinn um Latabæ verið frá upphafi.

En um leið og það er skiljanlegt að Dagný sé varkár í gagnrýninni er það dálítið leiðinlegt því að einmitt vegna þess hve eindregið lof og samþykki Latibær hefur hlotið væri ekki bara gaman að sjá öndverða skoðun heldur má halda því fram að það gæti verið hollt. Jafnvel djöfullinn þarf jú sinn málsvara. Samt er vissara að fara varlega í því, og Dagný lætur duga að vitna í ritdóm Jökuls Valssonar um Latabæjarbækurnar í Kistunni, þar sem ekki var hikað við að vera neikvæður og fara jafnvel út í persónulegt skítkast í garð Magnúsar Schevings. Þessar tilvitnanir sem Dagný hefur með þjóna ef til vill ágætlega sem dæmi um hversu illa getur farið þegar fræðingar missa stjórn á skapvonsku sinni.

Ætli sé þá ekki betra að láta duga að rýna í viðfangsefnið á hlutlausum nótum, draga fram dýpri anga þess og til dæmis tengsl við hefðir. Dagný fitjar reyndar tvisvar, að minnsta kosti, upp á slíkum öngum, en því miður lætur hún þá niður falla. Í byrjun greinarinnar rekur hún þróun hugmyndarinnar um barnið, og vitnar til dæmis í þá Rousseau og Locke, en sá fyrrnefndi hafði þá hugmynd að börn væru að upplagi hrein og óspillt, og það væri mannlífið sem gerði þau ómöguleg. Þekkingarfræði Lockes byggðist svo á þeirri grundvallarhugmynd að mannshugurinn væri í upphafi eins og óskrifað blað, sem lífið risti síðan rúnir í og mótaði þannig manninn. Það er alveg óljóst hvort þessar hugmyndir sem Dagný ver dágóðu rými undir hafa nokkuð að segja fyrir greiningu hennar á Latabæ. Að vísu hafa báðar þessar kenningar verið hraktar fullkomlega, og sýnt fram á að skapferli og persónuleiki er að miklu leyti meðfæddur og arfgengur, þannig að Rousseau og Locke duga vart sem rök gegn nokkrum hlut lengur.

Dagný greinir líka einskonar ættarsögu Latabæjar, það er að segja sýnir fram á hvernig sögurnar tilheyra aldagamalli hefð "fyrirmyndar- og viðvörunarsagna átjándu og nítjándu aldar þar sem afar neikvæð mynd af barninu er lögð til grundvallar sögunum sem sagðar eru" (bls. 7). Þetta er skemmtileg greining, en því miður gerir Dagný sér ekki mikinn mat úr henni. Bendir til dæmis ekki á neinar athyglisverðar hliðstæður með persónum Latabæjar og persónum þessara viðvörunarsagna fyrri alda.

Tvennt í viðbót: Dagný bendir á að foreldrar barnanna í Latabæ séu hvergi nálægir, og mér fannst við lestur greinar hennar að hún væri ósátt við það. Hún nefnir að í barnabókum leiki foreldrar yfirleitt stór hlutverk. En það er ef til vill tímanna tákn að foreldra verði hvergi vart í Latabæ. Maður les varla svo viðtal við sálfræðinga og kennara nútildags að þeir fari ekki mörgum orðum um það að svo virðist sem foreldrar gefi börnum sínum alltof lítinn tíma. Og það læðist að manni sá grunur, að mjög mörg þeirra barna sem sitja við sjónvarpið að horfa á Latabæ á laugardagsmorgnum sitji þar ein, og foreldrar þeirra séu órafjarri í draumalandi. Kannski gaf það einu sinni raunsæja mynd af veruleikanum að foreldrar væru nærri í barnabókum, en sennilega er nú öldin önnur og fjarvera foreldra í Latabæ nær raunveruleikanum.

Dagný virðist einnig vera fremur ósátt við að Latibær sé búinn til í samræmi við þá stefnu að ánægja áhorfendanna, í þessu tilviki barnanna, sé notuð sem mælistika á hvernig efnið er unnið. "Sálfræðingar og menntunarfræðingar hafa alltaf lagt megináherslu á þroska- og þekkingarfræðilegt gildi leikja og leikfanga, hvort leikurinn víkki sjóndeildarhring barnsins og kenni því eitthvað nýtt um heiminn og tilveruna," segir hún - svolítið eins og hún væri fremur hlynnt því - á bls. 14. En Latibær hefur reyndar mjög afdráttarlausan boðskap að flytja og gerir mjög eindregna tilraun til að reyna að fá áhorfendur til að sjá hlutina frá nýju sjónarhorni. Eins og til dæmis með þeim orðaleik að kalla grænmeti "íþróttanammi", og reyna þannig að sýna grænmetið í alveg nýju ljósi. Meginboðskapur Latabæjar er alveg nauðaeinfaldur: Maður á að iðka íþróttir. "En verður það gert með enn einum afþreyingarþættinum og fjölmörgum fylgihlutum?" spyr Dagný á bls. 21. Er þetta ekki "ódýr lausn á mjög alvarlegu og dýru vandamáli"?

Án þess að ég hafi sérstaklega verið ráðinn fjölmiðlafulltrúi Latabæjar ætla ég að leyfa mér að efast um að framleiðendur þáttanna telji sig vera að bjóða allsherjarlausn á vandanum. Ég held að það geti bara vel verið að þeir séu í fyllstu einlægni að leggja fram sinn túkall, og þykist ekki vera að gera neitt meira. Þannig að ég veit ekki nema Dagný sé þarna að seilast of langt í gagnrýninni.

Titillinn á grein Dagnýjar, "Latibær er skyndibiti", er grípandi, en hvergi í greininni er þessa fullyrðingu að finna, né útleggingu á henni. Kannski á titillinn að vera einskonar lykill að greininni, súmmera upp boðskapinn í henni, eins og ljóðskáld gerðu gjarnan hér í eina tíð er þeir gáfu ljóðum sínum nöfn. Það má vera að þetta sé rétt hjá Dagnýju, en gleymum því þá ekki að það er einn nammidagur í viku. Jafnvel hörðustu næringarfræðingar eru til í að leyfa það. Sumir segja meira að segja að nammi einu sinni í viku sé hollt.


Á þreifurunum

Kaktusblóm

Viðhorf, Morgunblaðið, 28. nóv, 2006

Það var afar athyglisvert hvernig séra Jóna Hrönn Bolladóttir komst að orði í viðtali í Morgunblaðinu á sunnudaginn þegar hún sagði að það væri eins og sum börn "færu í gegnum lífið á þreifurunum" vegna þess að þótt foreldrar þeirra sinni vel grunnþörfum þeirra leggi foreldrarnir ekki rækt við að innræta börnunum neitt gildismat, og því geti börnin ekki fundið neina sannfæringu í eigin brjósti sem þau geta byggt á til að vita hvað sér beri að gera og hvað megi ekki gera.

Ég er ekki frá því að sú kynslóð sem núna er að ferma börnin sín (það er kynslóðin okkar Jónu Hrannar) hafi einmitt um það leyti er hún tók út vitsmunaþroska sinn fengið þau skilaboð frá helstu opinberu áhrifaöflunum í menningar- og menntalífinu að það ætti einmitt að láta börnin "uppgötva sinn eigin sannleika", og ef reynt væri að halda að þeim einhverjum fyrirfram mótuðum sannleika væri verið að svipta þau frelsi til að verða þau sjálf. Slíkt var "félagsleg innræting", og þótti afskaplega ljótt. Gott ef ekki beinlínis smáborgaralegt og þjónkun við "feðraveldið".

Forsendan fyrir þessari afstöðu sem mörg helstu vitsmunaljósin héldu á lofti á sínum tíma var sú hugsun, að gildismat kynslóðar foreldranna væri alls ekki sannara en eitthvert annað gildismat. Ef grannt væri skoðað kæmi í ljós að öll "gildismöt" væru jafnrétthá, og börnin ættu að fá að ákveða sjálf hvert þeirra - ef eitthvert - þau gerðu að sínu.

Menn voru á þessum tíma alveg óskaplega uppteknir af því í háskólum að "afhjúpa" undirstöðuleysi borgaralegs gildismats. Hugmyndir '68-kynslóðarinnar héldu innreið sína í fræðaheiminn. Menn lögðu sig fram um að vera miskunnarlausir í upprætingu þeirrar lygi að borgaralega gildismatið væri byggt á einhverjum algildum siðferðilegum sannleika. Nei, sýnt var fram á að það gildismat væri bara ein af mörgum svonefndum "stórsögum", eins og það hét á póstmódernistamáli.

Eins og ungum kynslóðum er tamt gleyptum við í okkur nýju sannindin og dáðumst að postulunum sem voru svo gáfaðir að þeir sáu í gegnum allan blekkingavefinn, og svo fórum við út á lífið syngjandi baráttusöng þessa tíma, Pink Floyd: "Við þurfum enga kennslu, við þurfum enga hugsunarstjórnun." Sú kaldhæðnislega þversögn að það var einmitt verið að kenna okkur að "sjá í gegnum" meintar lygar og stýra hugsun okkar inn á ákveðna braut fór langt fyrir ofan höfuðið á okkur.

Enn lengra fyrir ofan skýjaglópahöfuðin flaug sú viska að það var í rauninni verið að kenna okkur gildismat sem gekk út á að hafna öllu gildismati sem þvingunum. Sú hugsun sem okkur var kennd fól því í sér sjálfstortímandi þversögn, og þeir sem ekki voru svo heppnir að hafa fengið hollt og undirstöðuríkt hugmyndanesti úr foreldrahúsum urðu þessari vitsmunalegu sjálfstortímingu að bráð. Frelsið til að segja nei - til að hafna gildismati - hafði snúist upp í andhverfu sína, skyldu til að segja nei - bann við öllu gildismati.

Einn helsti postuli þessarar hugmyndafræði var og er bandaríski heimspekingurinn Richard Rorty. Hann hélt því fram að þar sem ekkert gildanet væri sannara en annað myndi maður einfaldlega bara velja sér sjálfur það net sem hentaði hverju sinni, eða það sem skipaði manni í einhvern tiltekinn hóp. Hugsunin í þessu var sú, að það sé sjálfstæð og frjáls ákvörðun hvers einstaklings að skipa sér í hópinn, að gera gildismatið að sínu.

Frelsið var ekki síst fólgið í því að einstaklingurinn átti að geta slitið sig úr netinu ef honum byði svo við að horfa. Þessi svokölluðu net, eða kerfi, voru útskýrð með því að líkja þeim við leik. Allir leikir hafa reglur sem þátttakendur verða að fylgja til að leikurinn gangi upp. Maður getur ákveðið sjálfur hvort maður tekur þátt eða ekki, en ef maður tekur ákvörðun um að taka þátt verður ekki vikist undan að hlýða þeim reglum sem gilda í leiknum.

Þetta var allt saman mjög svalt að sjá. Með þessu mátti komast hjá innrætingu og nauðung, en samt gera kröfu um að reglum væri framfylgt. Fljótlega fór þó að verða vart einhverra óþæginda og tilfinningar fyrir því að eitthvað gengi ekki upp í líkingunni. Svo fór, að þessi smávægilegu óþægindi urðu að illyfirstíganlegu vandamáli sem mátti orða svona: Á hverju á að byggja ákvörðunina um hvort og þá hvaða leikur skuli leikinn?

Það kom nefnilega á daginn að til að taka sjálfstæða ákvörðun þarf maður að hafa gildismat sem maður efast ekki um, og getur ekki horfið frá. Búi maður ekki að slíku lendir maður í þeirri kreppu sem mér fannst Jóna Hrönn lýsa svo vel með þreifaralíkingunni. Það dapurlegasta af öllu er þó kannski það, að við (sem núna erum að ferma börnin okkar) höfum í góðri trú og af fyllstu einlægni forðast að innræta börnunum okkar nokkurn skapaðan hlut, vegna þess að okkur var sjálfum kennt að ef við gerðum það værum við að ganga erinda illra afla, og gera börnin okkar "just another brick in the Wall".

Þótt ég verði að viðurkenna að ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að hugmyndafræðin sem flæddi um hinn vestræna menntaheim með '68-kynslóðinni sé einhver mesta vitleysuvæðing sem orðið hefur á síðari árum er ég alveg sannfærður um að það er vitatilgangslaust að kenna einhverjum um þessa kreppu sem börn minnar kynslóðar virðast núna vera í. En ég er líka sannfærður um - og það er enginn leikur sem ég hef valið mér sjálfur - að við þurfum að kenna þeim annað gildismat en að gildi séu hlekkir.


Guðmunds í eignarfalli

Viðhorf, Morgunblaðið, 21. nóvember 2006

Ég varð fyrir barðinu á mannanafnanefnd um daginn. Að vísu ekki þessari einu sönnu, heldur einskonar prívatútgáfu af henni. Þannig var að kollegi minn spurði hvort Guðmundur væri Guðmunds í eignarfalli, og ég sagði já. Snemmhendis spratt þá upp í kringum mig sjálfskipuð mannanafnanefnd, eins og hattífattar í þrumuveðri, skók fingur og sagði: Ónei. Guðmundur skal vera Guðmundar í eignarfalli.

Þannig vill til, að ég heiti Guðmundur, og þarna hafði ég þá verið staðinn að því að kunna ekki að fallbeygja nafnið mitt. Eða nánar tiltekið, að vera til í að leyfa að það sé fallbeygt rangt. Sjálfskipaða mannanafnanefndin lagðist alfarið gegn þeim rökum mínum að það hlyti að mega hafa eignarfallsmyndina Guðmunds, úr því að sú mynd er notuð í Guðmundsson. Til vara hafði ég þá afstöðu að fólk mætti bara ráða því hvort það hefði mig Guðmundar eða Guðmunds í eignarfalli. Ég sagðist ekkert myndu kippa mér upp við það að vísað væri til mín sem Kristjáns Guðmunds.

Nei, mannanafnanefndin sem hafði skipað sig í málinu lagðist enn gegn mér. Hvort sem mér líkaði betur eða verr mátti ég ekki heita Guðmunds í eignarfalli. En ég mætti vera Guðmundsson.

Af hverju? spurði ég.

Þetta er bara svona, sagði nefndin.

Mér var farið að líða svolítið eins og ég hefði verið staðinn að einhverju dónalegu. Mér sárnaði, og mér rann líka dálítið í skap og varð einhvern veginn staðráðinn í að heita Guðmunds í eignarfalli. Þó ekki væri til annars en að gefa skít í sjálfskipuð málfarsséní - svoleiðis fólk er óþolandi. En umfram allt var ég staðráðinn í að gefa mig ekki með að Guðmunds-eignarfallsmyndin væri gild vegna þess að það var engin rök að hafa fyrir því hvers vegna hún væri "röng". Það var líka algjörlega óljóst í hvaða skilningi hún átti að vera röng. Frá hinni sjálfskipuðu mannanafnanefnd kom engin útskýring, einungis fullyrðing. Og nefndin vísaði í þykkar bækur máli sínu til stuðnings.

Það er skítt að komast að því að nafnið manns skuli vera óleyfilegt. Vegna þess hve nátengt nafnið er sjálfsmyndinni og sálinni er vegið nærri því sem manni er allra helgast þegar vegið er að nafninu manns.

Í þeirri von að lesandinn hafi ekki þegar afskrifað þessa sögu sem kverúlantahátt og sé hættur að lesa langar mig að víkka aðeins út erindið með þessum pistli. Það er auðvitað ekki annað en að taka undir með þeim fjölmörgu sem lýst hafa eindreginni ánægju sinni með og stuðningi við þá tillögu Björns Inga Hrafnssonar og fleiri að leggja niður mannanafnanefnd. Það er að segja þessa einu sönnu. Hún hefur svo sem aldrei káfað neitt upp á mig, en ég fékk þarna um daginn að reyna á eigin nafni hvað það er fráleitt að opinber nefnd hafi eitthvað með svona ofurpersónuleg mál að gera.

Nú má enginn halda að ég sé að mæla með því að horfið verði frá öllum réttritunarreglum. Ég er hér einungis að tala um mannanöfn. Nöfn eru nefnilega engin venjuleg nafnorð. Þegar barni er gefið nafn er eins og líf þess sé sett í ákveðnar skorður eða samhengi sem barnið losnar aldrei fyllilega við upp frá því.

Ég þekki mann sem oftar en einu sinni bölvaði nafninu sínu, og hélt því fram að foreldrar sínir hefðu gert sér mikinn óleik með því að gefa sér það. Að vísu hafði ég hann lúmskt grunaðan um að hafa þarna fundið leið til að kenna öðrum um þær ófarir sem honum jafnan þótti líf sitt vera, en hver veit, kannski hafði honum alltaf fundist nafnið sitt einhvern veginn asnalegt, og aldrei getað losnað undan þeirri tilfinningu að þar með væri hann sjálfur einhvern veginn asnalegur.

Nöfn eru því svo ofboðslega persónuleg, að um þau hlýtur að gilda það sama og svefnherbergi þjóðarinnar: Ríkið á þangað ekkert erindi. Og alveg sérstaklega ekki vegna þess að vald hins opinbera yfir því hvaða nöfn megi nota og hver ekki getur ef nánar er að gáð aldrei verið byggt á öðru en máltilfinningu þeirra sem skipa mannanafnanefnd hverju sinni.

En það eru til fleiri og öðru vísi rök fyrir því að mannanafnanefnd eigi ekki rétt á sér. Verði hún lögð niður mun það auka líkur á vaxandi fjölbreytni í nafnaflórunni. Ég geri mér grein fyrir því að innflytjendum er ekki lengur skylt að farga nafni sínu, en hvernig er það ef innflytjendur eignast hér barn, mega þeir nefna það "útlensku" nafni? Það hlýtur eiginlega að vera, annað væri gróft brot á mannréttindum. En ef innflytjendur mega skíra börn sín "útlenskum" nöfnum, af hverju mega þá ekki innfæddir gera það líka?

Ef nafnaflóran á Íslandi verður fjölbreyttari en hún er mun það einnig auka umburðarlyndi í samfélaginu, og veitir ekki af einmitt núna. Það er ágæt æfing í umburðarlyndi og tillitssemi að þurfa að spyrja viðmælanda sinn hvernig hann beri fram nafnið sitt eða stafi það, og gera sér grein fyrir því að maður getur ekki undir nokkrum kringumstæðum dregið svarið í efa. Jafnvel ekki þótt manni sýnist viðmælandinn hafa "ranga" eignarfallsmynd á nafninu.

Ég er alveg viss um að mikill meirihluti þjóðarinnar er því sammála að mannanafnanefnd skuli aflögð, og lög um mannanöfn numin úr gildi. Samt er eins víst að tillögur þar um fáist ekki samþykktar á Alþingi. Og þó, nú verða meira og minna kynslóðaskipti á þinginu, og það er einmitt með slíkum skiptum sem djúpstæðar en úr sér gengnar hefðir rofna. Mannanafnanefnd er einmitt slík hefð.


Að líta sér nær

Viðhorf, Morgunblaðið, 14. nóvember, 2006

Ég verð að viðurkenna að í langan tíma hefur fátt komið mér jafn mikið á óvart og niðurstöður könnunar, sem birtar voru í Fréttablaðinu um daginn, um afstöðu Íslendinga til hvalveiða. Rétt tæplega sjötíu prósent lýstu sig fylgjandi veiðunum. Kannski er það bara ég sem er svona laus við að hafa tilfinningu fyrir almenningsálitinu (enda er ég ekki í pólitík) en ég hef nú samt heyrt af fleirum sem komu jafn gjörsamlega af fjöllum.

Hvað veldur því að þessi niðurstaða kemur manni svona á óvart? Á hvaða grundvelli hefur maður myndað sér skoðun á því hver afstaða Íslendinga almennt sé til hvalveiðanna - og yfirleitt annarra mála sem eitthvað fer fyrir í samfélaginu? Ég ætti nú líklega ekki að þurfa að leita lengi, þar sem svarið blasir við: Af mínum eigin starfsvettvangi, fjölmiðlum. Og það sem meira er í þessu tilviki, kannski úr fréttum sem ég hef skrifað sjálfur um hvalveiðarnar.

Samt hefði ég ekki hikað við að fullyrða, ef ég hefði verið inntur álits, að það væri einungis lítill minnihluti þjóðarinnar sem væri hlynntur hvalveiðunum. Kannski í mesta lagi 30 prósent. En ef eitthvað er að marka áðurnefnda skoðanakönnun hefur greinilega eitthvað verulega mikið farið fram hjá mér.

Sú mynd sem íslenskir fjölmiðlar hafa dregið upp af deilunum um veiðarnar hefur, í ljósi þessarar skoðanakönnunar - sem ég skal viðurkenna að ég veit ekki hversu marktæk var - verið snarbjöguð. Svo einfalt er það. Af þessari mynd hefur mátt ráða, sem ég og gerði, að meirihluti þjóðarinnar væri andvígur veiðunum. Ég hefði ekki hikað við að fullyrða að svo væri.

(Ef lesandinn er algerlega ósammála þeirri gjafaforsendu minni að fjölmiðlar hafi gefið ranga mynd af almenningsálitinu í ljósi títtnefndrar skoðanakönnunar þarf hann ekki að fara lengra og getur hætt að lesa þennan pistil núna).

Þetta gefur ef til vill tilefni fyrir fréttamenn og skraffinna fjölmiðlanna til að staldra við og líta sér nær. Spyrja sem svo: Hvað klikkaði? En það verður líklega ekki gert. Það verður að segjast eins og er, að við fjölmiðlungar erum ekkert sérstaklega gefnir fyrir naflaskoðanir, og við erum yfirleitt á alltof mikilli hraðferð til að mega vera að því að velta fyrir okkur mistökum og jafnvel læra svolítið af þeim.

Nú og svo getur líka vel verið að flestir kollegar mínir séu því einfaldlega ósammála að eitthvað hafi farið úrskeiðis, og þá er eðlilegt að þeir sjái enga ástæðu til að vera með eitthvert allsherjar mea culpa.

Samt ætla ég að endurtaka spurninguna: Hvað klikkaði? Það kemur nefnilega ýmislegt til greina. Til að byrja með má nefna það sem væri alvarlegast fyrir okkur fréttafólk, það er að segja sá möguleiki að meirihlutinn í okkar eigin stétt sé andvígur hvalveiðunum og að þess vegna höfum við haft tilhneigingu til að flytja fréttir af þeim viðhorfum sem endurspegla okkar eigin, það er að segja andstöðu við veiðarnar. Ef þetta er raunin er það eiginlega svo alvarlegt mál að ég treysti mér ekki til að fara nánar út í það hér.

Annar möguleiki er sá, að við höfum gerst sek um að leita ekki nægilega vel eftir öllum viðhorfum, heldur höfum látið duga að reka hljóðnemann upp í loftið og láta hann nema þá rödd sem hæst talaði. Þetta er auðvitað afskaplega auðveldur háttur til að hafa á fréttaöflun, en um leið er þetta óttalegur slóðaháttur.

En það verður að segjast eins og er, að fjölmiðlar eru ákaflega ginnkeyptir fyrir hávaðamönnum og þeim sem tala af miklum sannfæringarkrafti. Slíkir menn eru eins og persónur í skáldsögum, og með því að leiða þá fram er hægt að bjóða áhorfendum og lesendum upp á grípandi drama. Hver vill það ekki?

Þessu til staðfestingar dugar að benda á þau ógrynni umræðuþátta sem ýmist eru að koma eða fara á sjónvarpsstöðvunum, að ógleymdum sunnudagsþættinum sem lengi hefur lifað á ofurskrautlegri en vitainnihaldslausri munngolunni úr umsjónarmanninum. Þessir þættir snúast ekki um það sem sagt er í þeim, heldur eru eins konar vitsmunalegt nautaat þar sem áhorfendur verða spenntir yfir því hvort einhverjum umræðuþátttakanda takist að reka annan á hol (eða öllu heldur gat). Þetta er með öðrum orðum sófismi.

Líklega var það þetta sem klikkaði. Raddirnar sem yfirtóku umræðuna í fjölmiðlum voru raddir skraffinnanna sem alltaf tala hátt og að því er virðist af heilagri sannfæringu. Raddir þeirra sem spurðir voru í áðurnefndri skoðanakönnun heyrðust aldrei. Og svo vildi til, að mikill meirihluti skraffinnanna er andvígur hvalveiðum og þess vegna varð heildarmyndin, sem fjölmiðlar drógu upp, bjöguð.

Það er ekki við sannfærðu hávaðamennina að sakast. Og ekki heldur alla hina (meirihlutann) sem höfðu skoðun sína í hljóði. Það voru fjölmiðlarnir sem klikkuðu. Hið yfirlýsta hlutverk þeirra er að endurspegla samfélagið, en í þessu tilviki tókst þeim það ekki. En eins og ég sagði áðan, það breytir engu. Það verður haldið áfram á sömu braut, vegna þess að íslenskum fjölmiðlungum myndi aldrei detta í hug að viðurkenna að þeim hafi orðið á í messunni.

Sem er afskaplega slæmt vegna þess að einmitt núna er í uppsiglingu annað deiluefni í þjóðfélaginu sem æskilegt væri að fjölmiðlar myndu gefa nokkurn veginn óbjagaða mynd af. Þar á ég við afstöðuna til innflytjenda. Hávaðamennirnir og fólkið með heilögu sannfæringuna er þegar byrjað að þenja sig og krefjast athygli. Að þessu sinni ætla ég að reyna að heyra í einhverjum öðrum.


Vísindi og trú

Viðhorf, Morgunblaðið, 8. nóvember, 2006.

Getur verið að vísindi og trú eigi eitthvað sameiginlegt? Fyrir utan það að hvort tveggja er alltumlykjandi kerfi sem ætlað er - eða var upphaflega ætlað - að leita hins endanlega sannleika. Einhver sagði (kannski var það lygi) að útskýringin á "science" í gamalli Brittannicu hafi einfaldlega verið "sannleikurinn".

Það má finna að minnsta kosti tvennt sem vísindi og trú eiga sameiginlegt fyrir utan það að vera kerfi til að finna sannleikann: Hvorugt er lýðræðislegt, og hvorugt gengi upp án skírskotunar til yfirvalds. Vísast má finna ýmislegt fleira, en látum þetta duga í bili og athugum nánar.

Að vísu þarf líklega ekki að fara nákvæmlega út í það með hvaða hætti trú er hvorki lýðræðisleg né fengist þrifist án yfirvalds. En vísindi? Var það ekki meirihlutaákvörðun á vísindamannaþingi núna um daginn sem svipti Plútó reikistjörnutitlinum? Sumir héldu því jafnvel fram að þetta hefði verið pólitísk ákvörðun, fremur en vísindaleg.

Er það ekki einmitt frelsi vísindanna undan yfirvaldi sem gerir þau svo miklu áreiðanlegri en trúna? Eru ekki skynsemin og sannleikurinn einu "yfirvöldin" sem vísindin lúta? Þegar uppgangur vísinda og tækni var sem mestur í byrjun síðustu aldar ríkti sannkölluð "vísindatrú". Þeir voru álitnir hinir mestu kverúlantar og afturhaldshjassar sem ekki viðruðu óhefta sannfæringu sína um að vísindin og tæknin myndu leysa allan vanda mannkynsins.

Þetta er gömul saga sem óþarft er að klifa á. Núna er það viðtekin skoðun að árangur í vísindum og tækni hafi verið mikill, en fáir eru ennþá sannfærðir um að vísindin geti (að minnsta kosti í prinsippinu) leitt mannkynið í allan sannleika um það sem vert er að vita. Þessi skoðun er svo viðtekin, að jafnvel páfinn hefur hana. Á fundi í Vísindaakademíu Páfagarðs í fyrradag sagði Benedikt að "maðurinn [geti] ekki treyst vísindum og tækni svo fullkomlega og skilyrðislaust að trúa því að vísindalegar og tæknilegar framfarir geti útskýrt allt og fullnægt alveg tilvistarlegum og andlegum þörfum hans".

En að hvaða leiti eru vísindin lík trúnni, og í hverju eru takmarkanir þeirra helst fólgnar? Í bókinni Vísindabyltingar (sem væntanlega kemur út í íslenskri þýðingu undirritaðs í lærdómsritaröð bókmenntafélagsins á næsta ári) gerði bandaríski heimspekingurinn Thomas Kuhn grein fyrir tvennskonar vísindum. Annarsvegar því sem hann nefndi "venjuleg vísindi" og hins vegar "byltingarkenndum vísindum".

Það sem hér skiptir máli, er að svo að segja öll vísindi eru "venjuleg", eða skipulögð. Þau byltingarkenndu eru eðli sínu samkvæmt ekki stunduð á skipulagðan hátt. Öll þau vísindi sem fregnir berast af dags daglega, og öll vísindi sem stunduð hafa verið á Íslandi, svo dæmi sé tekið, eru venjuleg.

Og í venjulegum vísindum gilda strangar reglur, þar er farið eftir ákveðnum aðferðum og þar er yfirvald reyndra manna jafnan ekki dregið í efa. Það er ekki samkomulagsatriði hvort vísindalegri aðferð skuli fylgt, og það er ekki atkvæðagreiðsla sem sker úr um hvort vísindaleg tilraun skilar tilætluðum árangri. Svona "kreddufesta" er forsenda þess að vísindi séu marktæk og skili árangri. En "kreddufestuna" eiga vísindin sameiginlega með trúnni.

Líkt og kreddufesta er bæði forsenda trúar og helsta fótakefli hennar er hin stranga vísindalega aðferð bæði forsenda vísindanna og helsta fótakefli þeirra í leitinni að sannleikanum. Um miðja síðustu öld gerði þýski heimspekingurinn Hans-Georg Gadamer ítarlega grein fyrir þessu eðli vísindanna, aðferðar þeirra og sannleikans, í bókinni Sannleikur og aðferð.

Ólíkt kennara sínum, Martin Heidegger, hafnaði Gadamer þó ekki vísindum og tækni. En vísindalegri aðferð, sagði hann, verður ekki beitt til árangurs á öllum sviðum mannlífsins, og hún getur ekki leitt allan sannleika í ljós. Til dæmis fær hún engu áorkað þegar útskýra skal þann sannleika sem finna má í miklum listaverkum. Það er vegna þess að sá sannleikur sem um ræðir er fólginn í upplifun einstaklingsins, sem aftur ræðst af sögubundinni mótun hans. Sannleikur verksins er ekki fólginn í því sjálfu. Það má útskýra listaverk endalaust, en útskýringin nær aldrei utan um sannleikann sem verkið segir, því hann er ekki í því sjálfu.

Allt er þetta líka vel þekkt saga sem óþarft er að fara náið í. Þeir Kuhn og Gadamer áttu hvor með sínum hætti (og hvor í sinni heimsálfunni) stóran þátt í að gera grein fyrir þeim takmörkunum sem vísindin eru háð, og núna eru hugmyndir þeirra næsta viðteknar. Þær eru þó alls ekki óumdeildar, og kannski bendir ýmislegt til þess að vísindin séu á ný - ekki síst vegna árangurs er náðst hefur í erfðafræði, einræktun og stofnfrumurannsóknum - að öðlast svipaðan sess og þau höfðu í byrjun tuttugustu aldar.

Til marks um þennan uppgang vísindanna má reyndar hafa sterk viðbrögð þeirra sem aðhyllast kenninguna um svokallaða "vitsmunahönnun", og hafa látið verulega til sín taka í bandarísku skólakerfi á undanförnum árum. Þeir hafa fyrst og fremst verið að bregðast við því sem þeim finnst vera yfirgangssemi hins vísindalega lífsviðhorfs, og tillitsleysi þess við önnur lífsviðhorf. Auðvitað hefur það ekki sakað fyrir þá, að hafa forsetann sín megin.

En núna eru menn reynslunni ríkari, og villast ekki út á sama hála ísinn og fyrir einni öld, þegar allt mátti leysa með því að gera það vísindalega, og meira að segja var gerð tilraun til að byggja upp "vísindalegt" þjóðfélag (það hét Sovétríkin). Nú hafa menn varan á. Eða hvað?


Trúgirni og trúarþörf

Blátt

Viðhorf, Morgunblaðið, 31. október, 2006.

Á trúarþörf fullorðins fólks sér rætur í trúgirni barnsins? Er fullorðið fólk sem ekki getur hafnað tilvist æðri máttarvalda einfaldlega að endurupplifa hvöt barnsins til að hlýðnast foreldrum sínum? Getur verið að börnum sem hlýða fullorðnum hafi í gegnum tíðina farnast betur en börnum sem hafa óhlýðnast og þannig hafi “hlýðnigen” fremur komist af í þróunarsamkeppninni en gen þeirra sem óhlýðnast?

Allt kann þetta að vera að einhverju leyti rétt, en vart verður þessum spurningum nokkurntíma svarað til hlítar. En það er aftur á móti hægt að gera nokkra grein fyrir þeim mun sem er á trúgirni og trúarþörf. Á þessu tvennu held ég að sé reginmunur, og hann helstur sá, að trúgirni felur í sér ógagnrýnið samþykki, en trúarþarfar verður vart vegna upplýstrar og gagnrýninnar yfirvegunar.

Að óathuguðu máli kann að virðast sem trúarþörf stafi af vanþekkingu og ógagnrýnu samþykki við gömlum hefðum og boði yfirvalds, það er að segja kirkjunnar. Útlit er fyrir að þann sem finnur til trúarþarfar skorti þekkingu eða forvitni til að leita sjálfur svara við þeim spurningum sem á hann leita um lífið og tilveruna, og í staðinn taki hann einfaldlega með ógagnrýnum hætti á móti þeim “svarapakka” sem trúin veitir.

En fyrst og fremst er kannski útlit fyrir að sá sem trúir hafi einfaldlega ekki vitsmuni eða dug í sér til að hlýða kalli Immanúels Kants og voga sér að beita sinni eigin skynsemi – hugsa sjálfur. Í staðinn verður ofan á hlýðni barnsins við foreldra og yfirvöld (að viðlagðri refsingu), og hinn fullorðni ýtir eigin hugsunum og jafnvel sannfæringu til hliðar og fer að boði annarra. Ekki vegna þess að þetta boð annarra sé í sjálfu sér réttara og betra en boð manns eigin hugsana, heldur einfaldlega vegna þess að hinn ytri þrýstingur ber manns eigin sannfæringu ofurliði.

Við þetta viðhorf til trúarþarfarinnar er þó ýmislegt að athuga. Til dæmis virðist það gera ráð fyrir að boð yfirvaldsins (eða samfélagsþrýstingurinn) stangist á við rödd skynseminnar í brjósti einstaklingsins. Svo þarf alls ekki að vera. Það er meira að segja ekki ólíklegt að þessi innri rödd skynseminnar sé að mestu mótuð af ytri röddum samfélagsins og því eins líklegt að þessar raddir séu fullkomlega sammála. (Og má ekki meira að segja ætla að þegar málum er þannig farið séu mestar líkur á að einstaklingurinn verði hamingjusamur? Þegar hann lifir lífi sínu í samhljóm með öllum hinum í kringum hann?)

Ekki þarf heldur að hugsa málið lengi til að ljóst verði að ekkert bendir til að meiri líkur séu á að voðaverk séu framin í nafni æðri máttarvalda en að eigin frumkvæði þeirra einstaklinga sem verkin fremja. Meira að segja má ætla að í mörgum tilvikum sé skírskotun til æðri boða ekki annað en skálkaskjól manna sem í raun og veru eru reknir áfram af persónulegum hefndarþorsta eða illsku.

Eflaust mætti fara nánar ofan í gagnrýnisviðhorfið til trúarþarfarinnar og þjarma að því, en það verður ekki gert hér. Gegn þessu viðhorfi er aftur á móti teflt þeirri afstöðu til trúarþarfarinnar að hún sé afsprengi ítarlegrar yfirvegunar og gagnrýninnar hugsunar. Sterk trúarþörf sem ekki verður vikist undan kemur fram þegar ljóst er orðið hversu skammt mannleg skynsemi hrekkur, og hversu takmarkað gildi það hefur í sjálfu sér að hafa þá grundvallarreglu í heiðri að taka jafnan eigin hugmyndir fram yfir hugmyndir annarra.

Það blasir við hvernig það getur verið í hæsta máta skynsamlegt að víkja eigin skynsemi og hugmyndum til hliðar og þiggja ráð annarra og fara að boðum þeirra. Hér þarf ekki að nefna annað en svo hversdagslega athöfn sem það að fara til læknis þegar maður finnur til. Það er óskynsamlegt – beinlínis lífshættulegt – að fara ekki til læknis þegar maður finnur óúskýrðan verk fyrir brjóstinu. Og það er líka óskynsamlegt að fara ekki að því ráði sem læknirinn veitir, jafnvel þótt maður skilji ekki alveg forsendurnar fyrir því.

Ég er ekki að halda því fram að læknar, eða aðrir sérfræðingar, séu óskeikulir. Ég á við að það er manns eigin, upplýsta ákvörðun að fylgja boði þeirra, og sú ákvörðun er byggð á vitundinni um að manns eigin þekking á því máli sem um ræðir (til dæmis starfsemi líffæra) sé minni og óáreiðanlegri en þekking læknisins á þessu tiltekna máli. Þannig er þetta upplýst og skynsamleg ákvörðun, þótt hún feli í sér að manns eigin hugmyndum og skynsemi sé ýtt til hliðar og boðum og skynsemi yfirvalds hlýtt í staðinn.

Það er einmitt með þessum hætti sem trúarþörf skilur sig frá trúgirni. Trúarþörf er gagnrýnin og upplýst afstaða til manns sjálfs, og manns eigin máttar og þekkingar. Gagnrýnin og upplýst afstaða til þess sem trúað er á getur síðan fylgt í kjölfarið. En ég held að gagnrýnin afstaða til manns sjálfs sé forsenda þess að hægt sé að taka eignlega gagnrýna afstöðu til trúarinnar. Að taka gagnrýna afstöðu til trúarinnar áður en maður tekur gagnrýna afstöðu til sjálfs sín er hroki.

Kannski myndi einhver segja þetta sýna að trúarþörf stafi greinilega bara af skorti á sjálfstrausti og/eða brotinni sjálfsmynd. Þeir sem finni til trúarþarfar eigi því fremur að leita til sálfræðings en prests. Og víst er um það að ekki er óhjákvæmilegt að maður finni til trúarþarfar ef maður vegur og metur eigin skynsemi, þekkingu og mátt. Þeir eru áreiðanlega ófáir sem við slíka skoðun komast að því að ekkert sé þeim ofviða. Slíkt fólk er öfundsvert og þarf enga trú. En ég held að það sé einfaldlega staðreynd að hinir eru fleiri, sem lærist af biturri reynslu að þeir vita sjaldnast sjálfir hvað er þeim fyrir bestu.


Afmæli bókar

Brandó

Viðhorf, Morgunblaðið, 24. október, 2006.

Eitt af umræðuefnum íslenskra "intellektúala" síðastliðið sumar var heimsókn breska fræðingsins Richards Dawkins sem hingað kom og boðaði trúleysi. Eða öllu heldur ræddi um þá kenningu sína að trúarbrögð hefðu í gegnum tíðina verið undirrótin að flestum þeim voðaverkum sem mennirnir hefðu unnið og að það væri best að við myndum losa okkur við þau.

En Dawkins var ekki aðeins í sviðsljósinu hérna á Íslandi í sumar, vegna þess að í ár eru þrjátíu ár liðin síðan bókin sem gerði hann heimsfrægan kom fyrst út. Af því tilefni kom bókin, sem ber þann afskaplega grípandi titil Sjálfselska genið (The Selfish Gene), út í afmælisútgáfu. Einnig hefur allmikið verið um hana fjallað í erlendum fjölmiðlum.

Því miður var Dawkins lítið spurður út í þessa bók í viðtölum sem tekin voru við hann í Íslandsheimsókninni. Hin umdeilda kenning hans um illsku trúarinnar átti hug og hjörtu allra sem við hann ræddu. En hefði ekki verið hægt að tvinna þetta saman - það er að segja blanda kenningu hans um sjálfselska genið inn í umræðuna um meinta illsku trúarinnar?

Kenningin sem Dawkins setti fram í bókinni frægu er í sem stystu máli á þá leið að við mennirnir, "og öll önnur dýr séum vélar búnar til úr genunum í okkur", og að þessi gen sem við erum úr hafi lifað af miskunnarlausa samkeppni við önnur gen í gegnum þróunarsöguna. Af þessu segir Dawkins að draga megi þá ályktun að mikilvægasti og sterkasti eiginleiki þessara gena sem við erum gerð úr og hafi borið sigur úr býtum í samkeppninni hljóti að vera "miskunnarlaus sjálfselska", eins og hann segir í upphafi bókarinnar.

Rétt er að taka fram, eins og Dawkins gerir sjálfur, að þetta er ekki siðfræðirit. Það væri að misskilja bókina algjörlega að halda að hann væri að mæla fyrir einhverskonar félagslegum darwinisma. Hann er öllu heldur að velta því fyrir sér hvaða eiginleikar tryggi dýrum afkomu í þeirri samkeppni - sem fer að öllu leyti fram utan og handan við siðferðisleg lögmál - sem þróun dýrategunda er.

Og niðurstaðan, eða meginályktunin hjá Dawkins, er eitthvað á þá leið að það hljóti að vera eiginleikar sem lýsa megi með orðum eins og sjálfselska, eða öllu heldur það sem kalla mætti "líffræðileg sjálfselska", sem er ekki það sama og siðferðisleg sjálfselska. Og það er einmitt þetta sem hefði verið gaman að spyrja hann út í í sambandi við trúmál.

Það er að segja getur ekki verið að trúarþörfin búi í genum mannsins og hafi þannig gengið í erfðir og að þeir einstaklingar sem hafa fengið þessari þörf svalað hafi staðið betur að vígi í miskunnarlausri þróunarsamkeppninni en þeir sem ekki hafi annaðhvort haft þessa þörf eða hafi haft hana en ekki fengið henni svalað?

Það hefði verið gaman að spyrja Dawkins um þetta, þótt ekki væri nema vegna þess að þannig hefði verið hægt að velta svolítið vöngum yfir því hvort mótsögn væri að finna milli hans eigin kenninga, annarsvegar um trúmál og hinsvegar um líffræði.

Ég held að þetta séu ekki aðeins hártoganir í þrasgjörnum blaðamanni. Ýmsir fræðimenn hafa velt því fyrir sér hvort trúarþörf mannsins sé beinlínis líkamleg, það er að segja hvort "guð búi í heilanum". Síðast í sumar rakst ég á frétt á vef BBC þar sem einhverjir vísindamenn sögðust hafa hrakið þá kenningu. Það væri engin "guðs-stöð" í heilanum.

En trúarþörfin þarf ekki nauðsynlega að vera líkamleg til að geta haft áhrif á afkomumöguleikana í þróunarsamkeppninni. Ef til vill er nóg að þessi þörf sé sálræn. Það er auðvelt að gera sér í hugarlund hvernig trú á æðri máttarvöld getur létt manni lífið. Burtséð frá því hvort guð getur með áþreifanlegum hætti rétt manni hjálparhönd í stórsjóum lífsins getur trú á hann haft einskonar "lyfleysuáhrif", það er að segja, upplifun manns á hjálpræði guðs verður raunveruleg, og getur þannig haft áhrif á mann - jafnvel líkamleg.

Með þessum hætti má gera sér í hugarlund að trú geti komið sér vel fyrir sjálfselska genið og að það sé beinlínis hluti af sjálfselsku gensins að trúa á guð. Og það sem bendir til að trú hafi í raun og veru hlutverki að gegna við að tryggja afkomu genanna í okkur er sú staðreynd að svo virðist sem flestar manneskjur sem komist hafa áfram í þróunarsamkeppninni - það er að segja það fólk sem nú er til á jörðinni - trúi á guð.

Ef trú á guð er jafn slæm fyrir okkur og Dawkins fullyrti í Íslandsheimsókn sinni, væri þá ekki líklegt að þeir sem slegnir hafa verið þessari "óáran" hefðu dáið út en hinir komist af sem væru lausir við þennan galla? Allur meginhluti mannkyns trúir nú, með einum eða öðrum hætti, á æðri mátt. Þetta eru sömu einstaklingarnir og orðið hafa ofan á í miskunnarlausri þróunarsamkeppni.

Þessi samkeppni hefur staðið lengi. Hvenær fóru sumir þátttakendanna í henni að trúa á æðri máttarvöld? Gæti verið að það hefði verið um svipað leyti og þessir sömu einstaklingar fóru að verða ofan á í samkeppninni?

Það veit enginn. En hitt er ljóst að þessar vangaveltur hér verða ekki til neinna einfaldra lykta leiddar. Það hefði verið gaman að geta borið eitthvað af þessu undir Dawkins sjálfan, fremur en gleypa bara trúleysisboðskapinn hans eins og nýtt guðspjall.

Börn að leik

Keilir

Viðhorf, Morgunblaðið 17. október 2006. 

Bandarískir barnalæknar sáu ástæðu til þess um daginn að gefa út skýrslu í nafni akademíu sinnar. Skilaboðin í þessari skýrslu voru til foreldra og harla einföld: Börn þurfa að fá að leika sér. Það er nauðsynlegt til að heilinn í þeim vaxi eðlilega og þau nái fullum þroska, líkamlegum, andlegum og félagslegum. Að ekki sé nú minnst á hvað þau hafa gaman að því að leika sér.

Þeirri viðvörun sem ljóslega er fólgin í skýrslunni er fyrst og fremst beint til bandarískra foreldra, sem læknunum þykja margir hverjir fullduglegir við að skipuleggja líf barnanna út í ystu æsar, með þeim afleiðingum að börnin fái orðið lítinn tíma til að leika sér upp á gamla mátann, að legg og skel - nú eða Barbí og Ken eða í löggu og bófa, ef börnin vilja það heldur.

Það er ekki síst athyglisvert sem fram kemur í skýrslu læknanna, að því er segir í frétt frá AFP í síðustu viku, að það sé beinlínis hollt fyrir vöxt heilans í börnum að þau fái að leika sér. En ég held að það sé ekki nóg með að leikur sé forsenda þess að heilinn í börnum þroskist, það má beinlínis halda því fram að leikur sé forsenda þess að börn læri að vera hamingjusöm.

Ekki svo að skilja að læknarnir telji að foreldrarnir séu vísvitandi að gera börnunum illt til að fullnægja eigin löngunum og þrám. Foreldrarnir einfaldlega sjáist ekki fyrir í kapphlaupinu - læðist að vísu að manni sá grunur að oft sé þetta kapphlaup við foreldra annarra barna - við að tryggja börnunum sínum öll hugsanleg tækifæri til að skara fram úr og þroska þá hæfileika sem þau búa yfir.

En þrátt fyrir að þetta sé afskaplega vel meint, segja læknarnir, getur þetta haft þveröfug áhrif og leitt til þess að börnin verði kvíðin, stressuð og jafnvel þunglynd. En þegar börn fái að leika sér frjáls geti þau "beitt sköpunargáfu sinni, þroskað ímyndunaraflið og fínhreyfingar, og aukið líkamlegan, vitsmunalegan og tilfinningalegan styrk sinn". Með leik læri börnin "snemma að takast á við heiminn".

Sem fyrr segir má ráða af fréttum um skýrslu læknanna að henni sé beint til bandarískra foreldra, og þá líklega fyrst og fremst til efnaðra og langskólagenginna foreldra. En það er áreiðanlega alveg sama hvar í heiminum borið er niður, von allra foreldra til handa börnunum sínum, hvort sem um er að ræða efnaða Bandaríkjamenn eða íslenska meðaljóna, er að þau séu hamingjusöm. Líklega væru flestir foreldrar meira að segja reiðubúnir að fórna eigin hamingju til að tryggja börnunum sínum hamingju.

En hvað er hamingja? Ef til vill þykir einhverjum þetta óviðeigandi spurning í þessu samhengi, og ekki annað en ávísun á hártoganir. Vissulega er þetta heimspekileg spurning, og jafnvel sú heimspekilegasta sem til er. En ég held að vangaveltur um börn, þroska þeirra og leik, sé einmitt rétta samhengið til að spyrja hennar í.

Þá á ég ekki við að maður eigi að spyrja börn að því hvað hamingja sé, alls ekki. Þau myndu aldrei geta svarað því. Börn eru ekki góðir heimspekingar. Þau eru hreint alls engir heimspekingar. Heilbrigt barn í andlegu jafnvægi myndi aldrei spyrja hvað hamingja sé. Aftur á móti eru allar líkur á að andlega heilbrigt barn - jafnvel þótt það sé ekki líkamlega heilbrigt - geti verið hamingjusamt. Þannig að þótt börn spyrji ekki hvað hamingja sé geta þau líklega betur en aðrar manneskjur veitt svar við spurningunni, þó að vísu ekki með orðum heldur æði.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að ég er ekki að halda því fram að "barnslegt sakleysi" jafngildi hamingju. Hamingjan er ekki fólgin í sælukenndu vitundarleysi um illsku heimsins. Og hún er ekki heldur fólgin í því að öðlast sem mesta vitsmuni, eins og John Stuart Mill virtist halda fram þegar hann sagði í Nytjastefnunni þau frægu orð að það sé betra að vera óánægður Sókrates en ánægt svín.

Þeir fræðimenn sem nú velta hamingjunni fyrir sér virðast flestir hallir undir það viðhorf að hamingjan sé hvorki eitthvað sem maður hefur (og ætti þar með að geta öðlast með réttri ástundun) né fólgin í því að vera laus undan einhverju, heldur sé hún fólgin í upplifun. Þá eiga þeir ekki við að hún búi í því sem er upplifað (og sé þar með undir því komin að hið rétta sé upplifað), heldur upplifuninni sjálfri. Þetta hefur stundum verið kallað að "vera í flæði" - sem fúslega skal viðurkennt að er hræðileg íslenska, kannski væri nær lagi að tala um að "ná sér á flug".

Það er svo sannarlega erfitt að útskýra á skiljanlegan máta hvað fræðingarnir eiga við með þessu, og þá er gott að geta nefnt dæmi. (Það er alltaf gott í heimspekilegum pælingum að geta nefnt dæmi - og því einfaldara og almennara sem það er, því betra.) Börn sem ná sér á flug í frjálsum leik, hvort heldur ein eða í hóp, eru áreiðanlega tærasta birtingarmynd hreinnar hamingju. Þegar ímyndunaraflið tekur öll völd, og vitund barnsins beinlínis rennur saman við veröld leggsins og skeljarinnar (eða Barbíar og Kens, löggunnar og bófans).

Kannski má orða þetta eitthvað á þá lund, að þegar barnið er í upplifuninni, án þess að vera sér beinlínis meðvitað um að það sé í henni, þá sé komið það ástand sem fræðingarnir virðast nú flestir hallast að sem skilgreiningu á hamingju. Leikur er því ekki aðeins forsenda líkamlegs, andlegs og félagslegs þroska barnanna, hann er forsenda þess að þau læri á unga aldri í hverju hamingjan er fólgin, og viti því þegar þau komast á fullorðinsár hvar og hvernig beri að leita hennar. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband