Færsluflokkur: Vísindi og fræði
29.12.2007 | 15:39
Stóískt nýtt ár
Markmiðið með því að strengja áramótaheit er jafnan að verða betri maður, annaðhvort til sálar eða líkama eða hvort tveggja. Slík heit geta varðað einhvern tiltekinn ósið sem maður vill venja sig af, eins og að hætta að reykja, nú eða heilsubót sem maður vill temja sér, eins og til dæmis að fara að mæta í ræktina á hverjum degi.
Göfugust eru þó þau heit sem maður gefur um að koma betur fram við annað fólk. Bandaríski rithöfundurinn Henry James sagði við William frænda sinn að þrennt væri mest um vert í mannlífinu: Í fyrsta lagi að vera vingjarnlegur. Í öðru lagi að vera vingjarnlegur. Og í þriðja lagi að vera vingjarnlegur." Hvort Henry beindi þessum orðum fyrst og fremst til sjálfs sín skal ósagt látið.
En við svona háleit heit er eitt að athuga: Það er eiginlega alveg gefið mál að maður getur ekki staðið við þau. Það er ekki einu sinni rökrétt að fylgja þessu boðorði Henry James. Á maður að vera vingjarnlegur við þá sem vinna manni sjálfum og jafnvel náttúrunni tjón? Þá sem brjóta gegn mannréttindum?
Á maður jafnvel að vera vingjarnlegur við innbrotsþjóf sem maður mætir í stofunni heima hjá sér um miðja nótt og bjóða honum kaffisopa á meðan beðið er eftir lögreglunni?
Nei, þetta boðorð virðist beinlínis stríða gegn mannlegu eðli. Væri þá ekki nær að hafa í heiðri þann viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar sem heimilar skotvopnaeign til að hver og einn geti varið bú og börn?
Samt er það nú svo, að frá örófi alda hafa menn leitað leiða til að gera sjálfum sér og öðrum kleift að fylgja þeirri hugmynd sem Henry James setti þarna fram. Sökum þess að mannskepnan hefur áskapað eðli, hvað sem hver segir, hefur erfiðasti hjallinn alltaf verið sá sami: Manns eigið skap. Það virðist beinlínis þurfa fullkomið skapleysi til að verða aldrei reiður og láta allt yfir sig ganga, samanber dæmin hér að framan.
Maður nær aldrei árangri í lífinu og verður aldrei ríkur með þeim hætti. Og svo mikið er víst að enga möguleika ætti maður á frægð ef maður hefði ekkert skap til að missa stjórn á undir vökulu auga papparassa.
En hvers vegna hefur þetta engu að síður verið yfirlýst markmið fjölda fólks frá ómunatíð? Hvað var Henry James - íhugull rithöfundur af gamla skólanum - þá eiginlega að hugsa? Hvers vegna kveður kristinn siðaboðskapur á um að manni beri að bjóða fram hinn vangann? Er það ekki hámark aumingjaskaparins að leggjast eins og hundur fyrir fætur kvalara síns? Fyrr má nú vera fórnarlambskomplexinn!
Af þessum sama meiði er svo auðvitað æðruleysisbænin svonefnda, um styrk til að fást ekki um það sem maður fær engu um breytt, og óhætt er að fullyrða að allar sjálfshjálparbækur sem skrifaðar hafa verið - og þær eru sannarlega ófáar - hafa þennan sama kjarnaboðskap: Maður á að einbeita sér að því sem maður getur haft stjórn á.
Og hverju getur hver og einn sjálfur stjórnað? Síauknar vinsældir hvers kyns reiðistjórnunarnámskeiða sýna að ekki verður sagt að almennt hafi fólk stjórn á eigin skapi. Að reyna sífellt að hafa stjórn á öðrum telst nú orðið sjúkleiki og kallast meðvirkni.
En maður getur haft stjórn á hugsun sinni, það eru aldagömul sannindi sem eru kjarninn í öllum nýjum sjálfshjálparbókum. En hvað felur það í sér að hafa stjórn á hugsun sinni?
Við þessari spurningu hafa verið veitt ótal svör, en þau hafa þó alltaf verið það sama. Líklega hefur enginn orðað svarið betur en stóuspekingurinn Epiktítos, sem sagði í Handbók sinni:
Mundu að fúkyrði og kjaftshögg eru ekki í sjálfu sér hneykslanleg heldur er það þín eigin ákvörðun að svo sé. Þegar einhver reitir þig til reiði skaltu gera þeir grein fyrir því, að það er þín eigin hugsun sem hefur vakið reiði þína. Þess vegna skaltu leitast við að láta ekki upplifunina hlaupa með þig í gönur."
Epiktítos mun hafa fæðst árið 55 svo að ekki verður sagt að boðskapurinn sé alveg nýr af nálinni. Hann mun upphaflega hafa verið rómverskur þræll, en síðar lærði hann heimspeki hjá stóuspekingum og stofnaði eigin skóla.
Inntak stóuspekinnar var yfirvegun í mótlæti, og þaðan er auðvitað dregið orðalagið að taka einhverju með stóískri ró. Grundvöllurinn að þessari ró er einmitt að gera sér grein fyrir því að maður hafi sjálfur stjórn á hugsun sinni, og geti því sjálfur ákveðið hvort það sem sagt er við mann er móðgandi og kalli á hefnd.
Epiktítos sagði ennfremur í Handbókinni: Það sem raskar ró manna eru ekki atburðirnir sjálfir heldur skilningur þeirra á atburðunum." Sá sem gerir sér grein fyrir því að hann hefur stjórn á hugsun sinni er því ekki ofurseldur neinum fyrirfram gefnum og utanaðkomandi skilningi á atburðum eða gjörðum og orðum annarra.
Þannig hefði mátt afstýra mörgu hefndarvíginu hér á landi ef áhrifa stóuspekinnar hefði gætt hér á miðöldum - og má vekja athygli á að stóuspekin hafði þá verið til í hundruð ára, en því miður ekki ratað hingað norðureftir.
En það þarf ekki að fara aftur á miðaldir til að finna tíma sem hefðu haft gott af smá stóuvæðingu. Þau eru ófá voðaverkin sem framin hafa verið af illri en óhjákvæmilegri nauðsyn," eins og til dæmis til að varðveita meintan hreinleika einhvers kynstofns.
Stóuheimspekin getur því rennt stoðum undir boðskap Henry James um mikilvægi vingjarnleikans, og jafnvel sýnt fram á hvernig hægt er að framfylgja honum. Þess vegna væri alveg hægt að strengja þess heit um áramótin að verða framvegis stóískari og vingjarnlegri.
(Viðhorf, Morgunblaðið 29. desember 2007)
22.10.2007 | 09:18
Áfengi í þverpokum
Þetta vekur óhjákvæmilega þá spurningu hvort heilbrigðisráðherrann taki ekkert mark á landlækni, eða telji það vera í lagi að samfélagstjón af völdum áfengisneyslu aukist. Hvort heldur sem er má það kallast merkileg afstaða ráðherrans. Að vísu hafði hann uppi einhver orð um að hann vildi líka auka forvarnir, en samkvæmt heimildum sem landlæknir vísar í eru forvarnir ekki meðal þess sem talið er draga úr áfengisneyslu.
Eftir situr sú spurning hvort ráðherra Guðlaugur tekur ekki mark á landlækni eða hefur ekkert á móti því að samfélagslegur heilsuskaði aukist. Er þetta ekki dálítið undarlegt viðhorf hjá æðsta manni heilbrigðismála í landinu?
Áður en Guðlaugur varð heilbrigðisráðherra hafði hann sjálfur staðið að því að reyna að fá einkasölu ríkisins á áfengi afnumda, og flutningsmaður tillögunnar núna er Sigurður Kári Kristjánsson, flokksbróðir Guðlaugs, og kannski telur ráðherrann flokkstengslin meira um verð en heilbrigðismál þjóðarinnar.
Þegar mbl.is flutti fregnir af afstöðu landlæknis hlóðust á fréttina bloggfærslur og voru ófáir bloggarar þeirrar skoðunar að auðvitað ætti að afnema einokunina. Kannski er ástæðan fyrir afstöðu ráðherrans sú að honum er illa við að taka óvinsæla afstöðu, jafnvel þótt hún sé studd vísindalegum rökum. Enda er það ekki nýtt í stjórnmálum að hugmyndafræði vegi þyngra en skynsamleg rök.
Á vef landlæknisembættisins er vísað til nýlegrar bókar um áfengismál, Alcohol: No Ordinary Commodity - Research and Public Policy. Í bókinni "hefur verið rýnt í allar helstu rannsóknir sem nýtast við stefnumótun í áfengismálum," segir á vef landlæknis. Titill bókarinnar segir mikið af því sem segja þarf: "No Ordinary Commodity," áfengi er "engin venjuleg vara." Hvers vegna ekki?
Svarið er einfalt: "Áfengi er vímuefni sem getur valdið fíkn og er því engin venjuleg neysluvara." Í þessari bók er meðal annars fjallað "um vísindaleg rök fyrir ýmsum leiðum til að koma í veg fyrir eða draga úr skaða sem rekja má til áfengisneyslu." Ein þessara leiða er ríkiseinkasala áfengis.
Kannski hefur ráðherra Guðlaugur ekki séð þessa umfjöllun á vef landlæknis. Eða er afstaða hans byggð á einhverjum öðrum rökum og sterkari? Ef svo er væri gaman að Guðlaugur tíndi þau til og birti, eða benti á hvar þau er að finna. Það er ekki nóg að hann flaggi einhverjum klisjum um að hann sé fylgjandi auknum forvörnum.
Allt um það. Núna er í fyrsta sinn útlit fyrir að frumvarpið um ríkiseinokunina verði að veruleika. Mbl.is sagði frá því um daginn að Bónus biði spenntur eftir því að geta farið að selja ódýran bjór undir merkinu Euroshopper. Verði það að veruleika leysist kannski "vandinn" sem fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, reyndi að bregðast við með því að láta fjarlægja bjórkælinn úr ríkinu í Austurstræti.
Fastir viðskiptavinir ÁTVR, sem borgarstjórinn fyrrverandi vildi losna við úr miðborginni, flytja sig þá væntanlega þangað sem bjórinn er ódýrastur, það er að segja til þeirra verslana sem selja hann. (Að vísu er ein slík á Laugaveginum, svo þessir kúnnar þurfa kannski ekki að fara langt).
Í nágrannaríkjum okkar, þar sem bjór er seldur í matvöruverslunum, er málum einmitt svona háttað; utangarðsmennirnir halda sig fyrir utan verslanirnar, milli þess sem þeir skreppa inn og kaupa meiri bjór - og kannski brauðhleif til að hafa með. Ég veit ekki hvort verslunarstjórar Bónuss yrðu hrifnir af þessari viðbót við kúnnahópinn.
Sú afstaða að áfengi eigi að vera eins og hver önnur neysluvara og fást í venjulegum matvörubúðum er byggð á tiltekinni hugmyndafræði - það er að segja, hugmyndum um hvernig hlutunum eigi að vera háttað, en ekki með tilliti til þess hvernig þeir eru í raun og veru. Það er væntanlega forsendan fyrir viðhorfi heilbrigðisráðherrans til málsins.
Hin afstaðan, að áfengi sé ekki venjuleg neysluvara og eigi ekki að vera eins aðgengilegt og venjulegar vörur, er aftur á móti ekki byggð á hugmyndafræði heldur vísindalegum rannsóknum, það er að segja athugunum á því hvernig hlutunum er í raun og veru háttað (burtséð frá því hvort maður vilji að þeim sé þannig háttað). Þetta er tilfært á vef landlæknis:
"Niðurstöður rannsókna benda eindregið til þess að einkasala ríkisins á áfengi dragi úr neyslu og tjóni sem af henni hlýst og ef einkasölunni er aflétt aukist heildarneysla áfengis. Athygli vekur [...] að fræðsla skilar ekki mælanlegum árangri en opinberar aðgerðir verulegum."
Vinur minn einn var á sínum yngri árum - eins og gjarnt er um unga menn sem vilja sýnast hörkutól - staðráðinn í að maður ætti jafnvel að hafa fullt frelsi til að fara til helvítis ef maður kysi það. Svo mikilvæga taldi hann frelsishugsjónina, að mannslífum væri fórnandi fyrir hana.
Þetta var óneitanlega kúl afstaða og dramatísk en að sama skapi óskynsamleg. En eins og ég sagði, þessa afstöðu hafði vinur minn þegar hann var ungur, og ungir menn hafa jú aldrei verið þekktir fyrir að reiða skynsemina í þverpokum.
(Viðhorf, Morgunblaðið 22. október 2007)
27.8.2007 | 13:45
Í fyrirmyndarríki fegurðarinnar
Um bókina Um fagurfræðilegt uppeldi mannsins, eftir Friedrich Schiller, útg. Hið íslenska bókmenntafélag. Lesbók 25. ágúst 2007.
Þegar Ólafur Kárason Ljósvíkingur gengur á jökulinn og þar með á vit örlaga sinna í lok Heimljóss Halldórs Laxness telur hann sig vera að ganga á vit hinnar hreinu fegurðar, inn í tilveru sem er að öllu leyti laus við hinn áþreifanlega veruleika - í tilveru þar sem "búa ekki framar neinar sorgir...þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu."
Í upphafi sögunnar, þegar Ólafur er barn, er "lángt síðan hann byrjaði að þrá óskiljanlega huggun." Sagan fjallar um þær hremmingar sem verða á vegi Ólafs í leit hans að þessari huggun, og í lokin virðist hann finna hana með því að ganga inn í ríki fegurðarinnar. En til þess að komast þangað verður hann að yfirgefa veruleika hins áþreifanlega heims, því að allt í heimi hlutanna hefur reynst honum fjötur um fót og komið í veg fyrir að hann fyndi huggunina sem hann hafði leitað frá því hann var barn.
Heimsljós felur þannig í sér ákveðna fagurfræði, eða hugmynd um hvað fegurðin er, og kannski umfram allt hvað hún er ekki: Fegurðina er aldrei hægt að öðlast í þessum heimi, hann er grófur og ruddalegur, miskunnarlaus og skilningslaus. Samkvæmt þessari fagurfræði er fegurðin einna líkust Guðsríki, og maður öðlast hana ekki fyrr en maður segir skilið við jarðlífið. Þetta er harkaleg fagurfræði; fegurðin gerir samkvæmt þessu ómannlegar kröfur. Líkindin við kenningar ómannúðlegustu afbrigða kristninnar eru auðvitað augljós, en það er önnur saga.
Sú fagurfræði sem Schiller bar á borð í bréfum sínum um fagurfræðilegt uppeldi mannsins er öllu hógværari og mannúðlegri, því að samkvæmt henni er fegurðin órofa tengd hinum áþreifanlega heimi sem maðurinn býr í, og ef hann afneitar þessum heimi fyrirgerir hann í rauninni möguleika sínum á að upplifa fegurðina og öðlast skilning á henni. Samkvæmt Schiller hefði Ólafur Kárason skáld því endanlega fyrirgert möguleikanum á að öðlast huggun fegurðarinnar með því að ganga á jökulinn og bera þar beinin.
Samkvæmt hugmyndum Schillers er fegurðin einskonar sáttasemjari þeirra öfga sem bítast á í manninum, annarsvegar óyfirvegaðra náttúruhvata hans, sem leita aldrei eftir öðru en tafarlausri fullnægingu líkamlegra hvata einstaklingsins; og hins vegar skilyrðislausra krafna hreinnar skynsemi, sem taka ekkert tillit til mannlegra þarfa og hafna því að einstaklingurinn skipti máli. Schiller, líkt og Hegel og fleiri þýskir hughyggjumenn, var ákaflega gagnrýninn á ofuráherslu Upplýsingarinnar á einræði skynseminnar, og taldi ógnarstjórnina sem fylgdi í kjölfar frönsku byltingarinnar sýna hvernig það einræði birtist í raun.
Fegurðin sameinar og skapar víxlverkun á milli efnis og forms. Upplifun fegurðar er hvorki fólgin í algjörlega óyfirvegaðri skynjun, án allrar mótunar af hálfu hugsunarinnar, né skilningi á hreinu formi sem hefur verið hreinsað af öllu innihaldi. "Við þurfum því ekki lengur að vera í vandræðum með að finna leið frá því ósjálfstæði sem fylgir okkur sem skynverum til siðferðislegs frelsis, þegar fegurðin hefur sýnt að þetta tvennt getur farið fullkomlega saman, og að maðurinn þarf alls ekki að flýja frá efninu til þess að rækja hlutverk sitt sem andleg vera" (bls. 231).
Þessu hlutverki gegnir fegurðin ekki aðeins í listum og menningu. Hið fagurfræðilega uppeldi mannsins nær til allra þátta mannlífsins, jafnt listsköpunar sem stjórnmála og afstöðu til náttúrunnar. Hugmyndir Schillers um það síðastnefnda fela hvorki í sér að manninum beri að láta náttúruna með öllu ósnortna og einungis tengjast henni með því að skynja hana, né að hann skuli takast á við hana og ekki tengjast henni nema að því marki sem hann nytjar hana. "Hinn siðmenntaði maður gerir náttúruna að vini sínum og virðir frelsi hennar um leið og hann hemur duttlunga hennar" (bls. 83). Fagurfræðileg afstaða til náttúrunnar felur í sér að henni er sýnd virðing, en um leið er trúað á "vilja hennar til að hlýða...leiðsögn" (bls. 255).
Bréf Scillers um fagurfræði bera skýr merki um skyldleika við skrif annarra helstu postula þýsku hughyggjunnar, eins og til dæmis Hegels. Hér má sjá glöggt dæmi um hvernig díalektísk orðræða mjakast áfram með rykkjum og skrykkjum í ýmsar áttir - virðist oft hafna því sem hún var nýbúin að fullyrða, svo að lesandinn verður dálítið ringlaður - en þarna er í rauninni um að ræða að sami hluturinn er skoðaður (sagður) frá öðru og þá kannski andstæðu sjónarhorni til þess að leiða betur í ljós hvernig hann er í raun og sanni.
Þannig fer Schiller á mikið og skáldlegt flug undir lok síðasta bréfsins í lýsingum á "hinu fagurfræðilega" ríki þar sem manninum hefur verið beint inn í hugsjónaheiminn. En hann lýkur ekki máli sínu með því að segja að hann boði mönnunum þarna mikinn fögnuð og frelsun, heldur staldrar skyndilega við og spyr hvort þetta ríki sé í rauninni til einhvers staðar. Hvort þessi hugsjón geti virkilega orðið að áþreifanlegum raunveruleika.
Svarið einkennist af varkárni: Þetta ríki er vissulega til sem þörf í sálum yfirvegaðra manna, en sem eiginlegur veruleiki má í mesta lagi ætla að það gæti verið að finna "hjá fáeinum útvöldum hópum" (bls. 256). Með öðrum orðum, það er ekki mögulegt sem áþreifanlegur veruleiki alls mannkyns. Raunveruleiki hins fagurfræðilega ríkis er því ákaflega takmarkaður, en þar með er alls ekki sagt að við verðum að hafna hugmyndinni og setjast við teikniborðið á ný, eins og er gjarnan krafa síðari tíma heimspekinga ef hugmyndir ganga ekki fullkomlega upp. Slíkt væri blekkingarleikur. Það er einfaldlega hluti af sannleikanum um hið fagurfræðilega ríki að það er hugmynd en ekki framkvæmdaáætlun.
22.8.2007 | 07:10
Sarko sprettur
Viðhorf, Morgunblaðið 22. ágúst, 2007
Franskir heimspekingar hafa löngum verið vandir að vitsmunum sínum. Þeim er líka í mun að ekkert varpi skugga á ímynd Frakklands sem heimalands yfirvegaðrar gagnrýni og hugsunar.
Það er líklega þess vegna sem að minnsta kosti einn franskur spekingur hefur harmað að nýi forsetinn, Nicolas Sarkozy, skuli fara út að hlaupa á hverjum morgni, hundeltur af fjölmiðlamönnum sem hafa ekki vanist því að geta tekið myndir af forseta lýðveldisins með bera fótleggi og löðrandi í svita.
Fjölmiðlar hafa haft eftir umræddum heimspekingi, Alan Finkelkraut, sem mun hafa verið einn helsti forsprakki 68-hreyfingarinnar (það kann að útskýra ýmislegt), að það sé beinlínis niðurlægjandi að forseti lýðveldisins skuli láta sjá sig sveittan og hlaupandi.
Gott og vel. Finkelkraut fær kjánahroll og finnst heimskulegt að skokka. Vill kannski heldur að forsetinn sitji gáfulegur á Café Flora með nikótíngula fingur og yppti öxlum eins og sönnum frönskum gáfumanni sæmir. En málið er ekki svona einfalt. Finkelkraut þessi - og ef marka má fjölmiðla eru ýmsir landar hans og fagbræður honum sammála - lítur svo á, að skokk ("le jogging" heitir það víst) hafi pólitíska vídd og sé einhvernvegin hægrisinnað.
Hvernig fá menn það út? Skokk - og væntanlega önnur líkamsrækt - er birtingarmynd sjálfhverfrar hugsunar. Hugsun skokkarans hverfist um hans eigin líkama, en leitar ekki út fyrir búkinn á vit hreinna hugmynda sem eru altækar og þannig ekki bundnar neinni tiltekinni "hér-veru" (svo maður bregði nú fyrir sig heimspekilegu orðalagi).
Skokkarinn leitast við að rækta sjálfan sig, og vegna þess að ræktunin beinist að líkamanum er hún bundin við skokkarann sjálfan, en leitar ekki út fyrir hann. Skokk er því einstaklingshyggja. Þar að auki felur skokk og líkamsrækt í sér stjórnun og rekstur líkamans og er því í eðli sínu kapítalískt athæfi. Að ekki sé nú minnst á að skokk og skipulögð líkamsrækt er upprunnin í Bandaríkjunum, og tengist þannig menningareyðandi fyrirbærum á borð við McDonald´s.
TimesOnline sagði að Finkelkraut hefði komið fram í sjónvarpi og beðið Sarkozy þess lengstra orða að hætta þessu ósæmilega athæfi. Skokk væri fyrir neðan virðingu forseta Frakklands. Þess í stað lagði Finkelkraut til, að Sarkozy færi í gönguferðir að hætti Sókratesar og Rimbauds, og fleiri andans stórmenna.
Finkelkraut sagði í sjónvarpinu: "Vestræn menning, í sinni glæsilegustu mynd, varð til í gönguferð. Ganga er athæfi sem höfðar til tilfinninganna og hugsunarinnar. Skokk er stjórnun á líkamanum. Skokkarinn segir: Ég stjórna. Það hefur ekkert með yfirvegun að gera."
Nú má vera að Finkelkraut hafi verið að grínast. Franskir heimspekingar hafa löngum verið gjarnir á að meina ekkert með því sem þeir segja og yppta bara öxlum ef einhver andmælir þeim. Vegna þess að orðræða, en ekki rökræða, er grundvöllur franskrar nútímaheimspeki. En setjum nú sem svo, að Finkelkraut hafi verið fúlasta alvara. Hvernig væri þá helst hægt að svara honum?
Í fyrsta lagi mætti benda á að afstaða hans virðist ganga út frá aðskilnaði sálar og líkama, það er að segja, hann virðist ekki líta svo á að ástand líkamans hafi nein áhrif á hugsunina og sálina. Getur ekki verið að með því að fara út að hlaupa sé Sarkozy - og ótal aðrir skokkarar - ekki einungis að hugsa um líkamann heldur einnig um hugann og sálina? Það hafa ótal rannsóknir sýnt fram á að líkamsrækt getur gefist jafn vel, og jafnvel betur en lyf gegn þunglyndi.
Nýleg bresk rannsókn leiddi í ljós að það þarf ekki nema örstuttan sprett, hálfa mínútu eða svo, til að skerpa hugann til muna. Þátttakendur í rannsókninni voru 22. Þeir tóku einn stuttan sprett (á reiðhjóli reyndar) eins og lungun leyfðu, og í 75 mínútur á eftir fundu þeir til minni spennu, reiði og hugsunaróreiðu. Höfundur rannsóknarinnar er dr Dominic Micklewright, við Háskólann í Essex, og segir hann að mikil líkamleg áreynsla í stutta stund þreyti hugann og setji hann aftur á byrjunarreit.
Það þarf auðvitað ekki að vitna í neinar tilteknar rannsóknir til að sýna fram á að líkamsrækt hefur bætandi áhrif á huga og sál. Þetta eru álíka viðtekin vísindaleg sannindi og að jörðin er hnöttótt. Þess vegna er undarlegt að frönsku heimspekingarnir skuli halda því fram, að le jogging snúist um stjórnun líkamans. Það er allt eins líklegt að þetta óvirðulega athæfi franska forsetans miði að því að hreinsa hugann. En það er kannski ekki mjög heimspekilegt að hreinsa hugann, eða hvað?
Við nánari athugun kemur í ljós, að það sem Finkelkraut og aðrir sem gagnrýna Sarkozy fyrir skokkið hafa í rauninni í huga er ekki að skokk sé slæmt fyrir sálina og andann (það stangast einfaldlega á við staðreyndir að halda slíku fram). Nei, þeim finnst skokkið sverta ímynd forsetans, og þar með Frakklands sem heimalands skynsemi og vitsmuna. Skokk samræmist ekki ímynd frönsku vitsmunaverunnar.
Aðalatriðið í þessari gagnrýni á afstöðu Finkelkrauts er það, að þeir eru í rauninni ekki að hugsa um inntak og áþreifanlegan veruleika, heldur ímynd og yfirborð. Það er ekki sérlega vitsmunalegt. Ef út í það er farið, hafa ekki ímynd og yfirborð verið talin ein helstu einkenni amerískrar neysluhyggju og kapítalisma?
Það skyldi þó ekki vera að ímynd og yfirborð séu, þegar skyggnst er undir yfirborðið, stórir þættir í franskri vitsmunahyggju?
Vísindi og fræði | Breytt 27.8.2007 kl. 13:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.8.2007 | 12:59
Óþægilegar niðurstöður
Viðhorf, Morgunblaðið 15. ágúst, 2007
Samfélagsleg fjölbreytni dregur úr samfélagslegri þátttöku, dregur úr trausti manna í millum, dregur úr kjörsókn og framlögum til líknarmála. Með öðrum orðum, samfélagsleg fjölbreytni - hvort heldur af þjóðerni eða kynþáttum - veldur því að fólk dregur sig inn í skelina. Í stað þess að fara út meðal samborgara sinna situr það heima og horfir á sjónvarpið.
Þetta eru helstu niðurstöður ítarlegrar rannsóknar sem bandaríski stjórnmálafræðingurinn Robert Putnam hefur birt, og blaðið Boston Globe (boston.com) sagði frá fyrr í mánuðinum. Niðurstöður Putnams eru í samræmi við niðurstöður sífellt fleiri rannsókna er benda til að eftir því sem fjölbreytni samfélagsins vex - eftir því sem íbúarnir koma úr fleiri áttum - því minni líkur séu á að fólk láti sig varða sameiginlega hagsmuni.
Niðurstöður rannsóknar Putnams, og væntanlega fleiri rannsókna, stangast á við báðar kenningarnar sem hingað til hafa verið helstar í þessum efnum. Annars vegar þá, að eftir því sem samskipti fólks af ólíkum þjóðernum og kynþáttum aukist, því meiri skilningur og samstaða ríki meðal þess; og hins vegar þá, að aukin samfélagsfjölbreytni leiði til spennu og átaka milli samfélagshópa. Þessar kenningar hafa verið kallaðar "sambandskenningin" og "átakakenningin".
Haft er eftir Putnam í Boston Globe, að í samfélögum þar sem fjölbreytni íbúanna - af þjóðerni og kynþáttum - er mikil myndist hvorki náin tengsl milli ólíkra þjóðernis- og kynþáttahópa né skapist mikil átök milli þessara hópa. Fólk einfaldlega hafi tilhneigingu til að halda sig innan síns hóps, en jafnvel dragi úr trausti og samskiptum innan hvers hóps fyrir sig. Þannig að það dragi úr öllum samskiptum, og fólk dragi sig inn í sína eigin skel.
"Fjölbreytni, að minnsta kosti til skemmri tíma litið," hefur blaðið eftir Putnam, "virðist höfða til skjaldbökunnar í okkur öllum." Hann segist hafa tekið tillit til allra hugsanlegra og óhugsanlegra óvissuþátta, og margoft farið yfir niðurstöðurnar áður en hann birti þær (í júníhefti tímaritsins Scandinavian Political Studies), vegna þess að hann hafi gert sér grein fyrir því hversu eldfimar þær myndu verða.
Putnam þessi er prófessor við ekki ómerkari stofnun en Harvard-háskóla, og mun ekki vera neinn íhaldsmaður í samfélagsmálum, heldur þvert á móti frjálslyndur og eindreginn talsmaður samfélagslegrar fjölbreytni. Hann segist hafa óttast að niðurstöðurnar yrðu túlkaðar á þá lund að þær bendi til að kynþáttahyggja sé af hinu góða.
Hann segir niðurstöður rannsóknarinnar engu hafa breytt um sannfæringu sína í þeim efnum. Samfélagsleg fjölbreytni sé einfaldlega krefjandi verkefni sem takast verði á við. Einhverjir fræðingar munu hafa orðið til þess að gagnrýna Putnam fyrir það að grein hans um niðurstöðurnar væri ekki óhlutdræg útlistun heldur tæki hann afstöðu í henni, og það eigi fræðimenn ekki að gera í fræðaskrifum.
Í Boston Globe kemur enn fremur fram, að aðrar rannsóknir hafi sýnt að samfélagsleg fjölbreytni auki framleiðni og nýsköpun, eins og glöggt megi sjá í stórborgum á borð við London og New York, þar sem fjölbreytni samfélagsins er hvað mest, og nýsköpun í framleiðslu er einnig hvað mest - en um leið má kannski segja að í stórborgum sé samkenndin meðal fólks hvað minnst.
Blaðið hefur eftir Scott Page, stjórnmálafræðingi við University of Michigan, að á vinnustöðum þar sem mikillar sérþekkingar sé krafist komi í ljós kostir þess að fólk af ólíkum toga hugsi hvert með sínum hætti. Það sé ögrandi og krefjandi að vinna með fólki sem hugsi öðru vísi en maður sjálfur, en einmitt þess vegna leiði fjölbreytnin til aukinnar framleiðslu og nýbreytni. Þegar ólík viðhorf blandist saman verði til ný.
Eru niðurstöður þessara manna, Putnams og Page, og annarra sem rannsakað hafa samfélagsfjölbreytni rök með eða á móti fjölmenningarsamfélögum á borð við það sem er að verða til hér á Íslandi? Um það verður ekkert fullyrt, að minnsta kosti ekki í ljósi einnar blaðafregnar af þeim. Ég verð að viðurkenna að ég hef alltaf verið eindreginn fylgismaður "sambandskenningarinnar" um áhrif samfélagsfjölbreytni, þannig að mér þykja niðurstöður Putnams ekkert alltof uppörvandi.
En það verður að slá að minnsta kosti einn, almennan varnagla í sambandi við þær, og hann er sá, að rannsóknina gerði hann í Bandaríkjunum, og það er ekki víst að fjölmenningarsamfélagið þar sé sömu gerðar og önnur slík samfélög. Þess vegna verður að hafa varann á þegar niðurstöður rannsóknar Putnams eru heimfærðar upp á önnur lönd en Bandaríkin.
Bandarísku samfélagi er stundum líkt við deiglu, þar sem ólíkir samfélagshópar eiga að bræðast saman í einn. Ókostinn við þetta segja sumir vera þann, að fólki finnist það vanta samfélagslegar rætur sem eru nauðsynlegar fyrir sterka sjálfsímynd - og svar við grundvallarspurningunni: Hver er ég?
Norðan landamæranna, aftur á móti, í Kanada, er fjölmenningarsamfélagið hugsað lítið eitt öðruvísi og gjarnan líkt við mósaík, þar sem lögð er áhersla á að ólíkir samfélagshópar fá að halda mörkum sínum og einkennum. Aftur á móti blandast hóparnir á almennum vettvangi, ekki síst í háskólum og í atvinnulífinu, einmitt þar sem rannsóknirnar sýna að fjölbreytni er tvímælalaus kostur.
Það er ekkert sem bendir til annars en að rannsóknir og niðurstöður Putnams séu áreiðanlegar og marktækar. Þess vegna verður ekki hjá því komist að horfast í augu við að niðurstöðurnar eru óþægilegar. Nema auðvitað ef manni er illa við fjölbreytni og fjölmenningu, þá getur maður fundið talsvert púður í þeim.
20.6.2007 | 07:21
Fjallkonan er frátekin
Viðhorf, Morgunblaðið 20. júní 2007
Á sautjánda júní fór ég með fimm ára dóttur minni niður á Austurvöll að sjá fjallkonuna. Dóttir mín vildi reyndar af einhverjum ástæðum líka sjá forsætisráðherrann, en ég held að þó sé óhætt að fullyrða að hún hafi haft talsvert meiri áhuga á fjallkonunni. Sem var kannski að vonum dálítið sposk á svip er hún flutti ættjarðarljóð eftir Þórarin Eldjárn.
Svo fórum við á kaffihús sem er svo vel búið að þar eru leikföng, og dóttir mín fór strax að leika sér að Barbídúkkum ásamt annarri stelpu sem var þar fyrir. Þær undu sér vel í leiknum, og þegar hin stelpan fór með foreldrum sínum sat mín áfram og lék sér, og tók ekki í mál að við færum strax heim.
Ég hélt áfram að þamba Eþíópíukaffi til að reyna að slá á hungrið sem var tekið að segja nokkuð til sín, og fór að lesa tilfallandi tímarit og auglýsingabæklinga. Meðal annars renndi ég í gegnum viðtal við unga íslenska konu sem nýlega vakti þjóðarathygli, og ég hugsaði eitthvað á þá leið að á einni myndinni væri hún með sama sposka svipinn og fjallkonan. Ekki veit ég hvort það hefur verið vegna lesturs á kvæði eftir Þórarin Eldjárn.
Viðtalinu lauk á þeim orðum blaðamannsins að konan unga væri að fara í frí, í spennandi ferðalag með manni "sem hún er frátekin fyrir". Ég veit ekki nákvæmlega hvers vegna ég hjó eftir þessu orðalagi. Kannski vegna þess að það virtist einhvern veginn í ósamræmi við það sem konan sagði í viðtalinu; kannski vegna þess að stundum þegar ég sé ungar konur - eða gamlar - fer ég ósjálfrátt að hugsa um hvernig og hvar dóttir mín verði á þeirra aldri; og kannski vegna þess að ég vinn við að skrifa og er því alltaf að velta fyrir mér blæbrigðum í orðalagi, og þarna var skýrt dæmi um hvað örlítill blæbrigðamunur getur breytt gríðarlega miklu um merkingu.
Sá sem "er frátekinn fyrir" einhvern annan er viðfang hans, og hann hefur forræði yfir honum og getur ráðstafað honum. Ef aftur á móti hefði verið talað um mann sem konan "ætti frátekinn" hefði forræðið verið komið á hendur konunni og maðurinn orðinn að viðfanginu. Þetta er sannarlega lítill munur á orðalagi, en hann breytir heilmiklu um merkinguna, ef grannt er skoðað.
Ég skal alveg viðurkenna að ef ég hefði lesið framanskrifað einhversstaðar hefði mér líklega þótt höfundurinn heldur smámunasamur, og jafnvel talið hann í leit að aðfinnsluefnum. Þannig að ef lesandanum finnst þetta smásmugulegt hjá mér skal ég ekki sverja það af mér.
En ég er frekar hallur undir þá kenningu að tungumálið móti að miklu leyti hugsunina, að minnsta kosti til jafns við það sem hugsunin mótar tungumálið. Hlutfallið þarna verður auðvitað aldrei vísindalega skilgreint, og þetta verður um aldur og ævi spurningin um hænuna og eggið.
Mér fannst vit í því sem ég las einhversstaðar um daginn - man því miður ekki hver sagði það - að sá sem getur ekki sagt neitt nema í þrælvelktum orðaleppum geti ekki hugsað sjálfstætt, en þann sem ekki getur tjáð hugsun sína með hefðbundnu og almennu orðalagi skorti aga í hugsun.
Það væri langt seilst að segja að þetta litla dæmi sem ég tók hér að ofan, um fráteknu konuna, væri til marks um karlrembu, og enn lengra væri gengið að segja það kenna ungum stúlkum að það eigi að vera þeirra æðsta markmið að einhver maður taki þær frá fyrir sig.
En það er ekki of langt gengið að segja að þetta sé dæmi, agnarsmátt, um það hvernig ríkjandi viðhorf stinga upp kollinum í almennu orðalagi, eins og toppur á ísjaka. Stundum er svo brugðið upp neðansjávarmynd, ef svo má segja, af jakanum öllum.
Mér fannst það einmitt gerast í gær, á kvennadaginn, þegar greint var frá niðurstöðum rannsóknar sem gerð var í HR á óútskýrðum launamun kynjanna. Ég ætla ekki að fjalla ítarlega um niðurstöðurnar hér, það má lesa um þær á öðrum stað í blaðinu.
Höfundar rannsóknarinnar sögðu meðal annars í fréttatilkynningu: "Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að stór hlutur launamunar kynjanna, sem mikið hefur verið til umræðu hér á landi á síðustu misserum, sé innbyggður í hugarfar okkar og væntingar."
Nú er ekki svo að skilja að fólk líti þannig á, að það sé næstum því náttúrulögmál að konur fái lægri laun en karlar. Aftur á móti virðist vera að fólk líti svo á, að launamunur sé óhjákvæmilegur í ljósi einhverra annarra viðhorfa sem virðast jafn óhagganleg og væru þau náttúrulögmál.
Það geta því allir verið sammála um að það sé afar slæmt að launamunur sé ríkjandi, en um leið virðist litið svo á að það sé því miður einfaldlega óhjákvæmilegt. Að gera eitthvað til að reyna að breyta því sé eins og að taka upp á því að ganga í stuttbuxum á veturna - til marks um barnalega blindu á staðreyndir lífsins.
Kannski hefði það líka verið talið til marks um barnalega blindu á staðreyndir lífsins, hversu dapurlegar sem manni kunni að finnast þær, að segja að konan unga ætti manninn frátekinn. Þannig gerist kaupin einfaldlega ekki í samskiptum kynjanna og það væri rangt að gefa eitthvað annað í skyn; ábyrgðarhluti að gefa ungum stúlkum til kynna að þær geti tekið menn frá, í ljósi þess að "alvara lífsins" sé allt önnur.
Stjórnmálamenn munu aldrei geta gert neitt til að breyta þessum launamun, vegna þess að þeir eiga allt undir því að skynja ríkjandi viðhorf og fylgja þeim. En blaðamenn geta lagt sitt litla lóð á vogarskálarnar með því til dæmis að "ljúga" því að ungum stúlkum að þær geti tekið frá menn. Að minnsta kosti ætla ég að ljúga því að dóttur minni.
16.6.2007 | 10:33
"Svikari" deyr
Lesbók, 16. júní 2007
Richard Rorty lést 8. júní.
Það er ekki erfitt að verða ósammála því sem Rorty hefur skrifað, en um leið er alveg ómögulegt að hrífast ekki af skrifum hans. Kannski hrífst lesandinn að einhverju leyti af því sem kalla mætti aðdáunarverða ósvífni, en öðrum kann að þykja lítið annað en ólíkindi.
Kunnasta bók Rortys er áreiðanlega Heimspekin og náttúruspegillinn, sem kom út 1979, þar sem hann andæfði þeirri viðteknu skoðun að verkefni vísindanna - og heimspekinnar - væri að endurspegla náttúruna eins og hún er í raun og veru. Þetta hefur mörgum þótt fela í sér algjöra höfnun á hinu hefðbundna sannleikshugtaki og þar með ávísun á afstæðishyggju.
Enda var sumum ákaflega brugðið. Rorty sagði frá því í viðtali við tímaritið Lingua Franca fyrir einum sjö árum, að bókin hefði valdið vinslitum. Carl Hempel, landflótta Þjóðverji og fyrrverandi kennari Rortys, virtur heimspekingur og holdgerving alls þess besta í hinni vísindalegu, lýðræðislegu og sannleiksleitandi heimsmynd engilsaxneskrar heimspeki, "las bókina og skrifaði mér bréf þar sem hann sagði eiginlega: Þú hefur svikið allt sem ég hef stutt. Og honum var virkilega í nöp við mig eftir þetta. Ég er enn ákaflega leiður yfir þessu," sagði Rorty.
Þótt hann hafi verið óhræddur við að gera lítið úr heimspekinni og haldið því fram að heimspekideildir bandarískra háskóla séu eiginlega alveg tilgangslausar hefur hann þó líklega haft meiri áhrif á yngri kynslóðir heimspekinga en nokkur annar samtímaheimspekingur, og bækur hans eru áreiðanlega með mest lesnu heimspekiritum, fyrir utan klassísk rit. Reyndar er ekki ólíklegt að Heimspekin og náttúruspegillinn verði klassík - ef hún er ekki þegar orðin það.
Rorty var samkvæmur sjálfum sér og sneri baki við akademíuheimspekinni. Hann var síðast prófessor í samanburðarbókmenntum við Stanford. En akademíuheimspekin hefur svo sannarlega ekki sleppt hendinni af Rorty - það er að segja hugmyndum hans - og þær eru áreiðanlega ófáar, doktorsritgerðirnar sem mora af tilvísunum í hann og andmælum gegn honum.
Að hafna hugmyndinni um hlutlægan sannleika virðist líka hafa víðtækar afleiðingar langt út fyrir raunvísindi. Grefur það ekki undan möguleikanum á algildum mannréttindum, svo dæmi sé tekið? Er þá yfirleitt hægt að fullyrða að lýðræði sé eitthvað betra en einræði? Við þessu átti Rorty það svar, að lýðræði væri betra en einræði vegna þess að lýðræðinu fylgdu minni þjáningar fólks. Lýðræði verður ofan á vegna þess að þeir sem hafa þann eiginleika að geta fundið til samúðar með öðrum verða ofan á. Lýðræðislegt samfélag er skilvirk leið sem þeir hafa fundið til að stemma stigu við miskunnarleysi illmenna. Það er eitthvað verulega sennilegt við þetta, verður að segjast.
En þótt auðvelt sé að heillast af skrifum Rortys líður ekki á löngu áður en óþægilegar spurningar fara að láta á sér kræla, og það er sama hvernig leitað er, aldrei finnst hjá honum svar við þeim. Bandaríski heimspekingurinn Paul Boghossian sagði við Lingua Franca að Rorty hafi hafnað hugmyndinni um hlutlægan sannleika, en alltaf komið sér undan því að útskýra hvers vegna bæri þá að taka orð hans sjálfs trúanleg.
Mig grunar líka að það hafi pirrað marga hvað Rorty var gjarn á breiðar strokur. Menn vildu meiri nákvæmni og hefðbundna röksemdafærslu. Annars væri ekki að marka þennan mann sem heimspeking, og ekki hægt að fallast á sjónarmið hans.
Líklega hefði Rorty bara yppt öxlum yfir þessum andmælum. Þetta hefði ekki verið spurning um að hann hefði satt að mæla og lesandanum nauðugur einn kostur að fallast á orð hans. Það væri algjörlega undir lesandanum sjálfum komið hvort honum líkaði við það sem Rorty hafði fram að færa og kysi að vera í liði með honum. Óvissa er óhjákvæmilegur fylgifiskur heimspeki Rortys, og aldrei kostur á röklegri fullvissu. Kannski ekki nema von að ýmsum hafi orðið spurn hvers konar heimspeki þetta væri eiginlega.
Ef til vill hefði Rorty svarað því til, að þetta væri heimspeki sem endurspeglaði það eina sem áreiðanlega væri óhjákvæmilegt. Þýski heimspekingurinn Jürgen Habermas sagði í minningarorðum um Rorty að hann hefði "aldrei gleymt því að heimspekin má ekki - hvað sem öllum faglegum andmælum líður - virða að vettugi þau verkefni sem lífið fær okkur í hendur".
16.6.2007 | 10:30
Blygðunarlausir blaðrarar
Lesbók, 16. júní 2007
Hið íslenzka bókmenntafélag hefur gefið út í þriðja sinn bókina Manngerðir eftir Þeófrastos í þýðingu Gottskálks Þórs Jónssonar. Þýðingin kom fyrst út 1990.
Manngerðir eftir Forn-Grikkjann Þeófrastos inniheldur þrjátíu stutta kafla sem lýsa lyndiseinkunnum á borð við ólíkindi, nísku og málæði. Allt eru þetta heldur neikvæðar einkunnir, þótt Þeófrastos hafi líklega verið of mikill fræðimaður til að leyfa sér að fella siðferðislega dóma um þá sem haldnir kunna að vera þessum skapgerðarbrestum. Hann lætur sér nægja að skilgreina hverja lyndiseinkunn fyrir sig, segja í hverju hún er fólgin og taka síðan dæmi um hvernig hún birtist í framkomu þeirra sem hana hafa.
Ólíkindi eru "látalæti til skaða í háttum og tali. Ólíkindatólið er einhver þvílíkur: Hann er vanur að fara til óvina sinna og spjalla við þá án þess að sýna þeim nokkurn fjandskap [...] Hann talar sefandi til þeirra sem þola ranglæti og eru reiðir. Þeim sem liggur mikið á að ná fundi hans snýr hann frá" (bls. 69-70). Við hlutlausa lýsingu Þeófrastosar á ólíkindatólinu bætti útgefandi Manngerðanna á miðöldum þeim dómi að ólíkindatólin væru "svikular manngerðir" sem maður verði að gæta sín betur á en nöðrum.
Þeófrastos mun hafa fæðst á eynni Lesbos í Eyjahafi árið 370 f.Kr., eða þar um bil, og síðar orðið nemandi Platóns í akademíunni í Aþenu. Manngerðir er hann talinn hafa skrifað í kringum 320, og hafa þær farið langa og flókna leið í íslenska þýðingu Gottskálks Þórs Jenssonar, sem rekur meðal annars sögu þessa rits í ítarlegum og góðum formála.
Almennu skilgreiningarnar á lyndiseinkunnunum koma nútímafólki kunnuglega fyrir sjónir, þótt einstök dæmi um hegðun manna virðist svo bundin stað og tíma að þau eru næsta óskiljanleg nú á tímum. Samt virðist sem lyndi manna á Íslandi á 21. öld svipi ótrúlega mikið til lyndis manna í Grikklandi fyrir 25 öldum. Hér eru til sveitamenn, ólíkindatól, heiglar og smjaðrarar, svo dæmi séu tekin, og munu lýsingarnar á þeim koma kunnuglega fyrir sjónir, þótt þær séu frá allt öðrum tíma og umhverfi. Ef til vill má hafa þetta til marks um að maðurinn hafi eðli, þrátt fyrir allt.
Líklega fer þó misjafnlega mikið fyrir þessum manngerðum núorðið, og vísast dettur lesaranum í hug einhver ný. Þannig má kannski segja að núna sé blessunarlega lítið um smjaðrara, en kannski fullmikið um blygðunarlausa og blaðrara, en lýsing Þeófrastosar á þeim síðastnefndu er alveg stórkostleg. Við hana hefur svo miðaldaútgefandinn bætt heilræði til þeirra sem lenda í klónum á blaðrara: "Hver sá sem ekki vill brenna sig á slíkum mönnum verður að forða sér á hlaupum til þess að renna úr greipum þeirra" (bls. 76).
Manngerðaskrif hafa verið talin sérstakt bókmenntaform, eins og fram kemur í formála Gottskálks, og voru gríðarvinsæl í Englandi á sautjándu öld. Það gæti verið hin ágætasta skemmtun, trúi ég, að fá lánað form Þeófrastosar (byrja á almennri skilgreiningu, gefa því næst almenna lýsingu og taka síðan einstök dæmi, en gæta þess jafnan vandlega að fella enga siðferðisdóma) og reyna að setja saman fleiri manngerðir. Jafnvel einhverja sem talist getur einkennandi fyrir samtímann. Maður verður þó að gæta þess vel í svona lyndiseinkunnarlýsingu að verða ekki meinfýsinn.
Það er engin sérstök þörf á að reyna að útskýra nákvæmlega hvers konar rit Manngerðir eru. Það má líta á þetta sem siðfræðirit í anda aristótelískrar dyggðahyggju, og segja þá að þær lyndiseinkunnir sem lýst er séu lestir, og lýsingarnar á þeim geti þannig verið lesandanum víti til varnaðar. Í siðfræði Aristótelesar eru dyggðir meðalhófið á milli tveggja öfga. Lestirnir eru þannig of eða van, en dyggðin það sem er mátulegt. Ef litið er á ólíkindin, sem að ofan eru nefnd, sem löst má segja að samsvarandi dyggð sé sannmæli. Hinn lösturinn sem samsvarar þeirri dyggð er raupsemin, sem einnig er útskýrð í bókinni, og er einfaldlega það sem kallast á góðri íslensku karlagrobb.
Gottskálk segir í formálanum að til séu ýmsar kenningar um Manngerðir, og ein sé sú að Þeófrastos hafi þar verið að lýsa ákveðnum einstaklingum í Aþenu, en hafi gætt þess vandlega að ekki yrði augljóst við hverja hann ætti. Þótt ekki sé heldur hægt að líta á Manngerðir sem sálfræðirit er eins víst að bera megi kennsl á einhverjar "raskanir" í mannlýsingunum. Mætti þannig kannski segja að ýmislegt í fari ólíkindatólsins gæti bent til að slíkur maður væri haldinn því sem nefnt hefur verið "mótþróaröskun".
Auðvitað er manngerðunum lýst á fábrotinn og einfaldan hátt, og manneskjur eru í raun og veru mun flóknari en svo að þeim verði lýst með svona einlitum stimplum. Þess vegna væri kannski nær að tala um lyndiseinkunnir en manngerðir, en það er þó óþarfi að fara út í slíkar hártoganir. Þeófrastos virðist vel hafa gert sér grein fyrir því að hann væri að einfalda málin gróflega, því að hann segir jafnan sem svo, að tiltekin einkunn sé "einhvern vegin þannig," eða "virðist vera," og undirstrikar að lýsingarnar sem á eftir fylgja séu ekki nema "í stórum dráttum".
Sem fyrr segir standa Manngerðir alveg undir sér sjálfar, og þarf ekki að skilgreina ritið til að hafa gagn og gaman af lestrinum. Lýsingin á hverri manngerð fyrir sig er stutt, ein til þrjár síður, og skemmtilegar teikningar af hverri fyrir sig. Upplagður skemmtilestur fyrir þá sem aldrei ná nema í mesta lagi nokkrum síðum áður en þeir sofna.
5.6.2007 | 07:51
Í þykjustuleik
Viðhorf, Morgunblaðið 4. júní 2007
Hún var virkilega góð og skemmtileg greinin sem Anna Björk Einarsdóttir bókmenntafræðinemi skrifaði í Lesbók á laugardaginn var ("...nei, ég er ekki fótgönguliði, ég er skæruliði"). Ég er innilega sammála þeirri niðurstöðu Önnu að "þessi kaldhæðna "ég veit þetta allt"-afstaða sem nú tröllríður öllu" sé drepleiðinleg.
Aftur á móti get ég ekki tekið undir það sem Anna sagði næst: "Þeir bókmenntafræðingar sem sitja í dómnefndum, gefa stjörnur í Kastljósi og skrifa í yfirlitsrit eru ekki í mínu liði." Ég tel sjálfan mig vera í liði með þessum "stjörnubókmenntafræðingum", þótt ég hafi reyndar aldrei orðið þess heiðurs aðnjótandi að gefa stjörnur í Kastljósi.
Mér fannst greining Önnu á "dólgaafbyggingunni" hitta beint í mark. Hún er blekking, og aðferð til að halda andlitinu þrátt fyrir að maður geri eitthvað sem maður telur vera niðrandi, en langar samt af einhverjum ástæðum til að gera, eins og þegar femínistar finna hjá sér löngun til að vera prinsessur, eða hámenntaðir fræðingar vinna fyrir sér með því að skrifa fábrotnar blaðagreinar.
Líkingin við Seinfeld var einkar viðeigandi og upplýsandi, kannski ekki síst vegna þess að líkt og kaldhæðna "ég veit þetta allt"-afstaðan var Seinfeld til að byrja með afskaplega heillandi og skemmtilegur, en þegar frá leið varð hann drepleiðinlegur, og maður komst að því sér til nokkurrar furðu að Friends voru eiginlega miklu betri. Og ég segi þetta ekki af neinni kaldhæðni.
Það er eitthvað verulega falskt og ósannfærandi við það þegar fræðimenn "afbyggja fyrirfram hlutverk sitt, segja að það sem skipti máli sé að leika sér með hlutverkin, fara inn í þau og vinna með þau, afbyggja þau innan frá," eins og Anna orðar það. Með þessu láti fræðimennirnir í veðri vaka að þeir séu meðvitaðir um að þeir séu í þykjustuleik, og þar með sé fengin hin "kaldhæðna fjarlægð" sem geri að verkum að maður þurfi í rauninni ekki að standa reikningsskil gerða sinna. Ef maður er rukkaður getur maður sagt sem svo, ég var bara í þykjustuleik.
Anna vill ekki hafa svona þykjustuleik, og telur að menn ættu heldur að ástunda alvöru afbyggingu, neita að mæta í Kastljós og neita að skrifa í yfirlitsrit. Með öðrum orðum, gefa formunum langt nef, því að þannig verði maður ærlegur við bæði sjálfan sig og fræðin. Þannig megi forðast að þjóna valdi sem maður er í hjarta sínu á móti, eins og til dæmis peningavaldinu.
Ég er sammála Önnu um það, að þarna er á ferðinni drepleiðinlegur þykjustuleikur. En ég held að þykjustuleikur "stjörnubókmenntafræðinganna" sé fólginn í því, að þeir eru að þykjast vera í þykjustuleik. Það er að segja, allt talið um að "leika sér með formin", og jafnvel að "vinna með þau", er innihaldslaust málskrúð, til þess gert að láta líta út fyrir að maður sé meðvitaður og jafnvel í rauninni róttækur, og kannski ekki síst til að maður geti horfst í augu við sjálfan sig í speglinum. Þetta er leið til að halda andlitinu.
Með sama hætti gátu þeir sem voru svo ofurvandir að vitsmunum sínum að þeir skömmuðust sín fyrir að hafa gaman að bandarískum sjónvarpsþáttum horft á Seinfeld vegna þess að þar var látið líta út fyrir að um væri að ræða róttæka háðsádeilu á bandaríska sjónvarpsþætti.
En í raun og veru lutu Seinfeld-þættirnir nákvæmlega sömu lögmálum og aðrir bandarískir sjónvarpsþættir, og voru hreint ekkert róttækir - svo lengi sem þeir fengu áhorf var hægt að selja í þá auglýsingar og þar með hagnast á þeim. Brandarinn var því á endanum á kostnað þeirra sem voru svo meðvitaðir að þeir gátu ekki horft á bandarískt sjónvarp og töldu sig utan allra markhópa. Framleiðendur og markaðsfræðingar breyttu þeim í markhóp.
Stærsti gallinn við þennan þykjustuleik er að hann kemur í veg fyrir einlægnina sem er nauðsynleg til að fræðimennska, eins og önnur viðfangsefni manna, verði sannfærandi. Ekki síst fyrir fræðinginn sjálfan. Og það er enginn undirlægjuháttur eða barnaskapur að halda í einlægnina, þvert á móti felur það í sér mestu áhættuna. (Fyrir nú utan hvað einlægni veitir miklu meiri umbun en meðvitaður þykjustuleikur.)
Stjörnugjöf og yfirlitsgreinar sem gerðar eru af einlægni, þótt fábrotnar séu, eru þar að auki mun betri og áhættusamari bókmenntafræði en kaldhæðnisleg afbygging á stjörnugjöf og yfirlitsgreinum. Stjörnugjöf og yfirlitsgreinar snúast um bækur, en afbygging á formum snýst um bókmenntafræðina sjálfa vegna þess að hugmyndin um "bókmenntaform" er komin úr bókmenntafræði, en ekki úr bókmenntum.
Ég er því alveg sammála því sem Anna hefur eftir helsta skotspæni sínum, Jóni Yngva Jóhannssyni bókmenntafræðingi, að það sé verkefni bókmenntafræðinga að taka af skarið og fella dóma um bækur. Hún gagnrýnir hann fyrir að fella ekki dóma um "yfirlitsrit sem slík," og láta nægja að humma eitthvað um að gera sér grein fyrir takmörkunum slíkra rita.
En yfirlitsrit eru órjúfanlegur hluti af bókmenntafræðihefðinni, og getur bókmenntafræðingur tekið af skarið og fellt dóma um hefðina sem hann tilheyrir? Til að gera það þyrfti hann að fara með einhverjum hætti út fyrir hefðina og sjá hana úr fjarlægð. En ef hann gerir það, er hann þá ekki á vissan hátt hættur að vera bókmenntafræðingur?
Með því að vera kaldhæðinn að hætti Seinfelds getur maður ef til vill talið sjálfum sér og öðrum trú um að þessi fjarlægð hafi náðst. En það er blekking sem sannur fræðingur sér á endanum í gegnum. Og ef hann hefur lifað í henni svo lengi að hann þekkir sig ekki lengur í sinni eigin fræðahefð á hann hvergi höfði að halla.
30.5.2007 | 12:12
Sorbonne á beinið
Viðhorf, Morgunblaðið 30. maí, 2007
Einu sinni var ég nemandi við Háskóla Íslands. Ég var víst ekki sérlega góður nemandi, og ef ég hefði farið í eitthvert alvöru fag, eins og til dæmis lögfræði eða læknisfræði eða viðskiptafræði, hefði ég áreiðanlega flosnað upp frá þessu námi. Því má segja að það hafi orðið mér til happs að ég hélt mig við kjaftafögin.
Ég verð að viðurkenna að þegar ég byrjaði í skólanum hafði ég litla hugmynd um hvert endanlegt markmið mitt var með náminu - líklega hafði ég hreint ekkert markmið. Mér er nær að halda að jafnvel þótt ég væri í kjaftafögunum hefði strangt til tekið mátt segja að ég ætti ekkert erindi í háskólanám. Það var einungis fyrir skilningsríki góðra kennara að ég fékk að komast áfram, og að ég skyldi komast upp með það sem átti að heita BA-ritgerð var ekkert annað en gustukaverk umsjónarkennarans.
Á þessum árum kostaði lítið sem ekkert að skrá sig í HÍ. Mér fannst það afskaplega gott, og ég er viss um að ef rukkað hefði verið um alvöru skólagjöld hefðu bæði samviska mín og "kostunaraðilar" mínir harðbannað mér að sóa peningum í þennan svokallaða lærdóm. En ég var svo heppinn að geta setið þarna á kostnað hins opinbera, að vísu í þeim fögum þar sem kostnaður á hvern nemanda er langminnstur.
Líklega er það af þessum persónulegu ástæðum sem ég hef alltaf verið frekar hallur undir þá hugmynd að háskólar eigi að vera öllum opnir, og það eigi að vera hægt að stunda nám við þá án þess að borga skólagjöld. Það á að vera möguleiki að stunda háskólanám meira af vilja en mætti, eins og ég hef líklega gert þarna í BA-náminu. Slíkur möguleiki getur reynst villuráfandi sauðum ákaflega mikilvægur, og þeir þannig fundið sér skjól sem ella væri hvergi annars staðar að finna.
En svona hugmyndir um háskóla sem hálfgerðar félagsmálastofnanir hafa sífellt farið meira og meira halloka fyrir þeim hugmyndum að háskólar eigi að stuðla að auknum hagvexti og fyrst og fremst að skila af sér nemendum sem eru færir um að taka þátt í atvinnulífinu. Sífellt verður háværari sú krafa að þeir sem "eiga ekkert erindi" í háskólanám eigi ekki að fá að hefja það. Til að skilja sauðina frá höfrunum mun vera affarasælast að rukka myndarleg gjöld, til að fólk fari ekki að þvælast í nám nema það meini eitthvað með því. Hafi skýrt mótuð markmið strax í upphafi.
Það er svo sannarlega þessara nýju tímanna tákn að nú á að fara að stokka upp í sjálfum Sorbonne, þessum erki-ríkisháskóla með engin skólagjöld. Ég rakst á frétt um það á AP um daginn að nýkjörinn Frakklandsforseti, Nicholas Sarkozy - sem lagði áherslu á það í kosningabaráttunni að Frakkar yrðu að fara að vera duglegri að vinna - ætli að gera franska háskóla skilvirkari og hagkvæmari.
Rektor Sorbonne, Jean-Robert Pitte, vill afleggja það fyrirkomulag að allir sem klára menntaskóla eigi rétt á að setjast á háskólabekk, hann vill að háskólarnir geti hafnað nemendum sem ekki teljist eiga í þá erindi, og hann vill fá að rukka skólagjöld til að auka tekjur skólans. AP segir að þetta líti ýmsir á sem "ameríkaníseringu" og vilji ekki sjá þessar breytingar.
Í ljósi þess sem ég rakti hér að ofan um mína eigin háskólagöngu get ég ekki annað en haft nokkra samúð með þeim sem líst ekkert á þessar fyrirhuguðu breytingar á Sorbonne. En um leið hefur Pitte að því er virðist ýmislegt til síns máls, og haldgóð rök virðast vera fyrir því að "nútímavæða" skólann.
Franskir háskólar skila mun færri útskriftarnemendum en bandarískir skólar, og árið 2005 voru einungis 14,2% fullorðinna í Frakklandi háskólamenntuð, samanborið við 29,4% í Bandaríkjunum, að því er AP segir, og vitnar í tölur frá OECD. Pitte segir að flestir nemendur við franska háskóla flosni upp frá námi. Fjörutíu og fimm prósent þeirra sem hefja nám við Sorbonne ljúka ekki fyrsta árinu, og 55% klára enga gráðu.
Pitte segir að ef skólinn fái ekki að setja inntökuskilyrði fari of mikið af peningum og tíma kennara í að sinna nemendum sem "eiga í rauninni enga möguleika" á að hafa eitthvað upp úr náminu. Slíkt sé bæði sóun og um leið ávísun á hina alræmdu yfirfullu fyrirlestrarsali og tengslaleysi nemenda og kennara. Þar sem skólagjöld séu lítil sem engin - tæpar 300 evrur - þurfi fólk ekki einu sinni að kíkja í peningaveskið áður en það skráir sig til náms.
Þrátt fyrir þetta held ég að þeir sem eru á öndverðum meiði við Pitte hafi nokkuð til síns máls. AP hefur eftir forseta nemendafélags í Sorbonne að núverandi kerfi geri öllum kleift að spreyta sig, og nemendur verði metnir á grundvelli frammistöðu sinnar í háskólanum, fremur en fyrri afreka á menntabrautinni. Að ekki sé nú minnst á kröfuna um að fjárhagsstaða eigi ekki að skera úr um hvort fólk getur farið í háskóla eða ekki.
Þrátt fyrir allt tal um að styrkjakerfi geti tryggt jafnan aðgang þótt skólagjöld séu rukkuð vita allir sem til þekkja að í Ameríku eiga fátækir alls ekki möguleika á að spreyta sig í háskólunum nema þeir hafi annaðhvort sýnt afburðanámshæfileika í menntaskóla eða séu afburðaíþróttamenn.
Rektorinn í Sorbonne gengur svo langt að segja að það sé "glæpsamlegt" að hleypa inn í háskóla nemendum sem ekki séu í stakk búnir fyrir slíkt nám. Þetta er fáránleg fullyrðing. Og ég þakka mínum sæla fyrir að skoðanir sem þessi voru ekki ríkjandi í Háskóla Íslands þegar ég þvældist þangað fyrst.