Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sameign í einkaeigu

Það verður fróðlegt að fylgjast með því hver verða viðbrögð stjórnvalda við úrskurði mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um íslensku útfærsluna á kvótakerfinu. Reyndar er þegar farið að grilla í þessi viðbrögð í orðum sjávarútvegsráðherra, sem virðist ekki telja sig þurfa að taka mikið mark á niðurstöðunum. En auðvitað verður að bíða eftir því að fróðir menn með sérþekkingu fari í saumana á úrskurðinum til að sjá hvað hann felur í sér.

Í frétt á mbl.is á fimmtudagskvöldið kom fram, að mannréttindanefndin telur ekki að kvótakerfið sem slíkt sé í sjálfu sér ósanngjarnt. Aftur á móti leiða tilteknir þættir í íslensku útfærslunni á kvótakerfi til ósanngirni. Nákvæmlega tiltekið er kjarninn í niðurstöðu nefndarinnar þessi:

Útfærslan á kvótakerfinu á Íslandi leiðir til ósanngirni vegna þess að með sölu og leigu á kvóta breytist sameign þjóðarinnar í raun og veru í einkaeign kvótahafans. Nefndin segir ekki að kvótakerfi sem slíkt sé ósanngjarnt.

Fyrstu viðbrögð sjávarútvegsráðherra við fréttum af úrskurði mannréttindanefndarinnar voru á þá leið að hann teldi skorta á að nefndin rökstyddi þá niðurstöðu að kvótakerfi væri ósanngjarnt. Ekki nema von að ráðherrann sæi hvergi rök fyrir slíkri niðurstöðu, því að þetta var alls ekki niðurstaða nefndarinnar.

Hún tók heldur ekki afstöðu til kvótakerfis hvarvetna í heiminum - heldur einungis til kvótakerfis eins og það hefur verið útfært hérlendis. Það er afar mikilvægt að íslensk stjórnvöld hafni ekki úrskurði nefndarinnar vegna misskilnings á honum.

En sjávarútvegsráðherrann sagði reyndar líka að úrskurðurinn yrði tekinn til nákvæmrar skoðunar, þannig að væntanlega mun hið sanna koma í ljós, og þá verður ráðherranum væntanlega líka ljóst að nefndin færir mjög sterk og einföld rök fyrir niðurstöðunni, nefnilega þau, að samkvæmt íslenskum lögum séu fiskiauðlindirnar sameign þjóðarinnar, og því fái ekki staðist að í raun og veru sé farið með kvótann eins og hann sé einkaeign þeirra sem hafa fengið hann úthlutaðan.

Ekki hef ég hugmynd um hvort úrskurðir mannréttindanefndarinnar eru á einhvern hátt bindandi fyrir íslensk stjórnvöld. Því hefur verið haldið fram að nefndin starfi á grundvelli alþjóðlegra samninga sem Íslendingar séu aðilar að, og því séum við skuldbundin til að hlíta úrskurðum nefndarinnar. En þetta er vísast túlkunaratriði.

Aftur á móti verð ég að segja eins og er að mér finnst það ekki vera neitt túlkunaratriði að framsal á kvóta er ósanngjarnt. Og mér finnst rök nefndarinnar fyrir þessu - að með þessum hætti breytist sameign í raun og veru í einkaeign - vera alveg skotheld. Einföld og auðskiljanleg, og þar af leiðandi sannfærandi.

Samt finnst mér ólíklegt að nokkuð muni breytast í útfærslu kvótakerfisins. Til þess eru of miklir hagsmunir í húfi. Verst að það eru einkahagsmunir fárra sem verða ofan á sameiginlegum hagsmunum margra. Hvers vegna láta stjórnvöld það viðgangast?

En þessi niðurstaða nefndarinnar gæti þó haft áhrif á umræðuna um kvótakerfið hér heima fyrir með þeim hætti að draga fram tiltekna þætti málsins og útfærsluatriði, í stað þess að umræðan sé á „allt eða ekkert"-stiginu sem hún virðist hafa verið föst á og snúist um kvótakerfið í heild sinni. Slík umræða hefur í raun og veru haft þau áhrif að festa kerfið í sessi.

Ef niðurstaða mannréttindanefndarinnar nær að „lyfta umræðunni á hærra plan," eins og skáldið sagði, kann hún að verða fyrsta skrefið að því að koma á einhvers konar sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið, og að hinar sameiginlegu auðlindir þjóðarinnar komi henni allri sem jafnast til góða, en verði ekki forsenda aukinnar misskiptingar í þjóðfélaginu, eins og nú er.

Það læðist líka að mér sá grunur að umrædd niðurstaða mannréttindanefndar SÞ verði til að auka tiltrú margra Íslendinga á alþjóðlegum stofnunum, og gæti jafnvel orðið til þess að beina einhverjum á þá braut að telja aukin áhrif slíkra stofnana á innanlandsmálin geta aukið jafnræði og sanngirni í þjóðfélaginu.

Auðvitað blasir við að alþjóðadómstólar og -nefndir geta tekið hlutlausa afstöðu til málefna sem hliðstæðar innlendar stofnanir geta ekki verið hlutlausar um vegna persónulegra tengsla og vináttubanda sem gera næstum því úti um við alla möguleika á hlutlægni á Íslandi.

Ekki væri það þá í fyrsta sinn sem björgin bærist að utan. Ætli það sé ekki tilfellið að það hafi fyrst og fremst verið alþjóðlegar stofnanir og erlendir hugmyndastraumar sem hafa í gegnum tíðina bætt hag íslenskrar alþýðu og losað hana undan oki innlendra höfðingja.

Ég veit vel að það þykir gamaldags og jafnvel hallærislegt að rifja upp setningu vökulaganna - sem höfðingjafulltrúarnir á Alþingi voru andvígir á sínum tíma - og ég veit satt að segja ekki hvaðan hugmyndin að þeim var komin. Líklega þó úr einhverjum útlendum kratisma sem fyrir einhverja guðsblessun hafði borist hingað til lands.

Samt kemur sú lagasetning oft upp í hugann sem dæmi um það hvernig afstöðu höfðingjanna á Íslandi til alþýðunnar hefur jafnan verið háttað, og er líklega enn. Þess vegna er ástæða til að gleðjast yfir úrskurði mannréttindanefndarinnar, þótt hún hafi ekki gagnrýnt fiskveiðistjórnunarkerfið sem slíkt heldur fyrst og fremst þá útfærslu þess sem hérlendis hefur tíðkast.

(Viðhorf, Morgunblaðið 12. janúar 2008)


Vindhögg

Það er enginn málstaður svo heilagur að honum megi ekki vinna tjón með því að fara fram í nafni hans með rökleysu. Vondur málflutningur er verri en enginn, því að hann grefur undan málstaðnum, rétt eins og góður málflutningur rennir stoðum undir hann.

Kjarninn í vondum málflutningi er að hann virðist ekki hafa annað markmið en sjálfan sig, það er að segja, honum er ekki miðað á mark heldur er fyrst og fremst hugsað um að ná að skjóta.

Ég held að ýmsir fylgjendur femínisma hafi að undanförnu verið dálítið duglegir við að skjóta sinn eigin málstað í fótinn með ýmsum rökleysum.

Áður en lengra er haldið vil ég endilega koma því að, að ég hef talið mig femínista, ekki síst eftir að ég eignaðist dóttur, sem nú er fimm ára, og mér fór að verða framtíð hennar hugleikin.

Það er svo ótalmargt sem femínisminn miðar að sem ég held að kæmi dóttur minni og öðrum stelpum til góða er þær vaxa úr grasi. Það sem ég tel sjálfur skipta mestu máli er að vinna gegn kynbundnu ofbeldi. Einnig er mikilvægt að berjast gegn kynbundnum launamun, vegna þess að launin sem maður fær segja svo margt um það hversu mikils samfélagið metur framlag manns miðað við framlag annarra (hversu mjög sem ég sjálfur og aðrir lopapeysuintellektúalar andmæla því).

En undanfarnar vikur hefur ýmis málflutningur í nafni femínismans gert að verkum að ég veit ekki alveg hvort ég má segjast femínisti, eða hvort ég kæri mig yfirleitt um það.

Má þar til taka að ég er karlkyns og kominn ískyggilega nærri miðjum aldri, og ég sá ekki betur í einhverju bloggi um daginn en að andmæli fólks af minni sort (miðaldra karlmanna) við málflutningi femínista undanfarið sé einmitt til marks um að hans sé mikil þörf.

Þetta minnir óneitanlega á kenningu Freuds um afneitun. Ef maður hreyfir mótbárum við henni má líta á það sem svo að maður sé einmitt orðinn dæmi um það sem kenningin kveður á um. Ef maður afneitar því að maður sé í afneitun þá er það náttúrulega bara staðfesting á því að maður sé í afneitun. Þessi kenning er í hópi svonefndra „teflon-kenninga" - það bítur ekkert á henni og því er ekki hægt að afsanna hana. En er hún þar með rétt?

Upplifun mín á þessum svokölluðu rökum var á þá leið að umræddur málflytjandi virtist líta svo á að ég sé sekur uns sakleysi mitt er sannað. Þarna er gengið þvert á eitt megingildi réttlætisins, það er, að maður sé saklaus uns sekt er sönnuð. Grunsemdirnar einar virðast látnar duga til að fella megi dóm.

Við þetta bætist svo að þessi „rök" eru ad hominem, það er að segja, þau beinast gegn okkur miðaldra körlum á þeim forsendum að við erum miðaldra karlar, ekki vegna þess sem við gerum eða segjum.

Þetta tvennt sem hér hefur verið nefnt, umsnúin sönnunarbyrði og rök ad hominem, eru meðal þess sem í gegnum tíðina hefur greitt götu hvers kyns ofsókna. Nú er ég alls ekki að saka nokkurn mann um að kynda undir ofsóknum. Ég er einungis að reyna að útskýra upplifun mína á málflutningi sem heyrst hefur undanfarið í nafni femínisma, og átta mig á því hvers vegna mér hefur á stundum verið beinlínis brugðið þegar ég hef heyrt hann.

Ekki bætti svo úr skák frétt um að Öryggisráð Femínistafélags Íslands hefði kært forstjóra og stjórn Valitor - Visa Ísland fyrir meinta aðild þeirra að dreifingu kláms með því að Valitor sér um innheimtu þegar aðgangur að erlendum klámvefjum er keyptur með Visa-korti.

Einhver benti á að þetta væri álíka gáfulegt og að kæra banka fyrir að láta manni í hendur peninga sem hann notar til að kaupa eitthvað vafasamt.

Jæja, það má eflaust margt að þessum málflutningi mínum finna. Í fyrsta lagi mætti ef til vill benda mér á að taka mátulega mikið mark á því sem skrifað er á blogg - og kannski sérstaklega af fólki sem virðist vinna við að blogga. Í öðru lagi mætti benda mér á að láta athuga hvort ég sé nokkuð vænisjúkur (eins og mér hefur reyndar þegar verið bent á).

Þetta tvennt ætla ég að taka fyllilega til greina. Hætta að taka nema mátulega mikið mark á bloggskrifum - enda virðast þau oft skrifuð á einhverskonar sjálfstýringu, líkt og skrifarinn íhugi lítið eða ekki það sem hann skrifar - og láta athuga þetta með hugsanlega vænisýki.

Ég ætla líka að taka mark á þeim hugsanlegu andmælum að mótbárur mínar séu sjálfkrafa dauðar og ómerkar vegna þess að ég er karlmaður á miðjum aldri. Þess vegna geri ég ekki ráð fyrir að fá neinar athugasemdir við þennan pistil.

Svo getur það auðvitað verið að krafan um sönnun sektar sé á einhvern hátt karllægt fyrirbæri, og einmitt til marks um að mig skorti grundvallarskilning til þátttöku í þessari umræðu.

Ef út í það er farið er afskaplega þægilegt að vera útilokaður svona frá þátttöku í umræðunni, og settur í hlutverk óvirks áhorfanda. Það þýðir að ég get í rauninni sagt hvaða bull sem er, því að ég veit fyrirfram að það verður ekki hlustað á mig. Ég er með öðrum orðum fullkomlega frjáls. Ég get látið vaða á súðum - bara passa mig á að brjóta ekki meiðyrðalöggjöfina, þá er mér óhætt.

Ég segi bara eins og konan: Það er ekki ég sem hef yfirgefið umræðuna, umræðan hefur yfirgefið mig.

Þrátt fyrir þetta held ég auðvitað áfram að telja mig femínista, einfaldlega vegna þess að mér dettur ekki í hug að taka mark á fólki sem gefur í skyn að ég sé ekki til þess bær að taka afstöðu til mála er varða framtíð dóttur minnar.

(Viðhorf, Morgunblaðið 15. desember 2007)


Konfektkassinn

Maður sem ekki vill láta nafns síns getið af ótta við að verða stimplaður kverúlant eða jafnvel þjófur sagði farir sínar ekki sléttar af viðskiptum í verslun sem er í eigu stórrar keðju í Reykjavík. Hann hafði eftirfarandi sögu að segja af þessari verslunarferð sinni:

Hann fór í búðina til að kaupa afmælisgjöf og rakst þar á glæsilegan konfektkassa í hillu. Á hillubrúninni undir kassanum stóð verðið, 257 krónur. Þetta þótti manninum ótrúlegt og spurði afgreiðslumann hvað konfektkassinn kostaði. Jú, 2.099 krónur. En af hverju stendur þá 257 krónur á hillunni? spurði maðurinn. Að athuguðu máli komst afgreiðslumaðurinn að þeirri niðurstöðu að þetta hilluverð, 257 krónur, ætti við annan konfektkassa, miklu minni, sem var til hliðar í hillunni. Enda stæði á verðmiðanum nafnið á þeim konfektkassa.

En af hverju er þá verðmiðinn beint fyrir neðan stóra kassann sem kostar tvö þúsund krónur? spurði viðskiptavinurinn. Gildir ekki hilluverðið?

Nei, afgreiðslumaðurinn var nú ekki aldeilis á því. Verðmiðinn hefði bara eitthvað ýst til hliðar eða eitthvað.

Viðskiptavinurinn varð fúll og fannst hann hafa verið gabbaður. Hann stóð því á sínu og sagði að það væri allt útlit fyrir að verslunin hefði verið að reyna að blekkja með því að hafa verðmiðann á vitlausum stað. Og það skipti engu máli þótt nafnið á „rétta" kassanum stæði á verðmiðanum með örsmáu letri en verðið með stórum stöfum.

Afgreiðslumaðurinn var orðinn fremur fúll og hneykslaður, að því er virtist, á þessum uppsteyt viðskiptavinarins og sagðist þurfa að hringja í yfirmann sinn og bera málið undir hann og hvarf inn í kompu í búðinni. Kom til baka stuttu síðar og sagði þurrlega: „Hann gafst bara upp," og af tóninum í rödd hans mátti ráða að bæði hann sjálfur og yfirmaðurinn væru hneykslaðir en nenntu ekki að standa í þrasi við kjaftforan kúnna.

Fínt, sagði viðskiptavinurinn, alveg jafn fúll, keypti konfektkassann á 257 krónur, og fór í afmælið.

En hann var ekki í neinu hátíðarskapi. Hann sagði að sér hefði næstum liðið eins og hann hefði framið þjófnað. Samt hafði hann í rauninni ekki gert annað en að standa á rétti sínum sem neytandi, það er að segja að þegar misræmi er milli hilluverðs og kassaverðs skuli hilluverðið gilda.

Viðmót afgreiðslumannsins og yfirmanns hans hafði reyndar fyllt viðskiptavininn þvermóðsku og hann segir að þó að hann komi vissulega til með að versla í þessari búð framvegis líti hann alls ekki á sig sem viðskipta„vin" þessarar verslanakeðju. Þvert á móti sé honum orðið afskaplega í nöp við hana.

„En það sem er eiginlega verst af öllu," sagði hann síðar, „er að mér var alveg nákvæmlega sama þótt ég hefði á tilfinningunni að ég væri hálft í hvoru að stela þessari vöru. Ég fékk ekki vott af samviskubiti gagnvart versluninni. Ég skammaðist mín reyndar fyrir það að mér fannst ég koma ruddalega fram, því að það á maður ekki að gera. Sú hugsun sem var mér efst í huga var á þá leið að þessi verslun væri í eigu keðju sem hefði vísvitandi blekkt verðkönnunarfólk, og þar með viðskiptavini, haft verðsamráð við helsta „keppinaut" sinn og þar með brotið samkeppnislög - allt til þess eins að græða sem mest."

Viðskiptavinurinn ruddalegi sagði að það hefði líka rifjast upp fyrir sér hvernig í ljós kom fyrir ekki löngu að olíufélögin skirrtust ekki við að beita vafasömum meðulum til að græða.

„Ég hugsaði bara sem svo: Þeir hafa gengið eins langt og þeir hafa getað til að hafa af mér sem mest af peningum og ég ætla einfaldlega að gjalda líku líkt. Gullna reglan segir: Komdu fram við aðra eins og þú vilt að þeir komi fram við þig. Það þýðir að þeir sem koma illa fram við aðra eru í rauninni að veita öðrum leyfi til að koma illa fram við sig," sagði viðskiptavinurinn. „Og það er það sem íslensku olíufélögin gerðu og það er það sem íslensku risaverslanakeðjurnar hafa verið að gera."

Eftir þessa frásögn fór ég að velta því fyrir mér hvað viðhorf viðskiptavinarins til verslunarinnar, sem hann hefur skipt við í mörg ár, er dapurlegt. Hann lítur ekki á kaupmanninn sem vin sinn heldur beinlínis sem fjandmann og býst við slæmu af honum. Býst við að kaupmaðurinn reyni að hlunnfara viðskiptavinina og blekkja þá.

Og ekki aðeins þessi tiltekni kaupmaður - sem er reyndar ekki maður heldur stórfyrirtæki - heldur kaupmenn yfirleitt. Viðskiptavinurinn sem um ræðir er hefðbundinn Íslendingur í lægri millistétt sem þarf að fara sparlega með launin sín til að þau hrökkvi fyrir nauðsynjum, og ég er ekki frá því að viðhorf hans til kaupmanna sé harla dæmigert.

En hvað veldur þessu neikvæða og sannarlega dapurlega viðhorfi? Eru dæmigerðir millistéttar-Íslendingar sem þurfa að halda í við sig bara frekjur sem svífast einskis til að fá allt sem ódýrast?

Eða eru þeir orðnir svona ofurvarir um sig - allt að því vænisjúkir - í samskiptum við verslanir af því að hvert dæmið á fætur öðru hefur komið upp á yfirborðið að undanförnu, allt frá olíusamráðinu til verðkannanablekkinga Krónunnar og Bónuss nú fyrir skemmstu, sem benda til að eina siðalögmálið sem kaupsýslumenn fylgi sé að maður megi gera allt sem maður komist upp með.

Til er erlent máltæki sem segir að kúnninn hafi ætíð rétt fyrir sér. Það hefur aldrei náð fótfestu á Íslandi. Þvert á móti. Hér hefur alltaf þótt eðlilegt að kúnninn beygi sig fyrir kaupmanninum. Sennilega eru þetta leifar frá þeirri tíð er danskir kaupmenn voru helstu stórmenni Íslands.

Það væri strax til bóta ef íslenskir neytendur tileinkuðu sér það útlenda viðhorf að kúnninn hefði alltaf rétt fyrir sér. Seint munu verslanakeðjurnar verða fyrstar til þess.

(Viðhorf, Morgunblaðið 26. nóvember 2007)


Burt með „herrann“

Það er góð hugmynd hjá Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, að breyta þyrfti starfsheiti ráðherra þannig að konur geti borið titilinn án þess að vera „herraðar". Það gerir hugmyndina svo enn betri að Steinunn skuli stinga upp á því að það verði jafnvel verkefni þjóðarinnar allrar að finna ráðherrum nýtt starfsheiti. Því að hvað finnst Íslendingum skemmtilegra og meira um vert en rífast um hvað hlutirnir eigi að heita?

Það er alveg hárrétt hjá Steinunni að starfsheitið „ráðherra" er alveg ótækt eftir að konur fóru að gegna þessum embættum. Það er ennfremur hárrétt hjá Steinunni að ef starfsheitið hefði verið kvenkyns hefði því verið breytt um leið og fyrsti karlinn tók við embætti.

„Ef orðin ráðherra og sendiherra væru t.d. „ráðfrú" og „sendifrú" hefði eflaust einnig þótt sjálfsagt að breyta starfsheitinu um leið og fyrsti karlmaðurinn tók að sér slíkt embætti. Það er því í fyllsta samræmi við þessa þróun að breyta einnig starfsheitum í hefðbundnum karlastéttum, þannig að konur geti borið þau. Ráðherraembætti eiga ekki að vera eyrnamerkt körlum," sagði Steinunn í greinargerð sem hún lagði fram með þingsályktunartillögu sinni um þetta efni.

Varla hafði mbl.is sagt frá tillögu Steinunnar á miðvikudagskvöldið en fréttabloggin tóku að hlaðast á fréttina eins og grýlukerti í vetrartíð. Ég skal viðurkenna að ég er að mestu hættur að nenna að lesa fréttablogg, en af fyrirsögnum blogganna mátti ráða að flestum bloggskríbentum finnist þetta fáránleg hugmynd - megnið af þessum skríbentum var karlkyns, sem kann að útskýra eitthvað.

En að minnsta kosti varð alveg ljóst, strax og þessi frétt birtist, að þarna er á ferðinni mál sem getur orðið mikið hitamál og áhugamál þjóðarinnar, hvort heldur menn og konur eru á móti því að breyta starfsheitinu eða fylgjandi. Og þeir sem eru fylgjandi breyttu starfsheiti (ég er í þeim hópi) geta síðan farið að velta því fyrir sér hvað skuli koma í staðinn. Vísast geta orðið deildar meiningar um það.

Þetta þarf alls ekki að verða tímafrekt eða dýrt. Nýyrðið sjálft væri hægt að fá ókeypis með því einfaldlega að fjölmiðlar birti fréttatilkynningar þar sem almenningur er beðinn um að senda tillögur á eitthvert netfang alþingis. Síðan myndu þingmenn ræða þetta eins og hvert annað þingmál og samþykkja lög um breytinguna.

Ég er alveg handviss um að það yrðu ekki miklar deilur um þetta á þinginu. Það er í rauninni alveg sjálfsagt mál að breyta þessu, því að eins og Steinunn segir ennfremur:

„Það stríðir ekki einungis gegn málvitund okkar að kona sé herra, heldur er það merkingarlega útilokað að kona sé herra á sama hátt og karl getur ekki verið frú. Orðið herra merkir tvennt samkvæmt íslenskri orðabók, annars vegar titil karlmanns og hins vegar húsbónda eða yfirmann og ljóst er að síðarnefnda merkingin er frá þeim tíma þegar aðeins karlar gegndu slíkum stöðum. Það er því mikið réttlætismál að þessum starfsheitum verði breytt."

Þetta er eiginlega alveg skothelt. Og þegar einhverju er haldið fram með skotheldum rökum hlýtur maður að fallast á það.

Kannski mætti þó velta því fyrir sér hvort að merking orðsins „herra" sé að einhverju leyti orðin tvíræð, og það sé farið að merkja bæði „herramaður" (sem eingöngu getur átt við karlkyns manneskju) og einnig „yfirmaður" (sem getur átt við hvort heldur sem er karlkyns eða kvenkyns manneskju). Þannig að í samhenginu „ráðherra" hafi orðhlutinn „herra" í rauninni breytt um merkingu og eigi ekki lengur eingöngu við um karlkyns manneskju.

Ég skal játa að samkvæmt minni eigin máltilfinningu er orðið „ráðherra" af einhverjum ástæðum ekki sérlega karlkynjað. En það getur vel verið að þetta sé einfaldlega vegna þess að ég er karlkyns. Ég viðurkenni fúslega að mér finnst dálítið skrítið ef karlmaður er titlaður „hjúkrunarkona". Grun hef ég um að mörgum körlum þyki það skrítið. Þannig að ég trúi því vel að konum finnist skrítið að Þorgerður Katrín sé titluð herra, svo dæmi sé tekið.

En hvaða orð á þá að koma í staðinn? Ekki blasir það við. Mig langar þó að gera að tillögu minni að farin verði einfalda leiðin og orðhlutinn „herra" einfaldlega skorinn af orðinu „ráðherra," þannig að eftir verði einfaldlega „ráð". Fínt hvorugkynsorð, og breytingin verður ekki mikil. Úr „Geir Haarde forsætisráðherra" í „Geir Haarde forsætisráð."

Ef úr verður að þessi tillaga mín hlýtur náð fyrir augum þingheims og samþykkt verður stjórnarskrárbreyting þess efnis að starfsheitið „ráð" komi í stað „ráðherra" mun ég senda reikning upp á eina milljón til Árna Matthiesens fjármálaráðs. (Athugið að í nefnifalli er þetta alls ekki „ráður" heldur „ráð" - hvk).

En án gamans: Það væri alveg eitursnjallt af alþinginu að samþykkja þessa breytingu á starfsheiti ráðherra og ganga frá henni án þess að ráða í verkið einhverja meinta fagmenn sem rukka stórfé fyrir. Auðvitað blasir við að þarna er tækifæri fyrir þingmenn eða ráðherra til að gauka peningum skattborgaranna að vildarvinum sínum undir því yfirskini að um sé að ræða þóknun, en vonandi sleppur þetta mál við að atast af slíkum auri.

Hér er einnig tækifæri fyrir íslenska rithöfunda og aðra orðasmiði að komast á spjöld stjórnarskrárinnar með því að búa til gott orð í staðinn fyrir „ráðherra". En ég vona að þessir sömu rithöfundar og orðasmiðir séu tilbúnir til að rukka ekki krónu fyrir orðið. Er ekki nóg að fá heiðurinn og tilhugsunina um að eiga orð í stjórnarskránni - þó ekki sé nema eitt orð, það er meira en flestir eiga.

(Viðhorf, Morgunblaðið 23 nóvember 2007)


Miðlar í kreppu

Eru íslenskir fréttamiðlar í einhverri kreppu? Ef marka má formann Alþjóðasambands blaðamanna, Aidan White, eru íslenskir fréttamiðlar í kreppu, rétt eins og fréttamiðlar hvarvetna í heiminum. Þetta kom fram í afar athyglisverðu viðtali við White sem birtist hérna í Morgunblaðinu í tilefni af baráttudegi evrópskra blaðamanna á mánudaginn.

Ég held að ég sé alveg sammála White. Íslenskir fréttamiðlar eru í kreppu. En hvað veldur henni?

Eitt af þremur grunngildum fréttamennskunnar, sagði White, er virðing fyrir sannleikanum. Nú dettur mér ekki í hug að halda því fram, að nokkur íslenskur fjölmiðlamaður fari vísvitandi með lygar, en stundum held ég að áhersla á sannleikann fari halloka í íslenskum fjölmiðlum fyrir áherslu á og eftirsókn eftir flottheitum og kúli. Það er að segja, það skiptir í rauninni litlu máli hvað maður er að segja, en mikilvægt er að maður líti sjálfur út fyrir að vera gagnrýninn og með allt á hreinu.

Kannski er þetta ekki nema von. Íslenskir fjölmiðlar eru fyrir löngu búnir að ofmetta markaðinn, bæði hvað varðar lestur og áhorf og einnig hvað varðar umfjöllunarefni. Þessa vanda varð fyrst vart erlendis með fjölmiðlabyltingunni fyrir um tuttugu árum þegar CNN og Sky fóru að senda út fréttir - eða ætti maður að hafa það innan gæsalappa, "fréttir"? - allan sólarhringinn. Þá var orðið til form sem krafðist innihalds, og óhjákvæmilega varð þrettándinn þunnur.

Fréttamenn sem eru sæmilega gagnrýnir í hugsun finna oft á dag fyrir því að þeir séu að skrifa fréttir um eitthvað sem er ekki neitt, eða skiptir engan máli nema ef til vill þann sem fjallað er um, sem nýtur þess að fá athygli eða auglýsingu. Þetta er einfaldlega orðið eðlilegur þáttur í starfinu.

Fréttamenn verða líka fljótlega varir við að lesendur hafa í rauninni sáralítinn áhuga á svona innihaldsrýrum fréttum - nema þær séu skemmtilegar. Þar af leiðandi fer afþreyingargildi frétta (hljómar vissulega eins og mótsögn, en staðreynd engu að síður) að vega þyngra eftir því sem sífellt meira fjölmiðlaframboð krefst sífellt meira innihalds, og leiðir því til sífellt hærra hlutfalls af innihaldsrýrum fréttum.

Því að það er alveg ljóst hverju lesendur sækjast eftir. Þeir vilja fá að vita sannleikann um stóra atburði (og því fjær sem þeir eru því stærri þurfa þeir að vera til að lesendur taki eftir þeim - það gilda greinilega sömu lögmál um fréttir og fjöll), og svo leita þeir að einhverju sem þeim finnst forvitnilegt eða beinlínis skemmtilegt.

Hvort svona afþreyingarfréttir eru alveg "sannleikanum samkvæmt" held ég að lesendur láti sér oftast í léttu rúmi liggja, enda líta þeir fyrst og fremst (og réttilega) á þessar "fréttir" sem afþreyingu. En þegar kemur að fregnum af alvarlegum og stórum atburðum gera lesendur strangar kröfur um að allt sé sannleikanum samkvæmt - þeim fréttamönnum sem verður hált á því svelli er sendur tónninn svo um munar.

White nefndi einnig í viðtalinu að annað grunngildi fréttamennsku sé sjálfstæði. Þarna kreppir skórinn svo sannarlega að mörgum íslenskum fjölmiðlum. Það er líklega eitt þekktasta hlutverk fjölmiðla að veita valdhöfum aðhald, og þess vegna eru svokölluð "málgögn" ekki alvöru fréttamiðlar.

Vandinn hér á landi (og kannski víðar) er nú orðinn sá, að margir fréttamiðlar eru beinlínis í eigu hinna eiginlegu valdhafa - það er að segja moldríkra kaupsýslumanna. Svo er komið að við liggur að einungis ríkisfjölmiðlar séu eiginlega sjálfstæðir fjölmiðlar. Að minnsta kosti er æðsta vald ríkisfjölmiðlanna lýðræðislega kjörið og sækir þannig umboð til almennings og ber (strangt til tekið, að minnsta kosti) ábyrgð gagnvart þessum sama almenningi.

Æðsta vald fjölmiðla sem eru í eigu moldríkra kaupsýslumanna var ekki kosið af neinum og ber því ekki (jafnvel strangt til tekið) ábyrgð gagnvart neinum og getur því gert það sem því sýnist. Við slíkar aðstæður getur orðið erfitt um vik fyrir óbreytta blaðamenn að starfa sjálfstætt, þótt vissulega séu eigendur fjölmiðlanna alveg sjálfstæðir - í þeirri merkingu að þeir geta gert það sem þeim sýnist við fjölmiðlana sína.

En kreppan í íslenskri fjölmiðlun er ekki bara vondum og gráðugum eigendum að kenna. Sjálfsritskoðun fréttamanna er líklega verri en utanaðkomandi ritskoðun. Sjálfsritskoðun á íslenskum fjölmiðlum birtist með ýmsum hætti, en ekki síst þeim sem tilgreindur var hérna í byrjun: Það virðist skipta fréttamenn mestu máli að koma vel fyrir - líta út fyrir að vera kúl og krítískur - og vega þessir þættir í mörgum tilvikum þyngra en sjálft umfjöllunarefnið.

Sú sjálfsritskoðun sem er þó líklega sýnu verst er sú sem bannar allt neikvæði og krefst í staðinn yfirborðslegs og skefjalauss jákvæðis. Fréttamenn sem verða þessu jákvæðitrúboði að bráð verða fljótlega bitlausir fréttamenn vegna þess að góðir fréttamenn beita neikvæði eins og hverju öðru vinnutæki.

Vegna þess sem hér að framan var haft eftir White, um mikilvægi þess að fréttamenn geti starfað sjálfstætt, skiptir ekki síst máli að fréttamenn noti neikvæðið eins og brynju gagnvart þeim valdhöfum sem þeir eiga að veita aðhald - og þá á ég bæði við ráðherra og ríkisbubba.

Á íslenskum fjölmiðlum hefur aftur á móti lengi viðgengist einhver undarleg stimamýkt í samskiptum við þessa valdamenn (og þá á ég bæði við ráðherra og ríka menn). Og þetta heyrir ekki sögunni til. En slík stimamýkt getur þó í rauninni ekki verið samboðin neinum fréttamanni með snefil af sjálfsvirðingu.

(Viðhorf, Morgunblaðið 8. nóvember 2007)


Hugsað stutt

Ef að er gáð kemur í ljós að meginástæðan fyrir því að nokkrir ungir menn í Sjálfstæðisflokknum - nánar tiltekið á hægri væng þess flokks - vilja leyfa sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum er sú að það er prinsippmál að ríkið hafi ekki vit fyrir fólki. Þetta hefur ekkert með aukið aðgengi að gera. Eins og margoft hefur verið bent á er aðgengið og úrvalið nú þegar harla gott og fátt bendir til að þetta tvennt muni í rauninni aukast þótt frumvarpið nái að verða að lögum.

Setjum sem svo að frumvarpið hljóti samþykki. Næsta krafa ungu hægrimannanna verður þá auðvitað sú að ÁTVR hætti að selja bjór og léttvín því að ríkið eigi ekki að vera í samkeppni við einkaaðila. Þetta er það sama og ungu hægripostularnir hafa klifað á í sambandi við auglýsingar í Ríkisútvarpinu. Þar með yrðu Bónus og Hagkaup einu verslanirnar í landinu sem gætu selt bjór og léttvín. Er líklegt að í Bónusi fengist jafn gott úrval og í ÁTVR?

Svarið blasir við. Og þó, málið kannski ekki alveg svona einfalt. Vísast yrðu til sérverslanir sem selja myndu dýrari bjórtegundir og háklassaléttvín, en verðið í þessum verslunum yrði eflaust hærra en verðið á þessu áfengi er núna hjá ÁTVR, einfaldlega vegna þess að viðskiptavinir þessara verslana yrðu efnað fólk sem væri tilbúið að borga meira fyrir vöruna. Því myndu bjór- og léttvínskaupmenn einfaldlega hækka verðið.

Með öðrum orðum, aðgengið myndi kannski aukast í heildina en fyrir meðaljóninn myndi úrvalið snarminnka. Fyrir efnamenn myndi úrvalið kannski aukast og áreiðanlega telja ungu hægripostularnir víst að þeir muni sjálfir verða í hópi þeirra sem hafa munu efni á þessu aukna úrvali.

Þannig að það verður ekki nóg með að þeir geti valið úr meiru og keypt vínið sem þeim er sagt að sé gott, þeir fá þarna að auki enn eina leiðina til að skilja sig frá almúganum og stíga þrepi ofar í þeim eina þjóðfélagsvirðingarstiga sem þeir taka mark á; áberandi auðlegð.

Æi, þetta er nú kannski ekki sanngjarnt. Það getur varla verið að mennirnir séu svona ofboðslega grunnhyggnir, jafnvel þótt þeir séu hægripostular. Þá er nú skárra að ímynda sér að það sem búi að baki sé, eins og fullyrt var hér í byrjun, einhverskonar prinsipp, eins og til dæmis það að ríkið eigi ekki að hafa vit fyrir fólki. Maður á sjálfur að sjá fótum sínum forráð, og geti maður það ekki á maður ekki að geta við annan sakast en sjálfan sig. Kannski er ég að því leytinu hægrisinnaður sjálfur að ég er alveg til í að skrifa upp á þetta.

En þá vandast nú málið. Vegna þess að ef nánar er að gáð og hugsað lengra en nemur manns eigin nefi kemur í ljós að það er allt eins líklegt að sala bjórs og léttvíns í matvöruverslunum leiði til þess sem ég er alveg hjartanlega sammála ungu hægrimönnunum um að sé af hinu illa, það er að segja aukinnar skattheimtu. Ef ríkiseinkasala á áfengi kemur í veg fyrir að skattheimta aukist er ég henni enn meira hlynntur en ég hef hingað til verið, og var þó vart á bætandi fylgispekt mína við ríkiseinokun á áfengi.

Lógíkin í þessu er með sem einföldustum hætti einhvern veginn svona:

Fyrsta forsenda: Afnám ríkiseinokunar á áfengissölu eykur aðgengi að áfengi (ef ekki úrvalið).

Önnur forsenda: Aukið aðgengi að áfengi eykur almenna neyslu á því.

Þriðja forsenda: Aukin almenn áfengisneysla eykur lýðheilsutjón af völdum áfengis.

Fjórða forsenda: Aukið lýðheilsutjón krefst aukinnar heilbrigðisþjónustu.

Fimmta forsenda: Aukin heilbrigðisþjónusta kallar á aukin opinber útgjöld til heilbrigðisþjónustu:

Sjötta forsenda: Aukin opinber útgjöld (til heilbrigðisþjónustu) kalla á aukna skattheimtu.

Niðurstaða: Afnám ríkiseinokunar á áfengissölu kallar á aukna skattheimtu.

Hvað segja ungu hægripostularnir um þetta? Síðan hvenær hafa þeir verið fylgismenn aukinnar skattheimtu? Það skyldi þó ekki vera að þeim hefði yfirsést eitthvað? Kannski hafa þeir bara ekki hugsað málið nógu langt. Að minnsta kosti er mjög undarlegt að sjá unga menn í Sjálfstæðisflokknum mæla fyrir lagafrumvarpi sem við nánari athugun mun vísast kalla á aukin opinber útgjöld og þar með aukna skattheimtu.

(Ef bregðast á við þessari niðurstöðu með því að krefjast einfaldlega afnáms ríkiseinokunar á heilbrigðisþjónustu, og þar með afnáms skattheimtu, má benda á að heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum, sem er líklega það "frjálsasta" í heimi er einnig það langdýrasta í heimi og jafnframt eitt það óskilvirkasta og versta).

Til að forðast niðurstöðuna í röksemdafærslunni hérna að ofan þarf að sýna fram á að einhver forsendan sé röng. Fljótt á litið eru þrjár fyrstu forsendurnar einna grunsamlegastar en þó hafa að undanförnum bæði landlæknir og velferðarráð Reykjavíkur vísað til rannsókna er renna stoðum undir þær, þannig að líklega verður ekki hjá niðurstöðunni komist.

Þannig greindi mbl.is frá því fyrir tíu dögum eða svo, að velferðarráð hefði "vísað til þess að rannsóknir í Svíþjóð, Finnlandi, Bandaríkjunum og Kanada sýni fram á margföldun á neyslu þegar aðgengi sé aukið með afnámi einkasölu."

Það er líklega helst þarna sem má reyna að höggva gat í lógíkina. Það má rífast um túlkanir á þessum rannsóknum. En einfalda spurningin sem ekki hefur verið svarað er þessi: Hvers vegna er svona mikilvægt að afnema ríkiseinkasölu á áfengi og bjór þrátt fyrir að eindregnar vísbendingar séu um að það hafi slæmar afleiðingar?

(Viðhorf, Morgunblaðið 30. otkóber 2007)


Almannahagsmunir

Fyrir mann sem hefur alltaf átt í mestu erfiðleikum með að skilja út á hvað stjórnmál í raun og veru ganga, og með naumindum getað ákveðið sig á kjördag, var síðasta vika næstum því eins og skyndinámskeið.

Að vísu má ætla af umræðunni að margir botni betur í framvindu mála en ofangreint pólitískt viðrini, sem er þrátt fyrir allt ekki enn með það á hreinu hver er eiginlega júdasinn, hver gekk erinda hvaða auðmanna og hver hefur í raun og veru gætt almannahagsmuna.

Að eigin sögn hafa reyndar allir aðilar málsins gengið erinda almennings og fylgt ströngum meginreglum, eða prinsippum. En getur það verið að aðilar sem eru svo heiftarlega ósammála að þeir láta sig ekki muna um að brjóta blað í íslenskri stjórnmálasögu séu báðir - eða allir - að gæta almannahagsmuna? Hlýtur ekki einhver að vera að villa á sér heimildir?

Það er ekki til þess fallið að auka pólitísku viðrini skilning að svörin við ofangreindum spurningum eru eftirfarandi: Já, það getur vel verið að allir aðilar hafi litið svo á, af fullum heilindum, að þeir væru að gæta almannahagsmuna; nei, það er ekki einboðið að einhver hafi verið að villa á sér heimildir.

Engu að síður verður hinu pólitíska viðrini starsýnna á suma þætti málsins en aðra. Mestan áhuga hefur það á þessu með almannahagsmunina, sem það telur í fyrsta lagi að séu í raun og veru til og í öðru lagi að skipti í raun og veru máli - og séu jafnvel það sem allir stjórnmálamenn ættu að hafa í huga umfram annað. (Þó verður að viðurkennast að ofangreint viðrini hefur alltaf haft grun um að hugmyndir sínar um gildi almannahagsmuna sé til marks um pólitíska einfeldni).

Þegar hugsað er um þennan þátt málsins - almannahagsmuni - verður áleitin sú spurning hvort ekki hefði verið hægt að vísa málinu til þeirra sem eiga umræddra hagsmuna að gæta, það er að segja almennings. Með öðrum orðum, hefði ekki verið einfaldara að slíta meirihlutasamstarfinu í borgarstjórn og mynda ekki nýjan meirihluta heldur boða til kosninga?

Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki hvort einhverjir formlegir annmarkar eru á því að halda borgarstjórnarkosningar á miðju kjörtímabili. Kannski er það bannað með lögum, en það eru þá eitthvað undarleg lög. Kannski er einfaldlega ekkert fordæmi fyrir slíkum kosningum á miðju tímabili, en hefði ekki eins mátt brjóta þar blað eins og í því að slíta samstarfinu á miðju kjörtímabili, það er að segja ef lög banna ekki kosningar við slíkar kringumstæður?

Það eru ýmsar ástæður fyrir því að manni dettur í hug að best hefði verið að halda kosningar. Meginástæðan er sú, að í ljósi orða sem fallið hafa í aðdraganda stjórnarslitanna er vægast sagt furðulegt að þeir sem standa að nýja meirihlutanum skyldu vera tilbúnir til samstarfs.

En kannski skín þarna í eina helstu ástæðuna fyrir því að maður hefur aldrei náð að átta sig á því hvernig stjórnmál fara fram: Í stjórnmálum eru orð eins og föt; maður grípur til þess sem hentar hverju tækifæri og tilefni, og suma daga ræðst valið af því hvernig liggur á manni þegar maður vaknar; og reglulega verður að skipta um, yst sem innst, því að annars sjúskast og slitnar, og maður fer að líta út eins og fátæklingur eða sérvitringur.

Með þessa líkingu að vopni er hægt að skilja hvernig það má vera að fólk sem hljómaði eins og svarnir óvinir fyrir tæpri viku er nú sest hlið við hlið og ætlar að fara að dansa saman. Þetta verður kannski líkt og tangó: Hvert spor eins og hótun um banvæna hnífsstungu.

En án gamans og samlíkinga: Það sem áhugamenn um stjórnmál bíða nú spenntir eftir að fá að sjá er ekki hvernig nýi meirihlutinn fer að því að leysa vanda leikskólanna í borginni - þótt það sé raunar mikilvægasta verkefnið sem bíður nýju borgarstjórnarinnar - heldur hvernig borgarfulltrúar flokkanna fjögurra (kannski þá helst fulltrúi VG) fara að því að kjafta sig út úr horninu sem þeir töluðu sig svo rækilega inn í í aðdraganda stjórnarslitanna.

Kannski finnst einhverjum að þá muni virkilega koma í ljós eiginleg pólitísk hæfni þessara borgarfulltrúa, og að þá muni þeir virkilega sýna hvað í þeim býr og hvort þeir séu í raun og veru efni í nýja leiðtoga flokka sinna, eins og sumir fréttaskýrendur hafa talað um.

En pólitísku viðrini, sem er enn ekki búið að fatta almennilega út á hvað stjórnmál ganga, þrátt fyrir skyndinámskeiðið í síðustu viku, finnst eiginlega að málið sé búið. Héðan af verða þessir borgarfulltrúar varla trúverðugir.

Nema þá helst borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins. Svo furðulega sem það nú hljómar. Þeir sem voru "sviknir," eins og þeir sögðu sjálfir, og sviptir völdum, virðast þegar allt kemur til alls hafa sýnt mest heilindin. (Vilhjálmur Þ. er farinn að minna mest á tragíska hetju sem hvikar ekki frá sannfæringu sinni og fellur því fyrir hendi undirförulla keppinauta.)

En eins og ég segi, ef til vill byggist þessi niðurstaða mín fremur á pólitískum viðvaningshætti en pólitískri sannfæringu. Af sömu sökum kemst ég ekki undan þeirri hugsun, að leiðtogi VG í borginni, sem sýndi afburðaframmistöðu í aðdraganda stjórnarslitanna, hefði átt að neita þátttöku í nýjum meirihluta á þeirri forsendu að of mikið bæri í milli.

Í ljósi þess hve duglegir fulltrúar allra flokka hafa verið við að segjast vilja gæta almannahagsmuna hefðu þeir einfaldlega átt að vísa málinu til almennings, sem hefði verið meira en tilbúinn til að fella dóm í málinu.

(Viðhorf, Morgunblaðið 15. október 2007)


Gott mál

Viðhorf, Morgunblaðið 27. september, 2007

Ég held að Íslendingar séu almennt mun betri í ensku en þeir gera sér grein fyrir. Þess vegna væri alveg áreiðanlega grundvöllur fyrir því að íslensk fyrirtæki, sem hafa mikil samskipti við önnur lönd og eru með starfsstöðvar erlendis, færu að nota ensku sem vinnumál. Það myndi ennfremur gefa starfsfólkinu tækifæri til að læra enskuna enn betur.

Það er fastur liður í tvítyngisumræðunni sem reglulega skýtur upp kollinum að vitnað er í málsmetandi íslenskumenn sem hafa fullyrt að Íslendingar séu alls ekki eins góðir í ensku og þeir haldi. Þessar fullyrðingar hinna málsmetandi manna eru hafðar sem rök - jafnvel hin hinstu - fyrir því að allt tal um tvítyngi sé rugl og þvaður.

Ég man ekki eftir því að hafa heyrt meira en þessar fullyrðingar. Hinir málsmetandi hafa ekki það ég man fært rök fyrir staðhæfingum sínum. Samt eru þær teknar góðar og gildar, eins og um endanlegan sannleika sér að ræða. Líklega er það vegna þess ósiðar sem er útbreiddur í íslenskri umræðuhefð að skírskotun til yfirvalds sé fullgild sönnun. Talið er vega þyngra hver maðurinn er, eða hvaða stöðu hann gegnir, en hvaða rök hann hefur fyrir máli sínu. Þetta er eins og þegar trúardeila er afgreidd með tilvísun í heilagt rit, Biblíuna eða Kóraninn.

En hvað hef ég þá fyrir mér í þeirri fullyrðingu að Íslendingar séu almennt betri í ensku en þeir geri sér grein fyrir?

Ég verð víst að viðurkenna að ég hef ekki mörg rök fyrir þeirri fullyrðingu. En þar með er hún eiginlega jafngild og gagnstæð fullyrðing hinna málsmetandi, að minnsta kosti þar til þeir færa einhver rök fyrir sinni. Á meðan þeir gera það ekki standa orð þeirra gegn mínum, og segja má að báðar fullyrðingarnar séu jafn rakalausar. Með öðrum orðum, fullyrðing mín í upphafi þessa pistils er jafngild fullyrðingum hinna málsmetandi. Nema náttúrlega að bent sé á að þeir séu málsmetandi en ég ekki. En eins og ég sagði, það dugar ekki. "Skírskotun yfirvalds" er rökvilla.

En setjum nú sem svo, að hinir málsmetandi hafi rétt fyrir sér en ég rangt, og að Íslendingar séu í raun og sannleika ekki eins góðir í íslensku og þeir haldi sig vera. Hvaða ályktanir mætti draga af því? Þýðir það að enginn möguleiki sé á tvítyngi á Íslandi, og tómt mál að tala um það? Eða þýðir það að Íslendingar þurfi að læra ensku betur og æfa sig í henni ef þeir ætli sér tvítyngi?

Ég hallast frekar að síðari kostinum. Ef Íslendingar fara fyrr að læra ensku - jafnvel strax í fyrsta bekk - og þurfa að tala hana og skrifa í daglegri rútínu, til dæmis í vinnunni, eru allar líkur á að enskukunnátta þeirra verði almennt mun betri en hinir málsmetandi telja hana nú vera.

Þá vaknar auðvitað sú spurning hvort það sé æskilegt að Íslendingar verði tvítyngdir. Það virðist sem margir þátttakendur í hinni reglubundnu tvítyngisumræðu telji slíkt óæskilegt vegna þess að það muni draga úr íslenskukunnáttu Íslendinga.

En er það líklegt? Eru manninum ásköpuð einhver takmörk fyrir því hvað hann getur lært mikið mál, þannig að ef hann lærir svo og svo mikið af einu máli minnki "kvótinn" sem hann á eftir fyrir annað mál?

Nei, ég held að við höfum engan svona fyrirfram gefinn kvóta. Þess vegna er ekkert sem segir að aukin enskukunnátta þurfi endilega að draga úr íslenskukunnáttu. Enda er það líklega ekki þetta sem hinir málsmetandi óttast, heldur hitt, að því meira sem Íslendingar æfa sig í ensku því minna æfi þeir sig í íslensku, og það leiði til þess að þeir verði ekki eins góðir í íslensku og ella.

Setjum nú sem svo að þetta sé rétt. Ef maður notar jöfnum höndum íslensku og ensku verður maður í hvorugu málinu jafn góður og maður yrði í máli sem maður notaði eingöngu. Fyrir vikið myndi staða íslenskunnar veikjast eftir því sem staða enskunnar myndi styrkjast, líkt og tungurnar séu á vogarskálum og einungis úr takmörkuðu magni lóða að spila.

En þarna kemur aftur í ljós veikleiki í röksemdafærslunni. Það er alls ekki gefið að úr takmörkuðu magni lóða sé að spila. Eins og að framan sagði, það er enginn fyrirfram gefinn kvóti á tungumálum. Hvers vegna skyldi íslenskunni ekki geta vaxið enn ásmegin um leið og enskukunnátta Íslendinga eykst?

Ég held að það sé alveg óhætt að fullyrða að enskukunnátta okkar er almennt meiri núna en hún var fyrir til dæmis 25 árum. Eru einhver merki um að staða íslenskunnar sé að sama skapi veikari?

Enn eru skrifaðar og gefnar út bækur á góðri íslensku, ekki satt? Og jafnvel fleiri en voru gefnar út fyrir aldarfjórðungi. Enn eru til fjölmiðlar á íslensku, og jafnvel fleiri og fjölbreyttari en voru þá. Nú eru til íslenskar kvikmyndir, sem voru engar fyrir 25 árum (að minnsta kosti ekki með tali). Almennt eru íslenskir pennar síst latari nú en á árum áður.

Að þessu sögðu er freistandi að slá því fram, að staða íslenskunnar hafi beinlínis styrkst um leið og enskukunnátta hefur vaxið. En þess þarf ekki. Að segja margt benda til að íslenskan sé jafn sterk nú og áður dugar fyrir þeirri niðurstöðu að Íslendingar hafi ekki tapað neinu á því að læra meiri ensku. Þvert á móti hafa þeir grætt verulega (og þá á ég ekki við peningagróða) með því að bæta við þekkingu sína og hugsun.

Reynslan er áreiðanlegri vegvísir en staðhæfingar manna - jafnvel þótt þeir séu málsmetandi. Og reynslan virðist benda til að íslenskunni sé ekki hætta búin þótt Íslendingar læri og noti ensku.


Bölvað upphátt

Viðhorf, Morgunblaðið 17. september, 2007

Sú var tíðin að íslenska þjóðin kunni aðeins ein viðbrögð við ofríki ráðamanna, og það var að bölva í hljóði og halda síðan áfram að strita til að hafa í sig og á. Þegar kom að næstu kosningum voru þessir sömu ráðamenn kosnir næstum rússneskri kosningu og þeir héldu því áfram að beita sömu kjósendur sama ofríkinu.

Ýmislegt bendir nú til að tímarnir séu breyttir. Íslendingar eru margir hverjir hættir að bölva í hljóði og farnir að gera það upphátt. Og það sem meira er, þeir eru farnir að bregðast við ofríki ráðamanna með öðrum hætti en að láta það yfir sig ganga. Í stað þess að bölva bæjarstjórninni safna þeir undirskriftum.

Hverju eru Íslendingar aðallega farnir að mótmæla? Að undanförnu hefur mikið borið á mótmælum við byggingar- og skipulagshugmyndum sem virðast til þess gerðar að gæta fyrst og fremst hagsmuna byggingaverktaka fremur en íbúa á þeim svæðum sem skipulagið og byggingatillögurnar ná til.

Þeim sem mótmæla virðist vera mjög uppsigað við háhýsi. Íbúum í nágrenni byggingarreits vestur á Granda í Reykjavík fannst skipulagsyfirvöld borgarinnar ætla að ganga á bak orða sinna og setja á reitinn mun hærri hús en áður hafði verið gert ráð fyrir. Viðbrögð borgaryfirvalda voru vægast sagt furðuleg: Þegar væri búið að taka heilmikið tillit til íbúanna í grenndinni, hvort virkilega væri ekki komið nóg af slíkri tillitssemi? Með öðrum orðum, borgaryfirvöld virðast líta á þessa borgara sem andstæðinga sína, ekki sem fólkið sem borgaryfirvöld vinna hjá.

Íbúar í Þorpinu (eða Holtahverfi) á Akureyri eru margir ósáttir við hugmyndir um að reistar verði átta hæða blokkir á grænum reit upp af Sandgerðisbót og hafa afhent bæjaryfirvöldum mótmæli og hugmyndir um öðru vísi uppbyggingu og nýtingu á reitnum. Ekki hafa enn borist fregnir af viðbrögðum bæjaryfirvalda, en þau eiga væntanlega eftir að ræða mótmælin - og nýju tillögurnar - á fundi.

Kópavogsbúar eru þó líklega einna duglegastir við að mótmæla austur og vestur, og hafa andæft hugmyndum um skipulag bæði á Kársnesi og á Nónhæð. Bæjarstjórnin hefur að því er virðist tekið heldur dræmt í andmælin, og virðist helst vilja halda ótrauð sínu striki með að byggja á báðum stöðum.

Nú má velta því fyrir sér hvort öll þessi mótmæli eigi sér rætur í einhverri dulinni þörf fyrir að vera á móti öllum sköpuðum hlutum, svona eins og Vinstri græn hafa verið sökuð um að vera haldin, eða jafnvel andstöðu við allar breytingar. Hvort hér sé um að ræða afturhalds- og íhaldssemi sem er dragbítur á framfarir og því ekki ástæða til að taka tillit til.

En ef nánar er að gáð kemur í ljós að það er ekki ástæða til að ætla að svo sé. Í öllum tilvikum hafa íbúarnir fært fram rök fyrir því hvers vegna þeir eru mótfallnir fyrirhuguðum framkvæmdum, og það sem meira er, þeir hafa útlistað hvað þeir vilji fá í staðinn. Það er yfirleitt það sama: Þeir vilja að umrædd svæði verði nýtt til hagsbóta fyrir íbúa í grenndinni.

Þannig sögðu íbúar við Nónhæð í andmælum sínum til bæjarstjórans í Kópavogi, að þeir krefðust þess "að áfram verði gert ráð fyrir að svæðin þjóni fyrst og fremst íbúunum m.a. með görðum og grænum svæðum í anda þess sem heitið var þegar hverfið var skipulagt í upphafi."

Andmæli íbúanna vestur á Granda voru líka á þá lund að borgaryfirvöld stæðu við þær hugmyndir sem fyrst var lagt upp með, það er að segja að á reitnum umdeilda yrði einungis byggð sem væri svipuð að vöxtum og byggðin i næsta nágrenni.

Þeir íbúar í Þorpinu á Akureyri sem hafa andmælt hugmyndum um að reist verði háhýsi á reit sem nú er grænn hafa einnig lagt fram tillögur um hvernig megi verja reitnum á annan máta, það er að segja þannig að hann bæti nærumhverfi íbúanna sem þegar eiga heima í grennd við hann.

Þeir leggja sumsé til að þarna verði "útbúið útivistarsvæði fyrir fjölskyldur með malbikuðum göngustígum" og áfram verði "mikið af gróðri á svæðinu, runnar meðfram göngu/hjólastígum og mikið af trjám. Í miðju svæðisins yrði blómatorg með bekkjum." Byggð verði lágreist og einungis í jaðri svæðisins.

Þau íbúamótmæli sem hér hafa verið tíunduð eru því aðallega byggð á tvennum forsendum, að því er virðist: Í fyrsta lagi að borgar- eða bæjaryfirvöld standi við áætlanir sem þegar hafa legið fyrir, og í öðru lagi að í stað mannvirkja komi græn svæði til útivistar fyrir þá sem þegar eiga heima í grenndinni.

Það sem fólk hefur áhuga á er því þetta: Græn svæði og orðheldni yfirvalda.

Kannski er það nýtt að Íslendingar leggi áherslu á þessa hluti. Áhugi á umhverfinu, bæði nær og fjær, hefur líklega ekki verið fyrirferðarmikill meðal þjóðarinnar fyrr en nú á seinni árum, en hann fer svo sannarlega vaxandi.

Og líklega er það alveg splunkunýtt að kjósendur ætlist til þess að ráðamenn standi við það sem þeir hafa sagt. Hingað til hefur einfaldlega verið gengið að því sem gefnu að stjórnmálamenn séu jafn dyntóttir og óáreiðanlegir og veðrið, og aldrei á vísan að róa hvað setta stefnu varðar, frekar en veðurspána.

Eru þetta jákvæð nýmæli, eða til þess fallin að auka óstöðugleika og hefta framfarir? Verða fyrirtæki og framkvæmdamenn eftirleiðis að búa við það að dyntir misgáfaðs og verkfælins almúga setji þeim skorður? Eða er þetta einfaldlega lýðræði í sinni sönnustu mynd?


Hótel Akureyri

Viðhorf, Morgunblaðið 7. september, 2007

Fátt virðist nú geta komið í veg fyrir að húsið á Hafnarstræti 98 á Akureyri, Hótel Akureyri, verði rifið og í staðinn byggt Guð má vita hvað. Verður þetta niðurrif stórkostlegt menningarsöguslys eða bæjarhreinsun?

Húsið er svo sannarlega ekki fallegt í því ástandi sem það er núna. Það virðist helst sem ekkert hafi verið gert við húsið síðan það var byggt árið 1923, annað en að breyta því á stöku stað eftir því sem hentaði breyttu hlutverki hverju sinni. Afleiðingin er sú að húsið lítur út eins og margstöguð og úr sér gengin flík.

Ég veit ekki hvort til eru ljósmyndir af húsinu eins og það var nýbyggt, nema það má sjá grilla í það í gömlum götumyndum úr Hafnarstrætinu, og þá virðist það hafa sett sterkan svip á götuna.

Það er kannski tilgangslaust að velta því lengur fyrir sér hvort rík ástæða væri til að varðveita húsið og gera það upp. Bæjaryfirvöld vilja ekki koma nálægt málinu og segja núverandi eigendur hússins ráða örlögum þess. Og eigendurnir segjast bara bíða eftir því að bærinn láti rífa og það á jafnvel að gerast strax í þessum mánuði.

En þar sem fyrirhugað niðurrif hefur vakið deilur, og þar sem um er að ræða hús sem á sér sögu sem er hluti af sögu Akureyrar og hluti af hjarta bæjarins, gæti verið ómaksins vert að inna eigendur hússins eftir því hvort þeir hafi velt því eitthvað fyrir sér að þeir kunni að vera með í höndunum verðmæti sem ekki teljast einungis í peningum.

Einnig mætti spyrja bæjaryfirvöld að því hvort þau séu alveg handviss um að þeirra hlutverk í þessu deilumáli geti ekki verið í neinu öðru fólgið en að fela afdrif hússins alfarið í hendur eigenda þess. Ef um væri að ræða eitthvert hús niðri á Eyri eða úti í Þorpi, svo dæmi séu tekin, væri kannski fullkomlega eðlilegt að bæjaryfirvöld segðu málið sér óviðkomandi, en á Akureyri er Hótel Akureyri ekki bara eitthvert hús í einhverju hverfi.

Má ekki með nokkrum rétti ætlast til þess að bæjaryfirvöld leggi mat á hvað teljist menningarsöguleg verðmæti í bænum og hlutist til um að gæta þeirra? Það hefur verið dálítið undarlegt að fylgjast með framgöngu bæjaryfirvalda á Akureyri í skipulagsmálum undanfarin ár. Engu er líkara en bæjarstjórnin hafi verið staðráðin í því einu að ryðja burtu öllum helstu einkennum bæjarins, og það hefur meira að segja gengið svo langt að hugmyndir voru uppi um að grafa burt miðbæinn næstum í heilu lagi.

Stafar þetta af því að bæjaryfirvöld hafa nákvæmlega enga mótaða stefnu í skipulagsmálum og láta einfaldlega dynti manna sem eiga mikið af peningum og eru haldnir stjórnlausri framkvæmdagleði ráða ferðinni? Eða stafar þetta af því að þeim sem kosnir hafa verið til að stjórna málum bæjarins finnst bærinn svo skelfilega ljótur og mannvirkin í honum svo menningarsögusnauð að þeir sjá þann grænstan að strika út það gamla og byrja á nýrri sögu?

Setjum nú sem svo að ég ætti alveg ofboðslega mikið af peningum og byðist til að reisa nýtt, sérhannað leikhús og afhenda það Leikfélagi Akureyrar til afnota með því skilyrði að ég fengi Samkomuhúsið keypt til niðurrifs og heimild til að byggja mér einbýlishús í gotneskum stíl þar sem Samkomuhúsið stendur nú. Væru bæjaryfirvöld til viðtals um þetta?

Það myndu sannarlega allir hagnast, bæði bærinn og leikfélagið, og ég fengi að búa þar sem mig hefur alltaf langað til að eiga heima. Myndu bæjaryfirvöld ekki sjá neina meinbugi á því að Samkomuhúsið yrði rifið, svo fremi sem LA fengi annað heimili (og meira að segja mun leiklistarvænna) og enginn kostnaður félli á bæjarsjóð?

Ég er ekki að leggja menningarsögulegt verðmæti Hótels Akureyrar að jöfnu við Samkomuhúsið, heldur spyrja hvort bæjaryfirvöld myndu draga línu einhvers staðar og segja hingað og ekki lengra? Hvar væri þá sú lína? Eða er það afstaða yfirvalda í bænum að þar sem "menningarsögulegt gildi" er afstætt og óhjákvæmilega komið undir mannlegu mati sé þegar á hólminn kemur ekki hægt að draga neina línu?

Hver hefðu orðið örlög gamla barnaskólans, sem stendur við hliðina á Samkomuhúsinu ef eigendur fjárfestingabankans Saga Capital hefðu ekki ákveðið að endurbyggja hann með glæsibrag? Ég leyfi mér að fullyrða að menningarsögulegt gildi barnaskólans verður lagt að jöfnu við gildi Samkomuhússins.

Einhverntíma stóð til að rífa skólahúsið, og mikið vildi ég óska að það hafi verið að frumkvæði bæjaryfirvalda sem hætt var við að jafna það við jörðu. Ég veit ekki hver ákvað að endurbyggja húsið, en hafi yfirvöld ekki hvatt til þess væri gaman að vita hvort þeim hafi staðið nákvæmlega á sama. Finnst þeim kannski bara að tal um varðveislu gamalla húsa sé óraunsæ fúaspýtnakofarómantík?

Ég skal viðurkenna að ég veit lítið sem ekkert um sveitarstjórnalög, og það getur vel verið að í slíkum lögum séu beinlínis ákvæði um að bæjar- og sveitarstjórnir megi ekki kosta varðveislu gamalla húsa. En þetta er ekki einungis spurning um lagabókstafi. Núverandi bæjarstjórnarmeirihluti á Akureyri, sem og sá fyrrverandi, hefur ekki sýnt snefil af myndugleika í skipulagsmálum, heldur virðist eingöngu rekinn áfram af bláköldum peningasjónarmiðum.

Myndugleiki gæti til dæmis birst í því að bæjarstjórnarmeirihlutinn sýndi að hann beri skynbragð á sögu bæjarins eins og hún verður lesin úr húsunum sem risið hafa, eitt af öðru, hvert á sínum tíma og hvert eftir einkennum síns tíma, og þannig smám saman gert bæinn að þeim bæ sem hann er. Ef bæjaryfirvöld telja það algjörlega utan síns verkahrings að velta svona hlutum fyrir sér gætu þau sem best sparað peninga með því að leggja niður skipulagsnefnd bæjarins.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband