Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
11.10.2006 | 15:49
Bílabullur
Viðhorf, Morgunblaðið 10. október 2006.
Breski sjónvarpskokkurinn og Íslandsvinurinn Jamie Oliver sagði um daginn að foreldrar sem sendu börn sín með ruslmat í nesti í skólann væru fífl. Hann sagðist ekki nenna lengur að vera kurteis. Það yrði einfaldlega að nefna hlutina sínum réttu nöfnum. Og foreldrarnir yrðu að taka sig á.
Af einhverjum ástæðum koma þessi orð Olivers upp í hugann þegar lesnar eru fréttir um íslenskar bílabullur sem stunda ofsaakstur og stefna þannig eigin lífi og lífi annarra í voða. Bullurnar líta á sig sem fórnarlömb ef löggan gómar þær, og dæmi munu vera um að foreldrar bílabullanna reyni að "útskýra" hegðun afkvæma sinna fyrir lögreglunni.
Það skiptir máli í umræðum um ósæmilega hegðun í umferðinni að ekki eru endilega allir sem aka greitt þar með orðnir að bílabullum. Lögreglan segir vera nokkurn mun á hraðakstri og ofsaakstri. Þeir sem teknir eru fyrir of hraðan akstur á götum og þjóðvegum landsins eru á öllum aldri og af báðum kynjum. En lögreglan segir að er komi að ofsaakstri og glannaskap eigi undantekningarlítið í hlut ungir strákar. Í mörgum tilvikum með glæný ökuskírteini. En það er auðvitað sama, það er framferðið, en ekki aldur og kyn, sem gerir karla eða konur að bílabullum.
Íslenskar bílabullur eiga það sameiginlegt með enskum fótboltabullum að fá útrás fyrir tilfinningar sínar og kenndir á kostnað meðborgara sinna. Reyndar má telja líklegt að stór hluti af "kikkinu" sem bullurnar fá út úr framferði sínu sé fólginn í því að gera annað fólk skelkað og gefa skít í það með því að koma fram við það á ógnandi hátt. Þetta er því ekki annað en gamla sagan um að gera sjálfan sig stóran með því að lítillækka aðra. Þess vegna er þetta afskaplega ómerkileg hegðun og til marks um lítinn þroska. Oft má auðvitað rekja þetta til ungæðisháttar.
En er þetta svona einfalt? Fyrir fáeinum árum, þegar ensku fótboltabullurnar höfðu einu sinni sem oftar látið til sín taka á meginlandi Evrópu - ég man ekki í hvaða landi - og Englendingar sátu undir skömmum og háðsglósum á alþjóðavettvangi fyrir þessa stórkostlegu útflutningsafurð sína, kom Tony Blair forsætisráðherra bullunum til varnar og sagði að þrátt fyrir allt birtist í bullunum sami frumkrafturinn er hefði komið Englendingum vel í styrjöldum undanfarinnar aldar.
Það má með sama hætti finna, ef nánar er að gáð, mikla aðdáun í íslensku samfélagi á óbeisluðum frumkraftinum sem er til dæmis víða lýst í Íslendingasögunum. Hér er ríkjandi sú rómantíska hugmynd að óheftir og sterkir menn sem láta ekkert aftra sér, síst af öllu siðapredikanir, áminningar um góða hegðun og annan tepruskap, séu þeir sem drífi samfélagið áfram til framfara og umbóta. Að án þessara sterku manna sætum við enn við sjálfsþurftarbúskap, eða værum að minnsta kosti ekki sjálfstæð þjóð.
Þessi hugmynd um nauðsyn þess að sterkir menn fái að fara sínu fram óheftir til að við hin - tilfinngabældu teprurnar - fáum notið góðs af og flotið með í kjölsoginu af þeim leiðir aftur á móti til þess að við teljum okkur trú um að við verðum að umbera agaleysið, bulluháttinn og fylliríið, sem óhjákvæmilega fylgifiska frumkraftsins sem er okkur svo nauðsynlegur til að drífa okkur áfram og koma í veg fyrir að þjóðfélagið staðni. Og það sem hugsanlega væri allra verst - að við glötum sjálfstæðinu.
Þetta er sama aðdáun og menn láta í ljósi yfir skrímslinu Agli Skallagrímssyni, sem hefur lifað sem hetja í íslenskri þjóðarsál þrátt fyrir að sagan sem kennd er við hann beri með sér að hann hafi fyrst og fremst verið morðingi og fyllibytta, og strax í barnæsku sýnt merki um að vera að flestu leyti dusilmenni hið mesta. En - og það skiptir öllu - hann var skáld og gaf skít í kónginn. Frummaður sem lét ekki yfirvald segja sér fyrir verkum. Og slíkt kann íslensk þjóðarsál að meta. Enn þann dag í dag fer um hana unaðshrollur þegar fregnir berast af "íslenskum víkingum" sem verða ríkir á bissniss í útlöndum.
Þessir Skallagrímssynir nútímans, sem gefa skít í lögguna og fara í stórsvigi niður Ártúnsbrekkuna á hundrað og sextíu, eiga sér þannig djúpstæðan og traustan sess í hinni rómantísku íslensku þjóðarsál. Ef einhver af þessum bílabullum skyldi nú reynast skáldmælt og færi að sýna orðfimi sína á live2cruize.com myndi hún á einni nóttu verða hafin upp til skýjanna sem þjóðhetja. Og vei þeim lögreglumönnum sem gera myndu tilraun til að hefta för hins skáldmælta Skallagrímssonar á Imprezunni.
Kjarninn í þeim rómantíska hugsunarhætti sem hér er á ferðinni er draumur hins kúgaða um frelsi, og drifkrafturinn er réttlát reiði þess er býr við ósanngjarnt hlutskipti. Þar af leiðandi reka bullurnar upp ramakvein fórnarlambsins þegar lögreglan hefur afskipti af þeim. En bullurnar búa í raun og veru hvorki við kúgun né ósanngjarnt hlutskipti, og þess vegna eru kvein þeirra svo hjákátleg - og kannski umfram allt barnaleg.
Það væri óskandi að rómantíkin og víkingadýrkunin - sem er í rauninni lítt dulbúin sjálfsdýrkun - færi að líða undir lok á Íslandi. Það væri líka óskandi að horfið yrði frá þeirri hugsun að það sé dyggð að æða áfram og sjást ekki fyrir, fara sínu fram hvað sem hver segir. "Íslenska aðferðin" er ekki dyggð heldur skammaryrði.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.11.2006 kl. 16:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.10.2006 | 11:12
Bjöguð athygli
Viðhorf, Morgunblaðið, 3. október 2006
Ég held að það hafi verið fyrir tveim vikum eða svo að tilkynningin frá lögreglunni í Reykjavík birtist á Lögregluvefnum þar sem sagði að lögreglumönnum sýndist að áróðurinn sem haldið hafi verið upp dagana á undan hafi ekki skilað sér til þeirra sem honum var beint gegn.
Það fór ekki mikið fyrir þessari tilkynningu. Nokkrir fjölmiðlar höfðu þetta orðrétt upp úr Lögregluvefnum, en ég man ekki eftir einu einasta viðtali við lögreglumann um málið, svo dæmi sé tekið. Aftur á móti minnir mig að viðtal hafi verið haft í einhverjum fjölmiðli við auglýsingasmið sem sagði að ekki væri þess að vænta að áróðurinn væri strax farinn að skila árangri.
Síðan lögreglan sendi frá sér þessa tilkynningu hafa ekki borist fregnir af öðru en áframhaldandi ófremdarástandi í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu. Fréttir um ofsaakstur ungra ökumanna með ylvolg bráðabirgðaökuskírteini eru daglegt brauð. Ekki meira um það að segja, að því er virðist.
Ég verð að viðurkenna að ég hef litlar áhyggjur af þeim náttúruspjöllum sem virkjunarframkvæmdir valda á Íslandi, og enn minni af vaxandi gróðurhúsaáhrifum. Það er að segja, áhyggjur mínar af þessu tvennu eru hverfandi miðað við þær áhyggjur sem ég hef af því að fólk haldi áfram að deyja í umferðarslysum.
Ég vildi óska að allur krafturinn og öll ástríðan sem sett er í mótmæli gegn virkjunarframkvæmdum og losun gróðurhúsaáhrifa væri sett í að sporna gegn dauðsföllum í umferðinni. Með þessu er ég ekki að segja að það sé út í hött að mótmæla náttúruspjöllum og gróðurhúsaáhrifum. Ég er öllu heldur að segja að það væri óskandi að fólkið sem hefur fítonskraftinn og réttlætiskenndina sem er ekki síst ungt fólk myndi beina kröftum sínum að umferðarmálum.
Þegar farið var um daginn af stað með átak til bættrar umferðarmenningar voru haldnir borgarafundir á sjö stöðum á landinu þar sem meðal annars kom fram fólk sem hafði misst ástvini í umferðarslysum, og einnig miðluðu af reynslu sinni sjúkraflutningamenn sem komið hafa að alvarlegum umferðarslysum. Það var dálítið skrítið hversu lítið fór fyrir frásögnum þessa fólks í fjölmiðlum og almennri umræðu. Þær hurfu mjög flótt af sjónarsviðinu. Í samanburði var ótrúlegt hvernig fjölmiðlar og almenningsálitið fóru á límingunum þegar Ómar Ragnarsson tilkynnti að hann væri orðinn náttúruverndarsinni og ætlaði að vera á árabáti á Hálslóni.
Þessi áhersluslagsíða er reyndar hvorki einsdæmi né séríslenskt fyrirbæri. Fyrir ekki löngu síðan var haldin mikil ráðstefna í Sydney í Ástralíu þar sem fjallað var um offituvandann í hinum vestræna heimi, sem vissulega er gríðarlegur. En það fór ekki mikið fyrir almennri umræðu um það sem fram kom á þessari ráðstefnu, og varla að hún sæist á radar íslenskra fjölmiðla. Samt er það nú svo, að offita verður margfalt fleiri að aldurtila en til dæmis fuglaflensa.
Læknar hafa ennfremur bent á að það sé misræmi í því hversu lítið heimspressan fjalli um hjarta og æðasjúkdóma miðað við að þetta sé sá sjúkdómur sem dragi flesta jarðarbúa til dauða. Umfjöllun um áðurnefnda fuglaflensu, HABL og AIDS sé margfalt meiri, þótt áhrifin sem þessir sjúkdómar svo alvarlegir sem þeir vissulega eru séu ekki nærri eins útbreidd og djúpstæði og áhrifin sem hjarta- og æðasjúkdómar hafi. Í raun sé því mun meiri þörf á aðgerðum gegn hjarta- og æðasjúkdómum en til dæmis fuglaflensu og AIDS.
Hvað veldur þessari bjögun á athygli? Hvers vegna vekur ófremdarástand í umferðarmálum ekki nærri því jafn mikinn og viðvarandi áhuga og meint náttúruspjöll af völdum virkjunarframkvæmda, jafnvel þótt hið fyrrnefnda kosti beinlínis mannslíf, en hið síðarnefnda ekki?vHvasdfsaj Vissulega má halda því fram að þarna sé um að ræða ósambærilega hluti, en ég held að viðbrögð almennings og fjölmiðla við þeim séu fyllilega sambærileg. Í báðum tilvikum er um að ræða viðbrögð við ástandi sem talið er óviðunandi.
Fleira kemur til. Umferðarslys og hjartasjúkdómar eru hvort tveggja menningarbundin óáran, eða lífstílsbundin. Og hvort tveggja hefur verið stór hluti af lífi Vesturlandabúa um langa hríð. Hið sama má núorðið segja um offitu. Þannig að það er ekkert nýtt við þetta, og sagt hefur verið að "breyting á ríkjandi ástandi" sé það sem skilgreini hvað sé frétt og hvað ekki. Umferðarslys og hjartasjúkdómar falla þannig utan hefðbundinnar skilgreiningar á frétt, en sinnaskipti Ómars Ragnarssonar eru stórfrétt.
Einnig ræður þarna eflaust miklu að hjartasjúkdómar og "ástandið í umferðinni" eru orðin harla hversdagsleg óáran og verið felld undir verksvið tiltekinna stofnana sjúkrahúsa og lögreglu. Það er því komið á könnu "fagaðila" að takast á við þessa hluti, þannig að okkur hinum finnst við vera stikkfrí og geta beint kröftum okkar að nýstárlegri og göfugri vandamálum.
Enda finnst eflaust mörgum eitthvað óviðeigandi við það að lögreglan skuli opinberlega gagnrýna háttarlag ökumanna í umferðinni. Slíkt telst kannski ekki "faglegt" af lögreglunni. En ég verð að segja eins og er, að ég vildi að lögreglan gerði meira af því að húðskamma opinberlega þá sem keyra eins og fífl.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.11.2006 kl. 16:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.9.2006 | 18:52
Spólað í hugarfarinu
Viðhorf, Morgunblaðið, 19. september, 2006.
Það er ekki líklegt að átakið sem hafið var í síðustu viku gegn umferðarslysum undir slagorðinu Nú segjum við stopp! muni skila miklum árangri. Því miður. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hitti svo sannarlega naglann á höfuðið þegar hann sagði að taka yrði á því ofbeldi sem mætti okkur í umferðinni næstum því daglega. Ofbeldi er rétta orðið.
Vegna þess að þeir sem með fífldirfsku og leikaraskap verða valdir að slysum beita annað fólk ofbeldi. Hert viðurlög við umferðarlagabrotum, aukinn sýnileiki lögreglunnar og jafnvel hækkun á bílprófsaldri hefur því ekkert með skerðingu á frelsi einstaklinga að gera heldur snýst eingöngu um að reyna að koma í veg fyrir að tillitsleysi og heimska fáeinna bitni á þeim sem hafa ekkert til saka unnið.
Þannig lúta slíkar hertar aðgerðir í rauninni að því að vernda frelsi einstaklinga fyrir þeim sem sökum ungæðisháttar, skapgerðarbresta eða af öðrum völdum eru ófærir um að taka tillit til annarra.
Ástæðan fyrir því að átakið gegn umferðarslysum er ekki líklegt til að skila árangri er sú, að það miðar að því að leysa vandann með hugarfarsbreytingu. En hugarfari verður ekki breytt með handafli. Vissulega getur hugarfar breyst, en það gerist í svo smáum skrefum og á svo ófyrirsjáanlegan hátt að það er fyrirfram vonlaust að ætla að leysa einhvern vanda með hugarfarsbreytingu.
Og ástæðan fyrir því að ekki er hægt að koma böndum á hugarfarið er sú, að það er að svo mikilvægu leyti óyrt. Hugarfar felur í sér grundvallarviðhorf og gildi samfélagsins, þau gildi sem móta breytni manns í þeim efnum sem talin eru mestu skipta, eins og til dæmis við uppeldi barna, setningu laga og mat á því hvað telst fréttnæmt í samfélaginu. Það er í þessum áþreifanlegu þáttum, en ekki orðum foreldra, þingmanna og fréttamanna, sem í ljós kemur hið eiginlega hugarfar.
Reyndar er ekki nóg með að raunverulega hugarfarið sé óyrt heldur verða orðin sem sögð eru í mörgum tilvikum beinlínis til að fela það. Þetta er ekki nein samsæriskenning. Ég er ekki að halda því fram að valdamenn segi vísvitandi annað en þeim raunverulega finnst. Ég á við að hugarfarið sé óyrt vegna þess að tungumálið dugi ekki til að nálgast það. Ef reynt er að nálgast hugarfarið með því að tala um það eru allar líkur á að maður festist í orðræðunni, líkt og á brautarteinum, og bruni eftir þeim fyrir fram mótaða leið. (Þess vegna finnst manni svo oft að maður hafi heyrt ótal sinnum áður það sem ráðamenn segja í hátíðarræðum).
Úr þessu verður einskonar tvöfeldni - annarsvegar það sem maður segir og hins vegar það sem manni finnst - og það má segja að hið eiginlega markmið alls skáldskapar og allrar heimspeki hafi frá upphafi verið að reyna að eyða þessari tvöfeldni. Reyna að koma orðum að því sem manni finnst. Það hefur einmitt verið þá sjaldan að slíkt hefur tekist að til hafa orðið mestu skáldskaparperlurnar og dýpsta heimspekin.
En hvort sem hún er góð eða slæm held ég að þessi tvöfeldni sé fyrst og fremst ein af staðreyndum lífsins. Þótt þeir sem setja lög á Íslandi noti oft orðabrautarteina á borð við "grípa til aðgerða", "forvarnir" og fleira í þeim dúr - að ógleymdri sjálfri "hugarfarsbreytingunni", sem er einhverjir mest notuðu orðabrautarteinar sem til eru á íslensku - verður að segjast eins og er að lítið sést af áþreifanlegum aðgerðum eða forvörnum. Yfirleitt eru þetta ekki annað en orð.
Og þótt fífldirfska, tillitsleysi, leikaraskapur og ókurteisi séu allt vel þekkt hnjóðsyrði sem notuð hafa verið í umræðu þjóðfélagsins um háttalag ökuníðinga verður að segjast eins og er, að hugarfarið í þjóðfélaginu virðist almennt vera á þá leið að þetta séu í rauninni eftirsóknarverðir eiginleikar og að án þeirra náist enginn árangur. Við spólum í því hugarfari að hinir tillitssömu komi ætíð síðastir í mark.
Daginn eftir að Morgunblaðið hafði eftir Umferðarstofu í baksíðufrétt að mannslífum væri fórnað fyrir fífldirfsku og leikaraskap í umferðinni birti blaðið lærða lofgrein um "harðasta naglann á Wall Street", sem komist hefði til mikilla metorða og peninga með því að vera allt annað en tillitssamur.
Um leið og almannarómurinn talar illa um þá sem valda skaða í umferðinni með hraða og tillitsleysi horfir hann með lotningu til þeirra sem með nákvæmlega sömu meðulum komast til valda og áhrifa í þjóðfélaginu. Það virðist beinlínis vera talinn eftirsóknarverður og raunhæfur möguleiki að verða hafinn yfir lög og rétt.
Ef til vil má halda því fram að tillitssemi og kurteisi séu jákvæðir eiginleikar hjá þeim sem ekur bíl, en dragbítar í stjórnmálum og viðskiptum. En það getur verið erfitt og tekið tíma að átta sig á því hvenær maður á að vera tillitssamur og hvenær ekki. Hætt er við að maður láti freistast til að grípa hvert það tækifæri sem gefst til að sýna að maður sé "harðasti naglinn", í þeirri von að ávinna sér aðdáun, virðingu og peninga.
Ef hin óyrtu skilaboð samfélagsins á einum vettvangi eru þau, að þeir tillitssömu verði aldrei frægir og ríkir er kannski ekki að undra að tillitssemi verði fátíð á fleiri sviðum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.11.2006 kl. 16:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.6.2006 | 13:55
Í leit að keppikefli
Viðhorf, Morgunblaðið, 23. maí 2006.
Ef eitthvað hefur umfram annað einkennt baráttuna fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík nú í lok mánaðarins er það hversu hljótt hún hefur farið. Ef til vill er það bara þessi Viðhorfaskrifari sem hefur svona takmarkaðan áhuga á pólitík, en þá ber að nefna að hann er ekki sá eini sem nefnir þetta. Skrifari Staksteina í Morgunblaðinu hefur ítrekað kvartað undan þessu og beðið frambjóðendur vinsamlegast að fara nú í smá "fæting", þó ekki væri til annars en að kjósendur gleymi kosningunum ekki.
Hvað veldur þessari hljóðlátu baráttu?
Það segir sína sögu að ef eitthvað ætlar að verða að hitamáli þá er það framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni. En um leið vita allir sem hlut eiga að máli að þar er ekki um raunverulegt kosningamál að ræða þar sem það er í rauninni ekki á könnu borgarstjórnarinnar að taka ákvörðun um flugvöllinn. Og hefur ekki samgönguráðherra bent mönnum vinsamlegast á að það liggi þegar fyrir að völlurinn verði á sínum stað næstu tíu árin?
Ef til vill skiptir líka máli að menn eru raunsæir og þykjast vita að úrslit kosninganna í Reykjavík hafi í raun og veru ráðist þegar R-listinn datt í sundur. Með öðrum orðum, kosningarnar eru bara formsatriði, svo tekur Sjálfstæðisflokkurinn við völdum. Eina spurningin er hvort Björn Ingi eða Ólafur F. þarf að ganga í lið með sjálfstæðismönnum, en það þykir vitað að þeir báðir verða fáanlegir til þess. Þetta eru því eiginlega ekki alvöru kosningar sem framundan eru og þess vegna varla nema von að menn nenni ekki að tala sig heita. Hvers vegna að hækka blóðþrýstinginn að óþörfu? Nóg er nú samt.
Útslagið í þessu öllu saman gerir svo sjálft eðli stjórnmálabaráttu eins og hún er í fjölmiðlasamfélagi. Hún er að miklu leyti sýndarveruleiki. Maður les það stundum í skáldsögum og sér í dramatískum sjónvarpsþáttum að í stjórnmálum sé "sýndin veruleiki". Ef þetta er rétt þýðir það að ef engin er sýndin þá er enginn veruleiki. Þess vegna verða menn að geta sýnt sig, sperrt á sér stélið, og forsenda þess er að hægt sé að hafa eiginlegar kappræður. Alvöru samræður hafa tilhneigingu til að gera þá sem þátt í þeim taka alveg ósýnilega og þess vegna geta samræður hæglega orðið banamein kröftuglegrar kosningabaráttu.
Nú verður ef til vill einhver til þess að saka Viðhorfsskrifara um hártoganir og segja að það sé enginn grundvallarmunur á samræðum og kappræðum. En það er ekki rétt. Á þessu tvennu er einmitt grundvallarmunur. Markmiðið er til dæmis gerólíkt. Markmiðið með samræðu er að komast að samkomulagi, en markmiðið með kappræðum er fullnaðarsigur annars keppandans. Í samræðu leitast maður jafnmikið við að tryggja hag viðmælanda síns og sinn eigin hag, en í kappræðu leitast maður fyrst og fremst við að koma höggi á viðmælandann, slá hann út. Í kappræðu gildir eigingirnin, í samræðu samkenndin.
Munurinn á samræðu og kappræðu er líka fólginn í afstöðu þátttakendanna sjálfra til umræðunnar. Það sem úrslitum ræður er að þegar maður tekur þátt í samræðu verður maður að gera ráð fyrir að viðmælandi manns kunni að hafa rétt fyrir sér og maður sjálfur rangt. En þetta má maður alls ekki gera í kappræðu. Þvert á móti verður maður í kappræðu að vera fullkomlega sannfærður um að viðmælandinn hafi á röngu að standa - alveg burtséð frá því hvað hann hefur að segja.
Kappræðan er því tvíburasystir sýndarmennskunnar og náskyld tilgerð og yfirborðsmennsku. Kappræðan stendur þannig raunverulegum samskiptum fyrir þrifum og þeir sem kunna ekki annað en kappræðu geta aldrei átt samræðu við neinn, aldrei orðið sammála neinum um neitt. Þátttakandi í kappræðu hugsar fyrst og fremst um að sýna sjálfan sig, en síður um að sjá aðra. Þátttakandi í samræðu bæði sýnir sjálfan sig og sér viðmælanda sinn. (En umfram allt: Í samræðu verður maður að gera ráð fyrir að viðmælandinn kunni að hafa rétt fyrir sér).
Vegna þess hve stjórnmálabarátta er að miklu leyti orðin að sýndarveruleika er hún fyrst og fremst af kappræðukyni, þar sem þátttakendur leggja megináherslu á að sjást (og skyggja helst á andstæðinginn um leið) með því að halda glæstar (og jafnvel lærðar) einræður. Það má því segja að "samræðustjórnmál" séu eiginlega þversögn, svona eins og "kvæntur piparsveinn".
Nú má lesandinn ekki halda að ég sé að segja að kappræður séu í sjálfu sér eitthvað slæmar. Alls ekki. Þær, líkt og sýndar- og yfirborðsmennska, eiga í mörgum tilvikum við, og eru oft mjög skemmtilegar. Samræður, eins og þær voru skilgreindar hér að ofan, geta aftur á móti orðið þungar í vöfum og jafnvel teprulegar. Þær krefjast svo mikillar tillitssemi að kröftugir leiðtogar (til dæmis stjórnmálaleiðtogar) geta lent í hinu mesta basli með þær. Slíkum leiðtogum lætur betur að láta gamminn geisa í kappræðum.
Ég er því alls ekki að halda því fram að þar sem stjórnmálabarátta sé fremur af kappræðukyni en samræðu séu hún eitthvað ómerkileg og að almennilegt fólk eigi að forðast hana. Fyrr mætti nú vera. Ég á aðeins við að kosningabaráttan í Reykjavík hefur verið daufleg vegna þess að það virðist vanta raunverulegt keppikefli.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2006 | 18:37
Kosningaflugvöllur
Það er útaffyrir sig góð hugmynd hjá Birni Inga að flytja Reykjavíkurflugvöll út á Löngusker - og verður áreiðanlega hægt að semja við Seltirninga um afnot af skerjunum - en samt verður nú að segjast eins og er að það er eitthvað brogað við að flugvöllurinn skuli vera svona mikið í umræðunni fyrir borgarstjórnarkosningarnar þar sem hann heyrir ekki undir borgarstjórn heldur samgönguráðuneyti.
Ég skrifaði Viðhorf um þetta fyrir allnokkru síðan og kópípeista það hérna fyrir neðan. Kannski er þetta til marks um að kosningarnar snúist í raun um lítið annað en ókeypis leikskóla sem allir flokkarnir eru í raun sammála um en deila bara um aðferðina við það. Líklega rétt hjá höfundi Staksteina í Mogga að kosningabaráttan sé fádæma daufleg.
Jæja, hérna er Viðhorfið um flugvallarmálið, það hét "Umræðuflugvöllur", og birtist í Morgunblaðinu um miðjan september í fyrra:
Umræðan um framtíð Vatnsmýrarinnar og þar með Reykjavíkurflugvallar er farin á loft rétt eina ferðina en með harla undarlegum formerkjum, svo ekki sé meira sagt. Flokkarnir sem sjá fram á að berjast um hituna í borgarstjórnarkosningum, Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin, hafa gert flugvallarmálið að einu helsta bitbeini kosningabaráttunnar þótt flugvöllurinn heyri alls ekki undir borgarstjórn heldur samgönguráðuneytið. (Og Sturla hefur staðið sig með mikilli prýði í málinu.) Það er vægast sagt undarleg barátta í uppsiglingu þarna. Menn keppast um að taka sem einarðasta og flottasta afstöðu til hluta sem þeir ráða í rauninni engu um. Kannski eru þarna komin umræðustjórnmálin frægu - hreinræktuð umræða, tært rifrildi, alveg án tengsla við nokkurn áþreifanlegan veruleika. Ekkert nema orðasennur. Baráttan fyrir þessar kosningar verður orðræðubarátta. Að vissu leyti er flugvallarmálið hið fullkomna mál fyrir orðræðubaráttu. Borgarstjórnarflokkarnir geta óhræddir látið vaða hvaða fullyrðingu sem er, því að undir niðri er vitað að þeir bera enga ábyrgð á flugvellinum og þar af leiðandi er gulltryggt að þeir þurfa aldrei að standa við nokkurn skapaðan hlut af því sem þeir segja. Enda hafa menn ekki dregið af sér. Nýjasta snilldin er tillaga vinstrimanna um að efna til hugmyndasamkeppni um skipulag Vatnsmýrarinnar miðað við að flugvöllurinn hverfi þaðan. (Þegar Steinunn Valdís var spurð hvað ef flugvöllurinn fer ekki, fór hún undan í flæmingi.) Og ekki nóg með það. Það á að fá heimsfrægan arkitekt til að taka þátt. Gott ef Hollendingurinn Rem Koolhas var ekki nefndur í því sambandi. Að vísu alveg óljóst með hvaða hætti Koolhas skyldi "koma að málinu" og fróðlegt væri að vita hvort hann veit sjálfur að hugmyndin er að stimpla Vatnsmýrarskipulag með nafninu hans. Það virðist því sem borgarstjórn sé tilbúin að eyða stórfé í að fá heimsfrægt nafn bendlað við skipulag sem borgarstjórn hefur aftur á móti ekki sjálf vald til að framfylgja. Þarna er því enn á ferðinni hrein umræða, án beinna tengsla við áþreifanlegan veruleika. Verst hvað þetta ætlar að verða dýr umræða, dýrt nafn. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa hingað til ekki sagt margt um flugvallarmálið, og maður hafði haldið að það væri einfaldlega vegna þess að þeir væru að því leyti raunsærri en Samfylkingarfulltrúarnir að þeir gerðu sér grein fyrir því hvernig málið er í rauninni vaxið. En nú hefur brugðið svo við að uppúr foringja sjálfstæðismanna skreppa stórar fullyrðingar um að flugvöllurinn skuli burt. Þetta er í fyrstu illskiljanlegt upphlaup, þangað til það rennur upp fyrir manni að Vilhjálmur er greinilega búinn að fatta eðli flugvallarumræðunnar - að hún er hrein orðræða og honum er óhætt að segja hvað sem er. Staksteinaskrifari Morgunblaðsins lét svo til sín taka í þessari orðræðu um daginn og fullyrti að sjálfstæðismenn hefðu nú "tekið forustuna" í flugvallarmálinu. Það er erfitt að koma auga á í hverju þessi meinta "forusta" sjálfstæðismanna getur verið fólgin. Nema þá ef væri því að hafa tekið hvað afdráttarlausasta afstöðu, notað hástemmdustu og gildishlöðnustu orðin. En verður Staksteinahöfundur þá ekki að viðurkenna að með því að nefna nafnið á heimsfrægum arkitekt hafi Samfylkingarmenn átt ansi sterkan leik? Gott ef ekki tekið forustuna aftur. Sjálfstæðismenn eiga því varla annars úrkosti en reyna að nefna arkitekt sem er frægari en Koolhas. Ég sting upp á Kanadamanninum Frank Gehry, sem teiknaði Guggenheim-safnið í Bilbao og er að segja má í kjölfarið frægasti arkitekt í heimi einmitt núna. Í þessu orðakapphlaupi, sem hafið er milli Sjálfstæðisflokks og vinstrimanna í borginni, virðist ýmislegt ætla að fara fyrir ofan garð og neðan. Engum virðist þykja merkilegt að í Vatnsmýrinni er ekki bara mannlíf heldur líka dýralíf, og þá kannski ekki síst fuglalíf. Hafa kríurnar verið spurðar? Svona alveg án gamans, hefur eitthvað verið spáð í það hvaða áhrif þétt íbúðabyggð í Vatnsmýrinni muni hafa á kríubyggðina í Tjörninni? (Athyglisverðan og fágætan vinkil á Vatnsmýrarmálið mátti sjá í grein Sigríðar Ásgeirsdóttur, formanns Dýraverndunarsambands Íslands, á bls. 36 í Morgunblaðinu á sunnudaginn). Og það virðist líka ætla að gleymast alveg í flugvallarorðræðunni í kosningabaráttunni í borginni að þessi blessaði flugvöllur er fjarri því að vera eitthvert einkamál Reykvíkinga. Mætti jafnvel ganga svo langt að segja að hann komi þeim mun minna við en öðrum landsmönnum. Reykvíkingar þurfa ekki á flugvellinum að halda til að komast á fullkomnasta sjúkrahús landsins í hvelli ef mikið liggur við. Reykvíkingar þurfa ekki á flugvellinum að halda til að eiga greiða leið að höfuðborginni. Það verður að segjast eins og er, að utan af landi séð lítur flugvallarumræðan í Reykjavík hálfhjákátlega út. Það er erfitt að koma auga á um hvað fólkið er eiginlega að tala. Að minnsta kosti verður ekki séð að umræðan snúist um neitt áþreifanlegt. Það er í mesta lagi deilt um hvernig pótemkíntjöldin, sem kjósendum eru sýnd, skuli líta út.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.8.2006 kl. 20:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2006 | 09:31
Hamingjan kostar milljón
(Viðhorf, 25. apríl)
Breski hagfræðingurinn Richard Layard hefur reiknað það út að til að vera hamingjusamur þurfi maður að eiga sem svarar einni milljón króna. Þótt maður eignist eitthvað umfram það eykst hamingja manns ekki í réttu hlutfalli. Og þótt manni hætti til að brosa og hugsa sem svo, að þetta sé nú áreiðanlega einhver brandari, þá er málið alls ekki svo einfalt. Vissulega leiðir fátækt til óhamingju, en lexían sem draga má af útreikningi Layards er að þótt þeir sem eru fátækir verði hamingjusamari við að eignast peninga verða þeir sem þegar eru sæmilega stæðir ekki hamingjusamari af því einu að verða vellauðugir.
Fjölmargar rannsóknir hafa leitt til þeirrar niðurstöðu að aukið ríkidæmi auki ekki hamingju fólks. Einhverntíma í fyrra sá ég frétt þess efnis að Bretar væru nú almennt óhamingjusamari en þeir voru á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Það er svo sannarlega ótrúlegt. Bandaríkjamenn eru núna um það bil tvisvar sinnum ríkari (að meðaltali) en þeir voru á áttunda áratugnum, en það fer lítið fyrir því að þeir segist vera hamingjusamari. Japanir eru sex sinnum ríkari núna en þeir voru á sjötta áratugnum, en hamingja þeirra hefur ekki aukist. Ofan á þetta bætast svo ótölulega margar sögur af fólki sem verður skyndilega brjálæðislega ríkt með því að vinna í lottói en leiðist í kjölfarið út í tóma vitleysu og lífsleiða.
Þessar niðurstöður byggja sál- og félagsfræðingar á gögnum frá ríku löndunum í heiminum. Í staðinn fyrir að nýríkum aukist hamingja eftir því sem auður þeirra vex lenda þeir á því sem sálfræðingarnir kalla "nautnastrit" - væntingarnar vaxa í réttu hlutfalli við auðinn. Gömlu sannindin: Mikið vill meira.
Ég geri ekki ráð fyrir að ofanskrifað komi einum einasta lesanda sérlega mikið á óvart. Nema ef til vill þetta með að hamingjan kosti milljón. Vísast er sú tala miðuð við breskt samhengi og gaman væri að fá Layard til að reikna út hvað hamingjan kostar á Íslandi. Hún er kannski eitthvað dýrari, en varla svo mikið að það breyti nokkru um það sem Layard er fyrst og fremst að benda á: Peningar eru vissulega forsenda hamingjunnar, en aðeins upp að vissu marki.
Ég geri líka ráð fyrir að hver einasti lesandi (það er að segja ef ekki eru allir þegar hættir að lesa þetta vegna þess að þeir hafa ekki séð annað en gamlar tuggur í því sem ég hef hingað til sagt) muni taka undir það að peningar séu ekki aðalatriðið í lífinu. Vissulega er til fólk sem stundar auðsöfnun af ástríðu, svona eins og aðrir stunda íþróttir af ástríðu, en ég held að óhætt sé að fullyrða að þetta er fámennur hópur. Allur þorri fólks miðar líf sitt, velferð og gildi við annað en peninga.
Og einmitt þess vegna má heita furðulegt hvað íslenskir fjölmiðlar eru duglegir við að fjalla um þennan fámenna hóp sem stundar auðsöfnun af ástríðu. Í gær og fyrradag greindu íslenskir fjölmiðlar samviskusamlega frá því að einhverjir Íslendingar væru komnir á lista yfir ríka menn í Bretlandi. Morgunblaðið sagði meira að segja frá þessu á útsíðu, eins og um stóra frétt væri að ræða. Það er kannski skiljanlegt að fjölmiðlar fjalli mikið um ríka menn ef þessir fjölmiðlar eru beinlínis í eigu ríku mannanna sem þeir fjalla um. Og kannski er skiljanlegt að íslenskir fjölmiðlar fjalli um ofsaauð Íslendinga vegna þess að það er tiltölulegt nýmæli að Íslendingar eigi stóran auð.
En það er samt dálítið skrítið, svo ekki sé meira sagt, að fréttaflutningur fjölmiðla á Íslandi skuli snúast að langmestu leyti um ofsagróða fáeinna manna og fyrirtækja, en ekki það sem varðar hamingju fólks. Ofan á þetta bætist svo, að auður Íslendinganna sem komust á listann í Bretlandi varðar lítið venjulega Íslendinga, nema að þessir menn greiði skatt af þessum auði hérlendis, en ég veit satt að segja ekki hvort það kom fram í fréttunum í gær og fyrradag.
Annaðhvort er skýringin sú, að fjölmiðlarnir telja að peningar séu í sjálfu sér merkilegir og því meiri sem peningarnir eru því merkilegra sé málið og þar með fréttnæmara, eða, eins og tæpt var á hér að framan, að það er enn mikið nýmæli á Íslandi að Íslendingar nái ofsagróða. Vonandi er seinni tilgátan rétta útskýringin, því að sú fyrri væri til marks um stórundarlegt fréttamat.
Það sem er athugavert er mikil áhersla á og mikil fyrirferð frétta af viðskiptum, peningum og fólki sem á mikið af peningum. Með því að stjarngera nýmoldríka og flytja andaktugar fréttir af hinum minnstu uppátækjum þeirra eins og um væri að ræða Hollywoodstjörnur eða fótboltamenn draga fjölmiðlar athyglina frá því sem meiru skiptir, og Morgunblaðið nefndi í leiðara á sunnudaginn: "Það á að vera sameiginlegt metnaðarmál þjóðarinnar allrar að bæta [kjör láglaunafólks] svo um munar." Nákvæmlega. Þetta á að vera metnaðarmál þjóðarinnar. Það á ekki að vera metnaðarmál þjóðarinnar að eignast ríkasta fólk í heimi.
17.4.2006 | 21:44
Meira um kanadískar skúringakonur
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.4.2006 kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2006 | 12:37
Lífskjör kanadískra skúringakvenna
Besta dagblað í heimi, The Globe and Mail í Kanada, birti á laugardaginn alveg mergjaða frásögn blaðakonunnar Jan Wong af lífskjörum hreingerningarkvenna í Toronto, sem eru eiginlega neðan við neðstu þrep launaskalans. Það er ekki bara að umfjöllunarefnið sé athyglisvert heldur er þessi grein afspyrnu gott dæmi um blaðamennsku eins og hún gerist allra best.
Wong fór ekki leið íslenskra fjölmiðla og tók endalaus viðtöl. Nei, hún réði sig í vinnu í einn mánuð sem skúringakona, eins og það myndi kannski helst heita á íslensku. Og þessi grein er okkur fjölmiðlungum og blaðurmönnum líka góð áminning um það, að við þurfum ekki alltaf að fjalla um stjórnmál, fjármál eða fjarlægar slóðir (nú eða frægt fólk) til að eitthvað sé varið í skrifin okkar.
Það ætti að vera hægt að finna greinina HÉRNA.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.4.2006 | 12:22
Hvers vegna þarf rithöfund til?
Spurt er að því í Lesbók í dag hvers vegna þurft hafi rithöfund til að benda Íslendingum á það sem Andri Snær bendir á í nýju bókinni sinni. Hvers vegna fjölmiðlar hafi ekki verið búnir að benda á þessi sannindi. Mér er nær að halda að svarið blasi við.
Frægð umrædds rithöfundar - í þessu tilviki Andra Snæs - skiptir jafn miklu máli, ef ekki meira máli, og innihaldið í bókinni hans. Ef nú til dæmis einhver Viðhorfsskrifari Morgunblaðsins hefði tekið sig til og skrifað nokkrar greinar sem innihéldu nákvæmlega það sama og bók Andra Snæs hefði það aldrei vakið athygli. Hvers vegna ekki? Vegna þess að enginn Viðhorfaskrifari í Mogga er frægur.
Það er nú bara einusinni þannig að á Íslandi eins og í flestum öðrum samfélögum skiptir meira máli hver maður er en hvað maður hefur að segja. Frank McCourt, höfundur Angela's Ashes, sagði einhverju sinni frá því hvað sér hefði fundist það skondið að eftir að hann varð frægur fyrir bókina fóru fjölmiðlar að leita álits hans á hinum aðskiljanlegustu málefnum sem hann hafði ekki fram að þvi talið sig hafa vit á. En hann var orðinn frægur og þar með málsmetandi.
Hvernig stendur á því á málum er svona öfugsnúið farið?
Málið er vísast flóknara. Til dæmis ræður það miklu að ef rithöfundur fjallar um tiltekið mál þá vekja fjölmiðlar athygli á því með þvi að fjalla um umfjöllun hans og þar með verður umfjöllun hans margfalt meira áberandi en ella. Morgunblaðið hefði ekki getað fjallað um skrif eigin Viðhorfaskrifara með sama hætti og það hefur fjallað um bók Andra Snæs.
Það er eflaust meira í þessu, en ég held að það bíði bara Viðhorfs ...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)