Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
29.8.2007 | 16:48
Uppreisn í miðborginni
Viðhorf, Morgunblaðið 29. ágúst, 2007
Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi gætti þess vandlega í sjónvarpsviðtali um helgina að bera lof á lögreglumennina sem hann og fleira Samfylkingarfólk hafði farið með á vaktina í miðborg Reykjavíkur þá um nóttina. Dagur tók fram að íslensku lögregluþjónarnir væru hreint ekki eins og kleinuhringjaétandi löggurnar sem maður sér í bandarískum bíómyndum.
Þessi síðastnefnda athugasemd hans var nú dálítið hallærisleg og einhvernvegin skot yfir markið, en það var þó gott hjá honum að tala um það að lögreglan ynni gott og vanþakklátt starf þarna á ófriðarsvæði 101. Mér finnst líka gott hjá Stefáni Eiríkssyni lögreglustjóra að hnykla vöðvana á armi laganna svolítið.
En Dagur hefði í þessu sambandi mátt hafa orð á því sem miklu skiptir þegar friðelskandi borgarbúar hafa nú allt í einu tekið upp á því að höfða til lögreglunnar að skakka næturleikinn í 101, það er að segja smánarlegum laununum sem lögreglumönnunum eru greidd fyrir varðstöðuna.
Það vita allir sem vilja að reyndir lögreglumenn hafa verið að segja upp störfum vegna lélegra launa, en lögreglumennirnir sjálfir ræða það ekki opinberlega, sem er á sinn hátt afskaplega virðingarvert. Þess vegna hefði verið flott hjá Degi að taka upp hanskann fyrir lögreglumennina að þessu leyti, í stað þess að segja eitthvað kjánalegt eins og það að þeir séu ekkert að borða kleinuhringi á næturvaktinni.
Hún er óneitanlega athyglisverð þessi uppreisn sem þögli meirihlutinn virðist nú vera farinn að gera gegn hávaðasama minnihlutanum sem leggur undir sig miðborgina um nætur um helgar, og í skjóli myrkurs og ölæðis veldur þar í besta falli ferlegum sóðaskap og í versta falli eignaspjöllum og alvarlegum áverkum.
Hvað kemur til? Af hverju núna? Tölur benda ekki til þess að ástandið hafi versnað sérstaklega upp á síðkastið. Hvað hefur þá breyst? Líklega er það upplifun fólks á ástandinu í miðborginni sem hefur breyst, og líka er farið að örla á þeirri hugmynd að þetta sé kannski ekki ofureðlilegt og óumbreytanlegt ástand sem maður geti ekki gert annað með en að sætta sig við.
Skyndilega eru málsmetandi miðborgarbúar farnir að tala um að þeir séu jafnvel hálf smeykir í nærumhverfi sínu á nóttunni. Þetta er ekki fólk sem er þekkt að því að reka einstrengingslegan bindindisáróður. Þvert á móti hefur það hingað til talað fyrir umburðarlyndi, frjálslyndi og skemmtilegheitum.
En núna er þetta fólk að því er virðist farið að krefjast síns eigin réttar - til svefnfriðar, þó ekki væri annað. Grein Fríðu Bjarkar Ingvarsdóttur á miðopnu Morgunblaðsins á mánudaginn var metfé. Grípandi lýsing á upplifun hennar á stöðu mála, og slíkt segir mun meiri sögu í þessum efnum en tölulegar staðreyndir, vegna þess að þetta mál snýst um samskipti fólks.
Þegar svo er skipta tölulegar staðreyndir um fjölgun eða fækkun tilkynntra afbrota á tilteknu svæði engu máli. Tölulegar staðreyndir myndu kannski skipta meginmáli ef um kaupsýslu væri að ræða, en þetta eru ekki viðskipti heldur samskipti.
Ég verð þó að segja að ég skil vel viðhorf lögreglumannanna sem Fríða lýsti í greininni. Þeir verða að velja sér orrustur af gaumgæfni og ekki eyða kröftum í það sem er minniháttar vegna þess að alltaf má reikna með að rétt handan við hornið bíði bókstaflega átök þar sem þarf að hafa undir snarbrjálaða menn.
Merkilegt má telja að lögreglumennirnir séu yfirleitt til í slaginn fyrir þau lúsarlaun sem þeir fá. En um þá gildir líklega það sama og aðrar umönnunarstéttir á Íslandi og víðar. (Því að auðvitað eru lögreglumenn að sinna umönnunarstarfi þegar þeir fara heim með meðvitundarlausa unglinga, eða koma í veg fyrir að ölóðir sjóðstjórar og blaðamenn berji hvorir aðra í spað).
Þeir sem eru í umönnunarstörfum láta sig nefnilega oft hafa það að þiggja léleg laun vegna þess að samfélagslegt mikilvægi starfa þeirra er á sinn hátt umbun erfiðisins. (Þó er vægast sagt siðferðislega vafasamt af hálfu valdhafanna að gera út á þetta, eins og þeir virðast gera). Þeir sem aftur á móti sinna störfum sem ekki eru samfélaginu jafn mikilvæg verða hinsvegar að fá öðru vísi umbun, og hún er í langflestum tilvikum í formi auðs og valda, og/eða athygli fjölmiðla og almennings.
Þeir síðarnefndu eru því í raun mun háðari þeim fyrrnefndu en útlit kann að vera fyrir ef fljótt er á litið. Á þetta reynir nú í Reykjavík á fleiri vígstöðvum en einum, og eru miðborgarvígstöðvarnar aðeins eitt dæmi - að vísu afskaplega dramatískt.
Fróðlegt verður því að fylgjast með hvernig orrustunni um miðborgina lyktar. Mun lögreglunni endast mannskapur til að koma á einhverskonar friði, eða neyðast þeir sem friðarins óska til að hækka laun lögreglumanna svo að fjölga megi nægilega í stéttinni til að hún geti haft hemil á villtum borgurum? Að minnsta kosti er það ekki rétta aðferðin að skammast út í lögregluna.
Fríða Björk sagði í grein sinni að það sem ylli ósköpunum í miðborginni væri skortur á velsæmi og tillitssemi. Þar hitti hún naglann á höfuðið. Þess vegna kemur tvennt til greina til að bæta ástandið: Að fara og tala um fyrir næturgestum miðborgarinnar og fá þá til að gæta velsæmis og vera tillitssamir; eða að þeir verði fjarlægðir - þá væntanlega af lögreglunni.
Er líklegt að þessi mannskapur taki fortölum?
27.6.2007 | 07:47
Hlýðnir Íslendingar
Viðhorf, Morgunblaðið 27. júní, 2007
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sagði eitthvað í þá veruna um daginn að hún og einhverjir fleiri íslenskir ráðamenn þyrftu að fara til Mið-Austurlanda vegna ástandsins þar. Það var að vísu óljóst af orðum Ingibjargar hverju hún vonaðist til að fá áorkað í slíkri för, en kannski er tilgangurinn að kenna Ísraelum og Palestínumönnum umræðustjórnmál, þannig að þeir myndu hætta að drepa hvorir aðra.
Að minnsta kosti má telja víst að ef íslenskir ráðamenn fara til Palestínu og láta til sín taka muni ástandið þar skána; gott ef deilan mun ekki áreiðanlega leysast við það eitt að Íslendingar mæta á svæðið.
En alveg án gamans: Áður en Ingibjörg heldur í Mið-Austurlandaför þyrfti hún að minnsta kosti að greina þjóðinni frá því til hvers hún ætlar að fara slíka för, hverju hún vonast til að fá áorkað, öðru en því að kosta miklu til sem að sjálfsögðu greiðist úr vasa íslenskra skattborgara.
Það verður í fljótu bragði ekki séð að íslenskur utanríkisráðherra muni verða til annars en trafala í Mið-Austurlöndum, og slík för myndi ekki skila öðru en vekja athygli á umræddum utanríkisráðherra í heimalandi hans sjálfs. Íslenskir fjölmiðlar myndu að sjálfsögðu verða uppfullir af fréttum af Ingibjörgu í Palestínu, en hún myndi áreiðanlega ekki komast í erlenda miðla.
Ein ferð utanríkisráðherra örþjóðar skiptir nákvæmlega engu í svo stóru samhengi sem Palestínudeilan er. Að halda eitthvað annað er í besta falli barnaskapur, en í versta falli stórmennskubrjálæði.
En Ingibjörg Sólrún er alls ekki eini íslenski ráðamaðurinn sem virðist telja að Ísland geti skipt sköpum á alþjóðavettvangi. Alltaf öðru hvoru má sjá í fjölmiðlum - nú síðast í Morgunblaðinu fyrir viku eða tveim - fréttir af framboði Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
Ég held að ég fylgist ágætlega með fréttum, en það hefur alveg farið framhjá mér hver tilgangurinn með öryggisráðsframboðinu er, og ekki hef ég heldur séð í þessum fréttum stakt orð um hvernig þetta framboð kom til. Hvernig kviknaði þessi stórbrotna hugmynd?
Fregnir af framboði Íslands til ráðsins eru meira eins og fréttir af gengi íslensks íþróttaliðs á erlendu stórmóti, eða í Evróvisjón. Hvaða lönd eru helstu keppinautarnir og hvernig er "strategían?" Hvað þarf að tryggja mörg atkvæði - duga 128? - og hvernig verður best farið að því?
Það sem ég hef saknað úr umfjöllun fjölmiðla um þetta framboð eru útlistanir á tilganginum með því, ástæðunum fyrir því og upptökunum að því. En fjölmiðlar láta eins og þessir þættir séu allir útræddir og ekki lengur um þá deilt. Eins og allir séu sammála um að það sé sjálfsagður hlutur að Ísland reyni að komast í öryggisráðið.
En um öryggisráðsframboð ríkir ekki sama eindrægnin meðal þjóðarinnar og þátttöku í Evróvisjón. Þess vegna verða fjölmiðlar að spyrja þessara spurninga og fá svör ráðamanna við þeim í hvert sinn sem fjallað er um málið. Einungis þannig geta lesendur sjálfir fellt dóma um það hvort þeir telji rétt að Ísland standi í þessu framboði. Ef ekki er fjallað um þessa þætti lítur helst út fyrir að fjölmiðlar séu þátttakendur í heldur ljótum leik ráðamanna, að komast í ráðið hvað sem þjóðin tautar og raular.
Ég vil taka það fram að ég er alls ekki skilyrðislaust mótfallinn því að Ísland bjóði fram til öryggisráðsins. En þar sem ekki blasir beint við hvaða erindi við getum átt á þann vettvang - eins og aftur á móti blasir við að við eigum erindi í til dæmis heimsmeistarakeppnina í handbolta - sakna ég nánari útskýringa. Annaðhvort frá utanríkisráðuneytinu eða fjölmiðlum.
Hver er tilgangurinn með framboði til öryggisráðsins? Að hafa áhrif á alþjóðavettvangi? Gæta hagsmuna Íslands í ráðinu? Hverjir eru þá þeir hagsmunir? Eða er tilgangurinn kannski frekar að vekja athygli á Íslandi á alþjóðavettvangi? Eða að gefa íslenskum ráða- og embættismönnum tækifæri til að sitja alþjóðafundi þar sem teknar eru ákvarðanir um heimsmál á borð við kjarnorkudeiluna við Íran?
Hver er ástæðan fyrir þessu framboði? Er talið að fulltrúar Íslands gætu haft áhrif á ákvarðanir öryggisráðsins? Er talið einsýnt að ráðið hafi ekki verið eins skilvirkt og það gæti verið og þyrfti að vera, og að þörf sé á íslenskri athafnagleði og skipulagshæfni til að breyta því? Eða er ástæðan fyrir framboðinu sú, að íslenska utanríkisþjónustan vill vekja á sér athygli hér innanlands og sýna og sanna fyrir þjóðinni að utanríkisþjónusta skipti máli - því að það er jú augljóst að þjóðin hefur alvarlegar efasemdir um það.
Hvað er langt síðan farið var að ræða um framboð Íslands til öryggisráðsins? Hver voru upphaflega rökin fyrir því að fara í slíkt framboð? Hvenær fór málið af umræðustigi og á framkvæmdastig? Er enn hægt að hætta við framboðið?
Það gertur varla verið að sæti í öryggisráðinu sé nauðsynlegt til að tryggja utanríkishagsmuni Íslands. Þeir hagsmunir eru í raun og veru fólgnir í því einu að falla ekki í ónáð hjá Bandaríkjamönnum. Tryggja þarf að við séum í náðinni hjá þeim, þá er utanríkishagsmunum okkar borgið. Þetta hafa ráðstafanir íslenskra stjórnvalda margoft sýnt og sannað, nú síðast þegar við vorum sett í hóp hinna staðföstu.
Enda sagði Nicholas Burns, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, fyrir skömmu er hann var inntur álits á öryggisráðsframboði Íslands, að honum litist vel á það. Úr frekari orðum hans mátti lesa að hann gerði ráð fyrir að fengju Íslendingar sæti í ráðinu yrðu þeir þar þægir og góðir, og hlýðnir við Bandaríkamenn. Það er að segja, sæti Íslands í öryggisráðinu myndi í rauninni ekki vera annað en aukaatkvæði fyrir Bandaríkin þar.
14.6.2007 | 05:41
Svalt starf
Viðhorf, Morgunblaðið 14. júní, 2007
Hverjar skyldu vera líkurnar á því að kennsla og hjúkrunarfræði verði einhvern tíma eftirsótt störf á Íslandi?
Nei, líklega verður það seint. Morgunblaðið vakti máls á því í leiðara á sunnudaginn að íslenskum hjúkrunarfræðingum þættu störf sín ekki metin að verðleikum. Líklega þýðir það hvort tveggja að launin séu harla lág miðað við hve krefjandi störfin eru, og svo hitt að ímynd starfanna sé ekki sérlega glansandi. Með öðrum orðum, þetta eru ekki svöl störf.
Leiðarahöfundur hvatti til þess að íslenska þjóðin gerði breytingu þarna á og færi að meta þessi störf, sem allir geta verið sammála um að eru líklega með þeim mikilvægari í samfélaginu. Það verður einfaldlega að segjast eins og er, að hjúkrunarfræðingur hefur mikilvægara hlutverki að gegna en fjárfestir. Þjóðfélag getur starfað og haldið uppi ágætum lífskjörum þótt enginn sé þar fjárfestirinn, en án hjúkrunarfræðinga getur þjóðfélag ekki verið. Svona einfalt er málið ef grannt er skoðað.
Þrátt fyrir þetta hafa Íslendingar að því er virðist óseðjandi áhuga á fjárfestunum sínum, húsunum þeirra og einkaþotunum, en um kennarana og hjúkrunarfræðingana vilja Íslendingar helst ekki þurfa að hugsa, að minnsta kosti sýna þeir fréttum af þessum stéttum lítinn áhuga, en áðurnefndir fjárfestar og forstjórar eru eins og kóngafólk á Íslandi.
Hvað í ósköpunum væri hægt að gera til að breyta ímynd hjúkrunarfræðinnar, vekja athygli á henni og veita hjúkrunarfræðingum þá virðingu í samfélaginu sem þeir eiga skilda? Er yfirleitt hægt að breyta þessu með handafli?
Líklega er aðeins eitt ráð til. En það verður að segjast að ekki er mjög sennilegt að til þessa ráðs verði gripið. Hver er ástæðan fyrir fjárfesta- og forstjóradýrkuninni á Íslandi? Jú, þeir eiga svo mikið af peningum. Ef hjúkrunarfræðingar hefðu eins og þrjár til fjórar milljónir í mánaðarlaun gæti virðingin fyrir starfinu þeirra hugsanlega farið að aukast. Það verður einfaldlega að horfast í augu við það, að svona einfalt er málið. Allt tal um aðrar leiðir er bara tal.
Leiðarahöfundur Morgunblaðsins höfðaði til nýs heilbrigðisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, í von um að hann gerði hvað hann gæti til að breyta ímynd hjúkrunarfræðistarfsins. Hvað gæti heilbrigðisráðherra gert? Ekki má greiða hjúkrunarfræðingunum hærri laun, þótt af einhverjum ástæðum sé hægt að hækka laun seðlabankastjóranna um hundruð þúsunda eins og ekkert sé.
Nei, það er ekki líklegt að Guðlaugur Þór muni breyta nokkru um ímynd hjúkrunarfræðistarfsins, eða hlutskipti hjúkrunarfræðinga yfirleitt. Það er reyndar ólíklegt að Guðlaugur muni verða sérlega eftirtektarverður heilbrigðisráðherra. Hann hefur sennilega fengið starfið sem einskonar fyrsta skref inn í ráðherrahóp Sjálfstæðisflokksins, og mun í besta falli halda í horfinu.
Ef einhver breyting á heilbrigðiskerfinu er líkleg í ráðherratíð Guðlaugs er það aukin einkavæðing, sem Sjálfstæðisflokkurinn og Morgunblaðið hafa lengið talað fyrir. Ekki er nú líklegt að það auki veg hjúkrunarfræðinnar. Ekki er einkavætt til þess að bæta kjör hjúkrunarfræðinga. Ó nei, það er einkavætt til að auðvelda auðmönnum að njóta auðsins til hins ýtrasta með því að kaupa sér skjóta og fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu.
Hér er ekki verið að halda því fram að ríkisrekstur heilbrigðiskerfisins sé skilvirk leið til að bæta kjör hjúkrunarfræðinga; ég á einungis við að tilgangur aukinnar einkavæðingar er ekki að bæta kjör þeirra eða gera starfið eftirsóknarvert, eins og Morgunblaðið hvetur til að gert verði, heldur er tilgangur aukinnar einkavæðingar að auðvelda auðmönnum lífið.
Með öðrum orðum, einkavæðing í heilbrigðiskerfinu er gerð fyrir auðmenn Íslands, ekki fyrir heilbrigðisstéttir Íslands (nema í þeim tilvikum þar sem þetta tvennt fer saman). Hér á ég ennfremur við, að allar líkur eru á að einu breytingarnar sem nýr heilbrigðisráðherra muni stuðla að í embætti - það er að segja ef hann yfirleitt gerir nokkuð eftirtektarvert - verði auðmönnum til góða, en ekki hjúkrunarfræðingum eða öðrum heilbrigðisstéttum.
Líklega mun svo fara, eins og svo oft áður í sögu Íslands, að björgin kemur að utan. Það verða innflytjendur sem halda uppi heilbrigðiskerfinu og hugsa á endanum um alla íslensku auðmennina þegar þeir, þrátt fyrir allt ríkidæmið, verða veikir eins og annað fólk. Á þetta munu stjórnvöld líklega veðja; að hægt verði að fá innflytjendur til að vinna grundvallarstörf í samfélaginu fyrir lúsarlaun.
Af einhverjum ástæðum verður líklega ekki fremur en verið hefur veðjað á að greiða laun í samræmi við samfélagslegt mikilvægi starfa. Það er þó hugmyndin sem liggur til grundvallar því útbreidda viðhorfi að laun til dæmis hjúkrunarfræðinga og kennara séu of lág.
Það sem virðist öllu heldur ráða því hversu mikið er greitt fyrir störf og hversu glansandi ímynd þau hafa er einfaldlega að hve miklu leyti þau snúast um peninga.
Látum nú vera þótt þetta sé ríkjandi viðhorf meðal þeirra sem starfa í fjármála- og kaupsýslugeiranum. En þetta er líka ríkjandi viðhorf hjá stjórnvöldum, sem sést til dæmis á því að laun seðlabankastjóranna eru hækkuð án þess að svo mikið sem reynt sé að réttlæta það, og í stað þess að hækka laun í heilbrigðisgeiranum á að veðja á að innflytjendur séu til í að koma hingað og sinna umönnunarstörfum fyrir smánarlaun.
22.5.2007 | 07:39
Dramb er falli næst
Viðhorf, Morgunblaðið, 22. maí 2007
Ef sigur Vinstri grænna var ein aðalfréttin úr kosningunum hlýtur stórfréttin úr stjórnarmyndunarviðræðunum að vera stórkostlegt tap VG í þeim. Því vart kemur það mjög á óvart að þeir tveir flokkar sem mest fylgi hafa myndi stjórn.
Hlutskipti VG varð eiginlega þveröfugt við hlutskipti Framsóknarflokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum, þar sem hann tapaði með miklum bravúr, en hafði svo slíkan sigur í stjórnarmyndunarviðræðum að annað eins hefur vart gerst í íslenskri pólitík. Þann leik vildu ýmsir í flokknum endurtaka núna, en segja má að vit hafi verið haft fyrir þeim.
Og ef framsóknarmenn þurfa að hugsa sinn gang alvarlega í ljósi kosningaúrslitanna, og jafnvel stokka upp, hljóta VG að þurfa að líta í eigin barm í ljósi stjórnarmyndunarviðræðnanna, og jafnvel stokka upp líka.
Það hefur verið talað um að skipta þurfi um formann í Framsóknarflokknum, sem yrði skólabókardæmi um það þegar bakari er hengdur fyrir smið, þar sem útreið flokksins í kosningunum stafaði af óánægju kjósenda hans með stefnu sem fyrrverandi formaður mótaði (og til marks um pólitíska hæfileika þessa fyrrverandi formanns var að hann yfirgaf skipið áður en það sökk).
Þeim sem velta fyrir sér framtíð forustu Framsóknar má ekki yfirsjást að núverandi formaður er þegar byrjaður í harla kröftugri stjórnarandstöðu, jafnvel áður en búið er að mynda væntanlega stjórn. Framsóknarformaðurinn er búinn að "vörumerkja" nýju stjórnina á afskaplega neikvæðan hátt, með því að kalla hana Baugsstjórnina. Verður fróðlegt að sjá hver afdrif þessa vörumerkis verða.
Það má vel vera að þetta vörumerki festist við stjórnina, en þó ber til þess að líta að það er ólíklegt að fjölmiðlar grípi merkið á lofti þar sem flokkarnir sem að stjórninni standa geta væntanlega gengið að því vísu að helstu fjölmiðlar landsins verði þeim vilhallir.
En það er alveg öruggt að Framsóknarmenn munu halda þessu á lofti í öllum fjölmiðlum eftir fremsta megni, og það kann að reynast mun áhrifaríkara barefli í stjórnarandstöðunni en kannski svolítið málefnalegri gagnrýni. Þess varð greinilega vart í kosningabaráttunni hvað "vörumerking" er orðin snar þáttur í stjórnmálunum, og getur jafnvel verið mun áhrifaríkari en málaefnaleg umræða.
Vandi Framsóknarflokksins er því líklega ekki forustuvandi heldur miklu fremur fortíðarvandi. Það er ekki nóg með að hann sé sveitó, Framsóknarflokkurinn er með beinagrindur í skápnum, og það er eins og skuggi fortíðar flokksins sé svo dimmur að það sjáist ekki handa skil fram á veginn. Það er engan veginn ljóst hvaða áþreifanlegu ráð koma til með að duga flokknum við tiltektina.
Aftur á móti er það tiltölulega ljóst í hverju vandi Vinstri grænna er fólginn. Ekki er það ímyndarvandi, og ekki verður séð að óhreint mjöl sé í pokahornum. En VG þyrfti að skipta um forustusveit, því að það var hún sem klúðraði stjórnarmyndunarviðræðunum jafnvel áður en úrslit kosninganna lágu fyrir. Í þessu efni má segja að sannast hafi hið fornkveðna, að dramb sé falli næst.
Ef Sjálfstæðisflokkurinn er "vöðvaflokkur," sem þarf sífellt að vera að gera eitthvað áþreifanlegt til að finnast hann vera til, þá má segja að VG sé "vitsmunaflokkur," sem þarf sífellt að vera að tala um eitthvað til að finnast hann vera til. Og flokkurinn hefur talað sig inn í hug og hjörtu stórs hóps kjósenda, og þá kannski einkum og sér í lagi þeirra kjósenda sem telja sig líta heiminn ákaflega gagnrýnum augum og eru því ginnkeyptir fyrir afdráttarlausu og uppsteytssömu orðfæri forustusveitar flokksins.
En það var einmitt þetta afdráttarleysi og þessi uppsteytshneigð sem gerði að verkum að aðrir flokkar þorðu lítið að koma nálægt VG þegar kom að stjórnarmyndun.
Það er einfaldlega svo þreytandi að eiga mikið saman að sælda við þá sem eru stórbrotnari en lífið sjálft, þótt vissulega séu þeir skemmtilegir og heillandi úr fjarlægð. Og það er einmitt úr fjarlægð sem kjósendur sjá flokkinn, en hinir flokkarnir hafa hann í návígi, og þannig lítur hann einfaldlega allt öðru vísi út.
Það er því kannski þegar allt kemur til alls rangt sem ég sagði hér að ofan að vandi VG sé ekki ímyndarvandi. Kannski er vandinn einmitt ímyndarvandi, það er að segja með þeim hætti að flokkurinn er að of miklu leyti ímyndin ein. Hann er að of stórum hluta ekkert nema orðræða, að vísu ákaflega dramatísk og grípandi orðræða, en því miður, eins og títt er um hreina orðræðu, einhvernveginn á skjön við hinn áþreifanlega veruleika.
Vinstri græn hafa alltaf verið ólöt við að hafna þeirri gagnrýni að flokkurinn geri fyrst og fremst út á mótþróa og andstöðu við það sem er. En það er þó líklega raunin, eins og reyndar úrslit kosninganna benda til. Það sem höfðaði til kjósenda og skilaði VG stórsigri var ekki umhverfisstefnan (hana höfðu aðrir flokkar líka) heldur einörð höfnun flokksforustunnar á ríkjandi stjórn. Það sem kjósendur "keyptu" var eina eiginlega stefnumál flokksins, það er að segja að fella stjórnina.
Svo heillandi og grípandi sem þessi gagnrýna stefna er úr fjarlægð kjörklefans er hún fráhrindandi í návíginu inni á þingi. Það kom glöggt í ljós í aðdraganda stjórnarmyndunarinnar að forusta VG veit ekki hvenær hún þarf að hafa stjórn á uppsteytnum í sér, og auðvitað hlýtur það að hafa orðið öðrum flokkum vísbending um að í samstarfi við VG yrði aldrei á vísan að róa, og sífellt mætti búast við kraftasóandi orðræðuuppþoti.
16.5.2007 | 07:28
Í minnihluta
Viðhorf, Morgunblaðið 16. maí 2007
Hvernig ætli standi á því að hér á landi hefur aldrei orðið til hefð fyrir minnihlutastjórnum? Þess í stað er allt kapp lagt á að mynda svokallaða "sterka" stjórn, það er að segja, stjórn sem hefur slíkan aflsmun á þingi að hún getur virt minnihlutann gersamlega að vettugi og farið sínu fram.
Eitt af því sem er vont við að hafa svona "sterkar" stjórnir, er að þingræðið, sem svo á að heita að ríki hér, verður að engu. Það verður ekki þingið sem ræður heldur einfaldlega ríkisstjórnin.
Afleiðing af því er síðan það sem kom í ljós í aðdraganda nýafstaðinna kosninga og í kjölfar þeirra, það er að segja stjórnarandstaða sem er orðin svo full af reiði eftir að hafa árum saman verið tilgangslaus á þingi að hún er ekki viðræðuhæf þegar kemur að myndun nýrrar stjórnar.
Það er kannski ekki nema eðlilegt að hugmynd VG um minnihlutastjórn með stuðningi Framsóknar hafi fallið í grýttan jarðveg hjá framámönnum í Framsóknarflokknum eftir öll hnjóðsyrðin sem leiðtogar VG hafa í vanmáttarreiði sinni látið falla undanfarið.
Samt er hugmyndin sjálf um minnihlutastjórn að mörgu leyti góð. Ekki síst vegna þess að minnihlutastjórn verður því einungis starfhæf að þingheimur leggist meira og minna á eitt. Stjórnsæknir flokkar, eins og allir íslensku flokkarnir eru sagðir vera, eru ekki heppilegt umhverfi fyrir minnihlutastjórn. Hún fær ekki þrifist ef það er meginmarkmið þeirra flokka sem ekki eiga aðild að henni að fella hana.
Þannig má kannski segja að minnihlutastjórn sé ágætis æfing í þingræði og eiginlegu lýðræði þar sem allar raddir fá að heyrast og taka verður tillit til sjónarmiða sem stangast á við manns eigin. Ef til vill má því bæta við, að það sé til marks um lýðræðislegan þroska þegar hefð verður fyrir minnihlutastjórnum.
Íslendingar eiga þar nokkuð í land, en frændur okkar á Norðurlöndum og ýmsum öðrum nágrannaríkjum hafa náð þessum þroska. Hér gengur ennþá allt út á að fá að ráða öllu, eins og er háttur barna. Þetta kom kannski hvað berlegast í ljós í ofstækiskenndum málflutningi stjórnarandstöðunnar fyrir kosningarnar um að markmið númer eitt til tíu væri að fella stjórnina.
Hugmyndin um að nauðsynlegt sé að mynda "sterka" stjórn felur í sér að stjórnin hafi svo afgerandi meirihluta að hún sé ónæm fyrir skeytum stjórnarandstöðunnar. Það er reyndar ekkert undarlegt að einblínt sé á þessa leið þegar haft er í huga að stjórnarandstaðan hefur alltaf komið fram eins og ríkisstjórnin sé andstæðingur sem þurfi að hafa undir.
Aftur á móti hefur "sterka" stjórnin komið fram við stjórnarandstöðuna eins og uppreisnargjarnan ungling sem ekkert mark er takandi á, og það er ekki heldur til þess fallið að auka lýðræðisþroskann. En í ljósi þess að stjórnarandstaðan hefur einmitt látið eins og uppreisnargjarn unglingur er kannski ekki að undra að svona sé komið.
Þessi vítahringur verður vart rofinn í einni svipan. Þess er líklegt langt að bíða að íslenskt lýðræði nái þeim þroska sem líklega er nauðsynlegur til að minnihlutastjórnir frái þrifist. En kannski voru úrslit kosninganna núna eins ákjósanleg og hægt var að hugsa sér til að fyrsta skrefið verði tekið.
Ef við göngum nú út frá því að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn haldi áfram stjórnarsamstarfinu með sinn eina mann í meirihluta verður sú stjórn engu að síður minnihlutastjórn vegna þess að flokkarnir fengu til samans innan við helming atkvæða. Það er þess vegna ekki alveg svo einfalt að stjórnin hafi einfaldlega haldið velli. Í vissum skilningi gerði hún það, en í öðrum gerði hún það ekki.
Það væri óeðlilegt að ný stjórn sjálfstæðis- og framsóknarmanna tæki ekki með í reikninginn að hún starfar í umboði minnihluta kjósenda. Það má segja að ráðherrum nýrrar stjórnar beri siðferðisleg skylda til að gleyma ekki þeirri staðreynd, og taka tillit til hennar.
Hvernig gera þeir það með áþreifanlegum hætti? Jú, með því að koma ekki fram við stjórnarandstöðuna eins og hún skipti engu máli. Nýi "meirihlutinn" á þingi varð til vegna þess hvernig kosningakerfið virkar, ekki vegna þess að meirihluti kjósenda greiddi honum atkvæði.
Frá sjónarhorni þeirra sem leggja ofuráherslu á "sterka" stjórn hljómar þetta auðvitað fáránlega og barnalega. Mikilvægi þess að stjórnin geti viðhaldið efnahagslegum stöðugleika hlýtur, að þeirra mati, að vega þyngra en einhver óljós siðferðisskylda. Ekki síst þegar Sjálfstæðisflokkurinn á í hlut, hann hefur jú alltaf verið "vöðvaflokkur" sem vill láta verkin tala fremur en vitsmunina. Og þá má stjórnin ekki fara sjálfviljug að ganga hölt.
En um leið verður stjórnarandstaðan, sem í vissum skilningi er í minnihluta en í öðrum skilningi í meirihluta, að sitja á sér og veita nýrri stjórn svigrúm. Það verður þó að segjast eins og er að það er ekki beint útlit fyrir að leiðtogar Samfylkingar og VG ætli að lækka í sér rostann, ef marka má "stórmannlegt" tilboð formanns VG til formanns Framsóknar um tækifæri til að biðja sig afsökunar. Það verður að segjast eins og er, að þetta uppátæki VG-formannsins er eitthvað það ótrúlegasta sem sést hefur í íslenskri pólitík lengi, og hefur þó aldrei verið beint skortur á steigurlætinu þar.
Hugmyndin um minnihlutastjórn, sem í sjálfu sér er allrar virðingar verð, kallar kannski fyrst og fremst á breyttar hugmyndir um hvað í því felst að vera í stjórnarandstöðu. Ef sjálfstæðis- og framsóknarmenn mynda núna "minnihlutastjórn" fá VG og Samfylking sögulegt tækifæri til að skilgreina hlutverk stjórnarandstöðunnar upp á nýtt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.5.2007 kl. 07:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2007 | 09:13
Höldum velli
Viðhorf, Morgunblaðið, 3.apríl, 2007
Ég las einu sinni og skoðaði afskaplega fróðlega og skemmtilega bók sem heitir How Buildings Learn - Hvernig byggingar læra - og er eftir Stewart nokkurn Brand. Eins og nafnið bendir til fjallar bókin um hús, og aðrar byggingar, og hvernig þau vaxa og þroskast með nýjum tímum, nýjum eigendum og nýjum þörfum. Húsin "læra", líkt og fólk, með aldrinum, og breytast þannig - eins og við fólkið gerum - en eru samt áfram sömu húsin. Eins og við erum áfram sama fólkið þótt áhugamálin breytist, gildismatið breytist og hárið breyti um lit.
Þetta viðhorf til húsa og annarra bygginga, að þau geti lært, vaxið og dafnað, er ekki bara einhver rómantísk hugmynd um "lífræn" hús, heldur afskaplega praktísk afstaða sem getur sparað mikið af peningum því að hún felur í sér að ekki þurfi að jafna hús við jörðu og byggja alveg ný ef starfsemin breytist heldur sé hægt að aðlaga það sem fyrir er breyttum tímum og þörfum. Þetta viðhorf hefur svo að auki þann kost að með þessum hætti er hægt að varðveita hina áþreifanlegu sögu sem mótar okkur mannfólkið.
Þetta síðastnefnda atriði er líka afskaplega þungvægt. Það sem gerir varðveislu húsa og bygginga mikilvæga er ekki aðeins varðveisla byggingasögulegra heimilda, heldur líka sá stóri þáttur sem hús eiga í að móta fólk og verða þannig snar þáttur í sjálfsmynd þess. Kannski einmitt þess vegna er svo mikilvægt að átta sig á því að hús geta lært. Þá er hægt að fara bil beggja, varðveita sögu einstaklinga og menningar, og um leið svara þörfum nýrra og breyttra tíma.
Ég skrifaði um daginn pistil um Akureyrarvöll ("Grænt á Akureyri", sjá hér að neðan) þar sem ég nefndi mikilvægi þess að fækka ekki meira grænu reitunum í bænum, og nefndi líka hvernig völlurinn er hluti af sjálfsmynd - og ímynd - bæjarins. En kannski sleppti ég því að minnast á þungvægasta þáttinn í mikilvægi þess að mannvirki á borð við Akureyrarvöll séu ekki rifin í burtu rétt sisona, það er að segja minningarnar sem tengja þessi mannvirki við líf fólks.
Bernharð Haraldsson, fyrrverandi skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, minnti mig á þetta með skeyti sem hann sendi mér eftir að pistillinn birtist, þar sem hann meðal annars rifjaði upp spennandi tíma í kringum 1950:
"Ég er alinn upp steinsnar frá íþróttavellinum, sem krakki var ég þar flesta eða alla daga og hafði gott af. Þetta var á árunum um 1950. 1948 voru OL í London, 1952 í Helsinki, ef ég man rétt. Við, guttarnir, fylgdumst vel með öllum íþróttaviðburðum, þekktum nöfn keppenda, áttum okkar uppáhaldsíþróttamenn. Við vorum líka áhugamenn um það, að völlurinn, sem þá var í byggingu, yrði kláraður sem fyrst. Hvers vegna? Jú, ég man eftir löngum umræðum í hléum frá æfingum okkar, að ef bærinn kláraði nú völlinn gætum við auðveldlega haldið OL 1956! Draumur 10 ára gutta verður ekki alltaf að raunveruleika og OL voru fluttir til Ástralíu. Þannig fór það."
Það leikur enginn vafi á því að Akureyrarvöllur getur lært ef hann fær að vera áfram og nóg væri hægt að gera við hann, stækka og bæta aðstöðuna á honum væri vilji fyrir hendi. Ekki hef ég séð neitt sem sýnir afdráttarlaust að nauðsynlegt sé að hann hverfi. Og ekki er þetta eini reiturinn í bænum sem er "óbyggður" - þvert á móti eru þar margir skallablettir sem væri beinlínis gustukaverk að leggja undir hús, til dæmis bílastæðahús.
Eins og ég nefndi áðan er þetta ekki bara einhver rómantík. Ónei, með þessu er beinlínis hægt að spara stórfé því að það er áreiðanlega mun ódýrara að endurbæta Akureyrarvöll þar sem hann er heldur en að fara að byggja alveg nýjan völl, að ekki sé nú talað um velli, annars staðar í bænum. (En ef Þórsarar og KA-menn geta í nafni rótgróins fjandskapar ómögulega hugsað sér að samnýta völlinn legg ég til að Þórsarar fái að nota hann, þar sem hann liggur á mótum hefðbundinna Þórshverfa, það er að segja Þorpsins og Eyrarinnar).
Í fyrri pistli um völlinn varð mér tíðrætt um upprætingu Ráðhústorgsins og ferlegar afleiðingar hennar, en aftur á móti eru líka mörg dæmi á Akureyri um söguríkar byggingar sem hafa fengið að lifa og læra. Glerárstíflan er ennþá til, en er nú að auki farin að virka eins og glæsileg göngubrú yfir ána og orðin partur af gönguleið. Stöðvarhúsið er líka á sínum stað, að vísu allfjarri sinni upprunalegu mynd en engu að síður samt við sig. Það var enda engin aðkallandi ástæða til að rífa þessi mannvirki burtu, heldur hægt að nota þau með litlum tilkostnaði, og varðveita um leið söguna.
Annað alveg nýtt dæmi er fyrirhugaður flutningur veitingastaðarins Friðriks V. í gömlu bögglageymsluna neðst í Gilinu. (Reyndar eru ný hlutverk KEA-húsanna í Gilinu líka virkilega fín dæmi um hvernig hús geta lært). Ég veit reyndar ekki af hverju ég tala um "gömlu bögglageymsluna", þetta hús var byggt 1907, eins og kom fram í frétt í Morgunblaðinu í febrúar, og hefur síðan gegnt ýmsum hlutverkum, þannig að eins mætti tala um "gamla mjólkursamlagið", eins og "gamlir KEA-menn", eins og sagði í fréttinni, kalla það gjarnan. En húsið mun hafa verið byggt sem sláturhús. Þannig að þetta hefur svo sannarlega reynst fjölhæft hús. Og það er enn fært um að læra ný hlutverk.
30.1.2007 | 10:12
Skatturinn og dauðinn
Viðhorf, Morgunblaðið, 30. janúar, 2007
Því miður hefur aldrei náð fótfestu í íslenskunni orðtæki sem er vel þekkt í hinum enskumælandi heimi, og mér er nær að halda að flestir Íslendingar þekki vel - enda erum við jú hluti af hinum enskumælandi heimi, hvað sem hver segir. Eins og fyrirsögn þessa pistils bendir til á ég þarna við það orðtæki að tvennt sé óumflýjanlegt, skatturinn og dauðinn.
Það væri gaman ef til væri einhver almennileg íslensk útgáfa af þessu orðtæki vegna þess að þá væri hægt að skrifa pistil um að nú hefði afsannast hið fornkveðna að tvennt væri óumflýjanlegt, skatturinn og dauðinn. Allt sem maður þyrfti væru peningar til að hafa tekjur af, þá slyppi maður við skattinn.
Og ef hægt er, eftir allt saman, að sleppa við annað af þessu tvennu sem hið fornkveðna segir að sé með öllu óumflýjanlegt, hví skyldi þá ekki hvarfla að manni að það megi líka komast undan hinu? Það er að minnsta kosti ekki undarlegt að fólki þyki eftirsóknarvert að komast hjá því að greiða skatta (nema til málamynda) vegna þess að þannig kemst maður líklega næst því að renna manninum með ljáinn úr greipum.
Auðvitað dettur engum í hug í raun og veru að hann komist hjá því að deyja þótt hann komist hjá því að borga skatta. Þótt eftirsóknarvert sé að borga ekki nema tíu prósent í skatt vegna þess að þá getur maður gert og keypt allt það sem hugurinn girnist og gott betur, er það samt þrátt fyrir allt ekki meginástæðan fyrir því að það er eftirsóknarvert að komast í þennan úrvalshóp íslenskra (ekki)skattgreiðenda.
Það er jú kjarni málsins. Með því að komast hjá því að greiða skattinn getur maður orðið vellauðugur og þar með stigið upp úr múgnum - slitið sig frá plebeianum sem streðar og streðar en tekst aldrei að losa sig við yfirdráttarlánið og getur því aldrei sýnt neinn árangur erfiðis síns. Hann er hinn eiginlegi leiguliði bankans, sem aftur á móti er vísast í eigu mannsins með fjármagnstekjurnar.
Eins og allir ístrubelgirnir sem hamast árum saman á handlóðunum í ræktinni án þess að svo mikið sem móti fyrir magavöðvunum á þeim. Hinir fáu sem aftur á móti ná að losa sig við ístruna og leiða fram í dagsljósið þessa átta litlu vöðva, líkt og þeir hafi grafið upp gullæð, eru í hópi sigurvegaranna. Því til sönnunar geta þeir sýnt öðrum hnyklaða magavöðvana. Þeir eru í úrvalshópnum.
Varla nema von að hinir sem aldrei losna við ístruna verði súrir og fyllist jafnvel grunsemdum um að magavöðvatröllin noti ólögleg meðul.
En það er með öllu fráleitt að ætla að tryggja jöfnuð með því að krefjast þess að allir skuli hafa ístru. Skattfríðindin sem fylgja fjármagnstekjum eru því ekki aðeins til þess gerð að tryggja að ekki verði farið með fjármagnið úr landi, heldur eru stjórnvöld með þessum hætti að veita þeim sem hafa sérstaka hæfileika tækifæri til að rækta þessa hæfileika og njóta ávaxtanna.
Þetta er í raun og veru afskaplega jákvætt og sýnir að ein frumforsenda fjármagnstekjuskattsins er siðferðileg, og að hann snýst þrátt fyrir allt ekki bara um peninga.
En fjármagnseigendur eru raunar ekki eini hópurinn í þjóðfélaginu sem stjórnvöld hafa ákveðið að hygla með þessum hætti heldur njóta þeir sem stunda landbúnað einnig sérstakrar fyrirgreiðslu, þótt ekki sé með nokkrum hætti unnt að leggja að jöfnu veraldlegt hlutskipti bænda og fjármagnseigenda. En meginforsenda niðurgreiðslna í landbúnaði er siðferðisleg - nefnilega sú afstaða að það beri að tryggja afkomu dreifbýlisins.
Vissulega má spyrja hvers vegna stjórnvöld veiti þessum tveim hópum sérstakan stuðning til að sinna því sem hugur þeirra stendur til, en ekki einhverjum öðrum, eins og til dæmis iðnaðarmönnum eða vísindamönnum. En það er ekki síður athyglisvert að velta því fyrir sér hvers vegna þjóðinni virðist almennt vera mjög uppsigað við að bændur njóti stuðnings, en hefji aftur á móti hinn sérkjarahópinn - fjármagnseigendur - upp til skýjanna með því að fjalla í fjölmiðlum sínum um hann og allt sem hann aðhefst eins og um hálfguði sé að ræða.
Það þykir sjálfsagt mál, og til marks um réttlætiskennd, að fréttamenn saumi að landbúnaðarráðherra vegna niðurgreiðslna til bænda, en þeir eru fáir sem láta sig hafa það að spyrja fjármálaráðherrann beittra spurninga um fjármagnstekjuskattinn.
Og meðal fjölmiðlunga sem fara hvað mest á bloggsíðum þykir fátt jafn púkó og að gagnrýna fjármagnseigendur sem láta skína í peningana sína, eins og löngum hefur verið háttur nýríkra. (Kannski eru þessir bloggarar bara að reyna að halda sér í náðinni hjá auðmönnunum í von um vinnu hjá þeim, en það er önnur saga).
Þessi upphafning fjármagnseigendanna - endalausar fréttir um fjárfestingar þeirra og innbyrðis baráttu þeirra - verður þeim mun undarlegri í ljósi þess að flestir neytendur fjölmiðlanna sem þessar fréttir flytja lifa ekki í sama heimi og fjármagnseigendurnir, eins og Morgunblaðið benti réttilega á í forsíðufréttaskýringu um daginn.
Heimur neytandans markast af bæði dauðanum og skattinum - þetta eru hinar óhjákvæmilegu staðreyndir lífs neytandans - en heimur fjármagnseigandans er ólíkur að því leyti að hann markast einungis af dauðanum.
19.12.2006 | 11:51
Að skipta um skoðun
Viðhorf, Morgunblaðið 19. des. 2006
Fjölskyldustefna fyrirtækja, eins og lesa mátti um í Morgunblaðinu á sunnudaginn, er mikilvægur liður í að tryggja réttindi barna til að búa við eðlilegt fjölskyldulíf, og líka er hún mikilvægur - ef ekki hreinlega mikilvægasti - liður í að tryggja rétt feðra til að ala upp börnin sín.
Það er mikilvægt að bæta þessu atriði við það sem haft er eftir Herdísi Þorgeirsdóttur á sunnudaginn, þar sem hún vitnar í Vegvísi Evrópusambandsins 2006-2011 sem kveður á um að miðað skuli að því "að konur séu efnahagslega jafn sjálfstæðar og karlar, það er að heimur þeirra og barna þeirra hrynji til dæmis ekki við hjónaskilnað, aukinni samræmingu vinnu og fjölskyldulífs, aukinni þátttöku kvenna við stjórnvölinn í viðskiptalífinu og samfélaginu, útrýmingu á kynbundnu ofbeldi og staðalímyndum og útbreiðslu jafnréttissjónarmiða utan Evrópu".
Að tryggja körlum jafnan rétt til að ala upp börnin sín er jafnframt virk aðferð til að auka möguleika kvenna á efnahagslegu sjálfstæði og aukna þátttöku þeirra í stjórnun fyrirtækja, að ekki sé nú talað um hvað það getur breytt miklu fyrir útrýmingu á kynbundnum staðalímyndum.
Það er nefnilega tilfellið að meginástæðan fyrir því að karlar njóta ekki í raun jafns réttar og konur til uppeldis barna eru fyrst og fremst kynjabundnar staðalímyndir - öðru nafni fordómar - sem standa mun fastari fótum í íslensku samfélagi en við viljum vera láta. Vegvísir ESB ætti auk þess sem að framan er talið að kveða á um mikilvægi þess að karlar hafi jafna réttarstöðu og konur til dæmis ef kemur til skilnaðar, en það er kunnara en frá þurfi að segja að við slíkar aðstæður er hætt við að heimur karla og barna þeirra hrynji vegna þess að þeir eru ekki með "forræðislegt sjálfstæði" (sbr. "efnahagslegt sjálfstæði" kvenna). Þeir eru í mörgum tilvikum háðir konunum hvað varðar forræði barnanna, rétt eins og margar konur eru háðar körlum hvað varðar efnahagslega afkomu.
Fjölskylduvæna stefnan sem öll fyrirtæki segjast nú fylgja í starfsmannamálum er áreiðanlega til bóta fyrir alla aðila, starfsfólkið og fyrirtækin, en engu að síður er við ramman reip að draga í þessum efnum, því að þótt auðvelt sé að tala gegn kynjabundnum staðalímyndum er erfiðara að uppræta þær í raun.
Fullyrt er í greininni í Morgunblaðinu á sunnudaginn að það sé ekki nauðsynlegt að fórna fjölskyldunni fyrir starfið. Ég veit að vísu ekki hvort þarna er um að ræða sannindi sem búið er að sýna fram á með afkomutölum fyrirtækja, eða hvort þetta er bara eitthvað sem allir myndu samþykkja í orði.
Hitt hef ég aftur á móti sterkan grun um, að þegar karlar eiga í hlut sé þetta allt annað en viðtekið viðhorf. Ég held að enn sé ákaflega útbreitt það viðhorf að karlmaður eigi að velja á milli þess hvort hann taki fjölskylduna fram yfir starfsframa, eða öfugt. Og sá sem velur fjölskylduna er ekki talinn efni í háttsettan stjórnanda. Ég leyfi mér að efast um að konur þurfi að velja á milli starfsframa og fjölskyldu með jafn afgerandi hætti og karlmenn. Maður sem hefur valið fjölskylduna er þar með búinn að gera sig "ósamkeppnishæfan", og maður sem er búinn að velja starfið hefur þar með afsalað sér möguleikanum á að geta, ef til þess kemur, orðið aðaluppalandi barnanna sinna.
Það eru til óteljandi dapurleg - jafnvel beinlínis sorgleg - dæmi um menn sem hafa látið undan óyrtri kröfu vinnuveitanda og vinnufélaga og í raun látið af hendi stórt hlutverk í fjölskyldu sinni til þess að finnast þeir ekki glata möguleikum og mannvirðingu í vinnunni.
Það sem er dapurlegast af öllu við þetta er að ástæðurnar fyrir þessu hafa ekkert með að gera hæfni þessara manna til að sinna vinnunni sinni, eða vanhæfni þeirra til að sinna uppeldi barnanna sinna. Þetta hefur ekkert með að gera áþreifanlega þætti, heldur eru meginástæðurnar fyrir þessu rótgrónar staðalímyndir sem teknar eru sem óumflýjanlegur sannleikur. Með öðrum orðum, þetta sorglega hlutskipti alltof margra manna er til komið vegna fordóma og úreltra viðhorfa bæði þeirra sjálfra og vinnuveitenda þeirra, og ekki síður samfélagsins í heild. (Að ógleymdri heimskulegustu ástæðunni, sem engu að síður ræður kannski meiru en mann grunar: Þörf manna fyrir metorð og vald.)
Tökum svo eitt einfalt dæmi um gömul viðhorf sem enn standa djúpum rótum: Að kona taki sér frí úr vinnu til að sinna veiku barni þykir sjálfsagt mál. (En gleymum því ekki að um leið þykir sjálfsagt mál að hún sé með lægri laun en karlmaður.) Að karlmaður taki sér frí úr vinnu til að sinna veiku barni þykir ekki sjálfsagt mál. Aftur á móti er alveg sjálfsagt að karlmaður taki sér frí úr vinnu til að vera við jarðarför. (En án þess að þar með þyki sjálfsagt að hann hafi lægri laun en þeir sem aldrei fara á jarðarfarir.) Af hverju jarðarför en ekki veikindi barns? Við þessari spurningu er ekki til neitt skynsamlegt svar. Þetta er bara svona. Þetta er eitt lítið dæmi um birtingarmynd djúpstæðra viðhorfa, svo djúpstæðra að það má kalla þau lífsviðhorf. Slík viðhorf eiga sér oft ekki neina skynsamlega skýringu, og það eru þau sem erfiðast er að breyta. Jafnvel má halda því fram að það sé hreinlega ekki hægt að breyta þeim með handafli. Það eina sem hægt er að gera er að bíða eftir því að þau breytist.
Er það ekki dapurlegra en orð fá lýst að réttindi og velferð barna séu fyrir borð borin vegna þess að fólk þorir ekki - eða kann ekki - að skipta um skoðun?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.11.2006 | 10:57
Guðmunds í eignarfalli
Viðhorf, Morgunblaðið, 21. nóvember 2006
Ég varð fyrir barðinu á mannanafnanefnd um daginn. Að vísu ekki þessari einu sönnu, heldur einskonar prívatútgáfu af henni. Þannig var að kollegi minn spurði hvort Guðmundur væri Guðmunds í eignarfalli, og ég sagði já. Snemmhendis spratt þá upp í kringum mig sjálfskipuð mannanafnanefnd, eins og hattífattar í þrumuveðri, skók fingur og sagði: Ónei. Guðmundur skal vera Guðmundar í eignarfalli.
Þannig vill til, að ég heiti Guðmundur, og þarna hafði ég þá verið staðinn að því að kunna ekki að fallbeygja nafnið mitt. Eða nánar tiltekið, að vera til í að leyfa að það sé fallbeygt rangt. Sjálfskipaða mannanafnanefndin lagðist alfarið gegn þeim rökum mínum að það hlyti að mega hafa eignarfallsmyndina Guðmunds, úr því að sú mynd er notuð í Guðmundsson. Til vara hafði ég þá afstöðu að fólk mætti bara ráða því hvort það hefði mig Guðmundar eða Guðmunds í eignarfalli. Ég sagðist ekkert myndu kippa mér upp við það að vísað væri til mín sem Kristjáns Guðmunds.
Nei, mannanafnanefndin sem hafði skipað sig í málinu lagðist enn gegn mér. Hvort sem mér líkaði betur eða verr mátti ég ekki heita Guðmunds í eignarfalli. En ég mætti vera Guðmundsson.
Af hverju? spurði ég.
Þetta er bara svona, sagði nefndin.
Mér var farið að líða svolítið eins og ég hefði verið staðinn að einhverju dónalegu. Mér sárnaði, og mér rann líka dálítið í skap og varð einhvern veginn staðráðinn í að heita Guðmunds í eignarfalli. Þó ekki væri til annars en að gefa skít í sjálfskipuð málfarsséní - svoleiðis fólk er óþolandi. En umfram allt var ég staðráðinn í að gefa mig ekki með að Guðmunds-eignarfallsmyndin væri gild vegna þess að það var engin rök að hafa fyrir því hvers vegna hún væri "röng". Það var líka algjörlega óljóst í hvaða skilningi hún átti að vera röng. Frá hinni sjálfskipuðu mannanafnanefnd kom engin útskýring, einungis fullyrðing. Og nefndin vísaði í þykkar bækur máli sínu til stuðnings.
Það er skítt að komast að því að nafnið manns skuli vera óleyfilegt. Vegna þess hve nátengt nafnið er sjálfsmyndinni og sálinni er vegið nærri því sem manni er allra helgast þegar vegið er að nafninu manns.
Í þeirri von að lesandinn hafi ekki þegar afskrifað þessa sögu sem kverúlantahátt og sé hættur að lesa langar mig að víkka aðeins út erindið með þessum pistli. Það er auðvitað ekki annað en að taka undir með þeim fjölmörgu sem lýst hafa eindreginni ánægju sinni með og stuðningi við þá tillögu Björns Inga Hrafnssonar og fleiri að leggja niður mannanafnanefnd. Það er að segja þessa einu sönnu. Hún hefur svo sem aldrei káfað neitt upp á mig, en ég fékk þarna um daginn að reyna á eigin nafni hvað það er fráleitt að opinber nefnd hafi eitthvað með svona ofurpersónuleg mál að gera.
Nú má enginn halda að ég sé að mæla með því að horfið verði frá öllum réttritunarreglum. Ég er hér einungis að tala um mannanöfn. Nöfn eru nefnilega engin venjuleg nafnorð. Þegar barni er gefið nafn er eins og líf þess sé sett í ákveðnar skorður eða samhengi sem barnið losnar aldrei fyllilega við upp frá því.
Ég þekki mann sem oftar en einu sinni bölvaði nafninu sínu, og hélt því fram að foreldrar sínir hefðu gert sér mikinn óleik með því að gefa sér það. Að vísu hafði ég hann lúmskt grunaðan um að hafa þarna fundið leið til að kenna öðrum um þær ófarir sem honum jafnan þótti líf sitt vera, en hver veit, kannski hafði honum alltaf fundist nafnið sitt einhvern veginn asnalegt, og aldrei getað losnað undan þeirri tilfinningu að þar með væri hann sjálfur einhvern veginn asnalegur.
Nöfn eru því svo ofboðslega persónuleg, að um þau hlýtur að gilda það sama og svefnherbergi þjóðarinnar: Ríkið á þangað ekkert erindi. Og alveg sérstaklega ekki vegna þess að vald hins opinbera yfir því hvaða nöfn megi nota og hver ekki getur ef nánar er að gáð aldrei verið byggt á öðru en máltilfinningu þeirra sem skipa mannanafnanefnd hverju sinni.
En það eru til fleiri og öðru vísi rök fyrir því að mannanafnanefnd eigi ekki rétt á sér. Verði hún lögð niður mun það auka líkur á vaxandi fjölbreytni í nafnaflórunni. Ég geri mér grein fyrir því að innflytjendum er ekki lengur skylt að farga nafni sínu, en hvernig er það ef innflytjendur eignast hér barn, mega þeir nefna það "útlensku" nafni? Það hlýtur eiginlega að vera, annað væri gróft brot á mannréttindum. En ef innflytjendur mega skíra börn sín "útlenskum" nöfnum, af hverju mega þá ekki innfæddir gera það líka?
Ef nafnaflóran á Íslandi verður fjölbreyttari en hún er mun það einnig auka umburðarlyndi í samfélaginu, og veitir ekki af einmitt núna. Það er ágæt æfing í umburðarlyndi og tillitssemi að þurfa að spyrja viðmælanda sinn hvernig hann beri fram nafnið sitt eða stafi það, og gera sér grein fyrir því að maður getur ekki undir nokkrum kringumstæðum dregið svarið í efa. Jafnvel ekki þótt manni sýnist viðmælandinn hafa "ranga" eignarfallsmynd á nafninu.
Ég er alveg viss um að mikill meirihluti þjóðarinnar er því sammála að mannanafnanefnd skuli aflögð, og lög um mannanöfn numin úr gildi. Samt er eins víst að tillögur þar um fáist ekki samþykktar á Alþingi. Og þó, nú verða meira og minna kynslóðaskipti á þinginu, og það er einmitt með slíkum skiptum sem djúpstæðar en úr sér gengnar hefðir rofna. Mannanafnanefnd er einmitt slík hefð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.11.2006 | 12:15
Að líta sér nær
Viðhorf, Morgunblaðið, 14. nóvember, 2006
Ég verð að viðurkenna að í langan tíma hefur fátt komið mér jafn mikið á óvart og niðurstöður könnunar, sem birtar voru í Fréttablaðinu um daginn, um afstöðu Íslendinga til hvalveiða. Rétt tæplega sjötíu prósent lýstu sig fylgjandi veiðunum. Kannski er það bara ég sem er svona laus við að hafa tilfinningu fyrir almenningsálitinu (enda er ég ekki í pólitík) en ég hef nú samt heyrt af fleirum sem komu jafn gjörsamlega af fjöllum.
Hvað veldur því að þessi niðurstaða kemur manni svona á óvart? Á hvaða grundvelli hefur maður myndað sér skoðun á því hver afstaða Íslendinga almennt sé til hvalveiðanna - og yfirleitt annarra mála sem eitthvað fer fyrir í samfélaginu? Ég ætti nú líklega ekki að þurfa að leita lengi, þar sem svarið blasir við: Af mínum eigin starfsvettvangi, fjölmiðlum. Og það sem meira er í þessu tilviki, kannski úr fréttum sem ég hef skrifað sjálfur um hvalveiðarnar.
Samt hefði ég ekki hikað við að fullyrða, ef ég hefði verið inntur álits, að það væri einungis lítill minnihluti þjóðarinnar sem væri hlynntur hvalveiðunum. Kannski í mesta lagi 30 prósent. En ef eitthvað er að marka áðurnefnda skoðanakönnun hefur greinilega eitthvað verulega mikið farið fram hjá mér.
Sú mynd sem íslenskir fjölmiðlar hafa dregið upp af deilunum um veiðarnar hefur, í ljósi þessarar skoðanakönnunar - sem ég skal viðurkenna að ég veit ekki hversu marktæk var - verið snarbjöguð. Svo einfalt er það. Af þessari mynd hefur mátt ráða, sem ég og gerði, að meirihluti þjóðarinnar væri andvígur veiðunum. Ég hefði ekki hikað við að fullyrða að svo væri.
(Ef lesandinn er algerlega ósammála þeirri gjafaforsendu minni að fjölmiðlar hafi gefið ranga mynd af almenningsálitinu í ljósi títtnefndrar skoðanakönnunar þarf hann ekki að fara lengra og getur hætt að lesa þennan pistil núna).
Þetta gefur ef til vill tilefni fyrir fréttamenn og skraffinna fjölmiðlanna til að staldra við og líta sér nær. Spyrja sem svo: Hvað klikkaði? En það verður líklega ekki gert. Það verður að segjast eins og er, að við fjölmiðlungar erum ekkert sérstaklega gefnir fyrir naflaskoðanir, og við erum yfirleitt á alltof mikilli hraðferð til að mega vera að því að velta fyrir okkur mistökum og jafnvel læra svolítið af þeim.
Nú og svo getur líka vel verið að flestir kollegar mínir séu því einfaldlega ósammála að eitthvað hafi farið úrskeiðis, og þá er eðlilegt að þeir sjái enga ástæðu til að vera með eitthvert allsherjar mea culpa.
Samt ætla ég að endurtaka spurninguna: Hvað klikkaði? Það kemur nefnilega ýmislegt til greina. Til að byrja með má nefna það sem væri alvarlegast fyrir okkur fréttafólk, það er að segja sá möguleiki að meirihlutinn í okkar eigin stétt sé andvígur hvalveiðunum og að þess vegna höfum við haft tilhneigingu til að flytja fréttir af þeim viðhorfum sem endurspegla okkar eigin, það er að segja andstöðu við veiðarnar. Ef þetta er raunin er það eiginlega svo alvarlegt mál að ég treysti mér ekki til að fara nánar út í það hér.
Annar möguleiki er sá, að við höfum gerst sek um að leita ekki nægilega vel eftir öllum viðhorfum, heldur höfum látið duga að reka hljóðnemann upp í loftið og láta hann nema þá rödd sem hæst talaði. Þetta er auðvitað afskaplega auðveldur háttur til að hafa á fréttaöflun, en um leið er þetta óttalegur slóðaháttur.
En það verður að segjast eins og er, að fjölmiðlar eru ákaflega ginnkeyptir fyrir hávaðamönnum og þeim sem tala af miklum sannfæringarkrafti. Slíkir menn eru eins og persónur í skáldsögum, og með því að leiða þá fram er hægt að bjóða áhorfendum og lesendum upp á grípandi drama. Hver vill það ekki?
Þessu til staðfestingar dugar að benda á þau ógrynni umræðuþátta sem ýmist eru að koma eða fara á sjónvarpsstöðvunum, að ógleymdum sunnudagsþættinum sem lengi hefur lifað á ofurskrautlegri en vitainnihaldslausri munngolunni úr umsjónarmanninum. Þessir þættir snúast ekki um það sem sagt er í þeim, heldur eru eins konar vitsmunalegt nautaat þar sem áhorfendur verða spenntir yfir því hvort einhverjum umræðuþátttakanda takist að reka annan á hol (eða öllu heldur gat). Þetta er með öðrum orðum sófismi.
Líklega var það þetta sem klikkaði. Raddirnar sem yfirtóku umræðuna í fjölmiðlum voru raddir skraffinnanna sem alltaf tala hátt og að því er virðist af heilagri sannfæringu. Raddir þeirra sem spurðir voru í áðurnefndri skoðanakönnun heyrðust aldrei. Og svo vildi til, að mikill meirihluti skraffinnanna er andvígur hvalveiðum og þess vegna varð heildarmyndin, sem fjölmiðlar drógu upp, bjöguð.
Það er ekki við sannfærðu hávaðamennina að sakast. Og ekki heldur alla hina (meirihlutann) sem höfðu skoðun sína í hljóði. Það voru fjölmiðlarnir sem klikkuðu. Hið yfirlýsta hlutverk þeirra er að endurspegla samfélagið, en í þessu tilviki tókst þeim það ekki. En eins og ég sagði áðan, það breytir engu. Það verður haldið áfram á sömu braut, vegna þess að íslenskum fjölmiðlungum myndi aldrei detta í hug að viðurkenna að þeim hafi orðið á í messunni.
Sem er afskaplega slæmt vegna þess að einmitt núna er í uppsiglingu annað deiluefni í þjóðfélaginu sem æskilegt væri að fjölmiðlar myndu gefa nokkurn veginn óbjagaða mynd af. Þar á ég við afstöðuna til innflytjenda. Hávaðamennirnir og fólkið með heilögu sannfæringuna er þegar byrjað að þenja sig og krefjast athygli. Að þessu sinni ætla ég að reyna að heyra í einhverjum öðrum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.11.2006 kl. 15:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)